Skip to main content
Frétt

Fundargerð 6. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 15. mars 2018

By 10. janúar 2019No Comments

Fundargerð 6. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 15. mars 2018

kl. 16:00 – 18:30 haldinn í Ólafsstofu, Sigtúni 42, Reykjavík.

1.   Setning fundar.

Formaður setti fund kl. 16:08.

 

2.   Fundargerð frá 15. febrúar 2018.

Fundargerðin var samþykkt.

 

3.   Skýrsla formanns.

Skýrslan var send til fulltrúa fyrir fundinn. Einnig var sagt frá því að mál íslensku konunnar á Spáni leystist fljótlega eftir fund með aðstoðarmanni utanríkisráðherra og því var ekkert frekar gert í málinu.

 

4.   Tillaga framkvæmdaráðs varðandi skipun í stjórn Íslenskrar getspár um tvo aðalmenn og tvo varamenn til eins árs.

Framkvæmdaráð ræddi skipun í stjórn Íslenskrar getspár. Þrír gáfu kost á sér sem aðalmenn og þrír sem varamenn. Atkvæði fóru þannig að Þóra Margrét Þórarinsdóttir, Ás styrktarfélagi verður áfram aðalmaður og Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörg og gjaldkeri ÖBÍ kemur nýr inn. Lilja Þorgeirsdóttir verður áfram varamaður og Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, kemur ný inn.

 

5.   Kynning á stefnuþingi 20. og 21. apríl.

Stefnuþing verður haldið í þriðja skipti árið 2018. Móta á stefnu til næstu tveggja ára og gera upp síðustu tvö ár. Dagskrá föstudagsins verður frá kl. 15-18 og laugardagsins frá 10-16. Aðildarfélög bandalagsins þurfa að skila inn upplýsingum um fulltrúa sína fyrir 23. mars.

 

Umræða var um hvort að stjórnarmenn væru sjálfkjörnir á stefnuþing þó svo að viðkomandi væru ekki fulltrúar sinna aðildarfélaga. Venja er að formenn málefnahópa sitji þingið ásamt fulltrúum aðildarfélaganna, en ekki aðrir. Tillaga um að þeir fulltrúar í stjórn sem ekki eru tilnefndir af sínum aðildarfélögum geti setið stefnuþingið með málfrelsi og tillögurétt var samþykkt.

 

6.   Undirskriftarsöfnun á netinu vegna afnáms krónu á móti krónu skerðingar.

Unnið hefur verið af krafti við að berjast fyrir afnámi „krónu á móti krónu“ skerðinganna. Ellilífeyrisþegar fengu afnám slíkra skerðinga og er ólíðandi að öryrkjar sitji eftir. Beðið hefur verið um fundi með Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og fleiri ráðherrum í tengslum við skerðingarnar. Samþykkt var að hefja undirskriftarsöfnun á netinu til að koma kröfunum í gegn.

 

7.   1. maí.

ÖBÍ vann Lúðurinn í flokknum bein markaðssetning fyrir borðspilið Skerðing. Facebook herferð í tengslum við skerðingarspilið er í undirbúningi og verður netborði settur inn á fjölmiðlasíður þar sem fólk getur dregið spil. Spilið verður stækkað og prentað á segl og lifandi fólk notað sem spilakarlar 1. maí.

 

8.   Önnur mál.

a) Galway.

Umsóknareyðublað um styrki vegna sumarnámskeiðs um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í Galway, sem að þessu sinni verður tileinkað konum og börnum, var sent til aðildarfélaganna. Umsóknarfrestur rennur út mánudaginn 19. mars. Samþykkt var að framkvæmdaráð fari yfir umsóknirnar og tilkynni stjórn niðurstöðu sína.

 

b) Viðgerðarþjónusta rafmagnshjólastóla.

Tryggja þarf að fólk fái strax þjónustu fyrir rafmagnshjólastóla og annan slíkan búnað. Einn stjórnarmaður komst ekki á stjórnarfundinn því að stóllinn hans var bilaður. Málinu var vísað til málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál.

 

c) Siðareglur ÖBÍ.

Svavar Kjarrval hyggst leggja fram drög að siðareglum ÖBÍ. Verið er að lesa yfir drögin og er vonast til að þau verði tilbúin fljótlega. Beðið var um að málið yrði tekið fyrir á stjórnarfundi þegar drögin liggja fyrir.

 

Formaður sleit fundi klukkan 18:14.

 

Fundarritari,

Þórný Björk Jakobsdóttir.