Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar 27. maí 2015

By 22. september 2015No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn miðvikudaginn 27. maí 2015, kl. 17.00 – 19.00, í sal Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, Hátúni 12, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar

ADHD samtökin – Vilhjálmur Hjálmarsson
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
Blindravinafélag Íslands – Gísli Helgason
CCU samtökin – Hrönn Petersen
Einhverfusamtökin – Svavar Kjarrval
FAAS – Guðjón Brjánsson
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Snævar Ívarsson
Félag nýrnasjúkra – Björn Magnússon
Fjóla – Friðjón Erlendsson
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heilaheill – Axel Jespersen
HIV Ísland – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Hallfríður Sigurðardóttir
Málbjörg – Árni Heimir Ingimundarson
Málefli – Kristján Geir Fenger
ME félag Íslands – Jóna Hrafnborg Kristmannsdóttir
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson
MS félag Íslands – Garðar Sverrisson
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Snorri Már Snorrason
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Rúnar Björk Þorkelsson
SÍBS – Nilsína Larsen Einarsdóttir
Sjálfsbjörg – Bergur Þorri Benjamínsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Kristín Björnsdóttir
Tourette samtökin á Íslandi – Íris Árnadóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ

Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Þórný Björk Jakobsdóttir

Gestir

Andri Snorrason
Daníel Isebarn Ágústsson, hæstaréttarlögmaður

Fundargerð

1.    Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ, setti fundinn kl. 17:15 í fjarveru formanns. Varaformaður lagði til að Erna Arngrímsdóttir yrði fundarstjóri, Klara Geirsdóttir tímavörður, Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir fundarritarar. Samþykkt samhljóða.

Fundarmenn kynntu sig.

2.    Fundargerð frá 18. mars 2015 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

3.    Sérstakar húsaleigubætur. Daníel Isebarn, hæstaréttarlögmaður.

Daníel Isebarn, hæstaréttarlögmaður kom og sagði frá því að ÖBÍ standi í málarekstri við Reykjavíkurborg varðandi sérstakar húsaleigubætur. Tilgangur bótanna er að aðstoða þá sem eru með mjög lágar tekjur og til að fá þær þarf að fara í gegnum sérstakt mat. Þó svo að matið sýni að fólk eigi rétt á sérstökum húsaleigubótum þá fær fólk sem býr í Reykjavík ekki bæturnar ef það leigir af Brynju hússjóði. Borgin heldur því fram að leiga hjá Brynju sé niðurgreidd og er fólki því mismunað eftir því hjá hverjum viðkomandi leigir, án þess að borgin hafi kannað málið til hlítar. Erindi var sent til borgarinnar og bent á að þetta væri brot á jafnræðisreglu. Borgin gerði ekkert og var kvartað til innanríkisráðuneytisins sem komst að því að reglan bryti gegn jafnræðisreglunni, fólki væri mismunað og í kjölfarið var borgin beðin um að breyta reglunum. Þar sem ekkert hefur gerst var fundinn einstaklingur sem leigir hjá Brynju og mál rekið í hans nafni. Viðkomandi hefur lengi verið á leigumarkaði og var alltaf með sérstakar húsaleigubætur. Þær féllu hins vegar niður þegar viðkomandi fluttist í húsnæði á vegum Brynju, aðrar aðstæður breyttust ekki. Fallist var á öll helstu sjónarmið ÖBÍ og fram kemur að einkennilegt sé að setja reglur þar sem mat á viðkomandi skiptir ekki máli heldur hjá hverjum hann leigir. Reykjavíkurborg hefur frest til að áfrýja málinu til 17. júlí.

Gríðarlega mikilvægt er að fólk, sem hefur verið synjað á þeim forsendum að það leigi hjá Brynju, sæki aftur um sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg sem fyrst. Verði niðurstaða dómsmálsins endanleg getur afturvirkur bótaréttur miðast við þegar sótt er um bæturnar. Ef málinu verður áfrýjað og Hæstiréttur kemst að niðurstöðu ÖBÍ í hag þá skiptir máli fyrir fólk að eiga afturkræfan bótarétt, jafnvel eitt ár aftur í tímann. Ef fólk sækir um þá virkjar það rétt sinn og getur gert kröfu aftur í tímann. Sækja þarf um skriflega, t.d. í gegnum tölvupóst og fá skriflegt svar með einhverju móti. Borgin hefur stundað það að svara munnlega.

Umræður og spurningar

Spurt var hvort leiguverð hjá Brynju væri lægra en almennt gerist? Því það er hæpið að refsa fólki fyrir það að neyðast til að útvega sér ódýrara húsnæði.

