Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar 5. nóvember 2008

By 22. janúar 2009No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn miðvikudaginn 5. nóvember 2008 í Hátúni 10, 9. hæð

Fundargerð

Miðvikudaginn 5. nóvember 2008, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) saman til fundar í Hátúni 10, 9. hæð (vesturturni). Fundur var boðaður kl. 16:45. Fundi stýrði formaður ÖBÍ, Halldór Sævar Guðbergsson.

Eftirtaldir fulltrúar sátu fundinn:

Dagný Erna Lárusdóttir, SÍBS
Fríða Bragadóttir, Parkinsonssamtökunum
Garðar Sverrisson, MS félaginu
Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg
Guðmundur Magnússon, SEM samtökunum
Halldór S. Guðbergsson, Blindrafélaginu/ÖBÍ
Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra
Ingi Hans Ágústsson, Alnæmissamtökunum
Jón Þorkelsson, Stómasamtökum Íslands
Kristín Ármannsdóttir, FSFH
Kristín Michelsen, Hugarfari
Kristín Sæunnar- og Sigurðardóttir, Félagi nýrnasjúkra
Ómar Geir Bragason, Samtökum sykursjúkra
Sigrún Gunnarsdóttir, Tourette samtökunum
Snævar Ívarsson, Félagi lesblindra á Íslandi
Steinunn Þóra Árnadóttir, Kvennahreyfingu ÖBÍ
Þorlákur Hermannsson, LAUF
Þórunn I. Pálsdóttir, Geðverndarfélagi Íslands

Starfsmenn ÖBÍ:

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Þórný Björk Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu

Gestur fundarins:

Stefán Ólafsson, Háskóla Íslands

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Formaður bauð fundarmenn velkomna. Upphaflega átti að fjalla um samning Sameinuðu þjóðanna en í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í íslensku samfélagi þótti rétt að leggja áherslu á umræðuefni dagsins sem er: Hvað getum við gert til að standa vörð um velferðarkerfið? Þessu næst bað hann fundarmenn að kynna sig.

2. Fundargerð frá 4. september borin upp til samþykktar

Engar athugasemdir bárust og er fundargerðin samþykkt samhljóða.

3. Skýrsla formanns

Formaður sendi skýrslu sína sem náði yfir tímabilið frá 4. september til 4. nóvember til aðalstjórnarfulltrúa 4. nóvember og fór því ekki nánar í þá skýrslu. (Fylgiskjal 1)

Formaður sagði hins vegar frá samráðsfundi sem hann átti með Þroskahjálp og félags- og tryggingamálaráðherra 5. nóvember. Spurningar voru sendar til ráðherra fyrir fundinn en ekki fengust svör við þeim öllum. Það sem fram kom var meðal annars að skera á niður fjárlög um 8% á næsta ári, eða um 30 milljarða af 500. Það liggur ekki ljóst fyrir hvernig niðurskurðinum verður háttað en erfitt mun reynast að skera niður hjá félags- og tryggingamálaráðuneyti þar sem um 90% af útgjöldum þess eru laun. Ráðherra lagði áherslu á að hún muni reyna að standa vörð um velferðarkerfið. Þá var rætt um 100.000,- króna frítekjumarkið fyrir öryrkja á fundinum og mun ráðherra beita sér fyrir því að á það verði framlengt. Í lögum um almannatryggingar er kveðið á um að bætur eigi að hækka til jafns við neysluvísitölu um áramót og gert er ráð fyrir 9,7% hækkun í fjárlögum í ágúst sl. Ráðherra sagði að engin áform væru um annað en að standa við þessa hækkun. Næsti samráðsfundur með ráðherra verður 19. nóvember.
Það er á hreinu að tíminn sem fer í hönd verður erfiður fyrir öryrkja, sjúklinga og þá sem verst eru settir í íslensku samfélagi. Það ríður á að við tökum höndum saman og stöndum vörð um velferðarkerfið í heild sinni. Mikil varnarbarátta er framundan.

Orðið var gefið laust um skýrslu formanns.

