Skip to main content
Frétt

Er framhaldsskólinn fyrir alla?

By 17. mars 2015No Comments

Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp og Rannsóknasetur í fötlunarfræðum buðu til málþingsins „Er framhaldsskólinn fyrir alla: Menntun fatlaðs fólks: Aðgengi og úrræði“ fimmtudaginn 12. mars síðastliðinn. Um 140 manns mættu á Grand hótel þar sem málþingið var haldið og greinilegt að mikil þörf er á að fjalla betur um þessi mál í samfélaginu.

Gestir á ráðstefnunni Er menntaskólinn fyrir alla?Tækifæri til að nýta menntun sína og njóta hennar

Meðal þeirra sem tóku til máls voru Ólafur Páll Jónsson dósent við Menntasvið HÍ sem flutti erindið „Hvað er skóli og hverjir eru allir?“ Hann sagði m.a. :… Ég sagði áðan að ekki væri alltaf ljóst hvað sá sem ber þá verknaðarskyldu, að sjá til þess að menntun hafi tilhlýðilegt gildi fyrir alla, þurfi að gera til að uppfylla þess skyldu. Eitt mögulegt svar er að skyldunni sé fullnægt með því einfaldlega að veita aðgang að skólum, þ.e. að gera fólki kleift að sækja sér skilgreinda menntun. En það er bara ekki nóg. Í þessu sambandi skiptir tvennt máli. Annars vegar að sú menntun sem formlega er skilgreind sem viðfangsefni skóla er ekki nema hluti af þeirri menntun sem máli skiptir. Hins vegar skiptir líka máli að fólk hafi ekki bara tækifæri til að sækja sér menntun, heldur líka tækifæri til að nýta mentun sína og njóta hennar.

Páll Jónsson dósent við Menntasvið HÍ í pontuÞá vitnaðir Ólafur í Snædísi Rán Hjartardóttur sem er daufblind og hefur oft bent á að það að vera í skóla feli í sér þáttöku á samfélagi en ekki bara aðgang að kennurum og þekkingu. Að menntun sé í því fólgin að gerast virkur þátttakandi, hvort sem er í hinni eiginlegu menntun eða þeirri reynsluöflun sem félagsstarfið hefur upp á að bjóða.

Sömu tækifæri til fullrar þátttöku

Fleiri sem tóku til máls bentu á mikilvægi þess að allir nemendur fengju sömu tækifæri til þess að taka þátt í félagsstarfi skólanna en þær Sigrún María Óskarsdóttir sem útskrifaðist frá MA 2014 og notar hjólastól og Iva Marín Adrichem sem er blindur nemandi í MH fóru sérstaklega yfir mikilvægi þess að hafa sama aðgang og aðrir að öllum þáttum skólalífsins. 

Iva Marín í pontu

Þarf mun meiri umræðu

Eva Þórdís Ebenezardóttir sem dró umræðuna saman í lokin tók sérstaklega dæmi um hversu mikilvægt sé t.d. að allir fái að taka þátt í busavíxlum, fatlaðir sem ófatlaðir, og tók dæmi um fatlaða nemendur sem fengu aðeins að horfa á bekkjarfélaga sína vera vígða inn í skólann og voru þar með settir á jaðarinn, þeir voru ekki þátttakendur aðeins áhorfendur. En hún tók líka jákvætt dæmi um skóla þar sem busavíxla hafði verið aðlöguð þannig að fatlaðir nemendur gátu tekið þátt. Eva Þórdís sagði að lokum að á þessu málþingi væri búið að kíkja örstutt inn um skráargat þar sem risastórt málefni væri hinum megin við dyrnar sem mikilvægt væri að fjalla mun meira um í framtíðinni.

Sigrún María Óskarsdóttir

Ráðstefnugestir

Ellen Calmon formaður ÖBÍ, Björk Þórarinsdóttir og Hrefna K. Óskarsdóttir verkefnisstjóri hjá ÖBÍ

Ráðstefnugestir


Upptökur frá málþinginu munu fljótlega birtast að vef Öryrkjabandalagsins þar sem allir geta hlustað á fyrirlestra málþingsins.