Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórna 1. mars 2012

By 29. júní 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 1. mars 2012, kl. 17.00-19.00 í Hátúni 10, 9. hæð, Reykjavík

 Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás styrktarfélag – Guðrún Gunnarsdóttir
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
FAAS – Svava Aradóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Snævar Ívarsson
Félag nýrnasjúkra – Jórunn Sörensen
FSFH – Ásta Björk Björnsdóttir
Geðverndarfélag Íslands – Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Halla B. Þorkelsson
HIV-Ísland – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Hallfríður Sigurðardóttir
Málbjörg – Sveinn Snær Kristjánsson
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson
MS félag Íslands – Berglind Ólafsdóttir
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg – Grétar Pétur Geirsson
SPOEX – Hrund Hauksdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Vilmundur Gíslason
Tourette samtökin á Íslandi – Arna Garðarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi:

Kvennahreyfing ÖBÍ – Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk:

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
S. Hafdís Runólfsdóttir, ferlimálafulltrúi
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari

Fundarstjóri:

Sjöfn Ingólfsdóttir

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Formaður setti fund kl. 17:20 og bað fulltrúa að kynna sig.

Formaður kynnti Sjöfn Ingólfsdóttur fundarstjóra og tók hún við stjórn fundarins.

2.  Fundargerð frá 19. janúar 2012 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

3.  Skýrsla formanns.

Formaður sagði frá nokkrum atriðum sem efst eru á döfinni. Hann hefur sjálfur verið í veikindaleyfi frá aðalfundi 2011 og hefur Hjördís Anna Haraldsdóttir, varaformaður, stjórnað fundum í fjarveru hans. Frá aðalfundi hafa verið haldnir 8 framkvæmdastjórnarfundir og hefur formaður mætt á einn þeirra.

Málþing um málefni fatlaðs fólks í alþjóðlegu ljósi í tengslum við skýrslu WHO (World report on disability) 2011 verður haldið fimmtudaginn 16. mars nk. Tom Shakespeare, aðalhöfundur fötlunarhluta skýrslunnar verður aðalfyrirlesari. Formaður hvatti fundarmenn til að nálgast skýrsluna, sem er beint framhald af samningi SÞ um réttindi fólks með fötlun og þeirri vinnu sem unnin hefur verið þar frá árinu 2007, þegar samningurinn var undirritaður. Tom verður gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands föstudaginn 17. mars.

Komugjöld til sérfræðinga. Engir samningar eru milli TR og sérfræðinga og því hafa sumir sérfræðingar bætt við svokölluðum umsýslukostnaði á reikninga sína, sem getur verið allt að 3.500 kr. hár. Sá kostnaður fæst ekki endurgreiddur hjá TR og ekki er hægt að nýta hann upp í afsláttarkort. Formaður hvatti fólk til að koma með kvittanir þar sem umsýslukostnaður kemur fram, svo að hægt sé að taka á þessu máli.

Ný byggingareglugerð hefur tekið gildi þar sem byggt er á lögum um mannvirki.  Reglugerðin á að tryggja aðgengi fyrir alla með algilda hönnun að leiðarljósi. Aðgengi þarf ekki að vera fullkomið í öllum byggingum, en þarf að vera til staðar þegar á þarf að halda. Andstaða arkitekta og byggingaverktaka við þetta hefur verið mikil en Hafdís, ferlimálafulltrúi hefur verið dugleg við að svara þeim á málefnalegan hátt.

Frumvarp um framkvæmdaáætlun við lög um málefni fatlaðra sem tóku gildi 2011 og eiga að gilda til 2014. ÖBÍ var þátttakandi í gerð framkvæmdaáætlunarinnar og kynnti umsögn sína fyrir velferðarnefnd Alþingis 20. febrúar 2012. Við höfum verið kölluð aftur fyrir nefndina. Helstu niðurstöður ÖBÍ er að fullgilding samnings SÞ um réttindi fólks með fötlun ætti að vera árið 2012 eins og tilkynnt var í upphafi. Aðgengi að samfélaginu er númer eitt, hvort sem er í tengslum við byggingar, upplýsingar eða annað. Áhersla var lögð á félagslega vernd, því mörg lög sem gilda í dag vinna að því að festa fólk í fátæktargildrur. Það er hlutverk stjórnvalda að forgangsraða en ekki ÖBÍ.