Formanni var bent á að í lögunum um hækkun skv. neysluvísitölu væri varnagli um að bæturnar hækki aldrei minna en verðlag ef verður misgengi milli launa og verðlags. Talan í sumar hljóðaði upp á 9,7% og spurt var hvort það væri ekki klárt að frá ársbyrjun og til dagsins í dag er meiri verðhækkun en 9,7%?
Formaður sagði að það væri ljóst og það þyrfti að ganga á eftir því að allar lögbundnar hækkanir skili sér.

4. Hvað getur ÖBÍ og aðildarfélög þess gert til að standa vörð um velferðarkerfið í þeirri fjármálakreppu sem ríkir í dag?

Stefán Ólafsson, formaður stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins og prófessor við Háskóla Íslands hefur fjallað mikið um þessi mál að undanförnu og þá stöðu sem upp er komin í íslensku samfélagi og var hann því beðinn um að koma og ræða þau mál sem snúa að ÖBÍ og aðildarfélögum þess.
Í erindi sínu sagðist hann vilji reyna að stappa stálinu í fólk og mála skrattann ekki of dökkum litum en ástandið er mjög slæmt. Menn vita ekki nógu mikið, spár hafa komið fram um að þjóðarframleiðsla og tekjur muni dragast saman um 10%, atvinnuleysi verði á bilinu 5 til 10% og að kaupmáttarskerðing verði allt að 20%.

Hann rifjaði upp þegar hrun varð á síldarstofninum 1967 til 1969. Á tveimur árum lækkaði þjóðarframleiðslan um 10%, atvinnuleysi fór í 4% og brottflutningur var til Skandinavíu og Ástralíu. Kaupmáttarskerðing varð á annan tug prósenta. Þetta var mikið högg en Ísland var komið á fulla ferð aftur upp úr 1970, 1971 þegar skuttogaravæðingin kom og útfærsla landhelginnar í kjölfarið. Mikil uppbygging var í fiskvinnslu um allt land og er þetta eini áratugurinn sem fleiri hafa flutt út á land en á höfuðborgarsvæðið. Þjóðfélagið var komið á fleygiferð aftur.

Til að aftra því að launþegahreyfingin hækkaði kaupið og næði kjaraskerðingunni þannig til baka þá var samið um lífeyrissjóðina og talið betra að ná þessu til baka smám saman og voru menn sælir með það. Töldu þetta betri leið en að óðaverðbólga myndi fylgja. Þegar illa áraði í sjávarútvegi var venjan að kaupmáttur rýrnaði og launin lækkuðu en það stóð yfirleitt stutt.

Nú er verið að spá þessu sama og var 1967. Við erum í annarri stöðu í dag en þá því heimilin í landinu og þjóðarbúið eru talsvert skuldsettara nú en þá. Það góða í stöðunni er að ríkið er ekki mjög skuldsett, því á þensluárum tókst að borga mikið niður af skuldum sem koma mjög hratt aftur á þrengingarárum. Verið er að semja um 700 milljarða sem er hátt í 50 til 60% af þjóðarframleiðslu og leggst það á skuldir heimilanna. Tjón þjóðarinnar af bankahruninu gæti numið 1000 milljörðum, sem eru um 70 til 80% af þjóðarframleiðslunni. Erum að sigla inn í kreppuna núna og ef hún er af svipaðri stærðargráðu og var 1967 þá gerir skuldsetningin okkur mun erfiðara fyrir. Krónan er verulega sködduð og við höfum tapað trausti og trúnaði í helstu viðskiptalöndum okkar.

Nærtækasta dæmi um kreppu er kreppan í Finnlandi upp úr 1990. Ástandið var mjög slæmt þar, atvinnuleysi var 18% þegar það náði hámarki en á sumum svæðum var það meira, í Tampere var 30% atvinnuleysi og í Lapplandi 50%.

