Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar 3. maí 2012

By 29. júní 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 3. maí 2012, kl. 17:00-19:00 í Hátúni 10, 9. hæð, Reykjavík

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
Blindravinafélag Íslands – Gísli Helgason
FAAS – Svava Aradóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Guðmundur S. Johnsen
Félag nýrnasjúkra – Jórunn Sörensen
Fjóla – Ágústa Gunnarsdóttir
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Geðverndarfélag Íslands – Kjartan Valgarðsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
HIV-Ísland – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Ólöf Þráinsdóttir
LAUF – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg – Guðbjörg Ása Jónsdóttir
Málefli – Þóra Sæunn Úlfsdóttir
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg – Hilmar Guðmundsson
SPOEX – Albert Ingason
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Starfsfólk:

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
S. Hafdís Runólfsdóttir, ferlimálafulltrúi
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari
Margrét Jochumsdóttir, ritstjóri

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Formaður setti fund kl. 17.05 og bað fulltrúa að kynna sig.

2.  Fundargerð frá 1. mars 2012 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

Gísli Helgason, Blindrafélaginu, bað um að bókað væri að hann fékk ekki boð á síðasta aðalstjórnarfund, þó svo að hann hafi verið kominn í aðalstjórn.

3.  Skýrsla formanns.

Formaður fór yfir skýrslu sína og sagði frá því helsta sem gerst hefur frá síðasta aðalstjórnarfundi.

EDF fundur 3. og 4. mars og ráðstefna um aðgengismál 5. og 6. mars.

Á fundi EDF var kynntur styrkur sem veittur er til að kynna 4. og 33. grein í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sótt var um styrkinn, innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti var boðið samstarf sem þeir þáðu og mun kostnaði verða deilt. Einnig var Rannsóknasetri í fötlunarfræðum við HÍ og Mannréttindaskrifstofu Íslands boðin þátttaka.

Guðmundur sagði frá heimsókn hans í nýtt hús bandalagsins í Danmörku en það hús er í byggingu og samkvæmt orðum formanns danska bandalagsins, Stig Langvad er stefnt að því að húsnæðið verði það aðgengilegasta í Evrópu.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Félögin kynna sig og ákveðnar greinar samningsins, þ.e. hvernig hann nýtist best í baráttunni.

Til að samningurinn nýtist sem best þarf að þekkja hann og vita hvernig hægt er að nota hann í baráttunni. Hugmyndin er að koma því niður á blað hvernig hægt er að yfirfæra greinar samningsins á raunverulega atburði. Stefnt er að því að aðildarfélög ÖBÍ skoði samninginn, með tilliti til eigin baráttumála og velji sér ákveðna grein til umfjöllunar. Félögin munu síðan kynna sig og þá grein sem þau tóku fyrir. Í haust er áætlað að gefa út bæklinga með þeim upplýsingum sem félögin safna. Hver bæklingur mun fjalla um eina grein.

Heiðursdoktor í fötlunarfræðum Tom Shakespeare 16. mars

Tom Shakespeare kynnti skýrslu WHO, World Report on Disability, en hann var einn af höfundum og ritstjórum hennar. Skýrslan markar tímamót því þar er í fyrsta sinn gefið yfirlit yfir stöðu og aðstæður fatlaðs fólks í heiminum. Það er mjög mikilvægt að fatlað fólk sé hluti af fræðasamfélaginu og er Tom góð fyrirmynd í þeim efnum. Honum var veitt heiðursdoktorsnafnbót í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands 16. mars 2012.

Djáknamálið

Djákni hefur verið starfandi í Hátúni 10 og hefur ÖBÍ greitt einn þriðja af launum djákna. Forðast þarf mismunun íbúa Brynju hússjóðs og hefur verið ákveðið að hætta að greiða fyrir þessa þjónustu. Vegna fjölda íbúa í Hátúni er sameiginlegt rými þar sem boðið er upp á kaffi og félagsstarf. Þar sem reynst hefur erfitt fyrir íbúa sjálfa að halda utan um slíkt starf hefur djákninn aðstoðað við það. Fundur var haldinn með formanni Laugarnessafnaðar og hefur hann haft samband við þjónustumiðstöð Háaleitis og Laugardals til að finna þessu nýjan farveg.

