Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar 27. september 2012

By 21. janúar 2013No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn miðvikudaginn 27. september 2012 kl. 17.00 – 19.00 í sal Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, Hátúni 12, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Björk Þórarinsdóttir
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
FAAS – Svava Aradóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Guðmundur S. Johnsen
Félag nýrnasjúkra – Hannes Þórisson
Fjóla – Ágústa Gunnarsdóttir
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Geðverndarfélag Íslands – Kjartan Valgarðsson
Gigtarfélag Íslands – Einar S. Ingólfsson
Heyrnarhjálp – Fríða Birna Kristinsdóttir
HIV Ísland, alnæmissamtökin á Íslandi – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Hallfríður Sigurðardóttir
LAUF – samtök flogaveikra – Helga Sigurðardóttir
Málbjörg – Guðbjörg Ása Jónsd. Huldud.
MND félag Íslands – Guðjón Sigurðsson
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg – Grétar Pétur Geirsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Vilmundur Gíslason
Tourette samtökin – Arna Garðarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ

Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari og starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, setti fund kl. 17:05. Salur á 9. hæð í Hátúni 10 var tvíbókaður og því var fundurinn haldinn í sal Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, Hátúni 12. Formaður lagði til að Hjördís Anna Haraldsdóttir, varaformaður ÖBÍ tæki við fundarstjórn. Samþykkt samhljóða.

Hjördís Anna Haraldsdóttir, varaformaður tók við fundinum sem fundarstjóri. Beðið var um samþykki fyrir því að Jón Gunnar Jónsson sæti fundinn sem fulltrúi FSFH. Einnig var óskað eftir því að Fríða Birna Kristinsdóttir, sæti fundinn sem fulltrúi Heyrnarhjálpar. Samþykkt samhljóða. Fundarmenn kynntu sig.

2.  Fundargerð frá 5. september 2012 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

3.  Skýrsla formanns.

Formaður sagði frá ímyndarherferð ÖBÍ sem hefur fengið jákvæð viðbrögð meðal almennings. Greinar fylgdu herferðinni í dagblöðum og hvatti hann menn til að skrifa greinar um sín sérfræðimál og birta.

Formaður, ásamt lögfræðingi ÖBÍ og framkvæmdastjóra og lögfræðingi Blindrafélagsins fóru á fund Innanríkisráðuneytisins þar sem kynnt voru drög að breytingu á kosningalögum. Frumvarp liggur fyrir Alþingi um breytingar á kosningalögum, sem byggir á 29. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Greinin snýst um það að fatlað fólk geti látið vilja sinn óþvingað í ljós og fengið aðstoð við það að eigin vali. Til að koma í veg fyrir misnotkun þá fara allir út úr kosningaherberginu nema hinn fatlaði og kjörstjóri. Ef að viðkomandi getur ekki tjáð sig þarf réttindagæslumaður að staðfesta með vottorði hvern sá fatlaði hefur valið sem sinn aðstoðarmann. Með þessum breytingum er Ísland í fararbroddi á norðurlöndum hvað leynilegar kosningar varðar.

Fundur  með þingflokki Samfylkingarinnar var haldinn mánudaginn 17. september. Formaður og framkvæmdastjóri mættu á fundinn og voru málefni ÖBÍ og öryrkja rædd. Allir ráðherrar flokksins voru á fundinum sem og flestir þingmenn þeirra og nokkrir varaþingmenn. Grunnur að áherslupunktum sem ÖBÍ lagði fram voru hafðir til hliðsjónar á fundinum. Ætlunin er að fá fundi með öllum helstu þingflokkum landsins.

Á fundinum var látið að því liggja að ÖBÍ vildi ekki vera í samstarfi vegna þess að ÖBÍ stendur enn við sitt að mæta ekki á fundi starfshóps um endurskoðun almannatryggingalaga, því ekki hafi verið tekið á vandanum. Velferðarráðherra benti hins vegar á að ÖBÍ hefði verið í miklum tengslum við ráðuneytið og stjórnvöld og væri almennt tilbúið í samstarf. Árni Gunnarsson, formaður starfshópsins, hefur óskað eftir því að framkvæmdastjórn ÖBÍ komi á fund með honum um málið. Samþykkt var að formaður, Emil Thóroddsen og Frímann Sigurnýasson færu á fund með Árna þriðjudaginn 2. október.

