Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar 10. desember 2014

By 9. júní 2015No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn miðvikudaginn 10. desember 2014 kl. 17.00 – 19.00 í Hvammi á Grand Hóteli, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Ellen Calmon og Elín Hoe Hinriksdóttir
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – María Hauksdóttir
CCU samtökin – Edda Svavarsdóttir
Einhverfusamtökin – Svavar Kjarrval
FAAS – Svava Aradóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra – Guðmundur S. Johnsen
Fjóla – Friðjón Erlendsson
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Geðhjálp – Þórður Ingþórsson og Maggý Hrönn Hermannsdóttir
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heilaheill – Axel Jespersen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
HIV Ísland – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Sigríður Ósk Einarsdóttir
LAUF, félag flogaveikra – Helga Sigurðardóttir
Málbjörg – Árni Heimir Ingimundarson
Málefli – Kristján Geir Fenger
ME félag Íslands – Eyrún Sigrúnardóttir
MG félag Íslands – Pétur Halldór Ágústsson
MS félag Íslands – Garðar Sverrisson
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Snorri Már Snorrason
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Arnar Helgi Lárusson
SÍBS – Sigurjón Einarsson
Sjálfsbjörg – Bergur Þorri Benjamínsson og Grétar Pétur Geirsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Kristján Freyr Helgason
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Kristín Björnsdóttir
Tourette-samtökin á Íslandi – Íris Árnadóttir

Starfsfólk ÖBÍ

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Sigurjón Sveinsson, lögfræðingur
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritar

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, setti fund kl. 17:00 og bauð fundarmenn velkomna. Formaður lagði til að Erna Arngrímsdóttir yrði fundarstjóri og Klara Geirsdóttir tímavörður. Samþykkt. Fulltrúar kynntu sig. Tveir aðilar voru frá þremur félögum, ADHD samtökunum, Geðhjálp og Sjálfsbjörg. Fundarmenn samþykktu að þeir sem ekki væru fulltrúar síns félags gætu setið fundinn sem áheyrnarfulltrúar.

2.  Fundargerð frá 30. október 2014 borin upp til samþykktar.

Klara Geirsdóttir fór yfir athugasemdir sem komu við fundargerðina og var hún samþykkt með áorðnum breytingum.

Klara sagði frá því að skýrslu nefndar um almannatryggingar hafi ekki verið skilað inn og ekki hefur heyrst frá formanni nefndarinnar. Ef fréttir berast af því hvernig mál standa verða aðalstjórnarfulltrúar látnir vita.

3.  Á döfinni – frá formanni.

Formaður sagði frá hugmynd Halldórs Sævars Guðbergssonar, sem sneri að  verkefninu Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana. Verkefnið snýst um að send eru bréf til stofnana frá sveitarfélögum og ríki þar sem hvatt er til að fundin verði störf fyrir fólk með skerta starfsgetu. Verkefnið var sett af stað í samstarfi við Þroskahjálp á ársfundi Vinnumálastofnunar haustið 2014. Opnuð hefur verið gátt þar sem stofnanir og fyrirtæki geta skráð inn störf sem henta fólki með skerta starfsgetu. Nafn verkefnisins kemur frá Velferðarvaktinni og passar hugmyndin vel við skýrslu ÖBÍ sem lögð var fyrir nefnd um almannatryggingar. Í skýrslunni var rætt um eina stofnun í stað þriggja, það er Vinnumálastofnunar, Sjúkratrygginga Íslands og Tryggingastofnunar.

Ný lög bandalagsins kalla á endurskoðun skrifstofu þess. Huga þarf að því hvernig skipuleggja eigi starfsemina og hvernig verkefni starfsfólks passa við málefnahópa sem stofnaðir verða. Framkvæmdastjórn hefur fengið stjórnunarráðgjafa til að taka þetta verkefni að sér.

Fundur var haldinn með fjármálaráðherra í lok nóvember og fór formaður og Sigurjón Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ á fundinn. Meðal annars var fjallað um hvernig betur mætti deila opinberu fjármagni og orðanotkun. Formaður bað fjármálaráðherra um að sýna ósk ÖBÍ skilning. Daginn eftir var tilkynnt að hækkun yrði 3% en ekki 3,5%.

