Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar 18. mars 2015

By 22. september 2015No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn miðvikudaginn 18. mars 2015, kl. 17.00 – 19.00, Grand hóteli, Sigtúni 38, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
CCU samtökin – Hrönn Petersen
Einhverfusamtökin – Svavar Kjarrval
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir og Anna María Emilsdóttir
Félag heyrnarlausra – Bernharð Guðmundsson
Félag lesblindra á Íslandi – Snævar Ívarsson
Fjóla – Friðgeir Jóhannesson
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Geðhjálp – Maggý Hrönn Hermannsdóttir
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heilaheill – Axel Jespersen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
HIV Ísland – Ingi Hans Ágústsson og Jón Tryggvi Sveinsson
Málbjörg – Árni Heimir Ingimundarson
Málefli – Kristján Geir Fenger
ME félag Íslands – Jóna Hrafnborg Kristmannsdóttir
MG félag Íslands – Pétur Halldór Ágústsson
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson
MS félag Íslands – Ingveldur Jónsdóttir
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Snorri Már Snorrason
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Arnar Helgi Lárusson
SÍBS – Nilsína Larsen Einarsdóttir
Sjálfsbjörg – Bergur Þorri Benjamínsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Kristín Björnsdóttir
Tourette samtökin – Íris Árnadóttir
 

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ

Anna Guðrún Sigurðardóttir
Þorbera Fjölnisdóttir
Kristín Margrét Bjarnadóttir
Þórný Björk Jakobsdóttir
Stefán Vilbergsson

Gestir

Hrafnhildur Snæfríður Gunnarsdóttir
Snæbjörn Áki Friðriksson, diplómanemi í HÍ og í starfsnámi hjá ÖBÍ

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 17:05. Formaður lagði til að Erna Arngrímsdóttir yrði fundarstjóri og Klara Geirsdóttir tímavörður. Samþykkt.

Anna María Emilsdóttir, Félagi CP á Íslandi sat fundinn sem gestur. Fundarmenn kynntu sig.

2.  Fundargerð frá 5. febrúar 2015 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin  frá 5. febrúar 2015 var samþykkt.

3.  Daphne verkefnið.

Þorbera Fjölnisdóttir og Hrafnhildur Snæfríður Gunnarsdóttir kynntu Daphne verkefnið sem var til 2ja ára og beindist að ofbeldi gegn fötluðum konum og stuðningsúrræðum. Rannsóknin var unnin á vegum Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands í samstarfi við Stígamót, réttindagæslumenn og fatlaðar konur. Lykilniðurstöður voru þær að aðgengilegar upplýsingar vantaði og því voru þrír mismunandi bæklingar búnir til, einn með hefðbundnu sniði, annar á auðskildu máli og sá þriðji fyrir stuðningsaðila og þjónustuveitendur með hagnýtum upplýsingum. Einnig er hægt að fá upplýsingar á táknmáli og talmáli. Allt snýst þetta um hvernig hægt sé að bæta veittan stuðning. Hægt er að nálgast bæklingana á heimasíðu ÖBÍ, Facebooksíðu ÖBÍ, á PDF, táknmáli o.fl.

Þrátt fyrir að rannsóknin hafi snúið að fötluðum konum er vitað að fatlaðir karlmenn verða líka fyrir ofbeldi. Tryggja þarf að lögregla, dómarar og fleiri valdamiklir aðilar fái fræðslu því að mikilvægt er að komið sé fram við fólk á jafnréttisgrundvelli því að þeir sem veita þjónustuna eru í lykilstöðu til að greina ofbeldið og þurfa því að geta bent á stuðningsúrræði. Þetta er ekki einkamál þeirra sem fyrir ofbeldinu verða því þegar fólk er í undirokaðri stöðu er það svo vant að sætta sig við ýmislegt að fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir að það hafi orðið fyrir ofbeldi. Félagasamtök þurfa að opna umræðuna um ofbeldi gagnvart fötluðu fólki því almenn vitundarvakning er nauðsynleg. Einnig þurfa félögin að stuðla að sjálfstyrkingu ungs fatlaðs fólks.

Þrýsta þarf á að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og að NPA verði raunverulegur kostur fyrir þá sem það kjósa. Úrræði þurfa að vera aðgengileg. Fundarmenn voru hvattir til að dreifa skýrslunni sem víðast.

Umræður og spurningar

Spurt var hvort geðfatlaðar konur hefðu verið með í rannsókninni? 13 viðtöl voru tekin og voru geðfatlaðar konur þar á meðal.

4.  Á döfinni – skýrsla formanns.