Nokkrar umsagnir hafa verið skrifaðar, meðal annars umsögn um breytingu á lögum um háskóla, (sjálfstæði og lýðræði í háskólum, réttindi fatlaðra nemenda). Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um innflutning dýra, frumvarp til laga um félagslega aðstoð (birfreiðastyrkir hreyfihamlaðra), umsögn um reglur um stuðningsþjónustu í Reykjavík og fleiri.

Mynda á kjaramálahóp ÖBÍ. Hópurinn þarf að setja fram forgangskröfur og gott væri ef hann hefði samstarf við aðra, t.d. kjaramálanefnd LEB (Landssambands eldri borgara). Hópurinn mun meðal annars fara fram á að skerðingar frá 1. júlí 2009 verði dregnar til baka og eins að aldurstengda örorkan fylgi mönnum alla ævi, en ekki einungis til 67 ára aldurs og að grunnlífeyrir skerðist ekki.

Umræður

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu spurði hvar umsagnirnar verða til?

Formaður sagði að starfsfólk skrifstofu ÖBÍ skrifi umsagnirnar. Oft er reynt að senda fyrirspurnir til aðildarfélaga ÖBÍ og fá þeirra hugmyndir um umsagnirnar en þar sem umsagnarfrestur er oft mjög skammur þá næst það ekki alltaf.

4.  Reglur um úthlutun styrkja til aðildarfélaga. Endurskoðun.

Fundarstjóri kynnti breytingatillögur á reglum um úthlutun styrkja til aðildarfélaga ÖBÍ. Tillögurnar voru til kynningar á síðasta fundi og sendar til aðildarfélaganna til skoðunar.

Jón Þorkelsson, einn nefndarmanna fór yfir skjalið áður en það var afgreitt. Jón sagði að skiptar skoðanir hefðu verið í hópnum um ýmis atriði en farið var yfir allar athugasemdir og var lendingu náð sem allir nefndarmenn voru sæmilega sáttir við. Félagaskráin er trúnaðarmál og leggja þarf áherslu á það. Lagt er til að sjö nýir flokkar komi í stað þeirra þriggja sem eru í styrkjum til grunnreksturs. Undir tölulið 1 er einum lið bætt við. Undir tölulið 2 hefur kröfum um mætingu verið breytt. Lagt er til að gefa skuli þeim félögum meira vægi sem eru eina félagið um tiltekinn sjúkdóm. Lagt er til að fyrsta málsgreinin í almennum ákvæðum falli út þannig að ekki sé fjárhæð styrks nefnd í reglunum. Að lokum breytist ártalið 2012 í síðustu setningu skjalsins í 2014.

Umræður

Umræða var um að erfitt gæti reynst að uppfylla 67% mætingarskyldu á aðalfundi ef aðildarfélag hefur einungis 2 fulltrúa og annar getur ekki mætt. Rætt var hvort gefa ætti þeim félögum meira vægi sem eru eina félagið um tiltekinn sjúkdómaflokk. Ekki þótti rétt að taka einn hóp aðildarfélaga út fyrir og nefna hann sérstaklega í reglunum. Aðildarfélög ÖBÍ tengjast mörg hver ekki sjúkdómum og getur fólk sem skilgreint er með sama sjúkdóm barist fyrir sitthvorum hlutnum, þetta fer ekki alltaf saman.

Misjafnar skoðanir voru á því hvort að grunnstyrkir ættu að vera hærra hlutfall heildarúthlutunar eða hvort félög ættu að vera sjálfbær og styrkirnir ættu að fara í annað en að halda lífi í félögunum og gera þau háð ÖBÍ varðandi fjármagn. Stærri félögin hafa hugsanlega meiri möguleika á að fjármagna sig og ef grunnstyrkurinn er hærri þá kemur það minni félögum til góða. Það eru ekki öll félög sem fá opinbera styrki og auðveldara er að sækja um sérgreinda styrki úti í bæ en styrki til grunnreksturs. Einnig fannst nokkrum fundarmanna 7 flokkar í grunnstyrkjum heldur ríflegt og að nóg væri að hafa þá 6.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, sagði að MND félagið telji að það sé óheimilt skv. persónuverndarlögum að höndla félagaskrá og hefur sent Persónuvernd erindi þar að lútandi. Ekki hefur fengist úrskurður um málið.

