Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar 5. september 2012

By 1. nóvember 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn miðvikudaginn 5. september 2012, kl. 17.00-19.00, í Hátúni 10, 9. hæð, Reykjavík

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD – Ellen Calmon
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson og Kristinn Halldór Einarsson
Blindravinafélag Íslands – Gísli Helgason
FAAS – Ragnheiður K. Karlsdóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir og Linda B. Hilmarsdóttir
Félag heyrnarlausra – Bernharð Guðmundsson
Félag lesblindra – Snævar Ívarsson
Félag nýrnasjúkra – Kristín Sæunnar- og Sigurðardóttir
Fjóla – Ágústa Gunnarsdóttir
FSFH – Ásta Björk Björnsdóttir og Jón Gunnar Jónsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen og Einar S. Ingólfsson
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
HIV-Ísland – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Sigríður Ósk Einarsdóttir og Ólöf Þráinsdóttir
LAUF – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg – Guðbjörg Ása Jónsdóttir Huldudóttir og Árni Heimir Ingimundarson
Málefli – Þóra Sæunn Úlfsdóttir og Kristín G. Guðfinnsdótti
MG félag Íslands – Pétur Halldór Ágústsson
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson og Guðjón Sigurðsson
MS félag Íslands – Garðar Sverrisson og Kolbrún Stefánsdóttir
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason og Sigríður Jóhannsdóttir
SEM – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson og Dagný Erna Lárusdóttir
Sjálfsbjörg – Grétar Pétur Geirsson og Hannes Sigurðsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson og Heiðar Sigurðsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Bryndís Snæbjörnsdóttir og Vilmundur Gíslason
Tourette samtökin á Íslandi – Arna Garðarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúar:

Kvennahreyfing ÖBÍ – Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir og Sigrún Birgisdóttir

Gestir:

Fjölmennt – Bjarni Kristjánsson, Vilborg Jóhannsdóttir og Þorsteinn Jóhannsson
Rannsóknasetur í fötlunarfræðum, HÍ – Rannveig Traustadóttir

Starfsfólk:

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Hrefna K. Óskarsdóttir, verkefnastjóri
Sigurjón U. Sveinsson, lögfræðingur
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Formaður setti fund kl. 17:05 og bað fundarmenn að kynna sig.

Þar sem hvorki aðal- né varafulltrúi Félags nýrnasjúkra komust á fundinn var beðið um samþykki fyrir því að Kristín Sæunnar- og Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri félagsins sæti fundinn sem fulltrúi þeirra. Samþykkt.

Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu, bað um heimild fundarmanna til að taka ljósmyndir á fundinum í tilefni af alþjóðadegi gigtar, 12. október nk. Samþykkt.

2.  Fundargerð frá 16. ágúst 2012 borin upp til samþykktar.

Samþykkt var að fresta umræðu og atkvæðagreiðslu til næsta fundar.

3.  Skýrsla formanns.

Formaður sagði frá ímyndarherferð ÖBÍ, sem mun standa yfir fram yfir setningu Alþingis 11. september. Herferðin samanstendur af auglýsingum í blöðum, útvarpi, sjónvarpi, skjáauglýsingum og greinaskrifum. Mikilvægt er að sem flestir skrifi greinar í fjölmiðla í tengslum við herferðina. Greinarnar þarf að senda til skrifstofu ÖBÍ sem kemur þeim í fjölmiðla. Aðildarfélög ÖBÍ hafa hvatt félagsmenn sína til að fjölmenna fyrir utan Alþingi við þingsetningu og mótmæla. ÖBÍ tekur undir þá hvatningu.

Formaður sagði einnig frá kynningarfundi um kjarabaráttu ÖBÍ, sem haldinn verður í Ráðhúsi Reykjavíkur fimmtudaginn 13. september, kl. 16 til 18. Starf og tilgangur bandalagsins verður kynnt á fundinum og verða aðilar úr kjarahóp ÖBÍ með innlegg. Fyrirspurnir og umræður verða í lok fundarins.