Daníel sagði að bent hafi verið á það frá 2009 að fólki sé refsað eða það útilokað, að það eigi ekki möguleika á að komast inn í mat á því hvort það þurfi aðstoð. Hann bað um að fulltrúar bentu þeim sem á þurftu að halda á að sækja um sérstakar húsaleigubætur til að virkja rétt sinn, því það muni öllu.

Varaformaður ítrekaði það að fólk sæki um og virki þannig rétt sinn, því það sama við um þá sem leigja hjá Blindrafélaginu, Sjálfsbjörg og fleiri slíkum aðilum. Fólk í Hafnarfirði fær sérstakar húsaleigubætur þó það leigi hjá Brynju.

4.    Skýrsla varaformanns í forföllum formanns.

Varaformaður sagði frá því að verið sé að safna undirskriftum til að skora á stjórnvöld að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Miðað er við að undirskriftunum verði komið til stjórnvalda í haust. Undirskrifta-söfnun verður í Kringlunni og buffum dreift. Varaformaður bað aðildarfélögin um aðstoð við söfnunina því mikilvægt sé að samningurinn verði lögfestur og innleiddur.

Framkvæmdastjóri ÖBÍ hefur verið í fríi og hefur varaformaður sinnt 50% starfi frá 1. mars til 1. júní. Formaður ÖBÍ hefur séð um daglegan rekstur skrifstofu en varaformaður hefur verið í pólitíkinni. Nú stefnir í mikil verkföll og hafa bæði formaður og varaformaður komið fram í fjölmiðlum og sett fram þá kröfu ÖBÍ að bætur hækki jafn mikið og lágmarkslaun í landinu.

Hann sagði að skýrsla sín væri í möppum fundarmanna og að hann færi ekki í einstök atriði en myndi svara fyrirspurnum ef einhverjar væru.

Umræður og spurningar

Nefnt var að undirskriftirnar á netinu væru mjög mikilvægar. Spurt var í tengslum við fyrirspurnir til þingmanna, af hverju stjórnarandstaðan fengi fyrirspurnirnar? Af hverju þeim væri ekki komið til allra þingmanna, bara sumra?

Varaformaður sagði að skjal væri til yfir fyrirspurnir sem lagðar hafa verið fram. Yfirleitt vantar tölulegar upplýsingar og það hefur gengið betur að fá svör með því að gera þetta svona heldur en að senda bréf til ráðuneytanna. Auðveldara hefur verið að fá stjórnarandstöðu til að bera upp spurningar en stjórnarliða.

Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi ÖBÍ hefur sagt upp störfum. Varaformaður þakkaði henni góð störf fyrir bandalagið og óskaði henni velfarnaðar í nýju starfi. Sagði jafnframt að hennar yrði saknað.

5.    Gæludýrahald í fjölbýlishúsum á vegum Brynju hússjóðs. Garðar Sverrisson.

Garðar Sverrisson, formaður Brynju hússjóðs, sagði að reglur um gæludýrahald í fjölbýlishúsum hafi alla tíð verið til og gilda þær t.d. hjá Félagsbústöðum, Búseta, Stúdentum og almennum leigufélögum. Reglurnar eru til staðar því að sumt fólk hefur ofnæmi fyrir dýrunum, aðrir eru hræddir við þau og oft fylgir þeim óhreinlæti. Ýmis vandamál hafa komið upp sem tengjast meðferð á dýrunum því fyrir kemur að eigendur dýranna hafa ekki getað hirt um þau eins og til er ætlast. Mörgum var ljóst hverjar reglurnar voru áður en þeir fengu sér gæludýr. Fólk hefur fengið áminningu og hafa sumir leyst sín mál. Alltaf er hægt að óska eftir flutningi í húsnæði á vegum Brynju þar sem gæludýr eru leyfð. Komið hafa upp svæsin dæmi um fólk með ofnæmi og ýmsa sjúkdóma sem versna í návist katta og nokkuð hefur verið um ónæði vegna hunda. Huga þarf að öllum hópum öryrkja og til þess eru settar reglur sem ætlast er til að sé fylgt. Sambærilegt bréf var sent út fyrir 2 árum, en þá urðu viðbrögð önnur.

Umræður og fyrirspurnir

Átta aðilar tóku til máls. Meðal annars kom fram að gæta þurfi að talsmáta því ekki má setja veikindi í stigveldi, þannig að andleg heilsa sé sett skör lægra en ofnæmi. Rannsóknir eru til um það að gæludýr bæti andlega heilsu fólks og því eru líkamleg einkenni ekki þau einu sem taka þarf tillit til.

Nefnt var að blindrahundar eru undantekning frá reglunum, það er ekki er hægt að vísa þeim í burtu. Mikill sóðaskapur er í einni blokk við Sléttuveg þar sem fólk hirðir ekki eftir hunda sína, t.d. er oft pissulykt í lyftunni eftir dýr. Þetta snýst um að fjölbýlishús er ekki réttur staður fyrir stóra hunda. Fólk þarf allavega að geta séð um hundinn.