Ein breytingartillagan gengur út á að félög rukki félagsmenn um félagsgjald og er hugsunin sú að þannig sjáist félagafjöldi og þá þurfi ekki að skoða félagaskrár. Þar sem mörg aðildarfélaga ÖBÍ rukka ekki félagsgjald í dag og óheimilt er að krefjast þess þykir mörgum rétt að sleppa þessu ákvæði. Bent var á að þessi liður væri 1 af 6 sem taka þyrfti tillit til og því væri rukkun félagsgjalda ekki skilyrði þó svo að liðurinn væri samþykktur.

Fundarstjóri bað um að fá formlegar breytingatillögur skriflega ef einhverjar væru. Beðið var um að hver grein fyrir sig yrði tekin fyrir og væri þá hægt að koma með munnlega móttillögu en ekki skriflega. Var það samþykkt að því undanskildu að ef að um meginbreytingu væri að ræða þá væri henni skilað inn skriflega.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu kom með tillögu við 1. grein að 7. flokkur detti út, þannig að þetta verði 6 flokkar í rammanum og þá ætti það að breyta aðeins, að milljónin sé fyrir 2501 og fleiri félagsmenn.

Kosning

Tillaga var um nýtt ákvæði á eftir fyrstu greinarskiljum, sem hljóðar svo:

Þar sem þetta er ekki heimilt skv. reglum félags skal starfsmaður ÖBÍ sannreyna félagaskrána. Félagaskrá aðildarfélaga teljast alltaf vera trúnaðarmál.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga var um fjölgun atriða undir liðnum styrkir til grunnreksturs. Atriðum verði fjölgað úr 3 í 7. Tillagan hljóðar svo:

1)  Félög með      100 félagsmenn eða færri      geta sótt um 300.000 krónur.
2)  Félög með      101-500 félagsmenn              geta sótt um 350.000 krónur.
3)  Félög með      501-1000 félagsmenn            geta sótt um 450.000 krónur.
4)  Félög með      1001-1500 félagsmenn          geta sótt um 600.000 krónur.
5)  Félög með      1501-2500 félagsmenn          geta sótt um 800.000 krónur.
6)  Félög með      2501-4000 félagsmenn          geta sótt um 1.000.000 krónur.
7)  Félög með      4001 eða fleiri félagsmenn     geta sótt um 1.400.000 krónur.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, lagði til að 7. liður falli út, 6. liður breytist og verði:
6)  Félög með      2501 eða fleiri félagsmenn    geta sótt um 1.000.000 krónur.
 

Samþykkt.

16 samþykktu, 7 voru á móti.

Guðbjörn Jónsson, Parkinsonsamtökunum, kom með þá athugasemd að með þessari breytingartillögu þá nær úthlutunarreglan ekki 25% eins og fram kemur í tillögu undir önnur ákvæði. Samkvæmt því er skylda en ekki valkostur að úthluta 25% af heildarstyrkupphæðinni til grunnreksturs.

Fundarstjóri sagði að þar sem fundurinn er sammála túlkun starfsmanns nefndarinnar og enginn mótmælir þá sé skrifstofu falið að umreikna prósentutöluna.

Þar sem 7. liður undir styrkir til grunnreksturs féll út þá var tillagan lögð fyrir aftur með 6 liðum, svohljóðandi:

1)  Félög með      100 félagsmenn eða færri       geta sótt um 300.000 krónur.
2)  Félög með      101-500 félagsmenn               geta sótt um 350.000 krónur.
3)  Félög með      501-1000 félagsmenn             geta sótt um 450.000 krónur.
4)  Félög með      1001-1500 félagsmenn           geta sótt um 600.000 krónur.
5)  Félög með      1501-2500 félagsmenn           geta sótt um 800.000 krónur.
6)  Félög með      2501eða fleiri félagsmenn       geta sótt um 1.000.000 krónur.

