Skip to main content
Frétt

Framhaldsfundur aðalstjórnar ÖBÍ 10. júní 2009

By 7. desember 2009No Comments

Framhaldsfundur aðalstjórnar ÖBÍ haldinn í Hátúni 10, 9. hæð, vesturturni
miðvikudaginn , kl. 16.30

Eftirtaldir aðalstjórnarfulltrúar sátu fundinn

Anna R. Bjarnadóttir, Parkinssonsamtökunum
Dagný E. Lárusdóttir, SÍBS
Friðjón Erlendsson, Daufblindrafélaginu
Garðar Sverrisson, MS-félaginu
Grétar P. Geirsson, Sjálfsbjörg
Guðmundur Magnússon, SEM-samtökunum
Halldór S. Guðbergsson, Blindrafélaginu
Hjördís A. Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra
Ingi H. Ágústsson, HIV-Íslandi
Ingibjörg Karlsdóttir, ADHD samtökunum
Jón Þorkelsson, Stómasamtökunum
Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra
Kristín Michelsen, Hugarfari
María Th. Jónsdóttir, FAAS
Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra
Sigrún Gunnarsdóttir, Tourette samtökunum
Sigurður Þ. Sigurðsson, Ás, styrktarfélagi
Sturla Þengisson, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Sveinn Magnússon, Geðhjálp

Starfsfólk ÖBÍ
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Þórný Björk Jakobsdóttir, aðstoðarmaður formanns

Formaður bauð fundarmenn velkomna á þennan framhalds aðalstjórnarfund og bað fundarmenn að kynna sig.

Sagði jafnframt að það væri í raun lán að boða hefði þurft til þessa auka aðalstjórnarfundar þar sem ræða þyrfti að auki tillögur ríkisins um niðurskurð í ríkisfjármálum. Mánudagskvöldið 8. júní sl. var fulltrúum ÖBÍ boðið á fund félagsmálaráðherra þar sem kynntar voru hugmyndir um niðurskurð innan þess ráðuneytis. Ráðherra leggur áherslu á að aðalstjórn ræði þessi mál og síðan verði umræða fundarins kynnt fyrir ráðherra á morgun, fimmtudaginn 11. júní.

5. Tillaga Geðhjálpar er varðar Brynju hússjóð ÖBÍ, dags. 1. apríl 2009, frh. (Fylgiskjal 3 og 4)

Fulltrúi Geðhjálpar í aðalstjórn mun fylgja tillögunni úr hlaði.

Formaður sagðist ætla að hafa örlitla framsögu um tillögu Geðhjálpar og síðan fengi hver ræðumaður 4 mínútur í fyrri umræðu en 2 mínútur í seinni umræðu.

Ástæða frestunar fundarins var til að koma í veg fyrir að fundarmenn skiptust í tvö lið eins og útlit var fyrir og reyna frekar að komast að góðri niðurstöðu sem flestir gætu orðið sammála um.

Þegar málefni fatlaðra eru rædd ætti að nálgast þau með einstaklinginn í huga. Margvísleg úrræði þurfa að vera til staðar sem eru einstaklingsmiðuð, hvort sem um er að ræða íþróttastarf eða búsetu. Mikilvægt er að skilja á milli þjónustu og leigu á íbúðum. Þau félög sem leigja út íbúðir bera ekki ábyrgð á þeirri þjónustu sem íbúarnir eiga rétt á heldur viðkomandi sveitarfélag, s.s. heimilishjálp. Ræddi við Aðalbjörgu Traustadóttur sem sér um félagsþjónustu Reykjavíkurborgar vegna þessara mála og mun það samstarf aukast á næstunni.

Varðandi tillögu Geðhjálpar þá lagði formaður fram tillögu í framkvæmdastjórn ÖBÍ sem samþykkt var að leggja fram á þessum aðalstjórnarfundi, sem gengur út á að horft sé frekar á búsetumál almennt og að starfshópur verði skipaður af framkvæmdastjórn sem hefja mun störf í ágúst. Meðal annarra sem boðaðir verða á fundi hópsins verða ábyrgðaraðilar um þjónustu við fatlaða. Framkvæmdastjóri ÖBÍ las upp tillögu framkvæmdastjórnar.

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands felur framkvæmdastjórn að skipa starfshóp er fjalli um búsetumál öryrkja, þ.á.m. hlutverk Brynju hússjóðs Öryrkjabandalagsins, sveitarfélaganna, ríkisins og annarra þeirra aðila er koma að uppbyggingu og rekstri búsetuúrræða.

Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum sínum til framkvæmdastjórnar sem kynni niðurstöður vinnunar fyrir aðalstjórn á aðalstjórnarfundi í desember 2009.

