Skip to main content
Frétt

Fundargerð 5. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 24. janúar 2019

By 2. apríl 2019No Comments

Fundargerð 5. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 24. janúar 2019, kl. 16:00 – 18:30 haldinn í Ólafsstofu, Sigtúni 42, Reykjavík.

1.   Setning fundar.

Formaður setti fund kl. 16:05.

2.   Fundargerð frá 13. desember 2018.

Fundargerðin var send út til stjórnarinnar. Ákveðið var að samþykkt hennar muni fara fram í gegnum tölvupóst.

3.   Starfsáætlun ÖBÍ 2019. Til afgreiðslu.

Texta um aðgengisátak ÖBÍ var bætt við starfsáætlunina. Auglýst hefur verið eftir tveimur starfsmönnum og er fatlað fólk sérstaklega hvatt til að sækja um. Starfsáætlunin var samþykkt með áorðnum breytingum.

4.   Fjármál ÖBÍ. Tillaga framkvæmdaráðs til afgreiðslu.

a) Fjárhagsáætlun 2019.

Aðgengisátakið er nú komið inn sem sérliður í fjárhagsáætlun og heitir Aðgengisátak 2019.

b) Úthlutun aukagreiðslu frá Íslenskri getspá.

Lagt var til að aukagreiðsla upp á 48 milljónir kr. frá Íslenskri getspá fari óskipt til Brynju hússjóðs.

c) Ráðstöfun rekstrarafgangs 2018.

Lagt var til að rekstrarafgangi 2018, 60,5 milljónir kr. fari til aðildarfélaga og fyrirtækja ÖBÍ.

Ákveðið var að endurskoða upphæðir styrkja til aðildarfélaga haustið 2019 því að mörg félög berjast í bökkum og hafa upphæðir styrkja til aðildarfélaga bandalagsins haldist nánast óbreytt í nokkurn tíma.

Allir liðir a, fjárhagsáætlun ÖBÍ, b, úthlutun aukagreiðslu frá Íslenskri getspá og c, ráðstöfun rekstrarafgangs 2018 voru samþykktir.

5.   Fundaráætlun 2019.

Í fundaráætlun ÖBÍ 2019 koma m.a. fram fundir stjórnar og framkvæmdaráðs. Ef kalla þarf til aukafundi verður það gert og eins gæti þurft að hliðra einhverjum fundum til. Starfsáætlunin verður lagfærð með tilliti til athugasemda og send í endanlegu formi til stjórnar.

6.   Skýrsla formanns.

Skýrslan var send til stjórnar fyrir fundinn. Sagt var frá því að málefnahópur ÖBÍ um kjaramál hefur farið yfir frekari drög að skýrslu frá samráðshóp um breytt framfærslukerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu. Lítilsháttar breytingar, sem ekki voru til batnaðar, voru í þeim drögum. Tillaga skýrslunnar er um þriggja þátta kerfis í stað fimm þátta eins og rætt hafði verið um. Eins hafði það dottið út að fólk gæti verið í námi á greiðslum, auk þess sem aldurstengdu uppbótina og heimilisuppbót vantaði inn í öll kerfin. Haldinn var fundur með formanni hópsins og stjórnarliðum og þeim gerð grein fyrir því að vont væri að leggja fram skýrslur eða tillögur að nýju kerfi sem hagsmunasamtökin gætu ekki skrifað undir og voru þau sammála því. Næstu skýrsludrög verða send til stjórnar þegar þau berast.

Fram kom að Umboðsmaður Alþingis hafi tekið undir athugasemdir ÖBÍ hvað varðar útreikning í tengslum við 69. greinina. Hann skrifaði fjármálaráðuneytinu og bað um útskýringar á því á hverju reikniregla þeirra byggist.

7.   Verklagsreglur málefnahópa ÖBÍ. Framhald.

Verklagsreglur málefnahópa ÖBÍ voru kynntar á stjórnarfundi 22. nóvember 2018. Málefnahóparnir fengu drög að reglunum og tækifæri til að gera athugasemdir. Engar athugasemdir bárust hvorki frá stjórn né málefnahópunum.

Samþykkt var að breyta heitinu úr verklagsreglur í: Reglur fastra málefnahópa Öryrkjabandalags Íslands. Einnig var samþykkt að taka út 7. gr. um þóknanir og hafa þá grein á sér blaði.

8.   Önnur mál.

a) Vinnustofur málefnahóps ÖBÍ um málefni barna.

Formaður málefnahóps um málefni barna sagði frá því að hópurinn muni standa fyrir vinnustofu 9. mars fyrir börn á aldrinum 12-18 ára, sem eru fötluð, langveik, með raskanir og börn langveikra eða fatlaðra foreldra. Hún hvatti stjórn til að finna fulltrúa úr sínu aðildarfélagi til að koma og taka þátt.

b) Aukagreiðslur til aðildarfélaga.

Snævar bað um að bókað yrði að sér fyndist að þau aðildarfélög sem væru með opnunartíma, húsnæði og starfsmann ættu að fá hærri aukagreiðslur, þar sem dýrara er fyrir þau félög að halda starfseminni gangandi.

Nefnt var að það hvernig félög hagi sínum rekstri eigi ekki að stjórna því hvaða framlag þau fái. Í reglum um styrki til aðildarfélaga er tekið tillit til þeirra þátta sem Snævar nefnir en aðrar reglur gilda um aukastyrki.

Samþykkt var að Snævar taki 1 eða 2 ljósmyndir á fundum, til birtingar á stjórnarfundum Félags lesblindra.

c) Siðareglur fyrir ÖBÍ.

Framkvæmdaráð tók að sér að skrá siðareglur fyrir ÖBÍ og ákvað að fela formanni, varaformanni og gjaldkera verkefnið. Afurð kemur innan tíðar.

d) Uppistand.

Ókeypis uppistandssýning á ensku er haldin á fimmtudögum klukkan 21 á Secret Cellar í Lækjargötunni. Þeir sem sjá um uppistandið eru 2 með tourette, svo eru aðrir með ADHD, geðklofa, áráttu- og þráhyggjuröskun, kvíðaröskun, ofsakvíða og á einhverfurófi. Farið verður með sýninguna til Bandaríkjanna í sumar.

Hugmynd var um að taka upp smá bút af sýningunni og setja inn á vef ÖBÍ eða deila á Facebok. Formaður ætlar að skoða málið með samskiptastjóra ÖBÍ.

Fundi var slitið kl. 17:53.

Fundarritari,

Þórný Björk Jakobsdóttir.