Bent var á það rétt fyrir fundinn að í markmiðum forsætisráðuneytisins fyrir árið 2020 á að vera búið að fækka öryrkjum með 75% örorku úr 7% í rúmlega 5%.

Í undirbúningi eru 3 dómsmál. Fyrsta málið sem farið verður í varðar framfærslu einstaklings. Hin málin varða komu- og umsýslugjöld og er ætlunin að stefna einni læknamiðstöð vegna gjaldsins eða viðurkenningar á að gjaldtakan sé ólögleg og hins vegar að stefna ríkinu með þeim rökum að framsal til ráðherra sé of víðtækt, þar sem fram kemur í lögum að ráðherra geti skrifað reglugerð í tengslum við lögin.

Málþing um 4. og 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður haldið fimmtudaginn 11. október í Silfurbergssal Hörpu. ÖBÍ fékk styrk frá EDF (European Disability Forum) til að halda málþingið. Aðal fyrirlesarar verða Stig Langvad, formaður danska öryrkjabandalagsins, sem situr í sérfræðinefnd SÞ um samninginn og Javier Güemes, varaframkvæmdastjóri EDF. Einnig verða fulltrúar með erindi og sitja fyrir svörum í pallborði frá ÖBÍ, innanríkis-, velferðarráðuneyti, fötlunarfræði HÍ, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Umræður

Tveir aðalstjórnarfulltrúar viðruðu þá skoðun sína að heimskulegt væri að ÖBÍ væri ekki með í starfshóp um endurskoðun almannatryggingalaga. Ef menn taka ekki þátt geta þeir ekki haft áhrif. Bandalagið ætti að vera með og skila sér nefndaráliti.

Formaður útskýrði að fulltrúar ÖBÍ hafi beðið um bókanir í fundargerðum en að ekkert hafi verið bókað rétt sem fulltrúar bandalagsins sögðu og algjörlega gengið yfir þá. Því hefði verið eðlilegt að stíga út.

Spurt var hvert markmiðið væri með dómsmálunum og hvort að árangur náist með þeim frekar en með samráði og baktjaldamakki? Einnig var spurt hvað kæran vegna forsetakosninganna hefði kostað?

Formaður svaraði því til að reikningur væri ekki kominn vegna forsetakosninga-kærunnar. Með dómsmálum er reynt að fá viðurkenningu á því að menn eigi að standa við lög og stjórnarskrá og að ekki megi brjóta á fólki með því að leggja gjöld á fólk nánast fyrirvaralaust.

Skýrsla formanns lögð fram til samþykktar. Samþykkt.

Stutt hlé.

4.  Fjárhagsáætlun ÖBÍ 2012. Endurskoðun.

Framkvæmdastjóri sagði frá því að framkvæmdastjórn ÖBÍ legði til að hækka tvo liði á fjárhagsáætlun ÖBÍ 2012, samtals um 15 milljónir króna. Annars vegar að liðurinn Auglýsingar hækki um 5 milljónir króna og hins vegar að liðurinn Aðkeypt þjónusta og rannsóknir hækki um 10 milljónir króna. Eftir hækkun á áætlun ÖBÍ fyrir árið 2012 stendur liðurinn Auglýsingar í 8,5 milljónum króna og liðurinn Aðkeypt þjónusta og rannsóknir í 20 milljónum króna.

Ástæða hækkunar á liðnum auglýsingar er að auglýsingaherferð í september „Örorka er hvorki val né lífsstíll“ kostar 3,5 milljónir króna. Búið var að ráðstafa 1,7 milljón krónum í sumar og því hefur verið farið yfir áætlun.

Ástæða hækkunar á liðnum aðkeypt þjónusta og rannsóknir er að áætlunin hljóðaði upp á 10 milljónir króna en kostnaðurinn er kominn upp í 8 milljónir króna, sem eru tilkomnar vegna vinnu ritstjóra sem sér um vefrit og tímarit ÖBÍ og rannsókna í samstarfi við HÍ o.fl varðandi hvernig búseta einstaklinga skiptist niður á sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins. Aðalstjórn samþykkti tillögu Blindrafélagsins að gera úttekt á búsetu í tengslum við þjónustu. Ráðgert er að vinna að þeirri rannsókn í vetur og að skýrsla liggi fyrir vorið 2013. Tilboð í gerð rannsóknarinnar hljóðar upp á 9 milljónir króna, helmingur greiddur í upphafi og helmingur við lok rannsóknarinnar.