Formaður sagði meðal annars frá því að framkvæmdastjóri ÖBÍ, Lilja Þorgeirsdóttir, væri farin í 3ja mánaða leyfi og að varaformaður ÖBÍ, Halldór  Sævar Guðbergsson, hafi komið inn í 50% stöðu á meðan. Nýr starfsmaður, Stefán Vilbergsson, hefur hafið störf og vinnur hann aðallega með nefnd ÖBÍ um algilda hönnun, það er að aðgengi í víðum skilningi.

Næsti aðalstjórnarfundur ÖBÍ verður haldinn 27. maí í húsnæði Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, Hátúni 12. Málþingið framhaldsskóli fyrir alla var haldið 12. maí og var aðsókn góð. Skýrsla neyðarstjórnar Strætó vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks er komin út og hefur þjónustan batnað að einhverju leyti. TR varð að taka ábendingarhnapp á heimasíðu sinni úr notkun vegna kvartana ÖBÍ.

Mikið af nefndum og ráðum eru starfandi hjá menntamálaráðuneytinu sem ÖBÍ hefur ekki aðkomu að en ætti að eiga fulltrúa í. Formaður ætlar að senda Margréti Bóasdóttur línu og biðja um að ÖBÍ fái fulltrúa í hinum ýmsu nefndum.

Facebooksíðu kynning verður haldin fyrir aðildarfélögin fimmtudaginn 26. mars, kl. 16-18 í umsjá Margrétar Rósu Jochumsdóttur, ritstjóra ÖBÍ. Formannafundur verður haldinn föstudaginn 20. mars, kl. 16. Stefnuþing verður haldið 10. og 11. apríl. 1. maí verður buffum dreift með atvinnuformerkjum. Málþing verður haldið í maí í tengslum við atvinnu.

Umræður og spurningar

Nefnt var að hugsanlega væri réttara að leita til menntavísindasviðs þegar málþing um framhaldsskólamál væri skipulagt. Spurt var hvort skýrslu um greiðsluþátttöku í heilbrigðisþjónustu frá Pétri Blöndal verði dreift? Varaformaður sagði að ÖBÍ hafi ekki aðgang að þeirri nefnd en margoft hefur verið óskað eftir því bæði á fundum með heilbrigðisráðherra og í bréfum en því hefur verið synjað.

Spurt var hvort hvers eðlis ný stjórn ferðaþjónustu fatlaðs fólks væri? Formaður sagði að nýja stjórnin væri komin til að vera, formaður hennar er Þorkell Sigurlaugsson, formaður stjórnar Seltjarnarnesbæjar, hann hefur starfað lengi í Sjálfsbjörg og er í hjólastól. Auk hans eru Bryndís Snæbjörnsdóttir, Þroskahjálp og Tryggvi Friðjónsson, Sjálfsbjörg í stjórninni ásamt aðilum frá sveitarfélögunum.

5.  Kynningaráætlun um skýrslu ÖBÍ „Virkt samfélag“.

Formaður sagði frá því að skýrslan Virkt samfélag hafi verið kynnt fyrir nokkrum þingflokkum og verður kynnt fyrir þeim öllum. Hún verður einnig kynnt í nokkrum fyrirtækjum, stofnunum og á fundi með fjölmiðlum. Formaður, Sigurjón Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ og Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ hafa séð um að kynna skýrsluna.

Formaður hvatti fulltrúa til að skrifa greinar í fjölmiðla sem væru í samræmi við hugmyndafræði skýrslunnar. Til að greinarnar hljómi í takt getur Sigríður Hanna lesið yfir þær ef fólk hefur áhuga.

Umræður og fyrirspurnir

Hugmynd kom um að TR og skatturinn deili með sér upplýsingum úr staðgreiðslu-skrá þar sem fram kemur frá mánuði til mánaðar hvað fólk aflar sér í tekjur. Með þessu er hægt að koma í veg fyrir endurreikning sem kemur alltaf ári eftir að tekjunum er aflað. Þetta verður öllum til bóta en mikil tregða er hjá TR að taka þetta upp.

6.  Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana. Halldór Sævar Guðbergsson kynnir.