Samþykkt.

21 samþykktu, 3 voru á móti.

Undir liðnum „Styrkir samkvæmt tölulið 1 eru háðir því að félagið uppfylli þrjú af eftirfarandi skilyrðum:“ var tillaga um að bæta við 6. lið, svohljóðandi:

6)  Innheimti lágmarksféalgsgjald sem í dag væri kr. 1.000.

Nefnt var að ekki væri ætlast til að allir uppfylli alla 6 liðina, bara 3 af 6. Þar sem ekki er hægt að skylda félög til að taka upp félagsgjald og ekki eru öll aðildarfélög bandalagsins sem að rukka félagsgjald lagði formaður til að 6. liður verði felldur út.

Samþykkt að 6. liður falli út.

20 samþykktu, 5 voru á móti.

Styrkir samkvæmt tölulið 1 og þeir liðir sem taldir eru upp þar undir voru bornir upp óbreyttir.

Samþykkt óbreytt.

Tillaga var um breytingu á nokkrum atriðum sem heyra undir styrki til sérgreindra verkefna. Tillagan hljóðar svo:

Við úthlutun styrkja samkvæmt tölulið 2 skal taka tillit til eftirfarandi atriða:

1)    Virkni félagsins í starfi ÖBÍ (starf í nefndum, bakhópum og fl.), svo sem mæting fulltrúa félagsins á aðalstjórnarfundi ÖBÍ (67% mæting telst fullnægjandi) og mæting á aðalfund ÖBÍ (tveir fulltrúar telst fullnægjandi).
2)    Frágangi umsóknar, fylla skal út viðeigandi eyðublað.
3)    Eðlis verkefnis – er það nýjung, framhald af eldra verkefni eða hefðbundið.
4)    Umfang verkefnis.
5)    Gefa skal þeim félögum meira vægi sem eru eina félagið um tiltekinn sjúkdómaflokk.

Halldór Sævar Guðbergsson, Blindrafélaginu, lagði til að sviginn í lið 1 falli út þar sem ekki sé til mælieining til að mæla vinnu í bakhópum eða nefndum.

Frímann Sigurnýasson, SÍBS, sagði að þessi tillaga hefði verið tilraun til að fá félögin til að starfa í almennu starfi innan ÖBÍ. Lagði til að orðin „svo sem“ í lið 1 falli út þannig að setningin verði: 1) Virkni félagsins í starfi ÖBÍ (starf í nefndum, bakhópum og fl.) mæting fulltrúa félagsins á aðalstjórnarfundi ÖBÍ (67% mæting telst fullnægjandi).

Tillaga Halldórs var borin upp til atkvæðagreiðslu.

Samþykkt.

14 samþykktu, 6 voru á móti.

Tillaga Frímanns um að orðin „svo sem“ falli út var borin upp til atkvæðagreiðslu.

Samþykkt samhljóða.

Umræða var um að erfitt gæti reynst fyrir þau aðildarfélög sem hafa einungis 2 fulltrúa á aðalfundi að standa undir 67% mætingarskyldu ef annar aðilinn forfallast fyrirvaralaust. Samþykkt var að breyta prósentutölunni „67%“ í „50%“ í tengslum við mætingu á aðalfund ÖBÍ. Framlögð tillaga hljóðar því svo:

1)    Virkni félagsins í starfi ÖBÍ, mæting fulltrúa félagsins á aðalstjórnarfundi ÖBÍ (67% mæting telst fullnægjandi) og mæting á aðalfund ÖBÍ (50% mæting telst fullnægjandi).

Samþykkt

með þorra atkvæða á móti 1.

Tillaga var um að bæta orðunum „fylla skal út viðeigandi eyðublað“ við lið 2. Tillagan er því svohljóðandi:

2)    Frágangi umsóknar, fylla skal út viðeigandi eyðublað.

Samþykkt samhljóða.

Tillaga var um að bæta við nýjum lið svohljóðandi:

5)    Gefa skal þeim félögum meira vægi sem eru eina félagið um tiltekinn sjúkdómaflokk.