Annað sem gerist hjá okkur er að fjárhagur hins opinbera er í miklum vanda og mikill halli verður á ríkissjóði. Höggið kemur ekki endilega á næsta ári en það er augljóst að það þarf að skera niður. Því þarf að standa vörð um það sem skiptir máli. Þau úrræði sem gögnuðust Finnum, og þeir voru gagnrýndir heima fyrir, voru að skerða réttindi á sumum sviðum í velferðarkerfinu. Reynt var að gera þetta skipulega og þannig að klipið væri af það sem mætti missa sín en verja þá sem verst standa. Lífeyrir var ekki hækkaður til móts við verðlag. Laun lækkuðu ekki en hækkuðu lítið og atvinnuleysisbætur voru einnig skertar þegar á leið. Illa gekk að ná atvinnuleysinu niður þegar versta kreppan var liðin hjá. Eftir að þjóðfélagið var komið á heilmikla ferð aftur í hagvexti 1995 var atvinnuleysi enn 10% og er nú í kringum 6% sem er viðunandi miðað við evrópskar þjóðir. Þeir juku tekjutengingar og skerðingar og meira var skert af lífeyri hjá þeim sem höfðu aðrar tekjur. Juku notendagjöld, það sama hefur verið að gerast í löndunum í kringum okkur og hjá okkur síðan þá. Notendagjöld á Íslandi voru um 1% af þjóðarframleiðslu, mest í heilbrigðiskerfi en fór í 1,7% 2006. Við erum með hærri notendagjöld en Finnar þó þeir hafi aukið þau. Velferðarkerfið skiptir miklu máli til að verja fólk áföllum. Þeir juku velferðarútgjöldin úr 24% í 35% því þeim sem treysta þurftu á stuðning ríksins fjölgaði.

Ekki er víst að þetta verði svo þröngt hér en þarf að gera ráð fyrir því. Spurning er hvort ríkið þurfi að framkvæma flatan niðurskurð eða hvort þeir hafi val. Eins er spurning hvort það dugi að fresta framkvæmdum sem er slæmt fyrir atvinnuleysið. Bankastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins skrifaði grein í Morgunblaðið og sagði að betra væri að ríkisstjórnin setti meiri pening í umferð til að halda hlutunum gangandi. Beðið er eftir afgreiðslu frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum en þeir eru þekktir fyrir að krefjast þess að stýrivextir séu hafðir háir til að koma gjaldeyrisviðskiptum af stað og reisa við peningamálin. Þeir gera oft kröfur um aðhald í ríkisbúskap, en segja að þjóðirnar ráði hvort þær skeri niður útgjöld eða hækki skatta, en vilja sjá áætlanir um hvernig ríkishalla sé náð niður. Frjálshyggjumenn segja að nú þurfi að skera niður útgjöld en ekki hækka skatta. Stóru útgjöldin eru í velferðar-, heilbrigðis- og menntamálum og því er það áhyggjuefni.

Fleiri munu væntanlega fara til mennta núna, það gerist oft þegar fólk missir atvinnu. Menn þurfa almennt að vera útsjónarsamir og nálgast verkefnið þannig að velferðarríkið geti orðið stuðpúði sem tekur þyngsta höggið af þjóðinni og þeim sem þurfa mest á velferðarríkinu að halda en hins vegar þurfa menn að vera viðbúnir því að það þurfi að skera af á móti. Leggja þarf áherslu á að komið er að fólkinu með hærri tekjurnar í góðærinu að standa vaktina, eðlilegt er að taka upp hátekjuskatt og eignaskatt á hreinar eignir. Hægt er að hækka skatta á fyrirtæki, þau eru með minnsta skattbyrði í OECD ríkjunum eftir lækkun sem kom inn á þessu ári. Ef taprekstur er greiða þau ekki skatta. Menn óttast samspilið að þegar skattbyrði sé aukin á fyrirtæki komi það fram í auknu atvinnuleysi, svo það hljómar eins og ekki sé úr miklu að moða. Þeir sem eru með breiðu bökin og fengu vel í góðærinu þurfa að taka á sig skellinn og greiða til baka.