Umræður

Spurt var hver yrði ávinningur af skýrslu sem kostar um 9 milljónir og hvernig eigi að nýta hana? Spurt var af hverju liðurinn aðkeypt þjónusta og rannsóknir væri ekki hækkaður um 5 milljónir árið 2013 og 5 milljónir árið 2014, þar sem einungis þurfi að greiða helming af verði skýrslunnar árið 2012.

Formaður og fleiri svöruðu því að mikilvægt væri að nota skýrsluna í aðdraganda kosninga, t.d. til að sýna fram á hugsanlegar brotalamir vegna yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Fá þarf heildarmynd á þjónustu vegna búsetu þar sem grunur leikur á að fólk flytji milli sveitarfélaga í leit að betri þjónustu. Hægt væri að halda ráðstefnu þar sem fjallað yrði um skýrsluna og einnig geta aðildarfélög bandalagsins nýtt hana fyrir sína félagsmenn. Framkvæmdastjóri sagði að hækka þyrfti liðinn því að hluti af hækkuninni væri vegna tímarits ÖBÍ sem gefa á út í nóvember 2012.

Umræða var um hvort setja ætti fram sundurliðaðar breytingar á fjárhagsáætlun og hvort afgreiðsla málsins teldist marktæk. Gjaldkeri ÖBÍ baðst velvirðingar á því að ekki kæmi skýrar fram hvaða tölur liggja að baki tillögum um hækkun fjárhags-áætlunar 2012.

Gagnrýnt var að Öryrkjabandalagið sendi ekki frá sér gögn með góðum fyrirvara fyrir aðalstjórnarfundi svo að allir aðalstjórnarfulltrúar geti kynnt sér þau gögn sem liggja fyrir fundinum.

Formaður þakkaði góðar ábendingar. Ef aðalstjórnarfulltrúar vilja sjá hvern lið fyrir sig í fjárhagsáætlun þá er þeim velkomið að fá útprentun á því. Bar upp hækkun á fjárhagsáætlun 2012. Samþykkt með meirihluta atkvæða.

5.  Baráttumál ÖBÍ. Áherslur fyrir kosningaveturinn.

Formaður kynnti minnisblað, dags. 27. september 2012, um áherslur bandalagsins og sagði að þar sem gögnin voru ekki send fyrirfram til aðalstjórnar gætu fulltrúar fengið þau beint í tölvurnar sínar.

Áhersla er lögð á að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fyrst. Mikil þörf er á heildstæðri íslenskri jafnréttislöggjöf sem bannar mismunun á breiðum grunni. Innleiða þarf tilskipun Evrópusambandsins um bann við mismunun um atvinnumál frá 2000 en þar kemur fram að ekki megi mismuna fólki á vinnumarkaði vegna fötlunar. Velferðarráðuneytið hefur skilað af sér góðri skýrslu varðandi NPA en sum sveitarfélög draga lappirnar í framkvæmd. Loks hafa verið sett lög um réttindagæslu en starfshlutfall réttindagæslumanna er of lítið, t.d. á réttindagæslumaður í 50% starfshlutfalli sem staðsettur er á Akranesi að sinna svæðinu frá Vesturlandi til og með Vestfjörðum. Verulegar kjaraskerðingar urðu árið 2009 og missti fólk ákveðin rétttindi, t.d. hefur fatlað fólk fengið skertar bætur eingöngu vegna þess að á sama lögheimili er annar aðili skráður, sem er þó hvorki maki né barn viðkomandi. Mikilvægt er að örorkuuppbótin verði aftur það sem hún átti upphaflega að vera, að framfærslukostnaður verði aðskilinn öðrum kostnaði, s.s. lyfja-, þjálfunar- og hjálpartækjakostnaði. Einnig er mikilvægt að styrkir til bifreiðakaupa og til reksturs bifreiðar hækki í takt við verðlagsbreytingar.

Umræður

Nefnt var að minnisblað ÖBÍ hljómaði eins og 10 ára plan, því að lögð væri áhersla á of mörg mál í einu, þannig að hætta væri á að ekkert verði úr þeim. Taka þyrfti tvö til þrjú mikilvæg mál út, vinna að þeim og klára og taka svo næstu tvö til þrjú mál fyrir. Gott væri að útbúa verkefnaskrá og klára einhver mál svo að árangur sæist áður en farið væri í næstu mál.