Grasrótin hefur lifnað við innan ÖBÍ og hafa hópar, eins og kjarahópur, hópur um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og nefnd um algilda hönnun, almennt orðið virkari með haustinu og stækkað. Málefnahóparnir verða grunnur alls starfs í framtíðinni og því er gott að fólk hugi að því hvort það hafi áhuga á að bjóða sig fram sem formenn í þá.

ÖBÍ, Heyrnarhjálp, Félag heyrnarlausra og Fjóla skrifuðu sameiginlega ályktun um að mannréttindi væru brotin á heyrnarlausum. Var hún send öllum þingmönnum og ráðherrum, ásamt greinargerð þar sem stuðst var við SRFF.

ÖBÍ stóð fyrir því að nokkur aðildarfélög þess hittust, ræddu málin og skrifuðu sameiginlega umsögn um sameiningu nokkurra stofnana í nýja þjónustustofnun. Gaman var að fara á fund nefndasviðs Alþingis þar sem fulltrúar ÖBÍ og þeirra aðildarfélaga sem að umsögninni stóðu sátu saman og voru sammála um málið. Það er styrkur að fleiri skrifi umsagnir og mæti á fundi með þingnefndum.

Ársfundur Mannvirkjastofnunar og byggingafulltrúa var haldinn 30. október á Akureyri. ÖBÍ var með erindi á fundinum sem Harpa Ingólfsdóttir hjá Góðu aðgengi, Arnar Helgi Lárusson, SEM og Lilja Sveinsdóttir, Blindrafélaginu fluttu. Margir byggingafulltrúar komu til þeirra eftir fundinn og þökkuðu kærlega fyrir þeirra innlegg og að það hafi haft áhrif á þá.

Reglulegir fundir eru haldnir með háskólasamfélaginu og rætt er um starfsemi réttindagæslumanna. Ráðstefna ÖBÍ sem haldin var 20. nóvember lukkaðist mjög vel. Á ráðstefnunni var sett af stað undirskriftarsöfnun þar sem Alþingi er hvatt til að innleiða SRFF. Rúmlega 2000 hafa skrifað undir en gott væri ef hægt væri að skila inn 9% þjóðarinnar, sem er um það bil fjöldi félaga í aðildarfélögum bandalagsins. Formaður hvatti fundarmenn til að skrifa undir og setja inn tengingu á sínar heimasíður. Afhending Hvatningarverðlauna ÖBÍ 3. desember tókst mjög vel. 10. desember er alþjóðlegur mannréttindadagur og hefur verið reynt að vekja athygli fjölmiðla á nýju myndbandi sem ÖBÍ hefur látið gera um SRFF.

Umræður og fyrirspurnir

Engar spurningar eða umræður voru.

4.  Starfs- og fjárhagsáætlun ÖBÍ 2015. Kynning og umræður.

Starfsáætlun ÖBÍ 2015

Formaður kynnti drög að starfsáætlun ÖBÍ 2015, sem lögð var fram til kynningar og bað fundarmenn um að koma athugasemdum til sín ef einhverjar væru.

Formaður las starfsáætlunina í heild sinni og bætti við einstaka atriðum, svo sem að nokkrir einstaklingar voru styrktir til að fara í sumarskóla um SRFF til Galway, Írlandi, sumarið 2014. Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi hefur starfað hjá ÖBÍ í 16 ár en mun ljúka störfum í árslok 2014. Rétt þótti að minna á að ÖBÍ er skrifstofa aðildarfélaga bandalagsins. Ef opnir viðburðir eru hjá félögunum er fínt að fá þá inn í viðburðadagatal ÖBÍ. Auglýsingar á Facebook eru ódýrar en skila sér gríðarlega. Unnið er að því að gera heimasíðu bandalagsins snjalla og verður árið 2015 notað til að þróa innri vef bandalagsins. Fundur var haldinn með fjölmiðlum í byrjun árs 2014 og hefur umhverfið verið vinalegra eftir það. Skilgreina þarf betur hvaða mál þarf að ræða í fjölmiðlum. Unnið hefur verið að því að koma ráðgjöf sem ÖBÍ hefur sinnt til lögbundinna aðila og hefur það gengið vel, létt hefur á ráðgjöf bandalagsins og fer fólk frekar strax á rétta staði. ÖBÍ hefur ráðist í nokkur dómsmál og er mikið um gjafsóknir. Skýrsla um starfsgetumat hefur verið kynnt í aðalstjórn og fékk aðstoðarmaður félags- og húsnæðismálaráðherra kynningu á henni.

