Skip to main content
Frétt

Endurskoðun bifreiðamála hreyfihamlaðra

By 23. desember 2014No Comments

Starfshópur hefur skilað skýrslu til velferðarráðuneytisins með tillögum um margvíslegar breytingar á fyrirkomulagi.

Öryrkjabandalagið hefur átt fulltrúa í starfshóp um endurskoðun bifreiðamála hreyfihamlaðra sem var skipaður í byrjun þessa árs. Í honum áttu einnig sæti fulltrúar frá velferðarráðuneytinu, Sjálfsbjörg, Sjúkratryggingum Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Tryggingastofnun ríkisins. Starfshópurinn hefur nú skilað skýrslu til velferðarráðuneytisins með tillögum um margvíslegar breytingar.

Tillögurnar byggjast á því að taka upp stuðningskerfi sem er á ýmsan hátt frábrugðið því bifreiðastyrkjakerfi sem nú er í gildi. Í skýrslu starfshópsins er lögð áhersla á að meginmarkmiðið sé að rjúfa og koma í veg fyrir félagslega einangrun hreyfihamlaðra og auka möguleika þeirra til virkrar þátttöku í þjóðfélaginu.

Hópurinn leggur meðal annars til að styrkir til mikið hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiðakaupa færist úr lögum um félagslega aðstoð í lög um sjúkratryggingar, ekki síst vegna þess að oft tengjast styrkirnir útvegum hjálpartækja í bifreiðar og eru veittir vegna bifreiða sem oft þarf að breyta eða setja í sérútbúnað. Sjúkratryggingar Íslands myndu samkvæmt þessu annast framkvæmdina.

Lagt er til að fjárhæðir uppbóta og styrkja vegna bifreiðakaupa hækki um 50%, til að mynda hækka þannig bifreiðakaupastyrkir til þeirra sem eru mikið hreyfihamlaðir úr 1,2 milljónum króna í 1,8 milljón króna og uppbætur sem nú nema 300.000 krónum hækka í 450.000 krónur.

Starfshópurinn bendir á að síðast voru fjárhæðir vegna bifreiðastyrkja hreyfihamlaðra hækkaðar árið 2009 en frá þeim tíma hefur verð á bifreiðum og rekstrarkostnaður þeirra hækkað mikið.

Á vorþingi er þess vænst að stjórnvöld taki þessi mál til endurskoðunar og úrbóta.

Frétt um starfið á heimasíðu Velferðarráðuneytisins