Tillaga kom um að ein blokk á vegum Brynju yrði gerð að blokk þar sem mætti vera með dýr. Nefnt var að augljósir hagsmunaárekstrar séu á milli Brynju og leigjendanna og að ÖBÍ taki ekki nægjanlega vel á því fyrir hönd fólksins. Fólkið hafði enga talsmenn nema fréttamennina sem fóru af stað og skaðaðist ímynd ÖBÍ í þeim fréttaflutningi. Farið var fram á það að Brynja hússjóður skýri málið og kynni almenningi rekstrarmun á ÖBÍ og Brynju hússjóði.

Spurt var hvort ekki væri tímabært að leyfa hundahald með tilteknum ströngum skilyrðum í stað þess að banna það. Fylgja þarf því fastar eftir að fólk sinni þeim skilyrðum sem sett eru. Til dæmis gætu þeir sem eru með hunda borgað aukagjald til að standa straum af þrifum.

Nefnt var að skrítið væri að ræða um gæludýrahald þar sem í reglunum er talað um dýrahald.

Í svörum Garðars kom fram að leigjendur hafa þurft að flytja vegna sjúkdóms síns, t.d. hefur ofnæmi versnað vegna dýrahalds annarra aðila. Allir hópar eiga að eiga skjól hjá Brynju, hvort sem þeir eru andlega eða líkamlega veikir.

Fjöldi öryrkja líður fyrir ólyktina og hundaskítinn sem var síðasta vetur. Allt eru þetta öryrkjar og skjólstæðingar Brynju og ÖBÍ. Það eru ekki alltaf þeir sem hæst hafa sem fara verst út úr málunum.

Brynja á fjölbýlishús á tveimur stöðum, í Hátúni og Sléttuvegi. Ef Sléttuvegur væri t.d. fyrir dýr færi meirihluti íbúða undir það. Hreyfing á íbúum hefur verið of hæg til að raunhæft sé að búa til sérstakt hundahús því fólk er ekki alltaf tilbúið að bíða eftir því að íbúð losni þar sem má vera með dýr og fær sér dýr þrátt fyrir að það megi ekki. Meirihluti íbúa Brynju býr ekki í fjölbýlishúsum og einhver hluti þeirra virðist halda dýr. Einnig eru stakar íbúðir í fjölbýlishúsum þar sem dýrahald er leyft. Nú eins og alltaf er komið til móts við þá sem eru með dýr og hefur sumum verið boðið að flytja og hefur verið tekið vel í það. Vandamálið er mun minna en ætla mætti af sjónvarpsfréttum. Ekki er amast við dýrum af fyrra bragði en þegar kvartanir annarra leigjenda eru orðnar of miklar til að horfa framhjá þeim verður að gera eitthvað. Það að setja aukagjald leysir ekki neitt.

Málið snýst aðallega um ketti og hunda og hefur fólk stundum sagst vera að geyma dýr fyrir aðra. Ekki er amast við öðrum gæludýrum, svo sem gullfiskum og öðru slíku.

Halldór Sævar þakkaði fyrir umræðuna og sagði að margar hliðar væru á málinu. Gæludýraeign hefur aukist og rætt hefur verið við fólk sem er með dýr. Koma þarf fram að bréfið frá Brynju til leigjenda fór eingöngu til íbúa tveggja blokka í eigu Brynju en ekki á aðra leigjendur. Brynja á rúmlega 700 íbúðir víðs vegar um land.

Kaffi, 10 mínútna hlé.

6.    Styrkir til aðildarfélaga ÖBÍ.

Endurskoða þarf úthlutunarreglur til aðildarfélaga því að eftir aðalfund í október verða engir aðalstjórnarfundir. Varaformaður útskýrði vinnuferli framkvæmda-stjórnar. Hver fulltrúi skilar inn sínum tölum og er fundið meðaltal tillagna þeirra þar sem nokkuð bil getur stundum verið í tillögum. Í úthlutunarreglunum kemur fram að taka þarf tillit til mætingar á aðalstjórnarfundi og aðalfundi og var það gert. Fulltrúar framkvæmdastjórnar úthlutuðu eftir bestu getu, farið var yfir hverjir uppfylltu ekki mætingarskyldu, var tekið tillit til þess og lækkaði framlag til nokkurra félaga þess vegna.

Tillaga framkvæmdastjórnar var samþykkt. Aðildarfélögin fá bréf frá skrifstofu ÖBÍ um styrkúthlutunina. Þau félög sem lækkuð voru vegna mætingar fá að vita af því.

7.    Skýrsla Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um ferðaþjónustu fatlaðra. Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar.

Bergur Þorri Benjamínsson er í nefnd um ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuð-borgarsvæðinu sem skipuð var af neyðarstjórn vegna atvika sem upp komu hjá ferðaþjónustunni þegar hún fluttist yfir til Strætó bs. Hann fór yfir nokkur atriði sem urðu til þess að Innra eftirlit Reykjavíkurborgar skoðaði málið og skrifaði skýrslu sem ber heitið „Sameiginleg ferðaþjónusta fatlaðs fólks á höfuðborgar-svæðinu, aðdragandi, innleiðing og framkvæmd breytinga.“ Bergur bað um að umræður yrðu um málið fremur en að hann héldi fyrirlestur um það.

Umræður og fyrirspurnir

Spurt var hvort ferðaþjónustan væri komin í lag? Hvort kvörtunum hefði fækkað á síðustu vikum? Hvort vitað væri hvað veldur seinkunum og vöntun á bílum um helgar? Hvort búið væri að gera ráðstafanir vegna samnings sem rennur út við Allra handa?

Bergur svaraði því til að ferðaþjónustan væri ekki komin í lag en margt væri búið að bæta. Fólk væri orðið mjög þreytt á að kvarta því það finnur neikvætt viðmót frá þjónustuverinu ef kvartað er of mikið. Hann stofnaði hóp á Facebook þar sem notendur þjónustunnar geta rætt saman og kvarta margir undan þjónustuverinu. Verðskrá Strætó er há, áætlanir standast ekki, sambýli og fleiri fá ekki bíla og vilja betri þjónustu. Kostnaður sveitarfélaganna hefur nánast tvöfaldast frá því sem var áður því nú eru margir bílar sendir til að sækja sitthvorn farþegann frá A til B í stað eins bíls áður. Hluti af hækkuðum kostnaði er að keyptir voru nýir bílar því bilanatíðni var há í þeim gömlu og þeir uppfylltu ekki öryggisstaðla. Eitthvað hefur borið á því að vöntun væri á bílum um helgar en engar skýringar hafa fengist vegna þess. Varðandi samning við Allra handa mun Strætó taka hann yfir en mönnum líst ekki mjög vel á það því verkefnið var undirbúið á röngum forsendum. Allir þurfa að vinna eftir sömu forsendum og vita hvert stefnt er, það var augljóslega ekki gert þegar farið var af stað með verkefnið.

8.    Kynning aðildarfélaga ÖBÍ.

Þessi liður féll niður.

9.    Næsti fundur.

Næsti aðalstjórnarfundur verður haldinn 9. september 2015.

10.  Önnur mál.

a) Nefnd Péturs Blöndal.

Klara Geirsdóttir sagði frá því að hún og varaformaður hefðu setið fund í nefnd Péturs Blöndal að morgni 27. maí og bjuggu til ályktun í tengslum við það sem fram kom á fundinum.

Farið var yfir ályktunina og hún samþykkt. Ályktun aðalstjórnar ÖBÍ 27. maí:

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) tekur undir kröfugerð verkalýðshreyfingar-innar um hækkun lágmarkslauna í 300.000 kr. innan þriggja ára. Framfærsluviðmið almannatrygginga er undir 200.000 kr. og undir lágmarkslaunum fyrir dagvinnu. Hópur lífeyrisþega hefur búið við mjög bág kjör árum og áratugum saman vegna mjög lágra tekna. Lífeyrir og lágmarkslaun duga ekki fyrir lágmarksframfærslu. Því er óhjákvæmilegt að lagfæra kjör þessara hópa.

Lögum samkvæmt á lífeyrir almannatrygginga að breytast árlega í takt við launaþróun en þó þannig að hann hækki ekki minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Það hefur ekki verið raunin síðustu ár. Allt frá árinu 2009 hefur lífeyrir hvorki náð að halda í við þróun lægstu launa, verðlags- né launavísitölu.

Stjórnvöld hafa lýst því yfir að hagur ríkisins hafi vænkast. Skorað er á stjórnvöld að efna gefin loforð um að leiðrétta kjaragliðnun sem lífeyrisþegar hafa orðið fyrir á síðustu árum.

Aðalstjórn ÖBÍ gerir þá kröfu að lífeyrir hækki að lágmarki í samræmi við krónutöluhækkun lægstu launa í yfirstandandi kjarasamningagerð.

b) Kynningarfundur vegna stefnuþings.

Sagt var frá því að fundur verði haldinn í júní áður en skýrsla frá stefnuþingi verði send til umsagnar aðildarfélaga ÖBÍ.

11.  Fundarslit.

Varaformaður sleit fundi kl. 19:30.

Fundarritarar:

Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.