Þó að sumum verkefnum sé nánast lokið þótti rétt að hafa þau með í áætluninni þar sem þeim er ekki að fullu lokið. Nefnd um greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu hefur ekki lagt fram sína tillögu að kerfi. Gott væri ef ÖBÍ legði fram sína lýsingu á nýju kerfi fremur en að segja við viljum ekki það kerfi sem nefndin leggur til.

Umræður og fyrirspurnir

Nokkrir aðalstjórnarfulltrúar tóku til máls. Spurt var um það hvort fundarsalur ÖBÍ væri með búnað til að halda fjarfundi? Aðalstjórn hefur samþykkt að festa kaup á slíkum búnaði. Formaður svaraði því til að leitað hefur verið til ráðgjafa sem vinnur að því að finna út hvers konar búnað ætti að kaupa.

Spurt var um það hvort að umsagnir fari á innri vef? Svarið var að þær eru nú þegar á heimasíðu bandalagsins og verða þar áfram því fjölmiðlar og almenningur þarf að sjá hvaða athugasemdir bandalagið gerir.

Lagt var til að hafa aðgengisfulltrúa hjá Sjálfsbjörg eða SEM samtökunum, ef bandalagið ræður einn slíkan, þar sem þau aðildarfélög hafa aðgengi sem sitt fyrsta mál. Formaður sagði að mikið hafi verið óskað eftir því að aðgengismálum sé betur sinnt og því er mjög líklegt að einn af málefnahópunum fjalli um aðgengi. Ef svo verður er mikilvægt að aðgengisfulltrúi hafi aðsetur á skrifstofu ÖBÍ svo hann sé í góðum tengslum við þá sem vinna að SRFF og aðra.

Nefnt var að fulltrúar séu duglegir að ræða um bandalagið sem slíkt, stefnumótun og annað en á sama tíma sé ekki rætt um baráttumálin. Aðalstjórnarfundir þyrftu að snúast meira um baráttumál, því talað er um breytingu á greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfi og almannatryggingakerfi. Ekki er alltaf neikvætt að standa vörð um það sem hefur náðst, breytingar eru ekki alltaf framfarir. Ræða þarf málin opinskátt því hjálplegt er að fá sem flestar skoðanir fram. Talað er um gagnsæi en ekki er hægt að svara tölvupósti sem sendur er frá bandalaginu þannig að hann fari til allra sem fengu upprunalegu sendinguna. Fundirnir gætu verið mjög gagnlegir ef fundarmenn væru virkjaðir betur. Formaður sagði að baráttumál bandalagsins séu rædd í bakhópum ÖBÍ og er öllum frjálst, með stuðningi síns aðildarfélags, að taka þátt í kjarahópi ÖBÍ sem dæmi. Þar er grasrótin og fólk gefur sig fram í þessa sjálfboðavinnu.

Ánægja var með að innri vef yrði komið upp. Hægt væri að hafa hópavinnu í gangi á innri vefnum þar sem upplýsingum og öðru væri komið á framfæri. Lagt var til að í stað þess að bandalagið prenti út allt sem ræða þarf um á fundinum á pappír, sem er einstefnu miðill, verði öryrkjar styrktir til að kaupa tvístefnutæki eða smátölvu, þannig að allir fundarmenn geti fylgst með og að þeir séu ein heild sem tali saman. Framkvæmdastjóri sagði að á innri vef ættu að vera gögn sem varða aðildarfélögin, aðalstjórnarfulltrúa o.fl. Fara þarf í þarfagreiningu á innri vef.

Nefnt var að mikilvægt sé að gæta aðhalds í útgjöldum. Í fjárhagsáætlun kemur fram fjórföld hækkun á sumum kostnaðarliðum. Formaður minnti á að bandalagið á gríðarlega mikið handbært fé og hefur verið gagnrýnt fyrir það. Mörg brýn verkefni liggja fyrir og þótti rétt að nota þær tekjur sem inn koma, meðal annars fá aðildarfélögin að njóta þess.

Fjárhagsáætlun ÖBÍ 2015

Framkvæmdastjóri kynnti drög að fjárhagsáætlun ÖBÍ 2015, sem lögð var fram til kynningar og bað fundarmenn um að koma með athugasemdir ef einhverjar væru. Fullbúin áætlun verður lögð fram á aðalstjórnarfundi í janúar 2015.