Húsnæðismál ÖBÍ

Ákveðið var að flytja skrifstofu ÖBÍ úr Hátúni fyrir um það bil 6 árum og hefur húsnæði verið skoðað síðan þá. Það sem hefur hamlað kaupum er aðallega aðgengi eða bílastæðamál. Nú er til sölu 4. og 5. hæð Rauðarárstígs 23, húsnæði Rauða krossins. Arion banki á neðri hæðirnar. Bæta þarf aðgengi að húsnæðinu, lyfta fer t.d. einungis upp á 4. hæð og er beðið eftir svari frá Arion banka um það hvort hægt verði að fara í slíkar breytingar.

Almannaheill, samtök þriðja geirans, aðildarfélagaátak

ÖBÍ er eitt af aðildarfélögum Almannaheilla. Samtökin eru ekki eins stór og vonir stóðu til í upphafi og verður farið í átak til að fjölga aðildarfélögum samtakanna, en með því eykst áhrifamáttur þeirra. Aðalfundur verður haldinn á næstunni

Sveitarfélög, kynna þjónustu við fatlaða íbúa

Nokkur sveitarfélög, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Álftanes hafa haldið fundið og kynnt þjónustu sína við fatlaða íbúa. Þessi sveitarfélög hafa öll sett á laggirnar notendaráð en í ólíku formi.

Bakhópar ÖBÍ, endurskoðun almannatrygginga og kjarahópur. Samskipti við ráðamenn

ÖBÍ sagði sig úr nefnd sem endurskoða á almannatryggingalögin. Það hefur ekki verið litið jákvæðum augum af stjórnvöldum en ÖBÍ getur ekki tekið þátt í þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru í nefndinni og orðið samsekt um útkomuna. Þetta er því eitt af fáum vopnum ÖBÍ. Bakhópur ÖBÍ starfar áfram og stofnaður var kjarahópur.

Úthlutun styrkja til aðildarfélaga ÖBÍ

Til úthlutunar eru 50 milljónir. Haldnir voru tveir aukafundir í framkvæmdastjórn til að fara yfir styrkumsóknir. Reglum um styrkúthlutun til aðildarfélaga ÖBÍ var fylgt en þær reglur þarfnast endurskoðunar síðar.

1. maí 2012

ÖBÍ gekk fylktu liði niður Laugaveg í 1. maí skrúðgöngu. Stór hópur fólks kom og bar eigin skilti eða skilti ÖBÍ. Formaður sýndi myndir frá deginum.

Hvatning til lestrar

Formaður hvatti fundarmenn til að lesa skýrslu Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar um umfang kreppunnar og afkomu ólíkra tekjuhópa. Skýrslan hefur verið send til aðalstjórnarfulltrúa. Einnig hvatti hann fundarmenn til að fara á vef Alþingis og lesa frumvarp til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Frumvarpið er ekki komið í umsagnarferli.

Umræður

Frímann Sigurnýasson, SÍBS spurði hvað væri að gerast á vettvangi Almannaheilla?

Formaður svaraði því til að ÖBÍ væri í stjórn þar en lítið er um fjármagn svo að ekki hefur verið gert eins mikið og til stóð. Það hefur verið reynt að fá inn fleiri félög en samband hefur náðst við stjórnvöld. Þáverandi fjármálaráðherra lýsti því yfir á síðasta aðalfundi að hann væri alfarið á móti skattaívilnunum til félaga en vildi heldur vera með styrki sem sótt væri um sérstaklega. Erlendis hafa verið skattaívilnanir og við viljum fylgja því fordæmi og höldum áfram að berjast fyrir því.

Rætt var um bílastæði og aðgengi að Rauðarárstígshúsinu. Þau mál verða skoðuð sérstaklega í tengslum við kaup á húsnæðinu. Draumurinn er að hafa bílastæði undir húsinu og eru allar tillögur um gott hús með góðu aðgengi vel þegnar.

Gísli Helgason, Blindravinafélaginu, spurði hvort ekki ætti að mæta á alla fundi í starfshóp um breytingar á lögum um almannatryggingar og biðja um það í hvert skipti að bókað verði að við tökum ekki þátt í störfum þeirra? Verða aðalstjórnarfundir ekki skilvirkari ef að formaður skilar skýrslu til fulltrúa í tölvupósti fyrir fundina?