Formaður sagðist leggja ofuráherslu á að ef einhver fundarmanna væri ekki sáttur við aðbúnað fatlaðra í húsnæði Brynju hússjóðs vilji hann fá þau mál inn á skrifstofu ÖBÍ, þar sem engan veginn sé hægt að sætta sig við að brotið væri á rétti fatlaðra. Nálgast þurfi umræðuna innan frá, hún þurfi að vera yfirveguð og hafa þarf hugfast að „Ekkert um okkur án okkar“ á líka við um íbúa húseigna Brynju hússjóðs.

Formaður opnaði nú fyrir umræðu um tillögu Geðhjálpar og framkvæmdastjórnar.

Spurningamerki var sett við að framkvæmdastjórn velji hópinn.

Formanni fannst eðlilegast að framkvæmdastjórn skipi hópinn þar sem nú er að skella á sumarfrí og nauðsynlegt er að þessi hópur geti strax hafið störf.

Nefnt var að knýjandi væri að skoða stjórn Brynju hússjóðs og allt verklag þar. Tvö atriði eru til grundvallar þeirri skoðun, annað er eigin reynsla af samskiptum við stjórn hússjóðs, hitt er hvað menn eru stoltir af að hafa setið í þeirri stjórn, það eitt segði að skoða þyrfti vinnubrögðin.

Hvetja þarf stjórnvöld til að gera þær breytingar sem þarf til að hægt verði að innleiða sáttmála SÞ um réttindi fólks með fötlun því einstaklingar geta týnst í kerfinu og fá hvorki íbúð gegnum Brynju hússjóð eða hjá sveitarfélögunum.

Sveinn Magnússon Geðhjálp sagði um að misskilning væri að ræða að Geðhjálp væri að gera kröfur um að opinberir aðilar komi að skoðun á hússjóðnum. Sami vilji er hjá Geðhjálp og kemur fram í tillögu framkvæmdastjórnar að þessi mál verði skoðuð heildrænt. Fyrir nokkrum árum var lítill samstarfsvilji milli fulltrúa Brynju hússjóðs, svæðisskrifstofu, o.fl. Nauðsynlegt er að allir aðilar geti rætt opinskátt um alla hluti. Það sé ljóst að hússjóðurinn veiti ekki þjónustu við íbúa heldur sé það annarra aðila að gera það og telur að ÖBÍ eigi að krefjast þess að þjónustan verði veitt íbúum frá þar til bærum aðilum. Telur að ÖBÍ eigi samt sem áður ekki að standa í rekstri og að nauðsynlegt sé að ræða við alla opinbera aðila um búseturáð. Að lokum sagðist hann treysta framkvæmdastjórn til að skipa starfshópinn.

Formaður bar nú upp tillögu framkvæmdastjórnar. Samþykkt samhljóða með 19 atkvæðum.

6. Næsti  aðalstjórnarfundur

Formaður sagði að samkvæmt fundaplani væri gert ráð fyrir næsta fundi í september en telur mjög líklegt að boða þurfi til fundar fyrr.

7. Önnur mál

a) Stórfelldur niðurskurður í félags- og tryggingamálaráðuneytinu

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur lagt fram hugmyndir um stórfelldan niðurskurð í ráðuneytinu. Trúnaður verður að vera um þessar tillögur ráðuneytisins enn sem komið er. Skera þarf niður í ríkisútgjöldum um 170 milljarða á næstu þremur árum, þar af um 20 milljarða á þessu ári. Hafa verður í huga að almannatryggingakerfið er með 64 milljarða og heilbrigðisráðuneytið líka, samtals með helminginn af því sem þarf að spara, það skiptir miklu máli varðandi það hvernig farið verður í niðurskurð. Horft er á þrjár leiðir til niðurskurðar: tekjuaukning, skattahækkanir, niðurskurður og tilfærsla milli málaflokka eða innan ráðuneyta. Þær tillögur sem sýndar verða aðalstjórn nú eru í níu liðum. Skoða þarf þessar tillögur meðfram hagræðingartillögum annarra ráðuneyta. Skýrt kom fram hjá fulltrúum ÖBÍ, LÞ og Félagi eldri borgara á fundi ráðherra að ekki væri hægt að seilast í vasa öryrkja eða eldri borgara eða að skera niður í almannatryggingakerfinu. Mikilvægt er að vera í samráði við ráðuneytið því þá getur ÖBÍ komið á framfæri ábendingum og gagnrýni. Rætt hefur verið að stofna til þjóðarsáttar og mikilvægt er að öryrkjar og eldri borgarar séu þar með. Tekjutenging við maka hefur verið baráttumál til margra ára og það væri hneisa ef hún væri tekin út aftur, því aðrir landsmenn eru ekki tekjutengdir við maka. Fólk á nú þegar erfitt með að ná endum saman og því eru þessar tillögur mjög sorglegar.