Fólk er að fá skerðingu hjá lífeyrissjóðunum og nú munu menn læra að almannatryggingakerfið er betra en lífeyrissjóðirnir. Nú hafa eignir lífeyrissjóðanna rýrnað um 20% og það getur þýtt hjá minni sjóðum að skerða þarf lífeyrisgreiðslur um 20%. Miðað við óbreyttar reglur almannatrygginga munu þær bæta þessar skerðingar um helming. Mikilvægt er að þetta gerist og fullar verðbætur komi á almannatryggingar. Ætlunin var að gera einföldun á almannatryggingakerfinu og var vinna vel á veg komin með það. Bylting verður á skipulagi kerfisins en vonin var sú að umtalsverðar aukningar á útgjöldum kæmu í það. Lagt er til að frítekjumark verði á lífeyrisgreiðslur, en það verður að koma í ljós hvort hægt sé að setja það í framkvæmd.
Nýmæli í almannatryggingabótum frá miðjum september er lágmarksframfærsluviðmið lífeyristekna, sem endaði þannig að enginn sem býr einn fer undir 150 þúsund á mánuði fyrir skatt, ráðherra vildi hafa þetta hærra. Þetta ákvæði er líka sett undir sömu reglur og almannatryggingar að það á að hækka 1. janúar með fullum verðbótum, Ætlunin var að það færi í 163 þúsund. Ef það gengur eftir getur það orðið mikilvægt í þessari kreppu ef hún verður á dýpsta og erfiðasta veg. Þetta lyftir botninum í öryggisnetinu talsvert. Ef óðaverðbólga verður hér í einhverja mánuði mun þetta einnig hækka árið á eftir. Það nýmæli mun hugsanlega geta fengið meira gildi en menn áttu von á. Í TR vita menn ekki annað en að þetta muni ganga eftir. Stefnt er á að klára endurskoðunarstarf í almannatryggingum þó þrengingar verði slæmar. Ráðherra er ákveðinn í því að það getur haft mikið gildi þó ekki verði hægt að auka útgjöld til almannatrygginga, getur falið í sér tilfærslu, lífeyrir verði lækkaður hjá þeim sem hafi háan lífeyri en hækkaðar á móti hjá þeim sem hafa hann lágan. Þetta er eitt af því sem Finnar gerðu, felldu niður ígildi grunnlífeyris sem allir höfðu, skertu á móti honum niður í 0, hafa skoðað þann möguleika og kemur til greina ef það væri gert til að hækka lífeyri þeirra sem eru í lægri endanum.

Hið endurskoðaða örorkumat og innleiðsla starfsgetumats, það er nýtt heiti, en verður jákvæðara og uppbyggilegra. Þó að örorkumatsnefndin sé ekki starfandi er undirhópur að sýsla með matið og skipulagsbreytingar á kerfinu eru í gangi og að sameina Vinnumálastofnun og TR í eina vinnu- og velferðarstofnun og nýja sjóðinn sem hefur með aukandi virkni, starfsmenntun og endurhæfingu að gera. Held við eigum að stefna ótrauð áfram í því og það getur bætt starfið á þessu sviði. Endurskipulagning getur haft mikið gildi í atvinnuleysi því þar geta verið stærri verkefni sem þessu tengist.
Varnarbarátta er framundan því að það mun verða sótt að velferðarkerfinu. Það má ekki gerast í svona ástandi að minnka velferðarkerfið, þó að erfitt verði í ríkisfjármálunum, því þá verða þjáningarnar meiri.

b) Umræður og fyrirspurnir.

Formaður þakkaði Stefáni framsöguna. Sagði frá því að framkvæmdastjórn hefði ákveðið að taka þátt í samstarfi við 7 stóra aðila og regnhlífasamtök um að halda útifund miðvikudaginn 12. nóvember kl. 16:00 á Austurvelli. Gert er ráð fyrir stuttri og snarpri dagskrá þar sem kynslóðirnar tala og tónlist verður hluti af dagskránni. Áhersla er lögð á að standa vörð um velferðarkerfið og atvinnu fyrir alla. 90% líkur eru á að fundurinn verði haldinn og verður send endanleg staðfesting á því fljótlega. Hugmyndin fæddist á fundi félags eldri borgara, neytendasamtakanna og ÖBÍ síðasta miðvikudag. Sagði formaður nú skiptir máli að koma með hugmyndir og lausnir. Hvað getum við gert sem bandalag og aðildarfélög til að skerpa okkur? Formaður á pantaðan tíma hjá heilbrigðisráðherra og gerir ráð fyrir að fara á fund félags- og tryggingamálanefndar og fjármálanefndar. Félögin þurfa að vera sýnileg í baráttunni, skrifa greinar í blöð og fleira.