Halldór Sævar Guðbergsson sagði frá því að hann hefði farið á fund Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, þar sem hugmynd um að búa til fleiri störf fyrir fólk með skerta starfsgetu var reifuð og lagði ráðherra til að vinna þetta í samstarfi við Vinnumálastofnun. Verkefnið fór af stað 7. nóvember 2014 og fylgdi ráðherra því úr hlaði með því að skrifa bréf til allra ríkisstofnana. Frá 7. nóvember 2014 til 1. mars 2015 komu 3 störf inn í starfagáttina og var eitt þeirra hjá Vinnumálastofnun. Gáttin verður opin áfram og var ákveðið að fara í sérstakt kynningarátak til forstjóra ríkisstofnana, mannauðsstjóra og sveitarfélaga. Í byrjun annarrar viku í mars hélt fólk með skerta starfsgetu kynningu á 20 vinnustöðum. Í framhaldinu munu mannauðsstjórar og forstjórar skoða hvort ekki séu störf fyrir fólk með skerta starfsgetu inni á viðkomandi stofnun eða fyrirtæki. Verkefnið var einnig kynnt á Rás 2, hjá Sirrý. Staðan er sú að störfunum hefur fjölgað og eru þau orðin 10.

Staða varðandi atvinnu- og virknimál fólks með skerta starfsgetu er verst á Íslandi miðað við norðurlöndin. Þessu þarf að breyta, opna þarf umræðu og breyta hugmyndafræði því það er mjög breiður hópur fólks með skerta starfsgetu. Skoða þarf málin frá mörgum hliðum, t.d. aðgengi að byggingum, störfum, upplýsingum og hjálpartækjum. Í dag þarf vinnuveitandi að kaupa hjálpartæki og getur það komið í veg fyrir að fólk sé ráðið. Úrræði eru mjög einsleit og því þarf að breyta. Ekki er nóg að finna störf, skoða þarf öll stuðningsnet í kringum þau, t.d. skerðist bótaflokkurinn sérstök framfærsluuppbót krónu á móti krónu, þannig að ef fólk aflar sér 30.000 kr. þá skerðast bætur um 30.000 kr.

Halldór bað fulltrúa um aðstoð við að auglýsa verkefnið.

Umræður og fyrirspurnir

Einn fundarmanna hvatti fólk til að sækja um í hinum ýmsu fyrirtækjum og sjá hvað gerist. Grípa verður tækifærið á meðan það gefst og sækja um. Spurt var hvort listi væri til yfir fyrirtækin sem er tilbúið að taka við fólki með skerta starfsgetu og hvort listi hugsanlegra umsækjenda væri stór eða hvort hann væri óþekktur? Halldór sagði að upplýsingar væru um verkefnið á heimasíðu Vinnumálastofnunar og ÖBÍ. Setja þarf inn upplýsingar um þau 20 fyrirtæki sem heimsótt voru. Einnig hefur Átak, félag innan Þroskahjálpar heimsótt fleiri fyrirtæki. Listi umsækjenda er mjög fjölbreyttur og langur, um 140 manns eru á biðlista. Mikil harka er á vinnumarkaði og fara umsóknir í gegnum ferli hjá ráðningarskrifstofum. Mannauðsstjórum er uppálagt að ráða besta fólkið og því fer fólk með skerta starfsgetu neðarlega í bunka mannauðsstjóra.

Kaffi, 8 mínútna hlé.

7.  Stefnuþing 10. og 11. apríl 2015.

Formaður sagði frá því að vinna undirbúningshóps stefnuþings gengi vel. Í nefndinni ásamt formanni eru Ingólfur Magnússon, Heyrnarhjálp, Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg, Fríða Bragadóttir, Laufi, Svavar Kjarrval, Einhverfusamtök-unum, Arndís Ósk Jónsdóttir, stjórnunarráðgjafi og er Bára Snæfeld starfsmaður hópsins.

Á fundinum verður innlegg um SRFF og áætlun ÖBÍ. Þetta verður vinnufundur þar sem fólk róterar milli hópa. Því er mikilvægt að sama fólkið mæti báða dagana. Formaður brýndi fyrir fulltrúum að aðildarfélögin skili inn nöfnum þeirra sem mæta eiga á stefnuþingið.

8.  Kynning aðildarfélaga ÖBÍ.

Bergur Þorri Benjamínsson, málefnafulltrúi Sjálfsbjargar, kynnti Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra. Sjálfsbjörg var stofnað á Siglufirði 1958 og ári síðar í Reykjavík. Aðildarfélög eru 15 víðs vegar á landinu. Sjálfsbjörg sér um margvíslega þjónustu fyrir hreyfihamlaða, t.d. rekstur Sjálfsbjargarheimilisins, sem varð 40 ára 2013 og var byggt því ekkert húsnæði var aðgengilegt hreyfihömluðu fólki. Rekin er þjónustumiðstöð, þekkingarmiðstöð, sundlaug, mötuneyti og er sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun á staðnum. Sérstakt fasteignafélag innan Sjálfsbjargar heldur utan um Sjálfsbjargarheimilið, sem er á föstum fjárlögum hjá ríkinu. Safnað er fyrir rekstrinum með happdrættissölu.

