Skip to main content
Frétt

Fjárlagnefnd leggur til að hætt verði við að hækka örorkulífeyri

By 3. desember 2014No Comments

Tillaga um hækkun prósentu almannatryggingagreiðslna breytt úr 3,5% í 3% við aðra umræðu á Alþingi.

Eftir aðra umræðu Alþingis á frumvarpi til fjárlaga 2015, hefur tillaga að hækkun prósentu almannatrygginga verið breytt úr 3,5% í 3%. Því til stuðnings er vitnað til nýrrar þjóðhagsspár í nóvember sem gerir ráð fyrir minni verðlagshækkunum.

Á góðærisárunum, dróg í sundur milli lífeyrisþega og almenns launþega. Lífeyrisþegar fengu skell þegar með nokkurra daga fyrirvara var gerð bráðabirgðagjörningur til að takmarka lögbundnar hækkanir. Þá þótti ráð að greiða lífeyrisþegum ekki samkvæmt neysluvísitölu, sú kjaragliðnun hefur aldrei verið leiðrétt. Nú skal hinsvegar fylgja þeirri neysluvísitölu svo tryggt verði að lífeyrisþegar njóti ekki ávinnings.

Í viðauka alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem Alþingi  hefur fullgilt segir meðal annars í 11. grein „Ríki þau sem aðild eiga að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til viðunandi lífsafkomu fyrir hann sjálfan og fjölskyldu hans, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis og sífellt batnandi  lífsskilyrða“.

Í neysluviðmiði velferðarráðuneytisins og í rannsóknum hefur verið sýnt fram á að enginn kemst af með um 187.000 krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði til langs tíma.

Frá byrjun árs 2008 til byrjun árs 2013 höfðu lágmarkslaun hækkað um 54,3 % en örorkulífeyrir einhleypings um 29%. Í ár hefur launavísitala hækkað um 6,6% en bætur örorkulífeyrisþega 3,6% .

Ljóst er að upplegg fjárlaganefndar er ekki ætlað til að lífeyrisþegar njóti efnahagsbata og mannsæmandi lífsskilyrða.

Frá 2009-2014 hefur hlutur lífeyrisþega í greiðslu heilbrigðisþjónustu hækkað um 75% til greiðslu fyrir rannsóknir og 50% fyrir komu á slysa-/bráðadeild.  Greiðsluþátttaka í lyfjakostnaði hefur verið aukinn og fleira mætti telja til.

Það er alvarlegt fyrir samfélagið að hér búi fólk sem ekki á húsaskjól, á ekki fyrir mat út mánuðinn og geti ekki leitað sér lækninga eða staðið undir lyfjakostnaði. Þessir þættir munu verða ríkissjóði mun kostnaðarsamari en hækkun lífeyris. Krónunum er kastað en eyrinn er geymdur. Hvernig samfélagi skilar það?

Það er kaldhæðnislegt að þriðja umræða um málið fari fram á morgun 3. desember á alþjóðadegi fatlaðs fólks. ÖBÍ vonar að Á Alþingi fari fram málefnalegar umræður á morgun og komist verð að þeirri niðurstöðu að betra sé að búa í samfélag fyrir alla.

Viðtal við Ellen á Stöð2

Viðtal við Ellen, formann ÖBÍ á visir.is

Frétt á mbl.is