Framkvæmdastjóri fór yfir fjárhagsáætlunina lið fyrir lið og sagði meðal annars að rekstrarhagnaður hafi verið góður á árinu 2014 og mun framkvæmdastjórn leggja fram tillögu um ráðstöfun hans á aðalstjórnarfundi í janúar 2015. Gert er ráð fyrir að tekjur ársins 2015 verði 418.500.000 kr., sem er í raun tekjulækkun, því óvanaleg hækkun hefur verið á lottótekjum síðustu tvö ár. Aukning hagnaðar hefur verið mun meiri hérlendis en á hinum norðurlöndunum. Hluti af húsnæði í Sigtúni 42 er leigður út og fást tekjur af því.

Varðandi gjöld þá hefur framlag til Brynju hússjóðs Öryrkjabandalagsins lækkað hlutfallslega miðað við innkomu bandalagsins frá Íslenskri getspá. Hlutur aðildarfélaganna hefur ekki hækkað að raungildi á undanförnum árum en aðildarfélögum hefur fjölgað og er því lögð til hækkun þar. Aðrir styrkir renna til fólks eða félagasamtaka sem tengjast ekki aðildarfélögum ÖBÍ beint. Fé sem merkt er innlendu hjálparstarfi hefur runnið til Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstofnunar kirkjunnar. Aðgengi að bílastæðum fyrir utan Sigtún 42 þarf að laga, útihurð og fleira. Kostnaður er við breytingar á B álmu svo að hægt sé að koma fyrir fleiri leigjendum þar sem nú er eitt stórt rými. Tap er áætlað 27.100.000 kr. en komið verður til móts við það með handbæru fé.

Grétar Pétur Geirsson, gjaldkeri ÖBÍ, sagði að fjárhagsáætlunin væri metnaðarfull, alltaf væri beðið eftir því að tekjur frá Íslenskri getspá lækki og því væri ábyrgt að hafa tekjutöluna ekki hærri en fram kemur í áætluninni. Framlag til Brynju hússjóðs hækkar um 45%, sem er hækkun upp á 22% milli ára, frá 2014 til 2015. Tvö lykilatriði eru í rekstri ÖBÍ, það er að styrkja Brynju og aðildarfélögin. Mikið er um óvissuþætti, eins og auglýsingar og kynningar, funda- og ráðstefnukostnað, vegna nýrra laga hefur verið bætt við stefnuþingi, formannafundum og fleiri fundum og þarf að leigja húsnæði undir þessa fundi. Eins koma málefnahóparnir inn af fullum þunga, sem er framfaraspor innan bandalagsins.

Umræður og fyrirspurnir

Tveir aðalstjórnarfulltrúar lýstu yfir ánægju sinni með fjárhagsáætlunina og sögðu að margt væri komið inn sem þeim hefði fundist vanta. Á meðan fjármagn er til á að nota það. Fundarmenn voru hvattir til að koma sínum málstað að ef viðkomandi fyndist hann vanta. Spurt var hvort stofnun eins og H-SEM sem hefur gert góða hluti í samfélaginu, byggt eignir og rekur stofnun sem leigir íbúðir til fólks með mænuskaða og klofinn hrygg, geti sótt um aðra styrki? Formaður svaraði því til að sjálfsagt væri að sækja um. Fjallað yrði um umsóknina og niðurstaða fengist.

Nefnt var að gott væri að setjast yfir það sérstaklega hvaða aðildarfélög standa að rekstri húsnæðis og athuga hvort ekki væri hægt að aðstoða félög út úr þeim vandræðum sem því getur fylgt.

Framkvæmdastjóri sagði að framkvæmdastjórn ætli sér að útbúa reglur um aðra styrki. Það kemur í ljós eftir áramót hvernig þær verða.

Hlé var gert í 8 mínútur.

5.  Tillaga að breyttu rekstrarformi Hringsjár náms- og starfsendurhæfingar. Helga Eysteinsdóttir forstöðumaður og Halldór Sævar Guðbergsson, formaður stjórnar Hringsjár kynna.

Helga Eysteinsdóttir forstöðumaður og Sigurjón Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ ræddu um breytt fyrirkomulag Hringsjár, í fjarveru Halldórs.