Formaður sagðist sammála því að vinna verði að tveimur til þremur málum í einu en bandalagið verði að vita hvert það ætlar sér í þeim málum sem upp eru talin á blaðinu og því er mikilvægt að skrá allt niður. Verið er að vinna í tveimur stórum málum núna, það er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks annars vegar og kjaramál hins vegar.

Framkvæmdastjóri sagði að athugasemdir séu vel þegnar varðandi minnisblaðið, það verði sent til aðalstjórnar og aðildarfélaga bandalagsins. Gott er að hafa blaðið og afhenda það þingflokkunum til skoðunar. Aðildarfélög bandalagsins eru mörg og með mismunandi áherslur og því er gott að hafa eitt heildstætt plagg sem grunn til að afhenda, hafa á heimasíðum og fleira.

Nokkrir fundarmenn lýstu yfir ánægju að hafa minnisblaðið sem grunn til að vinna með og síðan gæti hvert aðildarfélag raðað málunum í þá forgangsröð sem þeim hentar. Gott væri að fara yfir minnisblaðið, hvað hefði áorkast á aðalfundi ÖBÍ.

6.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur er áætlaður 22. nóvember 2012, kl. 17 til 19. Gert er ráð fyrir öðrum aðalstjórnarfundi fyrir þann tíma til að ræða skýrslu Rannveigar, með þeim fyrirvara að Rannveig komist.

7.  Önnur mál.

a) Fundargerð frá 16. ágúst 2012.

Fundarstjóri sagði frá því að gleymst hefði að bera upp fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ frá 16. ágúst 2012 til samþykktar og bað fundarmenn um að segja álit sitt á henni. Fundargerðin var samþykkt með meirihuta atkvæða.

b) Endurhæfingarlífeyrir.

Ágústa Eir Gunnarsdóttir, Fjólu, spurði hvort þeir sem væru á endurhæfingar-lífeyri væru taldir með þegar stjórnvöld tala um fjölda öryrkja í landinu? Talað hefur verið um fækkun öryrkja á landinu og væri það mikið gleðiefni ef að fólk fær vinnu og telst þar með ekki öryrkjar.

Framkvæmdastjóri svaraði því til að í tölum er talað um þá sem eru með 75% örorku en stundum í skýrslum er talað um örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Formaður sagði það erfiðara í dag að verða öryrki en áður var og menn eru gjarna settir á endurhæfingarlífeyri til að byrja með í einhvern tíma áður en þeir fara á varanlega örorku. Þetta er hjálpartæki til að takmarka fjölgun öryrkja.

c) Tillaga MND félagsins.

Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins bað framkvæmdastjóra ÖBÍ um að lesa tillögur MND félagsins vegna verkefna ÖBÍ.

Tillögurnar eru eftirfarandi:

Hafnarfirði 27. sept. 2012

Tillaga MND félagsins vegna verkefna ÖBÍ.

Öll aðildarfélög verði beðin um að nefna 5-10 verkefni sem þau telja ástæðu til að fara í. Önnur en mál sem teljast stór og viðvarandi.

Verkefni ÖBÍ frá MND félaginu:

1.  Löggilding samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

2.  ALLIR komist í Viðeyjarferð.

3.  Þjónusta sem ætluð er öllum verði aðgengileg öllum. Hársnyrtning á 3. hæð í lyftulausu húsi fái ekki starfsleyfi frá ríki og bæ.

4.  Ferðaþjónusta fatlaðra verði efld en um leið stefnt að því að hún verði óþörf með því að almenningssamgöngur verði fyrir alla.

5.  Markvisst verði farið yfir reglur Sjúkratrygginga um hjálpartæki og komið með tillögur um bætt geti úr oft yfirgengilegu rugli.

  • Einn rampur á íbúð.
  • Enginn öryggishnappur ef maki er heima og hefur ekki náð 67 ára aldri.

6.  Íbúðalánasjóður styrki breytingar á húsnæði sem er óaðgengilegt í dag í húsnæði fyrir alla.

Bara til að nefna eitthvað.

Kv, Gaui.

Formaður sagði tillögurnar frábærar. Rætt hefur verið um að aðildarfélögin taki eina grein eða fleiri úr samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til að hægt sé að berjast fyrir bættum hag.

Fundi slitið 19:30.

Fundarritarar:

Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.