Lagt var til að þessi liður falli brott.

Samþykkt.

19 samþykktu, 4 voru á móti.

Undir „Almenn ákvæði“ var lagt til að brott falli:

Allar tölur í þessum tillögum eru miðaðar við að úthlutað sé 50 milljónum króna í heildina. Þar af sé um 20% af fjárhæðinni úthlutað samkvæmt lið 1 en um 80% samkvæmt lið 2.

Í stað þess komi:

Fundarstjóri sagði að aðlaga þyrfti prósentutölu (25%) miðað við fyrsta lið sem samþykktur var fyrr á fundinum.

Klara Geirsdóttir, Félagi CP á Íslandi, lagði fram skriflega tillögu sem hljóðar svo:

                                                                                                             1. mars 2012

Tillaga um að breyta orðalagi í: Það fé sem kemur til úthlutunar hverju sinni er ákveðið með fjárhagsáætlun ÖBÍ hverju sinni.

Gert er ráð fyrir að hámarki 35% af fjárhæðinni sé úthlutað samkvæmt lið 1 en allt að 65% samkvæmt lið 2.

Til að tryggja að úthlutunin fari ekki undir það í framtíðinni.

Klara Geirsdóttir,  Félag CP á Íslandi.

Tillagan var ekki samþykkt því hún féll á jöfnum atkvæðum, 12 gegn 12.

Upprunaleg tillaga var borin upp til atkvæðagreiðslu. Hún hljóðar svo:

Það fé sem kemur til úthlutunar hverju sinni er ákveðið með fjárhagsáætlun ÖBÍ hverju sinni. Gert er ráð fyrir að lágmarki 25% af fjárhæðinni sé úthlutað samkvæmt lið 1 en allt að 75% samkvæmt lið 2.

Samþykkt með þorra atkvæða gegn 2.

Síðasta setning reglnanna hljóðar svo:

Reglur þessar og viðmið skulu endurskoðast að tveimur árum liðnum, fyrir úthlutun árið 2012.

Tillaga var um að ártalið breyttist úr 2012 í 2014.

Samþykkt samhljóða.

Plaggið í heild sinni var lagt fram til samþykktar.

Samþykkt samhljóða.

 

5.  Myndun kjarahóps ÖBÍ og samstarf við Félag eldri borgara um kjaramál.

Formaður sagði frá áherslum ÖBÍ í tengslum við kjaramál. Meðal annars að skerðingar síðustu ára verði leiðréttar sem fyrst, lög haldi gildi sínu, skerðingar og auknar tekjutengingar á greiðslum almannatrygginga sem tóku gildi 1. júlí 2009 verði dregnar til baka hið snarasta, aldurstengd örorkuuppbót verði greidd áfram eftir 67 ára aldur og dregið verði úr tekjutengingum almannatryggingalaga. Umframkostnaður vegna sjúkdóma eða fötlunar verði endurskoðaður ásamt uppbót vegna reksturs bifreiða, húsaleigubætur, lífeyrissjóðstekjur, bætur almannatrygginga og að greiðslur almannatrygginga taki mið af dæmigerðu neysluviðmiði velferðarráðuneytisins.

Mikilvægt er að félögin sem að áhuga hafa á að taka þátt í kjarahóp sendi nöfn og netföng til Önnu Guðrúnar. Allir mega vera með.

Umræður

Bent var á að hættulegt gæti verið að vera með opna kröfu eins og að hækka frítekjumark fyrir lífeyrissjóðstekjur, því hægt væri að hækka um eina krónu og segja að orðið hafi verið við kröfum ÖBÍ. Tölurnar þurfa því að vera nákvæmar en ekki að hafa þetta opið. Öryrkjar eiga að hafa rétt á því að verða gamlir eins og aðrir án þess að skerðast í tekjum. Það mætti senda erindi til umboðsmanns Alþingis og athuga hvort þetta sé ekki brot á stjórnarskrá. Einnig væri ekki úr vegi að tala við skattayfirvöld og fá tekjulið inn í skattframtalið þar sem öryrkjum er greiddur útlagður kostnaður vegna örorku.