Helga sagði frá því að Hringsjá hefur starfað frá 1987 og er markmiðið að vera með starfsendurhæfingu í formi náms. Fólk byrjar á því að fara á alls konar námskeið, t.d. í lífsleikni, tölvu og tungumálum. Svo hefst námið sem kennt er alla virka daga vikunnar. Bæði er hægt að taka fornám og eininganám og útskrifast nemendur með einingar. Kennarar eru fagmenntaðir, með réttindi á framhaldsskólastigi. Stoðþjónusta er öflug, fjölskylduráðgjöf, fjárhagsráðgjöf o.fl. Endurhæfingin er alhliða, tekið er á þeim þáttum sem viðkomandi þarf að taka á. Flestir nemendur eru með geðraskanir, endurhæfingin eflir sjálfstraust, snýst um það hvernig maður kemur fram, hvernig maður kynnir sig, o.s.frv. Innan við 70% nemenda borða morgunmat áður en þeir koma í skólann svo að haft var samband við Lýsi hf. og nú fá nemendur lýsi og hafragraut á morgnana ef þeir vilja. Eftirfylgni er ef fólk heldur áfram í námi en einnig er hægt að taka hluta af náminu hjá Hringsjá.

Ástæða þess að hugað er að því að breyta Hringsjá í sjálfseignarstofnun er að Menntamálaráðuneytið, VIRK starfsendurhæfingarsjóður og Vinnumálastofnun stoppa við rekstrarformið. Spurningin er alltaf, hvað er Hringsjá, hvert er form þess?

Sigurjón sagði frá því að honum hafi verið gefið það verkefni að skýra rekstrarformið og að aðgreina ábyrgð Hringsjár og ÖBÍ, þannig að ÖBÍ sé ekki ábyrgt fyrir öllu sem fram fer í Hringsjá. Hann skoðaði því sambærilegar stofnanir og niðurstaðan var að rekstrarform Hringsjár yrði sjálfseignarstofnun sem stundar ekki atvinnurekstur. Það hefur sýnt sig að vel gengur hjá þeim sem skilgreina sig sem sjálfseignarstofnanir og eiga samskipti við opinbera aðila og gera við þá samninga. Skipulagsskráin er unnin upp úr leiðbeiningum sem sýslumaður á norðurlandi veitti.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar, t.d. að stjórn Hringsjár boði ársfund. Leggja þarf til lágmarks stofnfé skv. lögum. Væntanlega verður upphæðin hærri, til að tryggja það að hægt sé að standa við skuldbindingar og fleira sem er fyrir hendi núna.

Umræður og fyrirspurnir

Framkvæmdastjóri sagði að breyting á rekstrarfyrirkomulagi hafi staðið til í nokkur ár og hafa Menntamálaráðuneytið, VIRK og Vinnumálastofnun kallað eftir því. ÖBÍ mun áfram skipa í stjórn Hringsjár, en þarf ekki að greiða tap ef slíkt verður. Heimild aðalstjórnar þarf til að hægt sé að sækja um til Sýslumanns á Sauðárkróki að breyta rekstrarfyrirkomulaginu.

Spurt var hvaðan fé kemur til rekstursins? Hvað verður um eignir Hringsjár? Eru lífeyrisskuldbindingar á Hringsjá og ef svo er hvernig verður tekið á því máli? Kjósa á um stjórn í október en ársfundur er í júní, er skipt um stjórn á miðju ári? Svörin voru þau að peningar til reksturs koma að stærstum hluta frá Vinnumálastofnun, sem hefur umsjón með samningi Hringsjár við ríkið. Samningar eru einnig við VIRK og Reykjavíkurborg. Eignir Hringsjár eru tölvur og húsgögn. Engar lífeyrisskuldbindingar eru fyrir hendi. Það er krafa skv. lögum að hafa ársfund og er helmingur stjórnar tilnefndur á hverju ári. Gott er að nýir stjórnarmeðlimir taki þátt í gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta starfsár. Ástæða júní dagsetningarinnar er að gott er að ljúka vinnunni í skólalok.

Hvert er hlutverk ársfundarins? Hvar er ársreikningur samþykktur? Þarf ekki að skilgreina að fyrir ársfundi liggur reikningur og skýrsla stjórnar?

Það kemur fram í 10. grein draganna.

Formaður lagði til að samþykkt yrði að Hringsjá yrði gerð að sjálfseignarstofnun. Stjórn Hringsjár verði falið að útfæra skipulagsskrána betur í tengslum við þær tillögur og ábendingar sem fram komu á fundinum.

