Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórn 20. júní 2012

By 2. júlí 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn miðvikudaginn 20. júní 2012, kl. 17:00-19:00 í Hátúni 10, 9. hæð, Reykjavík

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindravinafélag Íslands – Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir
FAAS – Ragnheiður K. Karlsdóttir
Félag CP á Íslandi – Örn Ólafsson
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag nýrnasjúkra – Jórunn Sörensen
FSFH – Ásta Björk Björnsdóttir
Geðverndarfélag Íslands – Kjartan Valgarðsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
HIV-Ísland – Svavar G. Jónsson
Hugarfar – Hallfríður Sigurðardóttir
LAUF – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg – Guðbjörg Ása Jónsdóttir Huldudóttir
Málefli – Kristín G. Guðfinnsdóttir
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson
MS félag Íslands – Sigurbjörg Ármannsdóttir
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Guðbjörn Jónsson
SEM – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg – Grétar Pétur Geirsson
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Vilmundur Gíslason
Tourette samtökin á Íslandi – Arna Garðarsdóttir

Áheyrnarfulltrúar:

Heyrnarhjálp – Halla B. Þorkelsson
Kvennahreyfing ÖBÍ – Þorbera Fjölnisdóttir

Starfsfólk:

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
S. Hafdís Runólfsdóttir, ferlimálafulltrúi
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Formaður setti fund kl. 17:15 og lagði til að Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra og varaformaður ÖBÍ yrði fundarstjóri. Samþykkt.

Þar sem hvorki aðal- né varafulltrúar frá FAAS og Málefli komust á fundinn var borin upp tillaga um fulltrúa á fundinum í þeirra stað. Samþykkt.

Formaður bað fundarmenn að kynna sig.

2.  Fundargerð frá 3. maí 2012 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

Formaður lagði til dagskrárbreytingu um að sameina liði 3, 4 og 5 þar sem þeir tengjast innbyrðis. Liður númer 6 fellur niður því Jórunn hefur dregið tillögu sína tilbaka. Samþykkt.

3.  Skýrsla formanns.

4.  Starfið framundan. Auglýsingaherferð og opinn fundur um áherslur ÖBÍ.

5.  Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks og hvernig aðildarfélögin geti nýtt sér hann í sinni baráttu.

Formaður fór yfir skýrslu sína.

Norrænt samstarf og EDF

Formaður fór á fund Nordiska Handikapppolitiska Rådet í Osló 8. febrúar og stjórnarfund EDF (European Disability Forum) í Kaupmannahöfn 3. og 4. mars 2012. Á þessum tíma voru Danir með formennsku í Evrópusambandinu og var sér fundur á þeirra vegum, 5. og 6. mars, sem fjallaði um aðgengi og þátttöku, blöndun fatlaðs fólks í samfélaginu. Á fundi EDF í maí var farið í heimsókn í nýtt hús systurfélags ÖBÍ í Kaupmannahöfn, sem þeir vilja meina að sé aðgengilegasta hús í heimi.

Nefndir hjá hinu opinbera

Formaður sagði frá því í hvaða nefndum, starfshópum, bakhópum og öðrum hópum fulltrúar ÖBÍ taka þátt í á vegum ríkis, sveitarfélaga og annarra aðila.

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ, sagði frá því að TR synjaði fólki um 75% örorkumat ef að örorka þess sé tilkomin fyrir flutning til Íslands, þó svo að læknisfræðileg skilyrði séu uppfyllt. Dómur hefur nú fallið í þessu máli þar sem að ákvörðun TR var hnekkt.

Starfsemi ÖBÍ

Mikið er að gera á skrifstofunni, sérstaklega í einstaklingsmálum, en oft eru þetta mál sem viðkoma fleiri en einstaklingnum sem unnið er fyrir, m.a. þarf að reikna út greiðslur og réttindi. Skrifaðar eru umsagnir vegna ýmissa mála sem varða ríki og sveitarfélög. Vefrit ÖBÍ kemur næst út í september. Unnið er að breytingum á útliti og innihaldi tímarits ÖBÍ, sem stefnt er á að komi út í byrjun nóvember.

Yfirfærslan, hvernig hefur tiltekist?

Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks var samþykkt á Alþingi 11. júní 2012 í tengslum við flutning ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga sem tók gildi 1. janúar 2011. Starf réttindagæslumanna er meira en gert var ráð fyrir, þeir anna ekki eftirspurn, svæðin eru of stór og starfshlutfall of lítið. Þeir hafa létt ÖBÍ starfið því við höfum sent þeim mál til afgreiðslu, en þeir hafa einnig fengið aðstoð frá okkur. Viðbótarlög um þvingunarúrræði sem sett voru 23. júní 2012 eru til mikilla bóta.

Mikilvægt er að NPA komist í gagnið sem fyrst. Mikil ánægja er með handbók NPA sem kynnt var sl. vetur en í ljós hefur komið að sveitarfélögin vilja fá nánari handleiðslu um hvernig þau eigi að setja sér sínar reglur. Slíkar viðmiðunarreglur hafa verið í vinnslu og eru nýkomnar út.

Starfshópur um endurskoðun laga um almannatryggingar

Starfshópur var skipaður til að endurskoða lögin um almannatryggingar 11. apríl 2011. Kerfið átti að verða réttlátara, einfaldara og koma í veg fyrir fátækt. ÖBÍ tók þátt í þessu starfi en mjög einkennilega var að því staðið. Starfið fólst aðallega í því að að fara yfir útreikninga. Fyrst átti að ræða ellilífeyrinn en ekki er enn búið að ganga frá honum. Í starfshópnum voru þrír fulltrúar frá hagsmunafélögum, en fulltrúar stjórnmálaflokkanna voru mun fleiri. ÖBÍ bað um að fá fleiri fulltrúa í nefndina og fékk einn til viðbótar. Þrátt fyrir það gerðist ekkert svo ákveðið var að ÖBÍ taki ekki þátt í starfinu á meðan ekkert jákvætt kemur frá ríkinu, t.d. hafa neysluviðmiðin ekki verið uppfærð, skerðingar halda áfram, einn bótaflokkur eyðileggur allt kerfið, sem letur til vinnu, fjölskyldulífs og sparnaðar. Hvergi er þess getið hvenær skerðingar sem komið hafa til framkvæmda frá 1. janúar 2009 verði afturkallaðar.

Komugjöld til sérfræðinga

Samningar milli TR og sérfræðinga hafa verið lausir í 2 ár. Sérfræðingar hafa því sett alls konar gjöld á, komugjald, umsýslugjald og fleira. Sjúkratryggingar borga það sama og þær hafa gert en sjúklingurinn þarf að taka aukagjaldið á sig. Formaður bað alla viðstadda um að koma slíkum reikningum til bandalagsins.

Næstu skref

ÖBÍ sendi aðildarfélögunum bréf varðandi samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks og eru þau beðin um að velja sér grein eða greinar úr samningnum til að kafa ofan í og kynna fyrir félögum sínum, stjórnvöldum og almenningi. Tilgangurinn er að sjá hvernig samningurinn tengist réttindabaráttunni.

Kjaranefndin hefur unnið að gera auglýsinga, plakata sem hengd verða upp í strætóskýlum, en áætlað er að fara af stað með auglýsingaherferð í sumar.

Baráttufundur verður fljótlega eða í haust. Hugsanlega verður hann í Ráðhúsi Reykjavíkur, sem hentar vel til slíkra funda.

Umræður

Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra spurði hvert væri markmið og tilgangur með kjarahópnum, hvert væri veganesti hans og hverju á hann að skila? Hvert væri markmið og tilgangur auglýsingaherferðar sem fara á í, hverju á hún að skila? Má hún kosta hvað sem er? Hvað á að auglýsa, er þetta reiði og ógn við stjórnvöld eða órökstuddir sleggjudómar?

Formaður svaraði því til að kjarahópurinn hafi það veganesti að fylgjast með kjörum öryrkja, því sem er að gerast og koma með tillögur að því hvernig eigi að snúa sér í baráttunni og hvernig ÖBÍ getur komið sínum sjónarmiðum betur á framfæri. Kjarahópurinn hefur safnað upplýsingum varðandi þessi mál. Í tengslum við kostnað þá er alltaf gert ráð fyrir slíku í fjárhagsáætlun. Það er mjög mikilvægt að láta heyra í sér og kynna sig. Flestir eru reiðir yfir því hvernig farið er með öryrkja og ÖBÍ ber að standa vörð þar um, reiðin er því ekki ótímabær.

