Skip to main content
Frétt

Framkvæmdastjórn ÖBÍ lýsir yfir vonbrigðum með ákvörðun níu lífeyrissjóða

By 12. september 2007No Comments
Framkvæmdastjórn ÖBÍ lýsir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun níu lífeyrissjóða að skerða eða afnema að fullu örorkulífeyrir á annað þúsund örorkulífeyrisþega. Framkvæmdastjórn ÖBÍ hvetur þá sem hafa fengið tilkynningu þar um að senda afrit af henni til skrifstofu ÖBÍ, Hátúni 10, 105 Reykjavík. Sjá ályktun framkvæmdastjórnar í heild sinni hér fyrir neðan.

Ályktun framkvæmdastjórnar ÖBÍ

Framkvæmdastjórn ÖBÍ lýsir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun níu lífeyrissjóða að skerða eða afnema að fullu örorkulífeyrir á annað þúsund örorkulífeyrisþega. Gangi ákvörðun lífeyrissjóðanna eftir fer í gang spírall sem á stuttum tíma mun hreinsa viðkomandi sjóðsfélaga út úr lífeyrissjóðakerfinu og yfir á almannatryggingakerfið með tilheyrandi óþægindum og skerðingu fyrir öryrkja. Um slíka tilfærslu réttinda frá lífeyrissjóðum yfir á ríkið hefur engin samfélagsleg umræða átt sér stað.

Það vekur furðu að umræddir lífeyrissjóðir skuli fara fram með þessum hætti á sama tíma og verkefnahópur á vegum forsætisráðuneytisins, með fulltrúum stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, ÖBÍ og lífeyrissjóða, vinnur að tillögum sem m.a. lúta að stóraukinni endurhæfingu og atvinnuþátttöku öryrkja. Eru aðgerðir umræddra lífeyrissjóða ekki til þess fallnar að skapa traust milli aðila sem er forsenda þess að hægt sé að vinna að sameiginlegum tillögum með þátttöku öryrkja í samfélaginu og á vinnumarkaðnum að leiðarljósi. Þá verður ekki séð að staða viðkomandi lífeyrissjóða gefi tilefni til slíkra aðgerða sem einkum beinast að tekjulægsta fólkinu.

Framkvæmdastjórn ÖBÍ mun fela lögmanni að kanna réttarstöðu örorkulífeyrisþega sem hafa fengið tilkynningu um skerðingu eða afnám örorkulífeyris og hvetur þá sem hafa fengið tilkynningu þar um að senda afrit af henni til skrifstofu ÖBÍ, Hátúni 10, 105 Reykjavík.

Reykjavík, 12. september 2007

Framkvæmdastjórn ÖBÍ