Formaður sagði að allt sem upp hefur verið talið er nesti fyrir kjaramálahópinn til að vinna úr. Einnig þurfi að ræða í hvaða málum ÖBÍ á samleið með öðrum hópum, eins og kjaramálanefnd Landssambands eldri borgara.

6.  Önnur mál.

a) Málþing Félags nýrnasjúkra, 6. mars.

Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra, sagði frá því að fyrsta málþing um líffæragjafir á Íslandi yrði haldið 6. mars á Grand hótel, kl. 15 til 17. Allir eru velkomnir.

b) Vegna atkvæðagreiðslu um styrkúthlutunarreglur.

Frímann vildi koma því á framfæri að 7 sjálfstæðir sjúklingahópar mynda SÍBS. Hver hópur er með sína skrifstofu, borgar leigu og fleira. Með því að breyta tillögu um að skera niður 1.400.000 kr. styrk, þá er því beint gegn 2 félögum, SÍBS og Gigtarfélaginu. Með þessu eru litlu félögin með valdníðslu gagnvart þessum tveimur stærstu félögum. Var hissa á að strokað hefði verið út að fólk fengi skráða vinnu í bakhópi ÖBÍ og fleiri nefndarstörf.

Guðbjörn tók undir það síðasta og sagði að enginn hvati væri fyrir aðildarfélögin að starfa fyrir bandalagið ef það fæst ekki metið. Þar sem SÍBS er regnhlífahópur er hætta á að félögin komi nú hvert fyrir sig og óski eftir aðild að bandalaginu og fái þar með mun hærri greiðslur en hefði verið. Hugmyndin með að gefa þeim félögum meira vægi sem eru eina félagið um tiltekinn sjúkdómaflokk var að stoppa klofningsþætti. Sagði ekkert samhengi vera í því hvernig mál eru afgreidd og hvað felst í þeim.

Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu, tók undir með Frímanni og Guðbirni að þetta væru skýr skilaboð til þessara tveggja félaga og þau munu væntanlega ræða hvernig eðlilegt er að taka á því. Er sammála Guðbirni um að afgreiðsla eins og átti sér stað sé ekki bjóðandi þeim stjórnum sem fara yfir fyrirliggjandi gögn af alvöru. Það sé lágmarkskrafa að breytingartillögur séu kynntar fyrir félögunum en ekki afgreiddar eins og gert hafi verið.

Ægir sagði að lækkunin væri ekki eins mikil og Frímann talaði um. Það getur skipt litlu félögin miklu að þau hækki um 20 til 40.000. Ekki rötuðu allar tillögur sem sendar voru til nefndarinnar inn í skjalið og því megi breyta skjalinu. Mikið var rætt um lýðræði á síðasta aðalstjórnarfundi og minnti Ægir á að kosningin fór 16-7.

Halldóri sárnuðu orð Frímanns hvað varðar tillögu Halldórs um að taka ekki með vinnu í nefndum og ráðum. Þar sem mælieining er til vegna aðalstjórnarfunda og aðalfunda en ekki er ljóst hvernig mæla á vinnu í nefndum og ráðum og þar sem félögin hafa ekki alltaf val um að vera með taldi hann að praktískt séð ætti þetta ekki heima í reglunum. Betra er að koma með fullbúna tillögu næst, þegar ljóst er hvernig eigi að mæla þátttöku í nefndum.

Formaður sagði að ekki sé hægt að skylda fólk til að mæta í bakhópa, því þar sem fólk mætir af skyldurækni en ekki áhuga skilar það ekki árangri.

Næsti aðalstjórnarfundur verður haldinn 3. maí.

c) Námskeið um bann við mismunun.

Halldór sagði frá því að 14. mars héldi Mannréttindaskrifstofa námskeið um bann við mismunun. Námskeiðið hefur verið haldið í Reykjavík og tókst vel. Hann hvatti aðildarfélög til að hvetja félagsmenn sína til að fara á námskeiðið.

Fundi slitið 19.40.

Fundarritarar:  S. Hafdís Runólfsdóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir