Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar 30. október 2014

By 9. júní 2015No Comments
Aðalstjórnarfundur ÖBÍ

haldinn fimmtudaginn 30. október 2014

kl. 17.00 – 19.00 á Grand hóteli, Sigtúni, Reykjavík.

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 30. október 2014 kl. 17.00 – 19.00 á Grand hóteli, Sigtúni, Reykjavík.

Mættir fulltrúar:

Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
Einhverfusamtökin – Svavar Kjarrval
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag nýrnasjúkra – Guðrún Þorláksdóttir
Fjóla – Friðgeir Jóhannesson
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heilaheill – Axel Jespersen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
Hugarfar – Sigríður Ósk Einarsdóttir
HIV-Ísland – Ingi Hans Ágústsson
LAUF, félag flogaveikra – Helga Sigurðardóttir
MND félagið á Íslandi – Ægir Lúðvíksson
MS félag Íslands – Garðar Sverrisson
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Svanhildur Ósk Garðarsdóttir
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SÍBS – Nilsína Larsen Einarsdóttir
Sjálfsbjörg – Bergur Þorri Benjamínsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Tourette-samtökin á Íslandi – Sigrún Gunnarsdóttir
 

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ

Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Gunnar Alexander Ólafsson, verkefnastjóri
Margrét Ögn Rafnsdóttir, verkefnastjóri

Fundargerð

1.  Varaformaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður bandalagsins og fulltrúi Blindrafélagsins í aðalstjórn bauð fundarmenn velkomna og bað menn um að kynna sig. Halldór sagði að bæði Ellen Calmon formaður og Lilja Þorgeirsdóttir framkvæmdastjóri væru erlendis. Hann lagði til að hann ásamt Ernu Arngrímsdóttur yrðu fundarstjórar. Samþykkt. Halldór lagði því næst til að Anna Guðrún Sigurðardóttir yrði ritari fundarins. Samþykkt. Tilkynnt var að hvorki aðal- né varafulltrúi Tourette samtakanna kæmust á fundinn en að Sigrún Gunnarsdóttir væri mætt sem aukafulltrúi og var samþykkt að hún sæti fundinn sem fulltrúi Tourette samtakanna.

2.  Fundargerð frá 10. september 2014 borin upp til samþykktar. (Fylgiskjal 1)

Fundargerðin frá 10. september var samþykkt samhljóða.

3.  Drög að skýrslu ÖBÍ um nýtt örorkulífeyrisgreiðslukerfi með starfsgetumati.

Kynnir: Gunnar Alexander Ólafsson, einn af skýrsluhöfundum kynnti með glærukynningu.

Gunnar  sagði að Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, Sigurjón Unnar Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ, Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ, Guðrún Hannesdóttir, Klara Geirsdóttir o.fl. hafi unnið að skýrslunni ásamt honum. Fyrri hluti skýrslunnar var kynntur á aðalstjórnarfundi í maí sl. og kynnti Gunnar seinni hlutann.

Gunnar fór mjög vel yfir glærur sem fylgja fundargerðinni.

Forsendur starfsgetumats eru meðal annars að fólk sammælist um að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), bann við mismunun verði tryggt í lögum, tryggja þarf viðeigandi aðlögun, laga framfærslureglur og að tryggja hvata til atvinnuþátttöku. Starfsgeta veðrur metin með samræmdum og heildstæðum hætti í samráði við umsækjanda og þarfir hans, út frá læknisfræði- og félagslegu sjónarhorni. Matið er unnið af þverfaglegu teymi í anda félagslegrar sýnar á fötlun. Tillaga ÖBÍ hvernig starfsgetumat getur verið:

a) 0-25% – lítil sem engin starfsgeta – Fullar örorkulífeyrisgreiðslur.

b) 26-50 %  – Verulega skert starfsgeta – 75% örorkulífeyrisgreiðslur.

c) 51-75% – Nokkur starfsgeta – 50% örorkulífeyrisgeiðslur

d) 76%-> – Viðunandi starfsgeta – Engar örorkulífeyrisgreiðslur.

Nefnd um endurskoðun almannatrygginga sem fjallar um málið hefur verið með hugmyndir um greiðslukerfi sem ÖBÍ telur að festi núverandi kerfi í sessi. Þrepaskipt kerfi hefur hvetjandi áhrif á fólk, eykur öryggistilfinningu og hefur sveigjanleika. Í tillögum ÖBÍ er gert ráð fyrir að endurhæfingarlífeyrir verði greiddur í minnst sex mánuði samfellt og að tímalengd  lífeyrisins verði í samræmi við endurhæfingaráætlun. Áhersla er lögð á að allir fái lífeyrisskírteini, því einstaklingur í D flokki þarf jafnmikið á þjónustu að halda, s.s. sjúkraþjálfun o.fl. þó að viðkomandi sé metinn með 76% starfsgetu eða meira og ætti því ekki rétt á lífeyrisgreiðslum. Ef tillögunum verður fylgt er gert ráð fyrir bættu aðgengi og aukinni félagslegri virkni.

Lagt er til að miðstöð starfsgetu og endurhæfingar verði komið á laggirnar sem myndi sjá um framkvæmd starfsgetumatsins. Þar sem slík stofnun yrði ríkisstofnun væri hægt að kæra ákvörðun um starfsgetumat til kærunefndar velferðarmála. Stofnunin myndi sinna verkefnum sem nú eru hjá Tryggingastofnun ríkisins, Vinnumálastofnun Íslands og Sjúkratryggingum Íslands.

Framfærsluréttur er stjórnarskrárbundinn réttur skv. 76. grein stjórnarskrárinnar. Lagt verður til að ríkið tryggi að framfærsla á grundvelli endurhæfingar og starfsgetumats sé ekki undir framfærsluviðmiði óháð því hvaðan framfærsla kemur.  Réttur til endurhæfingar er einstaklingsbundinn réttur og eru ákvæði um hann í alþjóðasamningnum.

Varðandi einföldun greiðslna á grundvelli starfsgetu- og endurhæfingarmats þá leggur ÖBÍ leggur til að sérstök uppbót til framfærslu verði felld inn í tekjutryggingu, skerðingarhlutfall haldist óbreytt, að framvegis muni lágmarksframfærsluviðmið miðast við óskerta upphæð grunnlífeyris og tekjutryggingar, eftir að framfærsluuppbót hafi verið felld inn og að aðrar greiðslur leggist ofan á viðmiðið. Gert er ráð fyrir að heimilisuppbót falli ekki niður þó að maki búi á stofnun eða ef ungmenni eldra en 18 ára búi á heimilinu.

Nokkrum spurningum er enn ósvarað, t.d. hvað verður um þá sem eru með 50% starfsgetu en fá ekki atvinnuleysisbætur, verða þeir á framfærslu sveitarfélaga, á atvinnuleysisbótum?

Umræður og fyrirspurnir.

Nokkrir fundarmenn tóku til máls. Meðal annars bar einn fundarmanna skilaboð frá Alþingi um að ÖBÍ ætti að slaka á varðandi þessi mál. Aðrir fundarmenn bentu á að mikilvægt væri að hvika hvergi í kröfum ÖBÍ til að fólk kæmist úr þeim höftum sem það er í núna varðandi atvinnuþátttöku.

Það kom fram hjá fundarmönnum að það væri slæmt að ekkert gerðist hjá fólki fyrr en það væri metið með 50% starfsgetu. Einn fundarmanna spurði hvað gerðist ef einstaklingur fengi 50% vinnu og versnaði þannig að hann gæti ekki unnið? Gunnar svaraði því til að einstaklingar sem verða óvinnufærir yrðu varðir, þeir fengju fullan lífeyri og gætu beðið um endurmat. Heildarkerfið þarf að byggjast upp á hvata en ekki refsingu. Unnið er að því að fólk komi betur út úr þessu kerfi en því sem fyrir er.

Fram kom í umræðunum að peningar, það er framfærsla fólks skipti mestu máli, fólk verður að geta keypt mat, lyf og aðrar nauðsynjavörur en margir hafa ekki pening til að greiða fyrir slíkt. Rauntekjur öryrkja hækka bara um fimmtung í samaburði við launavísitölu. Endurskoða þarf frítekjumark og skerðingar. Meira fjármagn til öryrkja verður að koma út úr nýju kerfi.

