Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar 19. janúar 2012

By 29. júní 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 19. janúar 2012 kl. 17.00–19.00 í Hátúni 10, 9. hæð, Reykjavík

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Björk Þórarinsdóttir
Ás styrktarfélag – Guðrún Gunnarsdóttir
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
FAAS – Svava Aradóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra – Guðmundur S. Johnsen
Félag nýrnasjúkra – Jórunn Sörensen
Fjóla – Ágústa E. Gunnarsdóttir
FSFH – Selma Dögg Víglundsdóttir
Gigtarfélagið – Emil Thóroddsen
HIV-Ísland, alnæmissamtökin – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Sigríður Ósk Einarsdóttir
LAUF – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málefli – Þóra Sæunn Úlfsdóttir
MG félagið – Pétur Halldór Ágústsson
MND félagið – Ægir Lúðvíksson
MS félagið – Garðar Sverrisson
Parkinsonsamtökin – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg – Grétar Pétur Geirsson
SPOEX – Hrund Hauksdóttir
Stómasamtökin – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Bryndís Snæbjörnsdóttir
Tourette samtökin – Arna Garðarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ:

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ:

Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi

Fundargerð

1. Varaformaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Hjördís Anna Haraldsdóttir, varaformaður ÖBÍ bauð fundarmenn velkomna og bað þá um að kynna sig.

2. Fundargerð frá 8. desember 2011 borin upp samþykktar.

Samþykkt.

3. Skýrsla varaformanns.

Hjördís tilkynnti að formaður bandalagsins, Guðmundur  Magnússon væri á batavegi og væri kominn í endurhæfingu á Grensási og að reiknað væri með að hann kæmi til vinnu í lok janúar eða í byrjun febrúar.

Varaformaður, gjaldkeri og framkvæmdastjóri hafa farið yfir fjárhagsáætlun eftir ábendingar og umræður á síðasta aðalstjórnarfundi og verður ný áætlun kynnt síðar á fundinum.

Þingsályktunartillaga liggur fyrir um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir tímabilið 2012-2014. Í tillögunni eru settar fram tímasettar aðgerðir vegna fullgildingu sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mats á þjónustu. Í tillögunni er lagt til að lokið verði við endurskoðun á þýðingu samningsins í apríl 2012 og að frumvarp verði lagt fram á löggjafarþingi 2012-2013 með það að markmiði að hann verði fullgildur. ÖBÍ þarf að vera vakandi yfir þessu verkefni og tilbúið að koma með athugasemdir við þýðinguna þegar þar að kemur. Tillagan verður lögð fljótlega fram á Alþingi.

Samstarfsfundur um sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks var haldinn 4. janúar. Sá fundur var boðaður af Blindrafélaginu, Þroskahjálp, Sjálfsbjörg og Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Fundurinn var góður og málefnalegur en fáir frá aðildarfélögum ÖBÍ mættu á fundinn. Hjördís vildi vekja athygli fundarmanna og félagann á að fylgjast vel með næsta fundarboði og fjölmenna á hann til að ræða hvernig best verði þrýsta á að sáttmálinn verði innleiddur sem fyrst. Jafnframt að stjórnvöld kynni hann fyrir almenningi, í samstarfi við hagsmunasamtök, eins og segir í sáttmálanum. Hún sagði brýnt að aðildarfélög ÖBÍ hrintu af stað áætlun um að þrýsta á að sáttmálinn verði innleiddur.