Almennar umræður voru um erindi Stefáns og var honum þakkað fyrir. Einnig var rætt talsvert um þá stöðu sem komin er upp í samfélaginu og stöðu öryrkja í því sambandi.
Nefnt var að oft er vísað í kreppuna í Finnlandi og í viðtali við Sigurbjörgu á Rás 2 var sagt að þeir hefðu ekki tekið lán, er það rétt eða rangt?

Rætt var um 100.000,- kr. frítekjumark á mánuði fyrir öryrkja á launatekjur og verktakagreiðslur. tengslum við skatt. Framkvæmdastjóri ÖBÍ upplýsti að verktakagreiðslur skerði lífeyrisgreiðslur, því þær eru flokkaðar sem aðrar tekjur á skattframtali. Samkvæmt samtalið við Sigríði Lillý Baldursdóttur forstjóra TR, ætlar hún að skoða þetta mál en fullur vilji er fyrir því að leiðrétta þetta.

Minnt var á stöðu kvenna. Margir hafa áhyggjur af því að þegar kreppir að verði konur þvingaðar inn á heimilin til að taka að sér umönnun og barnagæslu. Með auknu atvinnuleysi gætum við séð niðurskurð í leikskólamálum. Því var beint að ÖBÍ að gleyma ekki stöðu fatlaðra kvenna sérstaklega. Niðurskurður í samfélaginu bitnar ekki eins á körlum og konum.

Stefán sagði að vilji væri fyrir því að einfalda almannatryggingakerfið, það er hægt að gera það gegnsærra og virkara. Í stað þess að vera með grunnlífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót væri bara einn lífeyrisflokkur en hann mun aldrei skerðast nema niður að grunnlífeyrismarkinu. Það má líka skerða ofarlega og nota peningana til að hækka lífeyrisgreiðslur fyrir þá sem eru með lægri tekjur. Vinna við þetta hefur tafist en áður en langt um líður mun væntanlega verða lagðar fram umræðuhugmyndir og þetta er hugsanlega partur af því.

Bent var á að mikill óvissutími væri núna og fólk verður kvíðið. Spurning er um aðgengi, kostnað sem ríkið þarf að borga fyrir táknmálstúlkun og fleira, verður það skert líka? Þarf einnig að hugsa um aðgengismál, ekki bara lífeyri og tekjur. Þrýsta þarf á að ekki sé lokað fyrir aðgengi og að lífeyrir sé ekki skertur of mikið.
Upplýsingar komu fram um að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn vilji sjá ákveðinn árangur í stöðugleika og jafnvægi en það eru okkar hagfræðingar sem koma með tillögur um hvernig hægt er að ná þeim árangri. Ekki er auðvelt að leggja til viðbrögð við óvissu. Lagt var til að settur verði á laggirnar hugmyndaríkur aðgerðarhópur sem væri vakur og viðbragðsfljótur sem myndi meta á hvaða stigi á að bregðast við því sem gerðist, hvort eigi að fara í fjölmiðla, kalla saman fjölmiðlafund eða að skrifa blaðagreinar. Þannig að viðbrögð kæmu við öllum hugmyndum sem snerta okkar fólk en ekki þreyta almenning á að hrópa út í svartnættið á meðan allir eru hræddir um sjálfa sig og við erum ekki viss um hverju við erum að mótmæla annað en látið okkur í friði og spillið engu fyrir okkur. Flestir mundu segja það sama, sama í hvaða stöðu þeir eru.