Bent var á að fundurinn þyrfti ekki að samþykkja eða synja skýrslunni. Hún var kynnt til að upplýsa fólk um stöðu mála.

Gert var 8 mínútna hlé.

4.  Bókun ÖBÍ (drög) vegna starfs nefndar um lífeyrismál.

Kynnir: Klara Geirsdóttir, fulltrúi ÖBÍ í nefnd um endurskoðun almannatryggingalaga.

Klara kynnti forsögu starfs nefndarinnar en hún og Ellen, formaður ÖBÍ, eru aðalfulltrúar ÖBÍ í nefndinni. Erna Arngrímsdóttir og Grétar Pétur Geirsson eru varamenn. Upphaflega átti nefndin að skila af sér í maí 2014 en nefndin var sett á laggirnar í nóvember 2013.

Síðasti fundur nefndarinnar var áætlaður 31. október en næsti fundur nefndarinnar verður í fyrstu viku nóvember mánaðar og verður væntanlega farið fram á annan frest.

Klara sat í undirhóp um framfærsluna ásamt Gylfa Arnbjörnssyni frá ASÍ, Tryggva Þórhallssyni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jónu Valgerði Kristjánsdóttur frá landssambandi eldri borgara, Friðriki Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Þroskahjálpar og einnig hefur Gunnar Alexander Ólafsson, verkefnastjóri ÖBÍ, setið flesta ef ekki alla fundi. Nefndarmenn eru ekki alltaf sammála um hugmyndir eða leiðir en mikilvægt er að leggja fram óskalista og vona að sem mest af honum verði tekið inn, það er þá frekar hægt að bakka með eitthvað ef það  gengur ekki eftir.

Áfangaskýrsla er tilbúin en ÖBÍ hefur hugsað sér að leggja fram bókun ásamt Þroskahjálp og Landssamband eldri borgara (LEB). Ekki hefur náðst að ræða við fulltrúa þessara félaga um það hvort þau vilji vera með eða ekki og því var ekki hægt að dreifa henni og las Klara upp bókunina. Ekki var ætlunin að greiða atkvæði um bókunina en mikilvægt þótti að lesa hana upp til að fundarmenn vissu um framgang mála. Mikilvægt er að fram komi í bókuninni af hverju ákveðnir hlutir eru samþykktir þó svo að hlutirnir séu ekki endilega eins og félögin vilja.

Umræður og fyrirspurnir.

Fram komu mótmæli varðandi framlagningu hennar á fundinum, þar sem hún var ekki send til aðalstjórnar fyrir fundinn og henni ekki dreift á fundinum. Einnig var rætt að þessi mál hefðu verið rædd á undanförnum árum og að á sínum tíma hafi verið barist fyrir ákveðnum réttindum sem nú væri ætlunin að breyta. Klara benti á réttindi fólks væru ekki skert með þessum breytingum heldur miða þær allar við að einfalda kerfið og bæta hag fólks.

Garðar Sverrisson, MS félaginu, óskaði eftir að bókað yrði að hann gæti ekki tekið upplýsta afstöðu  varðandi þessa bókun þar sem hann hafi ekki getað kynnt sér hana fyrir fundinn, það væri bagalegt að fundarmenn þyrftu að heyra hana eingöngu lesna.

Bókunin var sett á skjávarpa til frekari glöggvunar fyrir fundarmenn. Ítrekað var að bókunin væri ekki lögð fram til samþykktar eða synjunar, eingöngu væri verið að upplýsa aðalstjórn um það hvernig vinnan hafi gengið.

5.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur verður haldinn 10. desember nk. en ef ræða þarf einhver sérstök málefni fyrr þá verður boðað til aukafundar. Halldór minntist á að annar framhaldsaðalfundur verði haldinn 13. nóvember nk.

6.  Önnur mál.

Enginn tók til máls.

7.  Fundarslit.

Fundi slitið kl. 18:48

Fundarritari: Anna Guðrún Sigurðardóttir.