Varðandi fjárlögin 2012  var gert ráð fyrir að bætur myndu hækka einungis um 3,5% en ákveðnir bótaflokkar stæðu í stað. Þessir bótaflokkar eru mæðra- og feðralaun, ummönnunargreiðslur, meðlagsgreiðslur, barnalífeyrir vegna náms og uppbætur vegna rekstur bifreiða. Einnig var gert ráð fyrir að frítekjumörk yrðu fryst. Eftir athugasemdir ÖBÍ, mótmæli, ályktun aðalstjórnar, fundi með ráðherra og velferðarnefnd Alþingis hefur þessu verið breytt þannig að áðurnefndir bótaflokkar hækkuðu um síðstu áramót um 3,5 %. Þrátt fyrir það var ekki um hækkun að ræða í samræmi við 69 gr. almannatryggingalaga. ÖBÍ lagði fram bókun á fundi starfshóps velferðarráðuneytisins um endurskoðun almannatryggingalaga 13. janúar sl.  Sú bókun vakti athygli fjölmiðla en í henni kemur fram að ÖBÍ hafi það markmið að bæta lífskjör öryrkja og í því sambandi skipti meginmáli fjárhæðin sem kemur í hlut öryrkja en ekki hvort hún er greidd úr einum bótaflokki eða fleirum. Einnig vegna þess að nú er fjórða árið í röð sem 69. grein laga um almannatryggingar, sem á að vernda afkomu lífeyrisþega, tekin úr sambandi í fjárlögum. Í ljósi þessa væri það lágmarkskrafa ÖBÍ að stjórnvöld skili öryrkjum sem fyrst því sem þeim ber skv. lögum um almannatryggingar áður en hugað verður að uppstokkun á núverandi bótakerfi. Án leiðréttinga á kjörum öryrkja væri það ábyrgðarlaust af hálfu ÖBÍ að taka frekari þátt í vinnu við svonefnda endurskoðun almannatryggingalaga enda ekki tekið tillit til sjónarmiða ÖBÍ í þeirri vinnu.

Hjördís sagði að lokum að ÖBÍ þyrfti í aðdraganda Alþingiskosninga á næsta ári að finna leiðir til að ná til allra flokka og hafa áhrif svo málefni okkar fólks komi inn í flokksstefnu stjórnmálaflokkanna. Hún lagði til að aðgerðaáætlun yrði gerði og hvernig væri best að framkvæma þetta verkefni. ÖBÍ er einnig að leita leiða til að auka tengsl við fjölmiðla með því að leita til almannatengslaráðgjafa til að bæta ímynd ÖBÍ, öryrkja og jafnframt að koma okkar sjónarmiðum frekar á framfæri.

Umræður um skýrslu varaformanns:

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ benti fundarmönnum á að umrædd bókun væri í möppu fundarmanna, með skýringum á ástæðu úrsagnar (sjá fylgiskjal 1). Lilja sagði ennfremur að fulltúi ÖBÍ  hefði tekið mjög virkan þátt í starfinu, mótmælt ef þess hafi þurft eða samþykkt eftir ástæðun. Sigríður Hanna Ingólfsdóttir félagsráðgjafi ÖBÍ og fulltrúi ÖBÍ í starfshópnum bætti því við að bókanir eða tillögur hennar hafi varla ratað í fundargerðir . Einnig benti hún á að þegar samsetning hópsins væri skoðuð þá kæmi í ljós að fulltrúar hagsmunasamtaka væru í miklum minnihluta, þar sem þeir eru þrír, fimm fulltrúar koma frá stjórnvöldum og þrír frá stjórnarandstöðu.

Fundarmenn ræddu töluvert um ástæður þess að bandalagið sagði sig tímabundið frá störfum starfshópsins um endurskoðun almannatrygginga en flestir voru sammála þeirri ákvörðun en Ægir Lúðvíksson, fulltrúi MND félagsins tók til máls og lýsti andstöðu félagsins vegna úrsagnar fulltrúa ÖBÍ úr starfhóp um „endurskoðun almannatryggingalaga“ Telur félagið það ekki vera réttu leiðina að settu marki.

4. Fjárhagsáætlun ÖBÍ 2012 lögð fram til samþykktar.

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri kynnti nýja fjárhagsáætlun eftir endurskoðun frá síðasta aðalstjórnarfundi, þann 8 desember 2011. Guðmundur Löve, aukafulltrúi SÍBS á þeim fundi lagði fram ákveðnar tillögur vegna fjárhagsáætlunarinnar en framkvæmdastjórn tók tillögurnar ekki til afgreiðslu þar sem breytingar voru gerðar á áætluninni eins og sjá megi í meðfylgjandi gögnum fundarmanna.

Fjárhagsáætlun var samþykkt samhljóða með því fororði að hún verði endurskoðuð um mitt ár.

Hjördís benti á að á síðasta fundi hefði ekki komið nógu skýrt fram hvort að fundarmenn hefðu samþykkt tillögu sem lögð var fram varðandi skiptingu til aðildarfélaga ÖBÍ á þeim 40 milljónum sem Íslensk Getspá (ÍG) afhenti ÖBÍ sem gjöf í tilefni af 25 ára afmæli ÍG 2011. Hún benti jafnframt á að þessar 40 milljónir hefðu nú þegar verið greiddar til aðildarfélaganna.

