Skip to main content
Frétt

Fötlunarlist er pólitísk

By 25. mars 2014No Comments

Málþingið „Fötlun og menning“ fer fram í Norðurljósasal Hörpu föstudaginn 28. mars.
Dr. Rosemarie Garland-Thomson, prófessor við Emory-háskólann í Bandaríkjunum verður aðalfyrirlesarinn. Sjá viðtal við Hönnu Björg Sigurjónsdóttur í Fréttablaðinu sem einnig verður með fyrirlestur á málþinginu.

ÖBÍ, Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum og Félag um fötlunarrannsóknir halda málþingið sem er hið 4 af 4 sem haldina hafa verði á þeirra vegum á þessum vetri.

Aðalfyrirlesari málþingsins Fötlun og menning, er Dr. Rosemarie Garland-Thomson, prófessor við Emory-háskólann í Bandaríkjunum. Hún er heimsþekkt fyrir rannsóknir sínar á birtingarmyndum fötlunar í sjónrænni menningu. Auk þess verða fluttir fjölbreyttir og skemmtilegir fyrirlestrar sem bera heiti á borð við: Til sýnis. Fatlað fólk, furðuverur og fjölleikahús, Aðstæður geðveiks fólks í Reykjavík á 19. öld, Fötlun á Íslandi á miðöldum, Fötlun í barnabókum og Staða fatlaðs fólks í íslensku bændasamfélagi.

Stór hluti fyrirlestranna á uppruna sinn í bókinni „Fötlun og menning. Íslandssagan í öðru ljósi“, sem kom út síðasta haust. Einn af þremur ritstjórum bókarinnar er Hanna Björg Sigurjónsdóttir, dósent við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Hún mun halda einn af fyrirlestrunum á málþinginu, Hvað er fötlunarlist?

Endurskilgreining

„Margir halda að fötlunarlist sé listsköpun fatlaðs fólks en það er alls ekki nægjanleg skilgreining,“ segir Hanna Björg sem bendir á að fötlun hafi verið viðfangsefni í listum í gegnum aldirnar. Þá hafi alltaf verið til töluvert af fötluðum listamönnum en þeir séu þó ekki endilega að vinna að fötlunarlist. „Fötlunarlist er pólitísk og verður til sem andóf. Hún byggir á róttækri endurskilgreiningu á fötlun sem varð til á sjöunda og áttunda áratugnum,“ útskýrir Hanna Björg.

Í þessari endurskilgreiningu er hinum hefðbundna skilningi á fötlun sem galla andæft og áhersla lögð á að félagslegar og menningarlegar hindranir valdi fötluðu fólki oft miklu meiri erfiðleikum en skerðingin sjálf. Þessi nýja félagslega skilgreining á fötlun varð kjarni fötlunarlistar sem nýtir sér félagsleg og menningarleg sjónarhorn til að draga fram sameiginlega reynslu fólks með mismunandi skerðingar. Meðal þess sem fötlunarlistamenn hafa andæft eru algengar birtingarmyndir sem alls staðar eru dregnar upp í menningu okkar og móta skilning okkar á hvað fötlun er,“ segir Hanna Björg og tekur dæmi um góðgerðarauglýsingar. „Algengt er að þær dragi upp myndir af fötluðu fólki sem vanmáttugu og brjóstumkennanlegu en það er ekki þannig sem fatlað fólk vill láta líta á sig.“

Fjölmörg listform

„Fötlunarlistin er alltaf pólitísk og getur verið af hvaða listformi sem er, myndlist, gjörningur eða uppistand,“ segir Hanna Björg en það sem verkin eiga sameiginlegt er að þau afhjúpa staðalmyndir og leggja áherslu á að búa til nýjar og réttari myndir af fötlun. Þegar háð er notað í fötlunarlist er háðinu ekki beint að skerðingunni sjálfri heldur félagslegum eða menningarlegum hindrunum eða staðalmyndum.

Þó flestir fötlunarlistamenn séu fatlaðir er það ekki alltaf svo. „Stundum er um samvinnuverkefni fatlaðra og ófatlaðra listamanna að ræða,“ segir Hanna Björg og tekur dæmi um styttu af listakonunni bresku Alison Lapper, sem Marc Quinn vann með henni. „Í verkinu er máttur óvenjulega líkamans notaður til að hafna ósýnileikanum sem oft umlykur fatlað fólk um leið og verkið ögrar aldargömlum hugmyndum um fullkomleika og fegurð. Styttan varð mjög umtöluð enda er Lapper án handa og með afar stutta og óvenjulega lagaða fætur og komin átta mánuði á leið í verkinu,“ segir Hanna Björg.

Saga fötlunarlistar á Íslandi er stutt en erlendis spratt hún upp á níunda áratugnum. „Hér á landi eru fyrstu vísar að þessari listgrein. Sú sem hefur verið einna fremst í henni er Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir en hún hefur unnið ljósmyndagjörninga, leikrit og uppistand,“ segir Hanna Björg og býður alla velkomna í Hörpuna á föstudag.

Fréttin í Fréttablaðinu 25. mars 2014