Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar 16. ágúst 2012

By 30. ágúst 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 16. ágúst 2012, kl. 17:00-19:00 í Hátúni 10, 9. hæð, Reykjavík

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
Blindravinafélag Íslands – Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir
FAAS – Fanney Proppe
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Snævar Ívarsson
Félag nýrnasjúkra – Hannes Þórisson
FSFH – Ásta Björk Björnsdóttir
Geðverndarfélag Íslands – Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
Hugarfar – Sigríður Ósk Einarsdóttir
LAUF – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg – Árni Heimir Ingimundarson
Málefli – Þóra Sæunn Úlfsdóttir
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson
MS félag Íslands – Sigurbjörg Ármannsdóttir
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg – Grétar Pétur Geirsson
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Vilmundur Gíslason
Tourette samtökin á Íslandi – Örnólfur Thorlacius
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Starfsfólk:

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Hrefna K. Óskarsdóttir, verkefnastjóri
Sigurjón Unnar Sveinsson, lögfræðingur
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður bandalagsins, bauð fundarmenn velkomna og lagði til að Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra og varaformaður ÖBÍ yrði fundarstjóri. Samþykkt. Hjördís tók við stjórn fundarins og bað fólk um að kynna sig.

2.  Fundargerð frá 20. júní 2012 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

3.  Skýrsla formanns.

Formaður las skýrslu sína sem dreift var til fundarmanna. Formaður rakti forsögu og framkvæmd kæru þriggja einstaklinga með ÖBÍ að bakhjarli vegna framkvæmdar forsetakosninganna 30. júní 2012, tæpti á lagagrunni sem vitnað var í í kæru og sagði frá niðurstöðu Hæstaréttar á málinu. Formaður sagði einnig frá ráðstefnu 11. október um 4. og 33. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem ÖBÍ hefur frumkvæði að.

Umræður

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, sagðist ekki alveg sammála skýrslu formanns varðandi hver geti breytt kosningalögum. Einnig sagði hann að sér vitanlega hefðu verið færri á fundi þar sem kosningarnar voru ræddar á fundi með lagastoð HÍ og ákveðið að leita ætti samþykkis að kæra kosningarnar. Það kom fram í máli Ægis að það væri skoðun MND félagsins að þetta hafi verið sóun á fjármunum bandalagsins. MND félagið er hins vegar ekki á móti því að fólk fái að kjósa með sínum aðstoðarmanni heldur gagnrýnir félagið ferlið og aðferðafræði bandalagsins við ákvörðunina um að kæra. Ægir taldi það hafa veikt málsstað bandalagsins að formaður þess hefði verið einn af kærendum því hann kaus eigin hendi. Ekki ætti að fara út í mál illa undirbúin eins og þetta virtist vera, sérstaklega þar sem hvorki er búið að lögfesta né fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi fatlaðs fólks. Þar sem aðalstjórn er æðsta vald á milli aðalfunda eiga öll stór mál að aðgreiðast þar. Ægir benti einnig á að einungis 173 aðilar hefðu þurft að fá aðstoð þeirra sem þeir völdu sjálfir en fengu ekki og það væri ekki mikill fjöldi miðað við heildarfjölda kjósenda.

Formaður útskýrði að fundur hefði verið haldinn með aðilum sem fengu að kjósa með aðstoðarmanni og þeim sem hefðu þurft að nýta sér aðstoð fulltrúa kjörstjórnar. Eftir þann fund hafði formaður samband við framkvæmdastjórn í gegnum síma og samþykkti öll stjórnin að kæra. Samþykktin var ekki rædd eða bókuð sérstaklega í fundargerð næsta framkvæmdastjórnar eftir þessa ákvörðun en bætt verður úr því. Svar formanns ÖBÍ við bréfi frá Guðjóni Sigurðssyni, formanni MND félagsins, var dreift til fundarmanna. Formaður sagði að misskilnings virðist gæta varðandi fundi sem haldnir voru áður en kosningarnar voru kærðar. Um hefði verið að ræða tvo fundi, annars vegar fundur sem fjallaði sérstaklega um málið og ákvörðun, þar sem ákvörðun var tekin um að kæra og hins vegar fundur með fulltrúum frá Lagastoð HÍ að þeirra beiðni til að fá upplýsingar um hvernig standa eigi að kynningu vegna undirbúningar kosninga. Síðari fundurinn tengdist ekki kærunni.

Nokkrir fulltrúar sögðust vera sammála bandalaginu að kæra kosningarnar og þó svo einstaklingarnir væru fáir þá er óréttlæti alltaf óréttlæti. Þetta ætti í raun ekki bara við fatlaða, heldur einnig sjúka og eldri borgara. Sumir vildu meina að fróðlegt hefði verið að sjá niðurstöðu Hæstaréttar og að hún endurspegli viðhorf þeirra til samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Guðbjörn Jónsson, Parkinsonsamtökunum, sagði að mistökin í þessu máli hefðu verið að fara ekki einu löglegu leiðina, að kæra kosningarnar til yfirkjörstjórnar fyrir kosningar. Ef yfirkjörstjórn hefði ekki getað svarað þeirri kæru hefði þeim sjálfum borið að fara með málið  fyrir Hæstarétt.