Tillaga formanns var samþykkt með meirihluta atkvæða. Stjórn Hringsjár er falið að endurskoða skjalið og tekið verður við ábendingum næstu tvær vikur á netfangið sigurjon@obi.is.

6.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur verður haldinn þann 14. eða 21. janúar 2015.

7.  Önnur mál.

a)    Bifreiðamál.

Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörg, sagði frá því að vinnu varðandi styrkveit-ingar til bílakaupa sé að ljúka. Lagt verður til að styrkir hækki verulega frá því sem nú er. Settir hafa verið plástrar á kerfið í gegnum tíðina en nú virðist ætla að takast að endurskoða það frá grunni. Sátt er að nást í málinu en nokkrir endar eru enn lausir.

b)   Ferðaþjónusta fatlaðra.

Bergur Þorri Benjamínsson, Sjálfsbjörg, sagði frá því að fundur var haldinn með fjármálastjóra Strætó ásamt fleirum í tengslum við ferðaþjónustu fatlaðra. Illa hefur gengið hjá þeim frá því þeir tóku við þessu, þeir hafa m.a. skilið fólk með alzheimer eftir eitt. Þeir lofa bót og betrun og afsaka sig mjög. Gott væri að fá athugasemdir og sögur frá fólki.

c)    Nefnd um endurskoðun almannatryggingalaga.

Garðar Sverrisson, MS félaginu, sagði að hann hefði sent aðalstjórnarfulltrúum bréf eftir síðasta aðalstjórnarfund og vonaðist til að sem flestir hefðu séð það. Lista þarf upp hvað er til umræðu varðandi svokallaða einföldun á bótakerfinu, hvað vilja menn og hvað ekki. Nýta á lýðræðið og fá sem flest sjónarmið fram. Ræða þarf opinskátt um málin og þurfa fulltrúar að fá að sjá bókanir eða annað sem leggja á fram til að það sé hægt.

Klara Geirsdóttir, CP félaginu, svaraði því til að nefndarmenn hefðu verið beðnir um trúnað og þótti mikilvægt að halda hann og því var bókunin ekki lögð fram á síðasta aðalstjórnarfundi. Mikilvægt var að fá viðbrögð fundarmanna og kynna málið.

Formaður sagði að starfi nefndarinnar hefði verið að ljúka og verið var að þrengja að fulltrúum ÖBÍ og því þótti nauðsynlegt að kalla saman aðalstjórn með stuttum fyrirvara til að vita hvernig ætti að snúa sér í málinu. Daginn eftir kom í ljós að enginn fundur yrði haldinn og vitum við ekkert um hvað er að gerast í nefndinni, því var engin þörf á að leggja fram bókun. Vinnan var endurskoðuð út frá þeim athugasemdum sem fram komu á aðalstjórnarfundinum. Óþarfi er að ræða hluti sem aldrei verða samþykktir. Treysta þarf þeim sem sitja í nefndum. Hvatti fulltrúa til að taka þátt í þeim bakhópum sem vinna innan bandalagsins.

Garðar sagði að þetta snerist ekki um vantraust. Það hafi staðið skilmerkilega að fulltrúar voru boðaðir til að taka málefnalega afstöðu, en til þess þarf að vita um hvað málið snýst. Taldi að leyndin væri ofmetin, hlutirnir eru ræddir víða innan stjórnmálaflokka, atvinnurekenda, lífeyrissjóða og fleiri aðila. Draga á saman meginpunkta og opna umræðuna innan ÖBÍ.

d)   Þakkir.

Framkvæmdastjóri þakkaði Guðríði Ólafsdóttur sérstaklega fyrir frábært starf í þágu bandalagsins. Guðríður hóf störf 1. september 1998 og hefur starfað hjá ÖBÍ í rúm 16 ár, var lengst af í fullu starfi, en var í hálfu starfi síðasta ár. Þekking hennar og reynsla hefur verið bandalaginu ómetanleg og verður leitað til hennar áfram. Hún þekkir m.a. vel til almannatryggingakerfisins, ferlimála, skattamála, hjálpartækja.

Guðríður þakkaði fyrir sig og sagði að sér hefði verið sagt að hún ætti að vera til á hverju heimili uppi í bókahillu.

8. Fundarslit.

Formaður sleit fundi kl. 19:55.

Fundarritarar:

Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.