Skip to main content
Frétt

Engin hækkun til tekjulægstu öryrkjanna

By 28. júní 2013No Comments

Frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra mun ekki leiðrétta kjör þeirra öryrkja sem eru með tekjur undir 250.000 krónum.

Verði frumvarp ráðherra að lögum er ljóst að annar hluti þess sem snýr að kjörum lífeyrisþega, leiðrétting á frítekjumarki, mun eingöngu nýtast ellilífeyrisþegum þar sem öryrkjar hafa notið frítekjumarks sem samsvarar þeirri upphæð til þessa.

Einnig er ljóst að eingöngu þeir öryrkjar sem eru með lífeyrissjóðsgreiðslur yfir 214.602 kr. munu fá einhverja leiðréttingu á skerðingu grunnlífeyris.

Samkvæmt því sem reiknað hefur verið út hjá fjármálaráðuneytinu munu þeir öryrkjar sem hafa heildarmánaðargreiðslur undir 250.000 kr. fá nær enga leiðréttingu til hækkunar bóta. Þeir sem hafa á milli 300.000-400.000 krónur á mánuði í tekjur munu hinsvegar fá leiðréttingu á bilinu 2.000 til 4.000 krónur. Sjá frétt RÚV, á vefsafn.is 

Eftirlitsheimildir TR með bótum verða auknar

Í frumvarpinu kemur fram að eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar verða auknar. Jafnframt verður aðgangur stofnunarinnar að upplýsingum sem taldar eru nauðsynlegar við ákvörðun bóta rýmkaður. Á heimasíðu TR segir að „Með því móti er stuðlað að því að greiðslur til lífeyrisþega verði réttari og að draga megi úr bótasvikum.“