Formaður sagði að hugmyndin á bakvið útifundinn á miðvikudaginn væri að leggja áherslu á að hafa breitt samstarf með þessum sjö aðilum þar sem lögð er áhersla á velferðarkerfið og atvinnu fyrir alla. Hugmyndin er góð með aðgerðarhópinn og vill heyra fleiri hugmyndir um hvað hægt er að gera á næstunni.
Einnig sagði formaður að að á svona tímum skiptir máli að vera raunsær og meta stöðuna. Atvinnuleysisspár segja ýmislegt en hvað gera menn til að þær rætist ekki? Það er hægt að spá endalaust en á ekkert að bregðast við? Það skiptir máli að bregðast við en það skortir upplýsingar frá stjórnvöldum m.a. vegna þess að þeir vita ekki hlutina. Skiptir miklu að fá upplýsingar og að þær séu réttar.

Nefnt var að atvinnuleysi hefði náð hámarki í kringum ’95 og það hafi farið að skila sér inn nær aldamótum sem fjölgun í röðum öryrkja, það varð mælanleg aukning. Þarf að passa að búa til kerfi sem lengir í endurhæfingarlífeyri svo þetta gerist ekki aftur. Endurhæfingarsjóður er sniðinn til að taka á svona málum. Grunnhugmyndin er sú að hann taki við fólki sem er að veikjast. Strax á fyrstu mánuðum á að tengja það fólk inn í þennan sjóð. Þar eru endurhæfingarteymi sem hjálpa fólki að finna út hvað það getur unnið og hvernig hægt sé að bæta stöðu þess, svo það sé ekki óvirkt heima hjá sér. Atvinnulaust fólk er oft búið að vera atvinnulaust í nokkra mánuði áður en veikindi koma upp sem eru þá oft afleiðing þess ástands sem aðili býr við. Sjóðurinn heldur bara utan um þá sem eru á vinnumarkaði. Breyta þarf lögum um atvinnutryggingar og borga gjald í sjóðinn fyrir þá sem ekki eru á vinnumarkaði til að þeir geti fengið úr sjóðnum. Nú er verið að vinna að mótun og útfærslunni á hlutverki sjóðsins og ef vilji er til að hafa áhrif á uppbyggingu hans er best að gera það á meðan á mótunartímanum stendur.

Varðandi hugmynd að aðgerðarhóp var spurt um hvort menn væru sammála um að stofna aðgerðarhóp þar sem einn fulltrúi væri tilnefndur frá hverju aðildarfélagi. Rætt var um að hvert félag gæti sent tvo á hvern fund, því mismunandi væri hverjir hafa áhuga á hverju máli. Fundi þyrfti að halda einu sinni í viku og hafa þetta opið, hafa þann möguleika að hægt sé að skipta upp í nefndir ef fundurinn verður of stór. Forystan gæti verið 3 til 5 manna stjórn sem myndi leiða vinnuna en stærri fundurinn væri hugarflugsfundur. Meirihluti framkvæmdastjórnar þarf að vera í þessum hóp því það er formanns og framkvæmdastjórnar að bregðast við sjónvarpsfréttum og öðru slíku. Hugsanlega þarf að virkja aðalstjórn betur. Að loknum umræðum var framkvæmdastjórn falið að skoða málið betur með sérstakan aðgerðarhóp ÖBÍ. 

5. Önnur mál.

a) Fjármál.

Framkvæmdastjóri fór yfir fjármál ÖBÍ. Megnið af fjármagni bandalagsins er inni á verðtryggðum reikningum og hefur bandalagið því ekki orðið fyrir miklu tapi af þeim sökum. Bandalagið er með varasjóð sem er að stærstum hluta arfur Ólafs Björnssonar. Nauðsynlegt er að hann sé til staðar ef að tekjur frá Íslenskri Getspá skildu skerðast í kjölfar fjármálakreppunnar.

b) Fundartími.

Rætt var um fundartíma aðalstjórnar og hvatt til þess að þeir byrji á auglýstum tíma.
Næsti fundur aðalstjórnar var ákveðinn fimmtudaginn 11. desember.
Fundi slitið 19:00.
Fundarritari: Þórný Björk Jakobsdóttir.