Skip to main content
Frétt

Fleiri fá skertar bætur

By 31. maí 2013No Comments

Hópur þeirra sem fá skertan örorkulífeyrir vegna búsetu hefur stækkað jafnt og þétt síðastliðin ár.

Í frétt DV um þessi mál þar sem rætt er við Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur, fálgsráðgjafa ÖBÍ, kemur meðal annars fram að árið 2009 var um að ræða 402 einstaklinga en 2012 var þessi tala komin upp í 686. Alls fengu 15.347 manns greiddan örorkulífeyri innan almannatryggingakerfisins á síðasta ársfjórðungi 2012. Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar, lagði fram fyrirspurn á síðasta þingi um um þennan hóp og eru tölurnar fengnar úr svari velferðarráðherra við þeirri fyrirspurn.

Lágmarkskrafa um þriggja ára búsetu

Um er að ræða fólk sem hefur verið búsett erlendis og flutt til Íslands, en gerð er lágmarkskrafa um þriggja ára búsetu hér á landi áður en umsókn um örorkulífeyri er lögð fram. Við ákvörðun réttinda innan kerfisins er svo bæði litið til þess tíma sem viðkomandi hefur verið búsettur hér á landi frá 18 ára aldri og til framtíðarbúsetutíma fram til 67 ára aldurs.

Rúmlega 80 prósent þeirra sem fá skertan örorkulífeyri hér á landi fá ekki heldur greiddan örorkulífeyri frá því landi sem þeir bjuggu í áður þrátt fyrir að milliríkjasamningar séu í gildi. Munu vera ýmsar ástæður fyrir því en þær komu ekki fram í svari velferðarráðherra.

Engar tölur yfir þá verst settu

DV greindi á mánudaginn frá máli Jóhönnu Þorsteinsdóttur sem greindist með geðklofa persónuleikaröskun árið 2009, en fær hvorki örorku- né endurhæfingarlífeyri vegna þess að hún var búsett í Danmörku í fimm ár. Jóhanna fluttist heim til Íslands haustið 2010 en getur ekki sótt um lífeyri fyrr en í september, eftir þriggja ára búsetu hér á landi, líkt og kveðið er á um í lögum. Jóhanna og fólk í svipaðri stöðu eru ekki inni í tölunum sem koma fram í svari velferðarráðherra, enda þar aðeins fjallað um þá sem fá einhverjar bætur. Þessir einstaklingar þurfa alfarið að reiða sig á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sínu, en aðstoðin er mismikil eftir sveitarfélögum. Þeir sem fá skertar lífeyrisgreiðslur vegna búsetu fá í flestum tilfellum einnig fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. 

Tímabundið neyðarúrræði

Að sögn Sigríðar Hönnu Ingólfsdóttur, félagsráðgjafa hjá Öryrkjabandalaginu, er ákveðinn hópur með mjög takmarkaðar greiðslur vegna ákvæðis um að búseta erlendis skerði lífeyri almannatrygginga. Þessi hópur er því í enn erfiðari stöðu og með enn lægri greiðslur en aðrir lífeyrisþegar. Hún bendir jafnframt á að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sé ekki varanlegt úrræði.

„Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga á að vera tímabundið neyðarúrræði, en ekki úrræði til framfærslu til lengri tíma. Fólk með skerta starfsgetu vegna slysa eða veikinda á ekki að þurfa að leita til sveitarfélagsins eftir fjárhagsaðstoð á meðan það er á þriggja ára biðtíma eða vegna þess að örorkubætur er skertar vegna búsetu erlendis. Fólk getur verið í þessari stöðu árum og jafnvel áratugum saman.

Breytt til hins verra

Hvað þriggja ára regluna varðar segir Sigríður Hanna einstaklinga sem koma frá EES-löndum ekki eiga að þurfa að bíða í þrjú ár eftir að geta sótt um örorkulífeyri. „Í gildi er samlagningarregla, en samkvæmt henni á að fólk ekki að missa áunnin réttindi við að flytja á milli landa heldur á að taka tillit til búsetu- eða tryggingatímabils í öðru aðildarríki EES. Þau eiga að leggjast saman við tímabil hér á landi.“

Sigríður Hanna segir lagabreytingar, sem tóku gildi 1. janúar 2010, komi mjög illa við þá sem sækja um endurhæfingarlífeyri og hafa verið búsettir erlendis. Frá þeim tíma hafa verið í gildi sömu reglur um endurhæfingarlífeyri og örorkulífeyri hvað varðar skilyrði um búsetu og skerðingar vegna búsetu. Eftir breytinguna þurfa umsækjendur um endurhæfingarlífeyri að hafa verið búsettir á Íslandi í þrjú ár áður en umsókn er lögð fram ef starfsorkan er skert þegar þeir flytja til landsins.

Takmarkar möguleika á endurhæfingu

„Þetta gerir það að verkum að ákveðnum hópi er synjað um endurhæfingarlífeyri og þarf að bíða í þrjú ár og missir þar með mikilvægan tíma, sem fer í bið. Það er mjög mikilvægt er að fólk komist í endurhæfingu eins fljótt og auðið er í kjölfar slysa eða veikinda. Bið eftir endurhæfingu getur hins vegar takmarkað mjög möguleika einstaklinga á að fá endurhæfingu, ná aukinni færni og komast aftur á vinnumarkað.“

Samlagningarregla EES gildir ekki um endurhæfingarlífeyri en í frumvarpi til laga um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning er þó kveðið á um að þriggja ára reglan um endurhæfingarlífeyri verði felld niður. Breytingin tekur þó bara til þeirra sem flytjast frá aðildarlöndum EES-samningsins.

Fréttin birtist í DV 30. maí 2013 þar sem rætt var við Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur, félagsráðgjafa ÖBÍ