Sigurjón U. Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ, sagði að fullgilding eða löggilding samninga væri ekki aðalatriðið í málinu því tvö fordæmi eru fyrir því að Hæstiréttur hefði skýrt hugtök eins og „réttlát málsmeðferð fyrir dómi“ og síðan hugtökin „aðstoð“ og „framfærsla“ hefðu verið skýrð með hliðsjón af alþjóðasamningum sem ekki voru fullgiltir á þeim tíma sem dómarnir féllu. Má þar nefna „Öryrkjabandalagsdóminn“ og „Dómtúlksmálið“ hjá Hæstarétti. Miðað við þá leið sem Hæstiréttur valdi þá spyr maður sig af hverju mannréttindi fatlaðra eru minna virði en mannréttindi annarra.

Formaður þakkaði fyrir góða umræðu. Hann sagði að margir hefðu komið að máli við sig vegna kærunnar og einungis þrír hefðu ekki verið sammála því að kæra ætti kosningarnar.

4.  Skýrslur starfshópa ÖBÍ:

a)  Bakhópur um endurskoðun almannatrygginga (sjá meðfylgjandi glærur).

Sigurjón Unnar Sveinsson, starfsmaður hópsins og Guðbjörn Jónsson kynntu.

Sigurjón sagði frá því að Aðalheiður Ámundadóttir hefði tekið að sér að skrifa skýrslu varðandi mannréttindi tengd almannatryggingalögunum en vegna veikinda hefur það ekki orðið. Til að byrja með var rætt um galla laganna en nú hefur hópurinn snúið sér að tillögugerð og breytingum.

Guðbjörn sagði frá líkani að hugmyndafræði sem sýnir hvernig öryrkjar geti haft 330.000 kr. ráðstöfunarfé á mánuði. Gengið er út frá því að greiddur sé 250.000 kr. lífeyrir og að með viðbótar atvinnutekjum geti hver einstaklingur haft 330.000 kr. til ráðstöfunar. Þegar einstaklingur nær þeirri upphæð fara greiðslur TR að skerðast jafnt og þétt þar til þær falla út þegar atvinnnutekjur verða hærri en 330.000 kr. á mánuði.

Í dálkinum lengst til hægri (sjá meðfylgjandi excel skjal) má sjá hvaða upphæð ríkið greiðir, þó skerðingarmörk séu sett við 330.000 kr. Með slíkum lífeyri getur fólk tekið meiri þátt í mannlífinu, velta samfélagsins eykst og hærri upphæð fer í skatta og gjöld lenda aftur til ríkisins. Með aukinni veltu væri hægt að fjölga störfum og minnka greiðslu atvinnuleysisbóta.

Eins og meðfylgjandi reiknilíkan sýnir virðist hæsta raungreiðsla ríkissjóðs til aðila með engar atvinnutekjur vera 192.000 kr. eða sambærilegt við það sem greitt er nú. Með núverandi fyrirkomulagi getur viðkomandi ekki tekið þátt í verslun eða öðrum lífsgæðum í þjóðfélaginu, því þegar brýnustu nauðsynjar hafa verið greiddar eru engir peningar eftir til að auka veltu samfélagsins og njóta lífsgæða. Ef einstaklingur hefur 100.000 kr. eða meira í atvinnutekjur skerðast greiðslur TR eins sýnt er í töflunni. Greiðslur TR trappast svo niður á móti hækkandi atvinnutekjum. Með þessu móti hyrfi nánast þörfin fyrir endurkröfu og endurútreikningur reiknast sjálfkrafa með skattframtalinu. Aðhald yrði í gegnum ríkisskattstjórakerfið sem myndi bregðast strax við og lækka greiðslur frá TR ef tekjuaukning yrði innan ársins. Slíkt yrði mjög þægilegt í framkvæmd og mundi setja veltu þjóðfélagsins í virkilega sveiflu. Verið er að þróa þessa hugmyndafræði og tengja við sem flesta þætti í greiðslukerfi lífeyris frá TR.

b)  Kjarahópur (sjá meðfylgjandi glærur).

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, starfsmaður hópsins og Hilmar Guðmundsson kynntu.

Sigríður hvatti alla til að skrifa blaðagreinar um kjaramál og senda til skrifstofu ÖBÍ. Hægt er að taka fram að viðkomandi sé meðlimur kjararáðs ÖBÍ. Stefnt er að því að halda auglýsingaherferð í kringum setningu Alþingis. Einnig er stefnt að kynningarfundi um Öryrkjabandalagið í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg, sagðist vera í kjarahópnum og benti á að hann væri m.a. að skrifa opið bréf til  til Péturs H. Blöndal.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, þakkaði fyrir mjög góð störf þessara hópa og spurði hvort hægt væri að senda fundarboð til aðildarfélaganna svo að fólk gæti mætt ef það vildi á fundi.

