Fundargerð 9. fundar stjórnar ÖBÍ fimmtudaginn 23. maí 2019, kl. 16:00 – 18:30 haldinn í Ólafsstofu, Sigtúni 42, Reykjavík.
1. Setning fundar.
Formaður setti fund kl. 16:05 og bar það undir fundinn hvort að Bergþór Heimir Þórðarson, varaformaður málefnahóps ÖBÍ um kjaramál, fái að sitja fundinn sem áheyrnarfulltrúi. Hann mun sinna formennsku í hópnum á meðan Rósa María Hjörvar er í leyfi. Samþykkt.
Beðið var um að stjórn fái fundargerðir framkvæmdaráðs sendar svo að hægt sé að glöggva sig á starfinu sem þar fer fram. Einnig var beðið um að fundargerðir stjórnar frá 2016 og 2017 verði settar inn á heimasíðu ÖBÍ.
Þegar stjórnskipulag bandalagsins breyttist, aðalstjórn varð stjórn þá var ákveðið að fundargerðir stjórnar ættu ekki heima á heimasíðu, þar sem stjórn fjallar um mörg viðkvæm málefni sem framkvæmdastjórn sá um áður. Þegar Þuríður byrjaði sem formaður var ákveðið að setja fundargerðir stjórnar inn á heimasíðu ÖBÍ í styttri útgáfu frá þeim tíma.
Beðið var um að fá þá fundargerð þar sem ákveðið var að fundargerðir ættu ekki að fara inn á heimasíðu ÖBÍ.
2. Fundargerð frá 11. apríl 2019.
Fundargerðin var samþykkt.
3. Ársreikningur ÖBÍ 2018 kynntur. Guðmundur Snorrason endurskoðandi hjá PwC kemur á fundinn.
Guðmundur Snorrason kom á fundinn og fór yfir ársreikning ÖBÍ 2018. Niðurstaða ársins var jákvæð og hærri en árið áður.
Framsetning reikninganna er eins og verið hefur undanfarin ár. Guðmundur lagði til breytingu á framsetningunni, þannig að að framlög frá Íslenskri getspá og styrkir til aðildarfélaga bandalagsins verða neðst í rekstrarreikningnum. Reikningurinn sem slíkur breytist ekki, eingöngu framsetning hans.
Umræður voru um málið. Sagt var frá því að varlega væri farið í fjárhagsáætlanir. Spurt var hvað breyting á uppsetningu reikninganna fæli í sér. Guðmundur svaraði því til að þá sést augljósar en nú er hvað reksturinn tekur til sín á hverju ári.
Samþykkt að breyta uppsetningu ársreikningsins eins og Guðmundur lagði til. Stefnt er að því að undirrita reikningana á stjórnarfundi fimmtudaginn 6. júní.
4. Skýrsla formanns.
Skýrslan var send til fulltrúa fyrir fundinn.
Emil vakti athygli á samráðsfundi málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál með fulltrúum aðildarfélaganna um hjálpartæki 29. apríl 2019. Tilefnið var að komin eru út drög að skýrslu starfshóps sem skoðaði fyrirkomulag hjálpartækjamála. Niðurstaða hennar er að fyrirkomulag hjálpartækja er í molum og unnið er út frá gamalli hugmyndafræði. Fimm tillögur til breytinga verða sendar heilbrigðisráðherra, 2 snúa að aðgengi og upplýsingum um hjálpartæki, 2 snúa að endurskoðun á lagaumhverfi, aðallega reglugerðum og 1 snýr að því að taka þarf ákveðna stefnu varðandi verkskiptingu sveitarfélaga og ríkis. Taka þarf á stefnumálum, skiptingu milli sveitarfélaga og ríkis og ákveða þarf hvernig og hvar á að halda utan um upplýsingar.
5. Kærumál. Aðkoma ÖBÍ.
a) Kæra um aðgengismál til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður telur málið fordæmisgefandi og því var leitað til ÖBÍ um að styðja það. Óvíst er hvort dómstóllinn taki málið fyrir.
Tillaga framkvæmdaráðs er að ÖBÍ muni greiða málskostnað. Ef málið vinnst er mjöguleiki á endurgreiðslu að hluta. Samþykkt samhljóða.
b) Kæra vegna fjármagnstekna maka til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður leggur til að látið verði reyna á málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Hugmyndin er að kanna hvort Hæstarétti Íslands sé heimilt að byggja niðurstöðu um mikilvæg mannréttindi á atvikum sem gerðust ekki í raun. Hvort að dómsniðurstaða geti byggst á ímynduðum tekjum og hvað hefði getað gerst.
Tillaga framkvæmdaráðs er að styðja við málið. Samþykkt samhljóða.
6. Næsti fundur.
Næsti fundur stjórnar er áætlaður fimmtudaginn 6. júní, kl. 16:00.
7. Önnur mál.
a) Undirbúningsnefnd Hvatningarverðlauna ÖBÍ.
Beiðni um tilnefningu 7 fulltrúa í undirbúningsnefnd Hvatningarverðlauna ÖBÍ fyrir árið 2019 var send til aðildarfélaga bandalagsins. Einungis bárust 6 tilnefningar. Undirbúningsnefndin lagði einnig fram tillögu að formanni nefndarinnar.
Tillaga undirbúningsnefndar að nefndarmönnum var samþykkt.
Tillaga undirbúningsnefndar að því að Fríða Rún Þórðardóttir verði formaður nefndarinnar var samþykkt.
b) Ágreiningur Brynju hússjóðs Öryrkjabandalagsins og Sjálfsbjargar lsh.
Bréf barst frá Sjálfsbjörg vegna ágreiningar Brynju hússjóðs Öryrkjabandalagsins gegn Sjálfsbjörg lsh. vegna lóðarinnar Hátún 10-12. Sjálfsbjörg óskaði eftir því að koma inn á stjórnarfund ÖBÍ til að skýra sína hlið málsins.
Umræður voru um að það þarf að koma því á hreint hver á lóðina og hvort selja megi eignir eða hluta lóðarinnar inn á almennan markað.
Stjórnarmenn voru almennt ósáttir við að vita ekki af málinu fyrr. Fundarmönnum þykir málið gengið of langt og því tilgangslaust að ræða málið frekar á stjórnarfundi ÖBÍ.
Fundarmenn voru beðnir um að hugsa málið og taka afstöðu til bréfs Sjálfsbjargar á næsta stjórnarfundi fimmtudaginn 6. júní, það er hvort haldinn verði sér fundur með Sjálfsbjörg í ágúst eða ekki.
Fundi var slitið kl. 18:21.
Fundarritari,
Þórný Björk Jakobsdóttir.