4.  Fjölmennt. Breyting á starfsemi.

Bjarni Kristjánsson og Vilborg Jóhannsdóttir, fulltrúar í stjórn Fjölmenntar kynna.

Fulltrúar ÖBÍ í stjórn Fjölmenntar, þeir Þorsteinn Jóhannsson og Vilmundur Gíslason stóðu upp og kynntu sig að beiðni Bjarna Kristjánssonar. Bjarni og Vilborg ráku sögu Fjölmenntar.

Fullorðinsfræðsla fatlaðra átti sér rætur í þjálfunarskólakerfinu og þeir sem sóttu þá þjónustu voru aðallega þroskaheftir einstaklingar. Útlit var fyrir að starfseminni yrði hætt árið 1992 því ríkið vildi ekki reka fræðsluna lengur. Þá gerðu Þroskahjálp og ÖBÍ samkomulag um rekstur Fullorðinsfræðslu fatlaðra og var nafninu breytt í Fjölmennt. Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð, býður upp á nám fyrir 20 ára og eldri.

Sjálfseignarstofnunin Fjölmennt fékk sérstaka stjórn og tilnefnir ÖBÍ tvo fulltrúa og Þroskahjálp tvo. Forsendur breyttust í rekstrinum þannig að stjórnin kom meira að rekstri og uppbyggingu. Reynt var að koma til móts við ákveðnar kröfur um breytingar, m.a. þarfir geðfatlaðra og fólks úti á landi. Árið 2002 voru höfuðstöðvarnar í Reykjavík en útibú voru á Akureyri og Selfossi. Engin þjónusta var á öðrum stöðum á landinu en nú sækja um 200 nemendur þjónustu þar.

Einu tekjur Fjölmenntar eru framlög á fjárlögum. Frá 2004 til 2006 var samstarf við aðrar símenntunarstofnanir og greiddi Fjölmennt fyrir þjónustu þeirra. Þjónustusamningur við Menntamálaráðuneytið rann út árið 2006 en nýr samningur var undirritaður árið 2010. Útibúinu á Akureyri var lokað 2010 og tók Símey við starfseminni og hefur útibúinu á Selfossi líka verið lokað. Nú sækja nemendur námskeið til annarra menntunaraðila, t.d. eru um 200 nemendur hjá Námsflokkum Reykjavíkur. Með þessu telur stjórn sig hafa fylgt eftir hugmyndafræðinni að fatlað fólk njóti eins og frekar er unnt þjónustu hjá almennum stofnunum. Alþjóðlegir sáttmálar, sem íslensk stjórnvöld eru aðilar að, leggja ríka áherslu á að viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar án mismununar og til að sá réttur geti orðið að veruleika verður að tryggja að fatlað fólk sé ekki útilokað frá hinu almenna menntakerfi sakir fötlunar. Stuðla þarf að því að almenn símenntunarkerfi þjónusti þann hóp sem Fjölmennt hefur sinnt.

Segja má að Fjölmennt hafi þróast úr því að vera símenntunarstofnun, sem útbjó námskeið fyrir fatlað fólk, í það að vera ráðgjafaraðili fyrir aðrar menntastofnanir. Í boði verða þó enn námskeið fyrir ákveðinn hóp sem getur ekki sótt þjónustu annarra símenntunarstofnana.

Barátta hefur verið við Kennarasambandið sem að hamlar breytingaferlinu. Kennarasambandið heldur því fram að breytingar á rekstri Fjölmenntar falli undir aðildarskiptalög og starfsmenn eigi því að hafa forgang hjá nýjum þjónustuaðilum en stjórn Fjölmenntar telur að svo sé ekki. Einnig eru kjarasamningar kennara njörvaðir niður þannig að litlu er hægt að breyta sem hentar illa símenntunarkerfi. Námskeið hafa verið auglýst sem hafa fallið niður vegna lélegrar aðsóknar. Kennarar sem áttu að kenna námskeiðin hafa því ekkert að gera og ekki má flytja þá í önnur verkefni.

