Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar 5. febrúar 2015

By 9. júní 2015No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 5. febrúar 2015, kl. 17.00 – 19.00 í Hvammi, Grand hóteli, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
CCU samtökin – Edda Svavarsdóttir
Einhverfusamtökin – Svavar Kjarrval
Félag CP á Íslandi – Daníel Ómar Viggósson
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Snævar Ívarsson
Félag lifrarsjúkra – Helgi Valtýr Sverrisson
Fjóla – Friðgeir Jóhannesson
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Geðverndarfélag Íslands – Kjartan Valgarðsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
HIV Ísland, alnæmissamtökin á Íslandi – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Sigríður Ósk Einarsdóttir
LAUF – samtök flogaveikra – Helga Sigurðardóttir
Málbjörg – Árni Heimir Ingimundarson
ME félag Íslands – Eyrún Sigrúnardóttir
MG félag Íslands – Pétur Halldór Ágústsson
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson
MS félag Íslands – Sigurbjörg Ármannsdóttir
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Snorri Már Snorrason
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Arnar Helgi Lárusson
SÍBS – Sólveig Hildur Björnsdóttir
Sjálfsbjörg – Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Kristín Björnsdóttir
Tourette samtökin – Íris Árnadóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Gestir

Bergvin Oddsson, Blindrafélaginu
Guðný Einarsdóttir, Fjólu
Daníel Ómar Viggósson
Gunnar Alexander Ólafsson, ráðgjafi

Starfsfólk ÖBÍ

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Sigurjón Sveinsson, lögfræðingur
Kristín Margrét Bjarnadóttir
Þórný Björk Jakobsdóttir

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Ellen Calmon, formaður ÖBÍ, setti fund kl. 17:00. Formaður lagði til að Erna Arngrímsdóttir yrði fundarstjóri og Lilja Þorgeirsdóttir tímavörður. Samþykkt.

Fundarmenn kynntu sig. Daníel Ómar Viggósson, CP félaginu og Sigurbjörg, MS félaginu voru borin upp sem fulltrúar sinna félaga þar sem hvorki aðalmenn né varamenn komust. Samþykkt.

2.  Skýrsla ÖBÍ um starfsgetumat og lífeyrisgreiðslur þar að lútandi. Sigríður Hanna Ingólfsdóttir félagsráðgjafi ÖBÍ, Sigurjón Sveinsson lögfræðingur ÖBÍ og Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur kynna skýrsluna.

Formaður sagði frá því að framkvæmdastjórn ÖBÍ og kjarahópur hafi farið yfir skýrsluna eftir að greiðslum í tengslum við starfsgetumat var bætt við. Jákvætt er að horfa til starfsgetu en ekki örorku og er það vilji ríkisstjórna að fara þá leið. Til að slíkt geti orðið að veruleika þarf að lögleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), vinnumarkaðurinn þarf að vera tilbúinn og bjóða þarf upp á hlutastörf. Það eru tímamót í sögu ÖBÍ að bandalagið leggi fram heildstæðar tillögur um nýtt almannatryggingakerfi og verður skýrslan lögð fyrir nefnd um endurskoðun almannatryggingalaga, sem Pétur Blöndal er í forsvari fyrir. Bregðast þarf við núna og taka þátt í breytingunum, svo að hægt sé að hafa áhrif á hverjar þær verða. Velferðarráðuneytið er jákvætt út í tillögur ÖBÍ, en það sama er ekki að segja um Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA), þannig að róðurinn getur orðið erfiður. Þetta er breyting á heilu kerfi og er stærsti þátturinn að framfærsluuppbót og tekjutrygging eru sett saman. Pétur Blöndal talar um núll lausn en ÖBÍ telur að bæta þurfi fjármunum í það.

Gunnar Alexander Ólafsson, heilsuhagfræðingur, Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ, Sigurjón Unnar Sveinsson, lögfræðingur ÖBÍ og Klara Geirsdóttir, CP félaginu hafa unnið að skýrslunni ásamt Ellen Calmon formanni ÖBÍ, Guðrúnu Hannesdóttur, Lilju Þorgeirsdóttur, framkvæmdastjóra ÖBÍ og Daníel Isebarn, lögmanni.

Gunnar, Sigurjón og Sigríður kynntu skýrsluna. Meðal annars kom fram að á haustmánuðum 2013 skipaði Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra nefnd um endurskoðun almannatryggingalaga. ÖBÍ setti á laggirnar vinnuhóp til að skoða þessi mál og í kjölfarið var Gunnar ráðinn til ÖBÍ til að vinna að gerð skýrslunnar.

Markmið með gerð skýrslunnar var að teikna upp kerfi sem snýst um einstaklinga en ekki um kerfið sjálft. Helstu áskoranir eru óhagstæður vinnumarkaður, ófullnægjandi framfærsla og lagaramminn er ekki sá sami og erlendis. Tryggja þarf kærurétt einstaklinga og ferlið. Mikilvægt er að sitthvor aðili sjái um að meta einstaklinga og greiðslur á grundvelli matsins, en ekki sami aðili eins og er í dag.

Lagt er til að stofnaðar verði tvær stofnanir, Miðstöð starfsgetu og endurhæfingar (MSE) og Vinnu- og velferðarstofnun (VVS). MSE sér um að meta þarfir viðkomandi, hvort sem um er að ræða starfsgetu, endurhæfingu eða stoðþjónustu. Í dag eru of margir aðilar sem meta slíkt. VVS mun taka yfir hlutverk og ábyrgð Tryggingastofnunar, Vinnumálastofnunar og Sjúkratrygginga Íslands. Með þessu ætti ferlið að verða einfaldara, faglegra og auðvelda aðgengi að vinnumiðlun, tækni- og starfsráðgjöf. Matið verður samræmt og hægt er að kæra ákvarðanir í kerfinu til kærunefndar velferðarmála. Í dag er mjög erfitt og kostnaðarsamt að hnykkja þeim úrskurði sem kveðinn hefur verið upp, t.d. á vegum lífeyrissjóða.

Hvati þarf að vera til atvinnuþátttöku og er stoðþjónusta hluti af því að komast út á vinnumarkað. Réttur til stoðþjónustu þarf því að vera tryggður. Ekki er nógu skýrt í dag hver greiðir aukakostnað vegna hjálpartækja en í skýrslunni er lagt til að  ríkið geri það.

Í seinni hluta skýrslunnar er rætt um framfærslurétt, því tryggja þarf fólki mannsæmandi líf. Réttur til endurhæfingar er tryggður í Félagsmálasáttmála Evrópu og nú í SRFF, þar sem er meðal annars kveðið á um að endurhæfing hefjist eins snemma og frekast er unnt og sé byggð á þverfaglegu mati á þörfum og styrkleika hvers einstaklings fyrir sig.

ÖBÍ leggur til að greiðsluflokkar verði 4 og fara greiðslur eftir því í hvaða flokk menn falla, að því tilskildu að lágmarkið sé tryggt öllum. Í núverandi kerfi eru 3 gerðir, 75% örorkumat, örorkustyrkur eða synjun um örorkulífeyrisgreiðslur. Í dag fá þeir sem eru með 50% örorku engar lífeyrisgreiðslur en lagt er til að þeir sem hafi starfsgetu á bilinu 51-75% fái 50% greiðslna. Flokki D, 76% starfsgeta eða meira, fylgja engar greiðslur en hann skapar rétt til lífeyrisskírteinis, sem hjálpar til við að dekka auka kostnað.

Um 80% þeirra sem koma frá löndum þar sem eru milliríkjasamningar fá engar greiðslur í dag. Hlutfallið er mun hærra þar sem engir milliríkjasamningar eru. Margir í þessum hóp eru með heildartekjur upp á 80.000 kr. á mánuði. Því er tillaga um að eitt af hlutverkum VVS verði að innheimta þetta fyrir fólk svo að fólkið sjálft hafi örugga framfærslu og þurfi ekki að hafa áhyggjur og standa í stappi meðan á endurhæfingu stendur. Greiða ætti endurhæfingarlífeyri í minnst sex mánuði samfellt. Ef fólk kemur til landsins með skerta starfsgetu þarf það að bíða í 3 ár eftir endurhæfingu, en það er stytt niður í 1 ár í skýrslunni.

Nokkur atriði eru lögð til í skýrslunni, t.d. ef ungmenni flyst til Íslands frá öðru búsetulandi þá á viðkomandi alltaf rétt hérlendis við 18 ára aldur, kostnaður vegna fötlunar verði greiddur af hinu opinbera og að aldurstengd örorkuuppbót greiðist áfram eftir 67 ára aldur eins og upphaflega var hugmynd um. Ekki er talað um breytingar á grunnlífeyri. Mikilvægt er að ungmenni flytji ekki lögheimili sitt við 18 ára aldur til að foreldri haldi heimilisuppbót. Frítekjumörk hafa verið fryst en ÖBÍ hefur staðið gegn hugmyndum um afnám þeirra.

Umræður og fyrirspurnir

Fundarmenn voru mjög ánægðir með skýrsluna, nokkrar athugasemdir voru gerðar við hana og verður hún lagfærð með tilliti til þeirra. Tekið er heildstætt á málinu og leggja þarf áherslu á að unnið sé á öllum sviðum samhliða. Skýrslan er sýn ÖBÍ í þessum málum og koma þarf hugmyndunum á framfæri á einn eða annan hátt.

Það getur haft neikvæð áhrif á vinnuveitanda ef hann þarf að greiða fyrir stoðþjónustu, svo sem túlka. Atvinnurekendur eru almennt tregir að greiða þennan aukakostnað og ráða því ekki dýra starfsmenn þrátt fyrir að þeir séu mjög hæfir. Það þarf að vera hvatning fyrir atvinnurekendur að ráða þennan hóp og því væri draumastaðan sú að ríkið greiði fyrir stoðþjónustu eins og lagt er til í skýrslunni.

Mikilvægt er að fólk haldi lífeyrisskírteini þó svo að ekki komi til greiðslur því að fólk fær þá bættan auka kostnað, sem gjarnan fylgir. Pétur Blöndal vill að fólk með 50% starfsgetu fari á atvinnuleysisbætur en það er ekki lausn til frambúða.

Vinnumarkaður þarf að vera sveigjanlegur fyrir fólk með skerta starfsgetu. Stundum getur fólk unnið mikla vinnu, stundum litla, það þarf að grípa fólk þegar það dettur niður og tryggja því lágmarksframfærslu. Fatlað fólk er ekki alltaf velkomið inn á vinnumarkaðinn, hvort sem er í opinbera geiranum eða hinum almenna. Mikilvægt er að fólk sé með eitt mat en ekki sitt hvort matið á sitt hvorum staðnum.

Fulltrúar samþykktu samhljóða að skýrslan verði kynnt í nefnd um almannatrygg-ingar.

Gestir yfirgáfu fundinn og var gert kaffihlé í 8 mínútur.

3.  Fundargerð frá 14. janúar 2015 borin upp til samþykktar.

Athugasemd var gerð um að undir lið 3 og 7 væri talað um samráðshóp vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks en það ætti að standa þjónustuhóp í stað samráðshóp. Fundargerðinni verður breytt í samræmi við athugasemdina og var hún samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

4.  Á döfinni – skýrsla formanns.

Formaður sagði frá því að ÖBÍ tæki þátt í verkefninu „Virkjum hæfileikana, alla hæfileikana“. Augljóst er að breytinga er þörf á vinnumarkaði til að koma á fleiri hlutastörfum því einungis hafa 3 hlutastörf verið auglýst í tengslum við verkefnið.

Haldinn var hugarflugsfundur 2. febrúar með kjarahópi og nefnd um SRFF og komu fram margar hugmyndir sem vinna þarf úr. Rannveig Traustadóttir mun hafa umsjón með undirbúningsnámskeiði fyrir þá sem fara í sumarskóla um SRFF, sem haldinn er í Galway, Írlandi í júní. Formaður hefur hitt eitthvað af aðildarfélögum ÖBÍ og mun reyna að ná fundi með þeim öllum fyrir 2. apríl.

