Skip to main content
Frétt

Fréttaflutningur fréttastofu Stöðvar 2 um kjör öryrkja

By 10. febrúar 2011No Comments

Grein Sigríðar Hönnu Ingólfsdóttur, félagsráðgjafa ÖBÍ, í Morgunblaðinu 9. febrúar sl.

Að gefnu tilefni er brýnt að gera athugasemdir við mjög villandi og óvandaða fjölmiðlaumfjöllun um tekjur öryrkja og þá sérstaklega þeirra, sem eru einstæðir foreldrar. Í umfjölluninni hefur borið á því að ekki er greint á milli greiðslna sem öryrkjar geta fengið vegna örorku og annarra greiðslna til einstæðra foreldra með börn á framfæri. Greiðslur eins og meðlag, mæðra-/feðralaun, barnabætur og umönnunargreiðslur til foreldra fatlaðra og langveikra barna eru óháðar því hvort foreldri er með örorkumat eða ekki. Vert er að minna á að einstæðir foreldrar standa einir að tekjuöflun heimilisins þó kostnaður þeirra vegna framfærslu barna sé sambærilegur og hjá hjónum/sambýlisfólki.

Einstæðir foreldrar með örorkubætur

Einstætt foreldri sem á þrjú börn og er með örorkubætur, sbr. meðfylgjandi dæmi, getur fengið greitt samtals kr. 244.610  á mánuði fyrir skatt. Ef greiðslum vegna barna (meðlag og mæðra-/feðralaun), sem eru þær sömu og fyrir aðra einstæða foreldra, er bætt við fær einstæða foreldrið samtals kr. 325.881. 

Öryrki, einstætt foreldri, með engar aðrar tekjur en örorkubætur Tryggingastofnunar ríkisins (TR). Örorkumat við 16 ára aldur.                     

  1 barn
 
2 börn     3 börn 
Greiðslur vegna örorku, fyrir skatt
 
  205.797 222.953     
 
244.610 

Ekki eru teknar með í reikninginn barnabætur og umönnunargreiðslur til foreldra fatlaðra og langveikra barna. Umönnunargreiðslur er fjárhagsleg aðstoð sem veitt er þegar umönnun er krefjandi og kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar er orðinn umtalsverður. Umönnunargreiðslur eru misháar og fara eftir umönnunarmati. Greiðslurnar miðast við að foreldrið hafi fengið örorkumat við 16 ára aldur og fái fulla aldurstengda örorkuuppbót, en því yngri sem einstaklingur er við gerð fyrsta örorkumats því hærri verður upphæð aldurstengdrar örorkuuppbótar.

Í fréttaflutningi Stöðvar 2 um tekjur öryrkja, sem einnig eru einstæðir foreldrar, hafa verið gefnar upp mun hærri tölur en þær upphæðir sem einstæðir öryrkjar með börn fá. Ein skýringin er líklega sú að umönnunargreiðslur eru inni í upphæð heildartekna, en greiðslurnar eru til að mæta verulegum kostnaði vegna fötlunar eða veikinda barna. Á árinu 2009 voru 2.394 börn með umönnunarmat, sem gefur foreldrum barnanna rétt á umönnunargreiðslum vegna þeirra.

Lífskjör og hagir öryrkja

Samkvæmt skýrslu Guðrúnar Hannesdóttur Lífskjör og hagir öryrkja frá október 2010, sem byggir á könnun meðal örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, eru 17% öryrkja einstæðir foreldrar. Stærsti hluti öryrkja fær ekki greiðslur vegna barna en um 58% öryrkja er á aldrinum 50-66 ára, samkvæmt tölum úr áður nefndri könnun. Samkvæmt tölum frá TR, sem Stöð 2 byggir frétt dags. 21. desember 2010 á, eru 18,4% öryrkja með mánaðarlegar tekjur undir 150 þúsund á mánuði og 43% með tekjur á bilinu 150-200 þúsund á mánuði. Þar eru taldar með allar greiðslur og tekjur, sem öryrkjar hafa til að framfleyta sér, svo sem laun og lífeyrissjóðsgreiðslur auk meðlagsgreiðslna, sem allir einstæðir foreldrar geta fengið. Rúmlega 60% öryrkja er því með heildartekjur undir 200 þúsund kr. á mánuði.

Lágar bætur og skerðingar

Hámarksbætur sem TR greiðir vegna örorku fyrir einstakling sem býr einn, er frá 1. janúar 2011 kr. 184.170 á mánuði fyrir skatt og kr. 157.030 fyrir skatt fyrir einstakling sem býr með öðrum fullorðnum. Allar skattskyldar tekjur, svo sem uppbótargreiðslur TR og mæðra-/feðralaun, skerða örorkubætur til þeirra sem engar aðrar tekjur hafa en örorkubætur frá TR og skerðist einn bótaflokkur krónu á móti krónu. Þessi hópur hefur því litla sem enga möguleika á að bæta kjör sín. Að auki skerða allar skattskyldar greiðslur, hvort sem um er að ræða atvinnutekjur, lífeyrisgreiðslur eða fjármagnstekjur, aðra bótaflokka almannatrygginga eftir mismunandi reglum. Bætur falla enn fremur niður ef viðkomandi er með skattskyldar greiðslur yfir ákveðnum upphæðum.

Tengsl fátæktar og heilsuleysis

Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl á milli heilsufars og fátæktar. Fátækt getur leitt til varanlegs heilsuleysis. Að auki eiga fátækir frekar á hættu að einangrast félagslega. Aðstæður fjölmargra öryrkja einkennast mjög af takmörkuðum tækifærum til að auka tekjur sínar eða breyta stöðu sinni. Það vill gleymast í umræðunni um tekjur öryrkja að öryrkjum er oft ætlað að framfleyta sér árum og jafnvel áratugum saman á örorkubótum, í erfiðri fjárhagslegri og félagslegri stöðu. Fólk með örorkumat er með skerta starfsorku og með hærri útgjöld að jafnaði en meginþorri almennings í landinu vegna lyfja- og lækniskostnaðar, sjúkra- og iðjuþjálfunar, o.fl. Fjöldi öryrkja bjó við kröpp kjör fyrir efnahagshrun og eiga þeir því mjög erfitt með að takast á við kreppu og kjaraskerðingar.

Brýnt er að umfjöllun fjölmiðla um kjör öryrkja ýti ekki undir fordóma í garð þeirra. Því er mikilvægt að fjölmiðlafólk vandi ávallt upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu eins og hægt er og sýni fyllstu tillitssemi í vandasömum málum, samanber siðareglur blaðamanna.