Formaður svaraði því til að ÖBÍ hefur lagt fram bókanir á fundum starfshópsins en þær koma ekki fram í fundargerð, einungis að ÖBÍ hafi lagt fram bókun en ekki hvers eðlis hún er, svo það þýðir ekki. Gæti hugsanlega sent skýrsluna efnislega með tölvupósti en er að vinna í skýrslunni fram að aðalstjórnarfundi.

Ólöf Þráinsdóttir, Hugarfar, spurði hvers konar hópar sveitarfélögin eru með?

Formaður svaraði því til að þeir sem fá aðstoð frá sveitarfélaginu, mynda notendahóp til að ræða það hvort þjónustan er eins og hún á að vera.

4.  Samskipti við stjórnvöld.

Formaður sagði frá opnu bréfi ÖBÍ sem fór til allra þingmanna og ráðamanna og hvatti fundarmenn að kynna sér það. Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra skrifaði bréf til formanns, dagsett 1. maí. Formaður las bréfið frá Guðbjarti.

Þar sem bréfið frá Guðbjarti er stílað á formann persónulega þá verður því ekki dreift fyrr en formaður hefur náð fundi með Guðbjarti og farið yfir málið. Það er ekki hægt að taka þátt í öllu og vera meðsek þeim í alls kyns skerðingum.

Umræður

Ábending kom til formanns um að skrifa svar til ráðherra þar sem hann er beðinn um að kynna sér söguna því í bréfi ráðherra koma fram töluverðar rangfærslur.

5.  Vefrit ÖBÍ, kynning.

Margrét Jochumsdóttir, ritstjóri ÖBÍ, kynnti undirbúning að vefriti ÖBÍ. Tilgangur vefritsins er að vekja umræður í samfélaginu um líf fatlaðs fólks og öryrkja. Hlutverk þess er að vera upplýsingaveita hérlendis og erlendis. Markmiðið er að gefa út 8 til 10 greinar einu sinni í mánuði. Markhópurinn er öll þjóðin en þeir sem fá fyrstu útgáfuna eru rúmlega 1000 manns af netfangalista sem ÖBÍ hefur unnið að undanfarið. Á listanum er starfsfólk í aðildarfélögum ÖBÍ, alþingismenn, sveitarstjórnarmenn, fólk sem sinnir íþrótta- og tómstundastarfi og aðrir sem hafa áhuga á þessum málum. Einhverjir félagsmenn úr aðildarfélögunum eru á listanum en þar sem ÖBÍ er ekki með netföng allra eru aðildarfélögin vinsamlegast beðin um að áframsenda á sína félagsmenn, sem geta þá skráð sig inn á póstlistann. Síða á Facebook verður opnuð fyrir vefritið.

Hönnun vefritsins var í höndum Hugsmiðjunnar og á aðgengi að vera í topp standi. Aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins hefur gefið grænt ljós á aðgengi fyrir blinda.

Umfjöllunarefni eru öll málefni sem tengjast lífi fatlaðs fólks, öryrkja og aðstandenda þeirra. Áhersla verður lögð á almenn mál sem og fræðigreinar á háskólasviðinu. Skoðað verður hvað er að gerast hjá félögunum og á heimsvísu. Stefnan er að virkja nemendur og kennara á háskólasviðinu til að láta ritstjóra vita af greinum, rannsóknum og fleiru sem áhugavert er að fjalla um. Ritnefnd og ritstjóri sjá um efnisöflun. Ritnefnd tekur ákvarðanir um uppbyggingu og þróun vefritsins. Greinaskrif verða aðallega í höndum ritstjóra en einnig er tekið við aðsendum greinum. Greinarnar verða ekki mjög langar en hægt er að krækja á skjöl og efni annars staðar til að kynna sér meira.

Umræður

Spurt var hvert ætti að senda efni í vefritið? Hverjir væru í ritnefnd? Hvort hægt væri að vera með skoðanaskipti um greinarnar á Facebook? Hvort hægt sé að hafa hreyfimyndir inni á vefritinu?

Ritstjóri svaraði því til að senda ætti efni á margret@obi.is og í ritnefnd eru Sóley Björk Axelsdóttir, Sigurjón Einarsson, Unnur María Sólmundardóttir, Bergvin Oddsson, Helga Kristín Olsen, Sigrún Gunnarsdóttir, Guðmundur Magnússon, Lilja Þorgeirsdóttir og Margrét Jochumsdóttir. Opnar umræður verða um málefnin. Hægt er að hafa myndir, vídeó og krækjur á annað vefsvæði.