Spurt var hvort aldrei hefði verið rætt að opna Fjölmennt fyrir öllum, frekar en að leggja hana af eins og virðist vera stefnan? Hvað vinna margir fatlaðir hjá Fjölmennt? Hvort stefnt væri að því að mæla árangurinn, t.d. hjá þjónustuþegum og aðstandendum? Hvort þeir nemendur sem sækja nám hjá almennum símenntunarstofnunum hafi blandast öðrum nemendum eða héldu sig að mestu leyti saman? Hversu langt gengur samþættingin við hið almenna starf? Hvort einhver einn hópur en annar væri líklegri til að verða útundan í þjónustu annarsstaðar en ef þeir fengju menntun hjá Fjölmennt?

Bjarni og Vilborg svöruðu spurningunum. Á árum áður var hlutverk Fjölmenntar að þjónusta fatlað fólk og skipuleggja nám sem hentar hverjum og einum, í dag er áherslan frekar á að þeir sem geti sótt nám annars staðar, geri það. Gátu ekki svarað því hversu margir fatlaðir vinna hjá Fjölmennt. Áður en breytingin var á Akureyri þá var starfsemi útibúsins tekin út og niðurstaðan var neikvæð að mörgu leyti.Í ljósi þess var enn meiri áhersla á að leggja útibúið niður og gera samning við Símey. Önnur könnun var gerð eftir að samningar tókust við Símey og þá voru niðurstöður jákvæðar. Varðandi nám án aðgreiningar var lögð áhersla á að nemendur færu í almenn nám/námskeið en fólk er oft í sérhópum til að byrja með en það breytist með tímanum. Hlutverk verkefnastjóra er m.a. að styðja nemendur inn í almenn námskeið. Markmiðið er að nemendur taki sem mestan þátt í starfinu.

Vilmundur, fulltrúi ÖBÍ í stjórn Fjölmenntar og fulltrúi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra á fundinum saknaði umræðu um diplómanámið sem Fjölmennt studdi við með Háskólanum en nemendur sem hafa sótt það nám hafi staðið sig mjög vel og m.a. hafi komið öflugur hópur úr náminu sem hefði staðið fyrir sjónvarpsþáttunum „Með allra augum“.

Bjarni sagði frá því að fólki hættir til að líta svo á að við ein vitum hvernig eigi að þjónusta þennan hóp en hjá hinum ýmsu símenntunarstofnunum er þekking fyrir hendi og þar er fólk sem er vant að mæta fólki með mismunandi þarfir. Einnig hættir okkur til að vanmeta getu einstaklinga til að takast á við lífið í óvernduðu umhverfi utan sérstofnana.

Formaður sagði að fundurinn væri tekinn upp og hugmyndin væri að setja hann inn á heimasíðu Blindrafélagsins, en að gleymst hefði að óska eftir samþykki fundarmanna. Samþykkt.

Stutt hlé.

5.  Helstu niðurstöður úttektar á því hvort að hagsmunum fatlaðs fólks á Íslandi sé betur borgið með eða án aðildar að Evrópusambandinu. Kynnir: Rannveig Traustadóttir prófessor og forstöðumaður Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands.

Rannveig Traustadóttir sagði að fyrir allmörgum mánuðum hefði formaður ÖBÍ komið að máli við sig um að gera úttekt á því hvort hagsmunum fatlaðs fólks væri betur borgið innan ESB. Til að átta sig á spurningunni skoðaði hún stefnu og framkvæmdaáætlun ESB og reyndi að komast að niðurstöðu með því að meta þessa hagsmuni. Rannveig fór yfir þættina sem hún skoðaði svo að fundarmenn gætu metið það sjálfir hvort að mat hennar væri rétt.

Rannveig fór yfir samninga sem eru í gildi innan ESB, sagði frá stofnunum, deildum og nefndum, tók allt til sem hefur með málefni faltaðs fólks að gera og lýsti samstarfi ESB og EDF (European Disability Forum, Evrópusamtök fatlaðs fólks). ÖBÍ er aðili að EDF. Aðal áhersla EDF nú er á frítt flæði fólks og þjónustu innan landa ESB, því mikilvægt er fyrir fatlað fólk að geta flutt stuðningsþjónustu milli landa.