Framkvæmdastjóri ÖBÍ las upp tillögur ráðuneytisins að niðurskurði. Bára Snæfeld upplýsingafulltrúi ÖBÍ dreifði töflum með útreikningi þar sem fram kemur hver skerðing einstaklinga verður miðað við hinar ýmsu niðurskurðarleiðir sem fram kemur í tillögum ráðuneytisins.

Umræða var um að tillögurnar væru ekki sparnaður í sjálfu sér því ef þær kæmu til framkvæmda yrðu þær þjóðfélaginu dýrari til lengri tíma litið. Ráðherra var bent á að hægt væri að vitna í lög um málefni fatlaðra til að sýna fram á að verið er að brjóta lög og mannréttindi. Ef hækkanir verða á almennum launamarkaði er út í hött að skerða almannatryggingabætur á sama tíma. Tillögurnar eru brot á kosningaloforðum stjórnarflokkanna, þurfum að mótmæla í takt við búsáhalda byltinguna.

Framkvæmdastjóri las upp ályktun framkvæmdastjórnar. Formaður sagði ályktunina vera almenna og að hún verði birt í fjölmiðlum föstudaginn 12. júní nk.

Tillögur komu um orðalagsbreytingar í ályktuninni og var orðið við þeim. Bent var á að fyrirsögn ályktunarinnar þyrfti að vera grípandi fyrir hinn almenna lesanda. Tillaga kom að fyrirsögninni: „Á að láta öryrkja og aldraða greiða óreiðuskuldir?“ eða „Mótmælum boðuðum lágtekjuskatti.“

Bent var á að lítilsvirðing væri við öryrkja að skerða bætur almannatrygginga þegar tilkynnt er um 1 til 1½ prósents niðurskurð hjá þeim sem eru með 700 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun. Hvatt var til þess að átakshópur öryrkja og eldri borgara yrði stofnaður þar sem þessum niðurskurði yrði harðlega mótmælt.

Ályktunin var borin upp til atkvæða og var samþykkt samhljóða.

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands lýsir þungum áhyggjum yfir bágri stöðu öryrkja og ellilífeyrisþega sem þurfa að treysta á hið opinbera til að geta framfleytt sér og sínum. Fatlað fólk og eldri borgarar nutu ekki hins svokallaða góðæris þar sem uppbygging velferðarkerfisins var ekki í samræmi við velmegun í samfélaginu. Staða fyrrgreindra hópa er mjög þung vegna aukins kostnaðar á nauðsynjum, eins og mat, lyfjum, lækniskostnaði og húsnæði. Mjög margir geta ekki látið enda ná saman.

Aðalstjórn ÖBÍ krefst þess að sá stöðugleikasáttmáli sem unnið er að á vettvangi ríkisstjórnar, samtaka atvinnulífs og verkalýðshreyfingar taki einnig til öryrkja og ellilífeyrisþega. Það gengur ekki að 44 þúsund einstaklingar verði hafðir fyrir utan það samkomulag.

Við Íslendingar verðum að hafa kjark til að fara í gegnum þessa erfiðleikatíma með því að verja velferðarkerfið með öllum tiltækum ráðum. Aðför að velferðarkerfinu myndi valda óafturkræfum skaða.

Að mati aðalstjórnar er nú rétti tíminn fyrir íslensk stjórnvöld að endurskoða gildi okkar og setja fólk í forgang.

Aðalstjórn ÖBÍ mótmælir því harðlega að sérstakir lágtekjuskattar verði lagðir á lífeyrisþega.

Ályktun aðalstjórnar ÖBÍ þann 10. júní 2009.

Formaður sagði að á fundi ráðherra á morgun yrði honum tilkynnt að boðaður niðurskurður yrði aldrei liðinn og að aðalstjórn ÖBÍ væri misboðið með framkomnum sparnaðartillögum. Sagðist vera ánægður með þá umræðu sem fram hefði farið á fundinum og sagði ekkert í vegi fyrir því að þeir sem vildu mæta á fund ráðherra gerðu það.

b) Sameining vinnustaða

Dagný Lárusdóttir, SÍBS spurði hver staðan væri í sameiningarmálum Vinnustaða ÖBÍ, Múlalundar og Blindravinnustofunnar?

Formaður svaraði því til að hagkvæmnisskýrsla væri komin út sem sýnir að rétt er að sameina fyrirtækin. Framkvæmdastjórn fól formanni að halda áfram með málið. Ákveðnar hindranir eru í veginum sem þarf að leysa eins og húsnæðismál sameinaðs fyrirtækis, lagermál fyrirtækjanna, o.fl. Vonast er til að hlutirnir skýrist á allra næstu vikum. Miðað við aðstæður í þjóðfélaginu er brýnt að af þessari sameiningu geti orðið.

Fleira var ekki rætt

Fundi slitið kl. 19.00
Fundarritarar: Anna G. Sigurðardóttir og Þórný B. Jakobsdóttir