Menn voru almennt ánægðir með að hafa fundarstjóra á fundunum. Nefnt var að senda ætti út upplýsingar fyrr um erlenda fundi eða annað sem koma þarf á framfæri til aðalstjórnar, þannig væri hægt að stytta skýrslu formanns. Einnig að betra væri að fá skýrsluna skriflega fyrir fram, þannig myndi fundartími nýtast betur og meira kæmist til skila á fundunum. Gremja er út í stjórnvöld, þörf er á baráttu og er kjarahópur liður í því.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu sagði að hann hefði lagt til fyrir nokkru síðan að fulltrúar ÖBÍ í nefndum kæmu á aðalstjórnarfund og upplýstu um hvað væri að gerast í nefndunum. Ætti að vera fastur dagskrárliður á hverjum fundi.

Guðbjörn Jónsson, Parkinsonsamtökunum hafði hugsað sér að sýna á skjá kerfi sem hann hefur útfært, sem byggir á 330.000 kr. reglunni. Samkvæmt henni geta allir unnið upp að 330.000 og haft það sem ráðstöfunarfé. Það þýðir að ríkissjóður getur lækkað greiðslur til öryrkja, vinna eykst, fólk getur tekið þátt í samfélaginu, ríkið sparar og fær þannig auknar tekjur. Fór til sérfræðings hjá Læknasetrinu og fékk reikning þaðan þar sem á var komu- og umsýslugjald. Gjaldið er til Læknasetursins en ekki læknisins sjálfs. Þar sem ekki er lagafótur fyrir þessu endurgreiddu þeir gjaldið í stað þess að fá lögfræðikostnað á það.

Formaður benti á að í samningum á sínum tíma milli sjúkratrygginga og sérfræðinga var ákveðinn hluti kostnaðar sem átti að fara í umsýslu, borga húsnæði og sameiginlegan kostnað. Formaður ræddi við velferðarráðherra sem sagðist vera mjög sár yfir að hann næði ekki samningum við sérfræðilækna og allt væri í loft upp. Þakkaði fyrir góðar tillögur, meðal annars í tengslum við að senda skriflega skýrslu út fyrir fund og að fá fulltrúa á fundi til að segja frá nefndastarfi.

Frímann Sigurnýasson, SÍBS sagði að kjaranefnd ætti að vera ein af fastanefndum ÖBÍ. Hún fylgist þá með öllu sem snertir kjaramál. Auglýsingarnar ættu ekki að vera dýrar en það kostar alltaf að láta taka eftir sér. Það ætti að halda baráttufund fljótlega og svo væri hægt að hafa fund í haust um almannatryggingar. Gott væri að stefna á að halda nokkra fundi á ári til að kynna hvað ÖBÍ er að gera. Margt fólk gagnrýnir ÖBÍ fyrir að gera ekki neitt sem er ekki rétt og þurfum við að standa okkur betur í kynningum.

Jórunn var ekki ánægð með svarið við spurningu sinni um kjarahópinn og vildi vita hvaða gögn kjarahópurinn notar og fá að fylgjast með því hvað verið væri að gera og hver gerir hvað. Fulltrúi Félags nýrnasjúkra er í hópnum og hefur verið ráðvillt varðandi markmið hópsins.

Formaður sagði að gögn kjarahópsins væru almenn. Þar sem nýtt fólk hafi komið á hvern fund þurfti að gefa nákvæmar upplýsingar aftur og aftur og það gæti hafa gert fundina ómarkvissa. Það vissu til dæmis ekki allir um hvað verið væri að tala þegar talað var um örorkubætur og héldu Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ og Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi ÖBÍ sérstakan upplýsingafund á undan einum fundanna. Eftir það varð vinnan mun markvissari. Bakhópur almannatrygginga var lengi vel einn en skynsamlegt þótti að skipta honum í tvennt, annars vegar hópur sem væri með tillögur að nýjum almannatryggingalögum og hins vegar kjarabaráttuhópur. Um tíma var kjaramálafulltrúi starfandi hjá ÖBÍ svo slíkt starf er ekki nýtt innan bandalagsins. Gögn sem lögð hafa verið fram á fundum eru öll aðgengileg á skrifstofu ÖBÍ. Á síðasta ári stóð ÖBÍ fyrir mörgum fundum og fór í kringum landið. Sigurjón Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ og Hrefna K. Óskarsdóttir, verkefnastjóri ÖBÍ eru á námskeiði á Írlandi sem fjallar um hvernig samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks nýtist best fyrir félög fatlaðra og aðildarríkin. Í haust munu þau verða með námskeið fyrir aðildarfélögin um það sem þau hafa lært.

Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu sagði að ýta þyrfti því fram sem er í stefnumörkun ÖBÍ og efla innri vef, þar sem hægt væri að setja inn minnisblöð, t.d. vegna nefndarstarfa, og getur þá hver og einn eftir sínum áhuga skoðað það sem þar er. Auglýsingaherferð ætti að hefjast í haust því að markhópurinn er væntanlega Alþingi og þeir sem þar sitja.

Guðbjörn sagði að fram hefði komið hjá formanni að ágreiningur væri milli lækna og ráðuneyta og að samningurinn væri ekki í gildi, en ekkert er hægt að gera nema að læknarnir fari út úr TR. Þetta er bara togstreita og lögfræðilegur skilningur, engin afsökun er fyrir því að þetta sé ekki lagað strax. Varðandi herferðina þá er ekki búið að setja niður markmið hennar og hverju hún eigi að skila. Eigum að vinna þetta á skynsaman hátt en ekki að standa á torgum, hrópa og fá augnabliksathygli. Við þurfum ekki á slíku að halda heldur varanlegum breytingum á kjörum okkar. Kjarahópur og bakhópur eru tengingarlausir við aðal- og framkvæmdastjórn því ekkert markvisst flæði er þar á milli. Tengiliður er inn á skrifstofu ÖBÍ en hóparnir hafa aldrei verið kallaðir á fund hjá framkvæmdastjórn. Það er til mikils vansa eftir alla þá vinnu sem búið er að leggja í þetta.

Þorbera Fjölnisdóttir, Kvennahreyfingu ÖBÍ sagði frá því að félagsskapurinn EAPN (European Anti Powerty Network) var stofnaður í nóvember 2011 en samtökin voru stofnuð í Evrópu fyrr á því ári. Fátækt fyrirfinnst í okkar hópi og stjórnvöld viðurkenna það. Til er aðgerðaráætlunin Ísland 2020 á vef forsætisráðuneytis, þar sem er viðurkennt að öryrkjar berjast við fátækt og til að fá einhverju breytt þarf vitundarvakningu meðal almennings en ekki stundarathygli, því að mýtan um lúxusöryrkjann er lífseig meðal almennings.

Frímann sagði að það sem aðallega væri rætt um í kjarahópnum væri auglýsingaherferð. Hún er góð til að vekja fólk og stjórnmálamenn til meðvitundar um kjör fólks í þessum hópi. Rætt hefur verið um auglýsingar í strætóskýlum og skjáauglýsingar í sjónvarpi. Þetta dugir kannski ekki en er byrjun. Kjarahópurinn vill gjarna fá tillögur frá fólki og er hægt að senda þær í gegnum skrifstofu ÖBÍ á obi@obi.is. Alþingi hefst 11. september og því þarf að hefja auglýsingaherferð fyrir þann tíma og koma á fundi. Þegar félag sendir fulltrúa frá sínu félagi í kjarahóp er gott að viðkomandi fái einhverjar upplýsingar frá sínu félagi, eitthvað veganesti en það hefur vantað upplýsingar frá aðildarfélögunum inn í kjarahópinn.

6.  Skipan nefndar um reglur um úthlutun styrkja til aðildarfélaga. Tillaga Jórunnar.

Jórunn dró tillögu sína tilbaka og fellur þessi liður því niður.

7.  Önnur mál.

a) Næsti fundur.

Næsti aðalstjórnarfundur verður haldinn fimmtudaginn 16. ágúst, kl. 17:00.

Fundi slitið 19.20.

Fundarritarar:

Sigríður Hafdís Runólfsdóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.