Skip to main content
Frétt

Fundargerð 3. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 18. desember 2017

By 24. október 2018No Comments

Fundargerð 3. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 18. desember 2017

kl. 16:00 – 18:30 haldinn í Ólafsstofu, Sigtúni 42, Reykjavík.

 

1.    Setning fundar.

Formaður setti fund kl. 16:06.

 

2.    Viðbrögð bandalagsins við fjárlagafrumvarpi 2018.

Formaður fór yfir drög að umsögn ÖBÍ um fjárlagafrumvarp 2018, sem ber nafnið „Helstu áherslur úr fjárlagafrumvarpi 2018“. Mikil vonbrigði voru með frumvarpið.

 

Ákveðið var að skrifa stuttar og hnitmiðaðar ályktanir og minna stjórnmálamenn á eigin loforð. Fyrri ályktunin var samþykkt svohljóðandi:

 

Ályktun stjórnar Öryrkjabandalags Íslands vegna
fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2018

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands, á neyðarfundi sínum 18. desember 2017, lýsir gríðarlegum vonbrigðum með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Skorað er á þingheim að standa við gefin loforð með því að gera strax mannsæmandi breytingar á framlögðu fjárlagafrumvarpi og leiðrétta kjör örorkulífeyrisþega:

– Hækka þarf óskertan lífeyri almannatrygginga verulega.

– Afnema verður krónu-á-móti-krónu skerðingu sérstakrar framfærsluuppbótar.

 

Greinargerð mun fylgja, sem starfsfólk ÖBÍ lagfærir og samræmir með hliðsjón af ályktuninni. Síðan verður hún send stjórn.

 

Seinni ályktunin sem samþykkt var er svohljóðandi:

 

Ályktun Öryrkjabandalags Íslands um mannréttindavernd fatlaðs fólks

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), lýsir yfir áhyggjum sínum vegna þingsályktunar frá 20. september 2016 sem á að fullgilda fyrir árslok 2017 þar sem ekki lítur út fyrir að svo verði. Um er að ræða fullgildingu á valkvæða viðaukanum við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF). Stjórn ÖBÍ skorar á stjórnvöld að framfylgja samþykktri þingsályktun.

 

Viðaukinn kveður á um kæruleið fyrir þá sem telja á sér brotið og er þannig mikilvægur þáttur í því að gæta þeirra réttinda sem tryggja á með samningnum.

 

Þingsályktunin frá 20. september 2016 er hér:

http://www.althingi.is/altext/145/s/1693.html

 

3.    Önnur mál.

a)  Tilnefning í samráðshóp um nám fullorðinna.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskaði eftir tilnefningu fulltrúa ÖBÍ í samráðshóp um nám fullorðinna. Samþykkt var að tilnefna Halldór Sævar Guðbergsson og Guðrúnu Sæmundsdóttur í hópinn.

 

b) Tilnefning í Rådet for samarbete om funktionshinder.

Velferðarráðuneytið óskaði eftir tilnefningu af hálfu ÖBÍ í Ráð um norrænt samstarf í málefnum fatlaðs fólks. Samþykkt var að tilnefna Þuríði Hörpu Sigurðardóttur sem aðalmann og Halldór Sævar Guðbergsson sem varamann.

 

Formaður sleit fundi klukkan 18:25.

 

Fundarritari,

Þórný Björk Jakobsdóttir.