Samþykkt samhljóða.

Hjördís bar nú upp til atkvæða tillögu um að aukafulltrúi frá FSFH,  Selma Björk Víglundsdóttir fengi formlega heimild til að sitja fundinn en það láðist þegar fulltrúar kynntu sig.

Samþykkt af fundarmönnum.

5. Endurskoðun á reglum um úthlutun styrkja til aðildarfélaga ÖBÍ.

Jón Þorkelsson kynnti niðurstöður nefndar um endurskoðun úthlutunarreglna um styrki til aðildarfélaga. Óskað var eftir því að aðalstjórnarfulltrúar kynntu drögin innan sinna félaga. Almennt voru fundarmenn ánægðir með tillögurnar en bentu þó á nokkur atriði sem skoða á áður en endanlegar tillögur verða kynntar.

6. Fundaáætlun 2012.

Fundaáætlun 2012 var kynnt. Hugsanlega þarf að færa marsfundinn til en það verður tilkynnt síðar.

7. Önnur mál.

Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra, kynnti bækling Landlæknis um lífæragjafir sem félagið hefur m.a. verið iðið við að dreifa. Jórunn hvatti fundarmenn til að kynna sér hann og láta liggja frammi hjá sínu félagi. Einnig hvatti hún fundarmenn sem og aðra að skrá sig sem líffæragjafa. Benti hún á að um 80% þeirra sem spurðir voru í könnun vildu gefa líffæri, en sú sýn virðist ekki skila sér til heilbrigðisyfirvalda. Sagði Jórunn það sjálfsagða tillitssemi við ættingja að velja sjálfur hvort maður vill gefa líffæri eða ekki.

Ágústa Gunnarsdóttir, Fjólu, benti á að allir aðalstjórnarfulltrúar ættu rétt á að geta lesið úr þeim gögnum sem rædd eru á fundum og benti þar á m.a. skýrslu varaformanns og fjárhagsáætlun, en hvorug skjölin voru send með rafrænum hætti til aðalstjórnarfulltrúa fyrir fundinn.

Guðbjörn Jónsson, Parkinsonsamtökunum, benti á að meðan að Alþingi er starfandi þyrftu að vera haldnir fleiri fundir í aðalstjórn og benti á að hægt væri að færa júní og ágúst fundi aðalstjórnar yfir á aðra mánuði.

Hjördís þakkaði fundarmönnum góðan fund og sleit honum kl. 19.45

Fundarritarar: Anna Guðrún Sigurðardóttir og Bára Snæfeld


Fylgiskjal 1

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ 19. janúar 2012

Um bókun ÖBÍ á fundi starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga.

Á fundi starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga þann 13. janúar sl. lögðu fulltrúar ÖBÍ fram bókun þess efnis að ÖBÍ muni ekki taka þátt í þeirri vinnu sem fram fer í starfshópnum á meðan ekki sé tekið tillit til sjónarmiða bandalagsins. Ekki er um formlega úrsögn að ræða og munu fulltrúar ÖBÍ áfram fá fundarboð með dagskrá og fundargerðir til að geta fylgst með og metið framvindu mála.

Bókun ÖBÍ:

Markmið Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) er að bæta lífskjör öryrkja. Í því sambandi skiptir meginmáli sú fjárhæð sem kemur í hlut öryrkja, en ekki hvort hún er greidd úr einum bótaflokki eða fleirum.

Fjórða árið í röð, allt frá 1. janúar 2009, hækka ekki lífeyrisgreiðslur almanna-trygginga samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar sem eiga að vernda afkomu lífeyrisþega. Lífeyrisgreiðslur ná því hvorki að halda í við verðlagshækkanir né launaþróun síðustu ára. Þessu til viðbótar jukust tekjutengingar verulega þann 1. júlí 2009. Af þeim sökum hafa margir lífeyrisþegar orðið fyrir enn frekari skerðingum.

Lífeyrisþegar urðu fyrstir fyrir skerðingum strax í upphafi kreppunnar og þá með sérstöku loforði um að kjör þeirra yrðu leiðrétt um leið og land færi að rísa á ný. Þá var talað um 3ja ára tímabil sem nú er liðið. Nú eru horfur í efnahagsmálum jákvæðar og tími til kominn að leiðrétta kjör öryrkja.

Í ljósi þessa er það lágmarkskrafa ÖBÍ að stjórnvöld skili öryrkjum sem fyrst því sem þeim ber skv. lögum um almannatryggingar áður en hugað verður að uppstokkun á núverandi bótakerfi. Þessu til viðbótar þarf að leiðrétta frítekjumörk og tekjuviðmið og draga til baka þær skerðingar sem settar voru um mitt ár 2009.

Án leiðréttinga í þá veru sem að framan eru raktar er ábyrgðarlaust af hálfu ÖBÍ að taka frekari þátt í vinnu við svonefnda endurskoðun almannatryggingalaga, enda sé henni þá augljóslega ætlað að festa í sessi þær alvarlegu skerðingar sem stjórnvöld hafa kosið að láta öryrkja bera.

Um vinnu starfshópsins.

Endurskoðunin hefur tekið langan tíma en starfshópurinn hóf störf í maí í fyrra. Fulltrúi ÖBÍ hefur tekið virkan þátt í starfi nefndarinnar, mótmælt þegar það á við og lagt fram bókanir með sjónarmiðum ÖBÍ. Þrátt fyrir það er talið fullreynt að okkar sjónarmið náist í gegn.

Markmið með endurskoðun laganna er að bæta rétt lífeyrisþega en þær tillögur sem lagðar hafa verið fram varðandi ellilífeyrisþega eru ekki til þess fallnar að gera það. Þar var lagt til að sameina þrjá bótaflokka (grunnlífeyrir, tekjutryggingu og heimilisuppbót), minnka lítillega jaðaráhrif annarra skattskyldra tekna á sérstakri framfærsluuppbót og fella niður frítekjumörk sem setur fólk í enn meiri fátæktargildru.

Starfshópnum er gert að vinna með tillögur að breytingum á almannatryggingakerfinu með 0 lausn í huga sem þýðir tilfærslu á fjármunum milli lífeyrisþega, þ.e. greiðslur eru lækkaðar hjá einum ellilífeyrisþega til að hækka lítillega hjá öðrum.

Eftir mikla andstöðu við þá leið sem fundin var fyrir ellilífeyrisþega var lögð fram tillaga með viðbótarfjármagni, samtals 2,3 milljarðar. Síðar kom í ljós að um er að ræða fjármagn sem ætlað var að nota til að uppfylla samkomulag stjórnvalda og lífeyrissjóðanna um hækkun frítekjumarks á tekjutryggingu vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega. Til að ná fram auknum sparnaði var lagt til að afnema öll frítekjumörk. Þessi leið stangast á við áðurnefnt samkomulag. Tillagan var samþykkt innan starfshópsins með meirihluta atkvæða en fulltrúi ÖBÍ greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Það er okkar mat að 0 lausn, miðað við þær aðstæður sem við búum við í dag, sé ekki forsvaranleg með það í huga að bætur lífeyrisþega hafa ítrekað verið skertar frá bankahruni. Þau vinnubrögð sem viðhöfð eru geta leitt til þess að festa í sessi þær alvarlegu og margvíslegu skerðingar sem öryrkjar hafa orðið fyrir á undanförnum árum. Það er krafa okkar að sett verði aukið fjármagn inn í kerfið við endurskoðun laganna.

Um starfshópinn.

Í starfshópnum eru fulltrúar allra þingflokka, samtals 7 manns, en Vinstri hreyfingin grænt framboð og Samfylkingin eru með tvo fulltrúa hvor. Tveir fulltrúar eru frá ÖBÍ (var einn fram að áramótum), einn fulltrúi Landssambands eldri borgara og einn fulltrúi Þroskahjálpar. Formaður starfshópsins er Árni Gunnarsson, fyrrum alþingismaður.

ÖBÍ fór fram á það að fjölga fulltrúum bandalagsins í starfshópnum og fékk að bæta við einum fulltrúa um síðustu áramót.

Fulltrúar ÖBÍ eru:

Aðalmenn: Sigríður Hanna Ingólfsdóttir og Garðar Sverrisson.
Varamenn: Sigurjón Sveinsson og Guðrún Hannesdóttir.

17. janúar 2012
Lilja Þorgeirsdóttir