Ung kona fannst í bíl ferðaþjónustu fatlaðs fólks á vegum Strætó fyrir utan heimili bílstjórans. Hún hafði setið í bílnum í um það bil 7 klukkustundir. Formaður hefur farið í nokkur viðtöl vegna málsins, m.a. í Reykjavík síðdegis, Fréttablaðinu og Fréttatímanum. Vegna þessa atviks og fleiri var haldinn fundur með Strætó og hefur neyðarstjórn verið mynduð. Fyrsti fundur neyðarstjórnar var haldinn á sama tíma og aðalstjórnarfundurinn. Grétar Pétur Geirsson, gjaldkeri ÖBÍ, mætti á fundinn fyrir hönd ÖBÍ. Ályktun var send 5. febrúar til fjölmiðla í nafni ÖBÍ og Þroskahjálpar vegna málsins.

Reglur um aðra styrki voru samþykktar á framkvæmdastjórnarfundi 5. febrúar. Reglurnar verða sendar aðildarfélögum ÖBÍ þegar búið er að setja þær upp og lesa yfir. Umsóknarfrestur um styrki til aðildarfélaga ÖBÍ er til 15. febrúar.

Arndís Ósk Jónsdóttir, stjórnunarráðgjafi, hefur verið fengin til að stjórna stefnuþingi og verður skipuð nefnd henni til aðstoðar. ÖBÍ auglýsti eftir starfskrafti, til 6 mánaða, til að sinna verkefnum sem m.a. tengjast nefnd um algilda hönnun og sóttu 50 manns um. Nýr starfsmaður, Stefán Vilbergsson hefur verið ráðinn. Hann byrjar í 50% starfi 15. febrúar á meðan hann er að losa sig úr núverandi starfi og fer í fullt starf 1. mars.

Tryggingastofnun ríkisins hefur beðið formann ÖBÍ um að taka þátt í sjálfsmatsrýni stofnunarinnar, sem fram fer 12. mars. Formaður mun undirbúa sig í samráði við Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur, félagsráðgjafa ÖBÍ.

Umræður og fyrirspurnir

Spurt var hvort bandalagið gæti kynnt verkefnið um hlutastörf í fyrirtækjum og myndi sækja um styrk til innanríkisráðherra, en henni er mjög umhugað um að virkja fatlað fólk á vinnumarkaði. Beðið var um að skýrsla formanns yrði send sem viðhengi við fundargerðina. Formaður sagðist hafa sent skýrslu sína í tölvupósti til aðalstjórnarfulltrúa rétt fyrir fundinn.

Fram kom að erfitt er að koma nemendum með þroskahömlun, sem eru í diplómanámi við Háskóla Íslands, í sjálfboðastörf hjá Rauða krossinum. Ef fólk er ekki velkomið í ólaunuð sjálfsboðastörf hvað mætir þeim þá ekki á vinnumarkaði? Ótrúlega mikið er um fordóma í samfélaginu og það þarf að gera eitthvað í því. Útbúa þyrfti hvata fyrir vinnumarkaðinn, einhverja ívilnun.

Formaður bað fulltrúa um að koma með tillögur um hvernig hægt væri að ráðast í verkefnið, þar sem ástandið sé bagalegt.

5.  Fundaáætlun 2015.

Næsti aðalstjórnarfundur verður miðvikudaginn 18. mars 2015.

6.  Önnur mál.

a) Vigdís, handleggsbrotin.

Árni Heimir Ingimundarson, Málbjörg, félagi um stam, sagði frá því að formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, lægi á sjúkrahúsi með upphandleggsbrot. Hann lagði til að ÖBÍ sendi henni blómvönd og óski henni góðs bata.

b) Dagur íslenska táknmálsins.

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ sagði frá því að Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra hafi þurft að víkja af fundi en beðið sig um að láta vita af Degi íslensks táknmáls 11. febrúar. Dagurinn verður haldinn hátíðlegur með skemmtun í Tjarnarbíói á milli kl. 16 og 18. Allir eru velkomnir.

7. Fundarslit.

Formaður sleit fundi kl. 19:15.

Fundarritari: Þórný Björk Jakobsdóttir.