Formaður svaraði því til að það hefði verið gert í upphafi og starfið hefði verið lengi í gang því að stöðugt var nýtt fólk að koma inn sem þurfti að fá upplýsingar. Smám saman hefur hópurinn orðið þéttari og er starfið komið á fullt. Hægt er að nálgast upplýsingar um fundartíma á skrifstofu ÖBÍ.

5.  Kynning á námskeiði sem haldið var á Írlandi í júní sl. um hvernig má nota samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks (sjá meðfylgjandi glærur).

Sigurjón U. Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ og Hrefna K. Óskarsdóttir, verkefnastjóri ÖBÍ sögðu frá námskeiði sem þau tóku þátt í á Írlandi um samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks og hvernig nota megi samninginn. Fyrirlesarar á námskeiðinu voru að mestu leyti fólk sem vann við gerð samningsins. Farið var í hópaverkefni um hvernig ætti að virkja fatlað fólk í baráttunni og voru sýndarréttarhöld haldin í lok námskeiðsins. Sigurjón sagði að nú væri hann gagnrýnni á lagatexta en áður og sagði að hægt hefði verið að nýta margt af námskeiðinu við gerð kærunnar vegna framkvæmdar forsetakosninganna.

Hrefna sagði að kafa þyrfti ofan í ákveðnar greinar samningins til að vita hvernig best sé að nýta þær í daglegu lífi og hvatti aðildarfélög til að velja sér ákveðnar greinar samningsins til að greina og skrifa um. Formaður ÖBÍ hefur sent tölvupóst til aðildarfélaga bandalagsins í tengslum við þá greiningu. Samningurinn er ekki og á ekki að vera fjarlægur fólki heldur fjallar hann um venjulegt líf. Að lokum kynntu þau fyrirhugaða ráðstefnu sem verður haldin um 4. og 33. grein samningins í Hörpu 11. október nk.

Fundarstjóri hvatti fundarmenn til þess að nýta samninginn svo hann dagaði ekki uppi.

6.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsta aðalstjórnarfundi var bætt inn á dagskrá. Hann verður haldinn 5. september, kl. 17 til 19. Á fundinum verður sagt frá störfum Fjölmenntar og niðurstöðum könnunar á því hvort Íslandi sé betur borgið innan ESB með tilliti til hagsmuna fatlaðra. Fundurinn verður opinn þannig að auk aðalstjórnarfulltrúa geta formenn aðildarfélaga mætt eða fulltrúi þeirra. Tilkynna þarf þátttöku fyrirfram.

7.  Önnur mál.

a) Kæra (sjá meðfylgjandi glærur).

Guðbjörn Jónsson, Parkinsonsamtökunum vakti athygli á kæru sem hann stendur fyrir vegna endurkrafna TR. Stöðugt er brotið á rétti fólks með því að fara af sjálfsdáðum inn í fjárræður fólks og breyta áætlunum sem TR hefur engar heimildir til og hefur aldrei haft. Guðbjörn hefur fengið fund með lögfræðingi ráðuneytisins.

b) Ályktun aðalstjórnar.

Formaður lagði fram eftirfarandi ályktun sem var samþykkt með því fororði að skrifstofan myndi laga orðalag.

Ályktun aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands 16. ágúst 2012

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands skorar á Alþingi Íslendinga að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks nú þegar.

Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 30. mars 2007 og eftir eitt ár var ljóst hverju þyrfti að breyta til að hægt væri að fullgilda hann. Með því að lögfesta hann strax líkt og gert var við Mannréttindasáttmála Evrópu tryggjum við mannréttindi fyrir alla í raun. Samningurinn kveður ekki á um nein ný réttindi, heldur skýrir hann hvernig þessi ákveðni hópur geti einnig notið almennra mannréttinda.

Endurskoða þarf strax þá þýðingu á samningnum sem verið gerð og er í notkun, þar sem bæði er um að ræða hreinar rangfærslur og misskilning á nýrri nálgun á hugtakinu fötlun.

Greinargerð:

Stjórnvöld hafa nú haft rúm 5 ár til að innleiða samninginn án sýnislegs árangurs. Þegar árið 2008 var skipaður starfshópur í velferðarráðuneytinu um hvernig best væri að standa að fullgildingu samningsins og skilaði hópurinn af sér ári síðar. Eitthvað hefur þokast í rétta átt en enn vantar ýmislegt uppá. Það sem mest ríður á er lagfæring á þýðingu samningsins, þó svo að enska, franska, kínverska og arabísku útgáfurnar gildi fyrir dómstólum.

Fundi slitið kl. 19.25

Fundarritarar:
Anna Guðrún Sigurðardóttir,
Þórný Björk Jakobsdóttir.