Meðal þess sem farið var yfir er að ESB leggur mikla áherslu á bann við mismunun, en engin ákvæði eru um þetta í íslenskri löggjöf. Gerð hefur verið framkvæmdaáætlun ESB í málefnum fatlaðs fólks sem heitir „Towards a barrierfree Europe“ því ESB lítur svo á að 1 af hverjum 6 einstaklingum í Evrópu búi við einhverja fötlun og að fatlað fólk í Evrópu sé um 80 milljónir. ESB er fyrsta og eina alþjóðastofnunin sem hefur undirritað og fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en það gerðist árið 2010. Þetta endurspeglar vilja sambandsins að koma samningnum í framkvæmd og eykur þrýsting á Evrópusambandsþjóðir að staðfesta samninginn og vinna í anda hans.

Niðurstaða Rannveigar var sú að hagsmunum fatlaðs fólks sé betur borgið innan ESB en utan en tók jafnframt fram að ekki er tekið tillit til annarra hluta, það er hvort aðild að ESB hafi neikvæð eða jákvæð áhrif á Ísland í heild.

Umræður

Spurt var hvernig búið væri að fötluðu fólki í raun innan ríkja Evrópu? Fundarmanni fannst Rannveig lýsa draumsýn en ekki raunveruleika og að það veikti mat Rannveigar að hún hefði unnið innan FRA sem er deild innan ESB. Spurt var hvað væri aðgreind þjónusta? Nefnt var að fulltrúar þyrftu lengri tíma til að ræða þessi mál því ÖBÍ þyrfti að taka afstöðu til þeirra og ekki væri boðlegt að sitja hjá. Mikilvægt væri að gera sér grein fyrir að aðild að ESB er ekki trygging fyrir einu né neinu en þar væru lög og lagabálkar sem hægt væri að færa sér í nyt hérlendis. Það sýnir sig að almenningur í Evrópu þekkir ekki til laga almennt og nýtir sér því lögin ekki eins og hægt væri. Rætt var að mikilvægt væri að hafa fund fljótlega sem fjallaði eingöngu um þetta málefni. Spurt var hvort Rannveig hafi skoðað samningaviðræður Íslendinga við ESB og hvort málefni fatlaðs fólks hafi verið rædd þar?

Rannveig svaraði fyrirspurnum. Þegar talað er um aðgreinda þjónustu er átt við stórar sólarhringsstofnanir í ýmsum Evrópulöndum sem eru komnar að hruni og verið er að lappa upp á. Er ekki kunnugt um að tilskipun varðandi bann við mismunum á vinnumarkaði hafi verið staðfest af íslenskum stjórnvöldum og slíkt væri vandræðalegt að viðurkenna erlendis. Aðild skapar tækifæri en tryggir ekki neitt, það væri rétt að í ýmsum ESB ríkjum býr fatlað fólk við ömurlegar aðstæður. Vísaði því alfarið á bug að hún væri ekki hæf til að meta málið, hún hefur sjálf staðið í baráttu við FRA, varðandi birtingar á skýrslum, sem þau hafa neita að birta. Þarf að ræða þessi mál betur, það er ýmislegt sem auðvelt er að gera í litlu samfélagi eins og Íslandi en löggjöfina vantar. Veit ekki hvort samningsnefndin hafi rætt málefni fatlaðs fólks en sagðist ætla að athuga það. Íslendingar hafa aðgang að styrkjum sem snúa að menntun, vísindum og rannsóknum. Eins og er fá Íslendingar meira úr styrkjum en þeir leggja í þá en óvíst er hvort það verði raunin ef Ísland gengur í ESB.

Formaður þakkaði Rannveigu fyrir og sagði að halda þyrfti annan fund og ræða málin betur. Hægt er að hlusta á upptökuna á vef Blindrafélagsins.

6.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur er áætlaður 27. september 2012, kl. 17 til 19.

7.  Önnur mál.

Ekkert var rætt undir liðnum önnur mál.

Fundi slitið 19.20.

Fundarritarar:

Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.