6.  Fundaáætlun stjórnar ÖBÍ, breytingar.

Formaður fór yfir fundaplan og breytingar á því.

7.  Styrkir til aðildarfélaga ÖBÍ. Úthlutun 2012.

Framkvæmdastjóri fór yfir vinnulag framkvæmdastjórnar við úthlutun styrkja til aðildarfélaga ÖBÍ. Allir fulltrúar nema 1 samþykktu framlagðar tillögur. Tillögurnar eru með þeim fyrirvara að fjöldi félagsmanna sé réttur þegar félagatal verður samkeyrt þjóðskrá, sem gerist vonandi í sumar. Ef breyting verður á grunnstyrkjum miðað við fjölda félagsmanna fær framkvæmdastjórn leyfi til að ráðstafa þeim pening sem út af stendur?

Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra og varamaður í framkvæmdastjórn, fannst aðferð framkvæmdastjórnar til styrkúthlutunar ekki gegnsæ og mjög umdeilanleg því alltaf sé um huglægt mat að ræða í tengslum við verkefnastyrkina og því sé ekki farið eftir núgildandi reglum. Hún lagði fram breytingartillögu á móti tillögu framkvæmdastjórnar. Tillagan gengur út á ákveðna reiknireglu, þannig að aðildarfélög fái úthlutað eftir fjölda fulltrúa á aðalfundi, 180 þúsund krónur fyrir hvern fulltrúa. Ef vantar upp á mætingu á aðalstjórnarfundum þá dregst það frá.

Menn voru almennt sammála um að fara ætti eftir nýsamþykktum reglum um úthlutun styrkja til aðildarfélaga ÖBÍ. Skiptar skoðanir voru á því hvort rétt væri að miða við félagafjölda, þar sem talning félaga er mjög misjöfn eftir félögum. Nefnt var að samræma þyrfti félagatal áður en reglunum verði breytt í þá átt að úthlutun fari eftir félagatali.

Guðbjörn Jónsson, Parkinsonsamtökunum, sagði að leiðrétta þurfi 4. grein laga ÖBÍ, því hún standist ekki stjórnarskrá. Í 4. grein laga ÖBÍ segir að fjöldi félagsmanna reiknast út frá fullgildum félögum skv. gildandi lögum hvers félags. Það rétta sé hins vegar að ÖBÍ eigi að ákveða regluna en félögin eiga að aðlaga sig henni. Gott væri að fá sjónarhorn sem flestra á því hvernig hægt er að breyta lögum bandalagsins varðandi félagatal svo að allir telji félaga sína á sama hátt. Einnig vanti ákvæði í lögin um styrkúthlutun til aðildarfélaga ÖBÍ og því þurfi að breyta.

Formaður kom með frávísunartillögu á tillögu Jórunnar. Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.

Tillaga framkvæmdastjórnar var borin upp til samþykktar. Samþykkt með meirihluta atkvæða. Einn sat hjá þar sem hann fékk gögnin hvorki í hendur fyrir fundinn né á blindraletri á fundinum og gat því ekki kynnt sér þau.

8.  Önnur mál.

a) Tillaga Jórunnar Sörensen.

Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra, dreifði og las upp eftirfarandi tillögu:

„Aðalstjórnarfundur í Öryrkjabandalagi Íslands haldinn í Hátúni 10, 3. maí 2012 samþykkir að beina því til framkvæmdastjórnar að skipa nefnd sem fær það verkefni að búa til

REGLUR FYRIR ÚTHLUTUN STYRKJA ÖBÍ TIL AÐILDARFÉLAGA

Nefndin skal meðal annars hafa það til viðmiðunar að reglurnar séu gagnsæjar þannig að stjórn hvers félags geti vitað fyrirfram hvaða upphæð félagið fær miðað við gefnar forsendur“.

Tillagan ásamt greinargerð verður send með fundargerð fundarins.

Þar sem aðildarfélögin höfðu ekki fengið tíma til að ræða tillögu Jórunnar var lagt til að tillagan yrði á dagskrá á næsta aðalstjórnarfundi í júní.

Jórunn samþykkti það og var umræðunni frestað til næsta fundar.

Fundi slitið 19.20.

Fundarritarar:  Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir