Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar 13. desember 2012 

By 21. janúar 2013No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 13. desember 2012, kl. 17.00 – 19.00 á Grand hóteli, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás styrktarfélag – Guðrún Þórðardóttir
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
Blindravinafélag Íslands – Gísli Helgason
CCU samtökin – Edda Svavarsdóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Heiðdís D. Eiríksdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Guðmundur S. Johnsen
Fjóla – Ágústa Gunnarsdóttir
FSFH – Ásta Björk Björnsdóttir
Geðverndarfélag Íslands – Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
HIV Ísland, alnæmissamtökin á Íslandi – Svavar G. Jónsson
Hugarfar – Sigríður Ósk Einarsdóttir
LAUF – samtök flogaveikra – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg – Guðbjörg Ása Jónsdóttir Huldudóttir
Málefli – Þóra Sæunn Úlfsdóttir
ME félag Íslands – Nanna G. Yngvadóttir
MG félag Íslands – Pétur Halldór Ágústsson
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson
MS félag Íslands – Sigurbjörg Ármannsdóttir
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Bryndís Snæbjörnsdóttir
Tourette samtökin – Arna Garðarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ:

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ:

Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari og starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, setti fund kl. 17.15, bauð fundarmenn velkomna og bað þá að kynna sig.

2.  Fundargerð frá 27. september 2012 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

3.  Skýrsla formanns.

Formaður stiklaði á stóru í skýrslu sinni. Aðalfundur var haldinn 20. október en þar sem ekki náðist að klára fundinn var honum frestað til 7. nóvember. Miklar umræður voru á fundinum og ljóst er að endurskipuleggja þarf ýmislegt, bæði varðandi aðalfundi bandalagsins og bandalagið almennt.

Í fjárlögum 2013 er gert ráð fyrir að bætur hækki um 3,9% en álögur og gjöld um 4,6%. Fjármagn skortir til að framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 nái fram að ganga en 10 milljónir voru samþykktar til að endurskoða þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi fatlaðs fólks. Engar áætlanir eru um leiðréttingu á þeim skerðingum á kjörum lífeyrisþega sem gerðar hafa verið.

Viðburður var við Alþingishúsið 13. nóvember. Að þeim undirbúningi stóð Kjarahópur ÖBÍ, Hvíta húsið aðstoðaði við hönnun á plakötum, Flikk flakk sem heldur utan um atburði bauðst til að vinna frítt og var Athygli almannatengsl einnig með enda var fjölmiðlaumræða mjög góð. Formönnum ríkisstjórnarflokkanna, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni var afhent stefna. 

Ríkinu var stefnt 26. nóvember þar sem greiðslur TR duga ekki til eðlilegrar framfærslu skv. þeim lögum sem eru í gildi í landinu. Þann 6. desember var málinu þinglýst. Lögfræðingur er Daníel Isebarn Ágústsson.

Fleiri dómsmál eru á leiðinni. Í undirbúningi er mál um komu- og umsýslugjöld gegn lækni og ríki til vara. Lögfræðingur er Daníel Isebarn Ágústsson. Réttur lögfræðistofa sér um tvö mál vegna ófullnægjandi framkvæmda á NPA annað gegn Reykjavíkurborg og hitt gegn Akranesi.

Formaður sat fund EDF 17. og 18. nóvember 2012 á Kýpur. Vegna lélegs aðgengis á hótelinu voru færri fulltrúar mættir en vanalega. Á fundinum var meðal annars rætt um innleiðingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks á vettvangi ESB. Sagt var frá innleiðingu framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks í Frakklandi og Austurríki. Farið yfir aðalbaráttumál EDF sem eru svokallað Mobility card og European Accessibility Act. Ályktun var samþykkt á fundinum sem bar yfirskriftina „Fjárhagskreppa er að verða að mannréttindakreppu“.

Kærleikskúla Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra var afhent og hlaut Jón Margeir Sverrisson sundkappi og ólympíumethafi kúluna í ár.

Hvatningarverðlaun ÖBÍ voru afhent á alþjóðadegi fatlaðra 3. desember og fékk Inga Björk Bjarnadóttir verðlaunin í flokki einstaklinga fyrir að vera öðrum fyrirmynd og berjast fyrir bættu aðgengi og þjónustu fyrir fatlað fólk í Borgarbyggð, Gerpla fimleikafélag í flokki fyrirtækja/stofnana fyrir að hafa, eitt íþróttafélaga, boðið upp á fimleikaþjálfun fyrir fólk með þroskahamlanir allt frá árinu 1997 og Lára Kristín Brynjólfsdóttir í flokki umfjöllunar/kynningar fyrir baráttu og hugrekki við að vekja umræðu um einhverfu og auka skilning almennings og heilbrigðisyfirvalda á stöðu fullorðinna á einhverfurófi.

Umræður

Spurt var um orðið innleiðingu í tengslum við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Formaður sagði að ekki væri hægt að vita hvor leiðin yrði farin, fullgilding eða lögfesting og því noti hann orðið innleiðingu sem samheiti yfir fullgildingu eða lögfestingu í umræðum um samninginn.

Bent var á að höfða ætti til þingmanna sjálfra og skrifast á við þá því ljóst væri að ríkisstjórnin væri óvinur ÖBÍ. Formaður hvatti aðildarfélögin til að vera dugleg að hafa samband við þá þingmenn sem félögin eru í tengslum við.

Ítrekuð var sú skoðun að bandalagið ráði til sín kynningarfulltrúa til að stjórna viðburðum, búa til plan um hvernig nálgast eigi stjórnvöld, hvar og hvernig eigi að mótmæla og hvernig eigi að mata menn á upplýsingum.

Athygli var vakin á mikilvægi þess að meirihluti nefndar, sem skipa á til að sjá um endurskoðun á bandalaginu, verði úr röðum fatlaðra og áréttað í því sambandi að mikill meirihluti framkvæmdastjórnar ÖBÍ væri núna skipaður ófötluðum.

Í skýrslu formanns var minnst á mál sem einstaklingar munu sækja fyrir rétti með stuðningi bandalagsins. Í tengslum við það var spurt hvar mál tengt sérstökum húsaleigubótum væri statt? Fólki er mismunað því þeir sem leigja á almennum markaði í Reykjavík eiga rétt á sérstökum húsaleigubótum en ekki þeir sem leigja hjá Brynju hússjóði. Reka þarf þetta mál sem dómsmál til að Reykjavíkurborg standi við sitt. Formaður sagði að Daníel Isebarn Ágústsson, lögfræðingur, væri að vinna í þessu máli og að leitað hefði verið að góðu dæmi um slíka mismunun og virðist það vera fundið nú.

4.  Fjárhagsáætlun ÖBÍ 2013 kynnt og umræður um hana.

Framkvæmdastjóri kynnti tillögu framkvæmdastjórnar að fjárhagsáætlun ÖBÍ 2013. Gert er ráð fyrir að hún verði tekin fyrir á aðalstjórnarfundi í janúar 2013. Fjárhagsáætlun ásamt yfirliti yfir greiðslur frá Íslenskri getspá var send aðalstjórnarfulltrúum og fór framkvæmdastjóri yfir hvorutveggja.

Rekstrarhagnaður hefur aukist síðustu ár ásamt því að varlega hefur verið farið í fjárhagsáætlanir og því hefur myndast hagnaður ár hvert frá 2007. Safnað hefur verið í varasjóð á löngum tíma og eru rúmar 90 milljónir í honum. Sjóður er til upp á rúmar 200 milljónir sem gefinn var bandalaginu og er ætlaður til kaupa á húsnæði fyrir bandalagið. Lausafjárstaða er góð. Gert er ráð fyrir tekjulækkun á árinu 2013 vegna tilkomu Eurojackpot, því það hefur sýnt sig að slíkar breytingar geti haft áhrif til lækkunar í um það bil tvö ár.

Lagt er til að hækka framlag til Brynju hússjóðs úr 80 milljónum í 90 milljónir því að fleira fólk á í vandræðum með húsnæði en áður. Lagt er til að upphæð styrkja til aðildarfélaga verði óbreytt, 50 milljónir og úthlutun í aðra styrki verði 5 milljónir. Liðurinn sálgæsla- og félagsstarf eða djákni fellur niður, það er mat framkvæmda-stjórnar að kirkjan eigi alfarið að standa að slíkum greiðslum. Innlent hjálparstarf verði 2 milljónir og að Fötlunarfræði við HÍ verði styrkt um 5 milljónir, það samsvarar hálfri lektorsstöðu og er greiðsla fyrir starfsmann til að koma á fót námi á BA stigi.

Launakostnaður hækkar miðað við óbreyttan starfsmannafjölda og með tilliti til launahækkana vegna kjarasamninga. Stöðugildum hefur fjölgað um 3½ á 4 árum og eru nú 8,25. Umsvif bandalagsins hefur aukist í takt við fjölgun aðildarfélaga. Fundum hefur fjölgað, erfiðara og tímafrekara er að leysa ýmis mál vegna kreppunnar og aukinna lagaflækja. Löngu tímabærar launaleiðréttingar voru gerðar á árinu 2012 og hafa launatengd gjöld hækkað. Endurskoða þarf störf og verklag til að gera starfið skilvirkara.

Gert er ráð fyrir að lögfræðikostnaður verði 10 milljónir, en til stendur að fara í nokkur dómsmál á næstunni. Funda- og ráðstefnukostnaður verði 6 milljónir, meðal annars vegna alþingiskosninga. Túlkaþjónusta verði 3 milljónir, fundir erlendis 2 milljónir og kynningar og auglýsingar 15 milljónir. Vegna alþingiskosninga hækkar kostnaður við auglýsingar hugsanlega. Aðkeypt þjónusta, ráðgjöf og rannsóknir hækkar. Undir það fellur meðal annars starf ritstjóra, rannsókn sem ber yfirskriftina „Hvaða þættir stýra vali einstaklinga á búsetu?“, þjónusta tryggingastærðfræðinga og fleiri aðila. Gert er ráð fyrir að kostnaður við tímarit bandalagsins verði 10 milljónir á ári því gefin verða út tvö tölublöð ár hvert. Einnig á eftir að ganga frá kaupum á fjarfundabúnaði. Hvatningarverðlaun verði 2 milljónir í stað 1,5 því fá þarf stærri sal með betra aðgengi á næsta ári. Kvennahreyfing verði 1 milljón, allur kostnaður, t.d. varðandi auglýsingar, er innifalinn í þeirri upphæð.

Umræður

Spurt var hvort störf á skrifstofu væru hálaunuð miðað við að stöðugildi séu 8,25 eða í hverju hækkunin liggi? Framkvæmdastjóri svaraði því til að meðal annars hafi ástæða hækkunarinnar verið sú að ferlimálafulltrúi var ráðinn tímabundið og lögfræðingur í 50% starf.

Nefnt var að bakhópur ÖBÍ vegna endurskoðunar laga um almannatryggingar hafi nánast lognast út af því að lögfræðing vantaði, hann væri upptekinn af dómsmálum. Spurt var hvort ÖBÍ ætli ekki að leggja áherslu á endurskoðun þessara laga? Formaður svaraði því til að sjá þurfi til þess að lögfræðingur skrifstofunnar aðstoði nefndir og sjái um ráðgjöf en sé ekki á kafi í málaferlum. Nýráðinn lögfræðingur er enn að koma sér inn í málin og hefur því ekki getað sinnt bakhópnum, hugmynd var um að fá utanaðkomandi aðila til að klára þessa vinnu.

Styrk til Brynju hússjóðs var fagnað. Bent var á að fyrirtæki ÖBÍ, TMF tölvumiðstöð (áður Tölvumiðstöð fatlaðra), Hringsjá, náms- og starfsendurhæfing og Örtækni (áður Vinnustaðir ÖBÍ) væru ekki nefnd í fjárhagsáætlun. Spurt var hvort svelta ætti þessar stofnanir? Hvernig á TMF til dæmis að geta gegnt hlutverki sínu nema að fyrirtækinu sé tryggt fé? Framkvæmdastjóri svaraði því til að TMF hafi fengið eina milljón króna í styrk árið 2012 og að Hringsjá sé nefnt í tillögum um ráðstöfun rekstrarhagnaðar. Gert sé ráð fyrir að styrkja breytingar á húsnæði Hringsjár.

Fleiri fundarmenn tóku undir það að styrkja ætti TMF tölvumiðstöð og jafnvel að setja inn sérlið í fjárhagsáætlun merkt TMF og annan merkt Hringsjá vegna mikilvægis starfs þeirra. Upplýst var að MND félagið hefur ákveðið að styrkja TMF tölvumiðstöð. Einnig var talað um að sameina þurfi tengda aðila eða skoða aukna samvinnu. Mikið hefur verið fjallað um málefni TMF innan framkvæmdastjórnar en aðildarfélögin og fulltrúar aðalstjórnar voru hvattir til að koma skriflegum athugasemdum varðandi TMF til skrifstofu ÖBÍ svo að hægt verði að fara yfir málið á framkvæmdastjórnarfundi. Áréttað var að fleiri félög eru eignaraðilar að TMF en ÖBÍ og þurfa þeir einnig að koma að málum og að framkvæmdastjórn hafi hugsað sér að kalla til þessa aðila og fá þá til að endurskoða starfsemina heildrænt. Framkvæmdastjóri sagði bandalagið hafa styrkt TMF í nokkur ár og eðlilegt væri að styrkja miðstöðina til sjálfshjálpar en ekki þannig að styrkurinn væri sjálfsagður hluti af rekstri.

Talað var um að athyglisvert væri að sífellt væri talað um að leita út fyrir raðir bandalagsins þegar ráða eigi ráðgjafa eða sérfræðinga, eflaust má finna marga góða fagmenn innan bandalagsins og virkja þurfi félagsmenn. Spurt var hvort lífeyrissjóðsgreiðslur væru ekki inni í launagreiðslum? Framkvæmdastjóri sagði lífeyrissjóðsskuldbindingar vera vegna fyrrum starfsmanna. Varðandi kynningarstörf þá sagði hún sjálfboðaliðastörf mjög góð og mikilvæg en stundum væri erfitt að fá fólk til starfa og þá þyrfti að nýta og ráða utanaðkomandi ráðgjafa eða sérfræðinga.

Einn fundarmanna sagðist ekki ánægður með að það væri ekki vilji til að leggja pening í kosningar, því mikilvægt væri fyrir bandalagið að þrýsta á þingmenn og stjórnvöld almennt. Nauðsynlegt er að hafa fólk í störfum til að sjá um þessi mál. Þakkað var fyrir fjárframlag sem sett var í talgervilinn. Félag lesblindra vinnur nú að svipuðu máli, eða raddgreini. Röddum hefur verið safnað svo að menn geti talað beint við tölvuna og hún framkvæmir samkvæmt því sem sagt er. Þetta nýtist lesblindum, hreyfihömluðum og fleirum. Vinna hefur hafist til að finna raddir sem stýra tölvum því þeir sem hafa mjóar eða gamlar raddir hafa ekki getað notað búnaðinn. Ekki hefur borist formlegt erindi frá félaginu til ÖBÍ um þetta mál en fyrsta útgáfa raddgreinisins er komin út. Google mun fjármagna búnaðinn en ÖBÍ gæti komið að vinnunni með því að fá fleiri raddir í verkefnið. Formaður sagði að eðlilegt væri að Félag lesblindra sendi inn styrkbeiðni vegna raddgreiningarverkefnisins.

Spurt var hvort framlag til Fötlunarfræði HÍ væri árlegt eða hlutastarf í eitt ár og hvort þetta væru laun vegna prófessorsstöðu? Formaður svaraði því til að þetta svaraði til hálfrar lektorsstöðu. Hluti af upphæðinni eru launatengd gjöld og fleira. Eva Þórdís Ebenezersdóttir, fyrsti formaður Hvatningarverðlauna ÖBÍ hefur unnið þessa undirbúningsvinnu fyrir fötlunarfræði HÍ, þannig að oft er leitað í raðir félagsmanna. Síðustu tvö ár styrkti ÖBÍ lektorsstöðu til að koma á námi á meistarastigi en nú er verið að styrkja starf til að koma á fót námi á BA stigi.

Framkvæmdastjóri sagði að framkvæmdastjórn legði til að rekstrarafgangi ársins 2012 verði ráðstafað til Brynju hússjóðs 21 milljón, þar sem aðildarfélögin fengu eingreiðslu í fyrra og mikil þörf er fyrir íbúðir núna, Hringsjá fái 3,3 milljónir til að innrétta húsnæði sem þau hafa á leigu hjá Sjálfsbjörg og að afgangur um 15 milljónir fari í varasjóð ÖBÍ. Einnig þarf að taka afstöðu til lausafjárstöðu en uppsafnaður rekstrarhagnaður inni á bók er um 200 milljónir. Vegna hugsanlegra kaupa á húsnæði var ákveðið að hafa fjármagn tiltækt.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra lagði til að 10 milljónir væru settar í varasjóð og 5 milljónir til TMF.

Guðbjörn Jónsson, Parkinsonsamtökunum lagði til að útdeiling á rekstrarafgangi yrði frestað til janúarfundar. Nokkrir fundarmanna tóku undir tillöguna.

Formaður tók undir með fundarmönnum og sagði að ákveða ætti útdeilingu rekstrarafgangs á janúarfundi ásamt tillögu Bryndísar. Huga þarf að því hvað gera eigi við lausafjárstöðuna.

5.  Nefnd til að endurskoða uppbyggingu og skipulag ÖBÍ sbr. samþykkt aðalfundar ÖBÍ 2012.

Formaður lagði til að hvert aðildarfélag sendi inn tillögur um einn til tvo aðila í nefndina. Framkvæmdastjórn mun fara yfir tillögurnar, setja saman 7 manna nefnd og ráða starfsmann. Margt þarf að hafa í huga, stærð félaga, tegund fötlunar o.s.frv.

Umræður

Spurt var hvort aðalfundur hefði ekki samþykkt að aðalstjórn fengi það hlutverk að skipa nefndina? Formaður sagði að aðalstjórn hefði endanlegt ákvörðunarvald. Mun gagnlegra er að félögin sendi inn hugmyndir sem framkvæmdastjórn vinni úr fyrir aðalstjórn og beri tillöguna undir aðalstjórn.

Spurt var fyrir hvaða tíma senda ætti inn tillögur? Formaður sagði að senda þyrfti inn tillögur til skrifstofu fyrir 8. janúar, því næsti framkvæmdastjórnarfundur væri haldinn 9. janúar 2013.

Nefnt var að vanda þyrfti til verka í að velja fulltrúa því að þetta væri verk fagmanna. Formaður sagði að mikilvægt væri að ráða utanaðkomandi starfsmann til að starfa með nefndinni.

Lagt var til að haldinn yrði sérstakur undirbúningsfundur til að ræða hlutverk nefndarinnar, hvort sem það væri aðalstjórnarfundur eða ekki. Greina þarf hvað er líkt með aðildarfélögunum og hvað er ólíkt og hvernig berjast eigi fyrir hagsmunamálum bandalagsins. Greina þarf tilganginn ofan í kjölinn, tryggja réttindi og að allir standi jafnfætis. Setja þarf nefndinni tímamörk, hvenær hún hefji störf og hvenær hún hætti. Starf í nefndinni verði launað.

Nefnt var að gott væri að ferilskrá fylgi tilnefningum, svo að hægt sé að sjá reynslu viðkomandi.

Formaður las bréf frá FAAS vegna tilnefningar í nefndina.

6.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur er áætlaður fimmtudaginn 17. janúar 2013 kl. 17:00 til 19:00.

7.  Önnur mál.

Ekkert var rætt undir liðnum önnur mál.

Fundi slitið 19.40.

Fundarritarar:

Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.