Sjálfsbjargarheimilið var stofnun ársins 2014. Rekin er endurhæfingaríbúð sem er framlenging af Grensásdeild eða Reykjalundi. Þjónusta sem veitt er á staðnum er dagþjónusta og um 55 manns nýta sér hana. Þekkingarmiðstöðin er miðstöð gagna og safnar hagnýtum upplýsingum sem getur gagnast fötluðu fóki um allt land. Starfsemin hófst í júní 2012 og starfa þar 12 manns.

Auk kynningarinnar minntist Bergur á frétt, bls. 4 í Morgunblaðinu 18. mars 2015, sem fjallar um að ökumaður bíls sem keyrt var á hefði látist vegna þess að bílbeltið hentaði ekki líkama hans. Allir bílar sem ferðaþjónusta fatlaðra notar uppfylla ítrustu öryggiskröfur en aðrir bílar gera það ekki og því þarf að breyta. Hjólastólar liggja lausir í aftursæti bifreiða og ekki fæst sá öryggisbúnaður sem þörf er á. Hann vonaðist til að innanríkisráðherra yrði spurður út í þessi mál í fyrirspurn á Alþingi. Fundur verður haldinn með Sjúkratryggingum Íslands 19. mars til að ræða öryggi í bifreiðum.

Umræður og fyrirpsurnir

Spurt var hvernig Sjálfsbjörg fjármagni sig? Landssambandið fjármagnar sig með happdrætti, sölu á minnisbókum, blokkum, pennum og slíku. Hollvinakerfi er virkt og er ætlunin að efla það. Einnig fást styrkir frá ÖBÍ. Sjálfsbjargarheimilið er sjálfstætt og er á föstum fjárlögum frá ríkinu. Húsið að Hátúni 12 er í eigu landssambandsins og starfar Sjálfsbjargarheimilið í skjóli þess.

Nefnt var að ef foreldrar fatlaðra barna ætla að nýta sér ferðaþjónustu fatlaðra mega þeir ekki hafa fengið styrk til kaupa á biðfreið. Ósanngjarnt er að sækja þurfi um þjónustuna og fá hana jafnvel einungis ef bíllinn bilar. Það ætti að láta persónuvernd vita af þessu og athuga hvort fyrirkomulagið sé leyfilegt. Þjónusta á vegum sveitarfélaga á ekki að vera tengd styrkjum sem fást í gegnum TR. Bergur sagði að fyrirspurn lægi inni hjá persónuvernd varðandi eyðublað sem fylla þarf út til að fá ferðaþjónustu. Spurt er um hluti sem engum kemur við. Hann lagði til að formaður ÖBÍ og hann yrðu í góðu sambandi varðandi erindið hjá persónuvernd.

9.  Önnur mál.

a) Brynja hússjóður og dýrahald.

Svavar Kjarrval, Einhverfusamtökunum sagðist leigja í Hátúni 10 af Brynju hússjóð. Brynja hússjóður sendi bréf til leigjendanna þar sem reglur um bann við dýrahaldi voru áréttaðar. Þar er vísað til þess að margar kvartanir hafi borist. Ef fólk fjarlægir ekki dýrin verður samningum rift. Einnig er tekið fram að bannið nái einnig til heimsókna dýra í húsnæðið. Væntanlega falla blindrahundar undir þetta ef það er túlkað vítt.

Svavar óskaði eftir því að bandalagið sendi Brynju eftirfarandi spurningar og vonaði að það færi í ferli að spurningunum verði svarað:

1.  Hvaða sjónarmið liggja fyrir fortakslausu banni á dýrahaldi í leiguhúsnæði félagsins sbr. húsreglur þess?

2.  Hefur það komið til skoðunar að afmarka bannið við þau dýr þar sem áðurnefnd sjónarmið ná til?

3.  Á hverju byggir sú staðhæfing í bréfi starfsfólks félagsins til leigjenda, dags. 12. mars sl. að bann við dýrahaldi nái einnig til dýra í heimsókn?

4.  Hvernig gætir félagið þess að fá sjónarmið leigjenda, eða fulltrúa þeirra, áður en stórtækar ákvarðanir eru teknar um leighúsnæði félagsins?

Formaður sagði að fulltrúi ÖBÍ í stjórn Brynju þyrfti að koma því á framfæri að mikilvægt væri að leiðsöguhundar væru ekki útilokaðir úr húsnæði þeirra.

10. Fundarslit.

Formaður sleit fundi kl. 18:55.

Fundarritarar:

Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.