Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 1. júlí 2009

By 7. desember 2009No Comments

Miðvikudaginn 1. júlí 2009, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) saman til fundar að Hátúni 10, 9. hæð. Fundur var boðaður kl. 17.00. Fundi stýrði varaformaður ÖBÍ, Guðmundur Magnússon.

Fundargerð

Eftirtaldir aðalstjórnarfulltrúar sátu fundinn:

Björn Tryggvason, Málbjörg
Brynhildur Arthúrsdóttir, LAUF
Dagný E. Lárusdóttir, SÍBS
Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu
Friðjón Erlendsson, Daufblindrafélaginu
Garðar Sverrisson, MS-félaginu
Grétar P. Geirsson, Sjálfsbjörg
Guðjón Sigurðsson, MND-félaginu
Guðmundur Magnússon, SEM-samtökunum
Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp
Hjördís A. Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra
Ingi H. Ágústsson, HIV-Íslandi
Ingibjörg Karlsdóttir, ADHD-samtökunum
Jón Þorkelsson, Stómasamtökunum
Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra
Kristinn H. Einarsson, Blindrafélaginu
Kristín Michelsen, Hugarfari
María Th. Jónsdóttir, FAAS
Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra
Sigrún Gunnarsdóttir, Tourette-samtökunum
Sveinn Magnússon, Geðhjálp

Starfsfólk ÖBÍ

Anna G. Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Sigríður H. Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi

Guðmundur Magnússon, varaformaður ÖBÍ bauð fundarmenn velkomna og sagði þennan fund hafa verið boðaðan sérstaklega vegna niðurskurðar á örorkubótum sem samþykktur var með frumvarpi sl. mánudag. Fundarmenn voru því næst beðnir um að kynna sig.

1. Stöðugleikasáttmálinn, aðgerðir í ríkisfjármálum og viðbrögð ÖBÍ.

Fulltrúar ASÍ þau Ólafur Darri Andrason hagfræðingur ASÍ og Ingibjörg Guðmundsdóttir varaforseti ASÍ kynntu svokallaðan stöðugleikasáttmála.

Ólafur Darri varpaði upp glærusýningu sem m.a. sýndi hagvaxtarþróun síðastliðin ár miðað við eyðslu allra fjölskyldna á landinu. Verðbólgan er á niðurleið og verður líklega hófleg á næstu misserum og árum. Atvinnuleysi er skelfilegt, 1 af hverjum 10 fer út af vinnumarkaði. Kaupmáttur dagvinnulauna dregst saman um ca. 6%.

Stöðugleikasáttmálinn snýst um að allir aðilar geti unnið saman til að snúa við blaðinu. Markmiðið er að stuðla að endurreisn efnahags, m.a. til að leita leiða við að efla vinnumarkaðinn, verja velferðina o.fl. eins og aðstæður frekast leyfa! Ekki verður þó hægt að gera þetta nema að draga saman á öllum sviðum. Að skerða ekki velferðarkerfið eru innhaldslaus orð m.v. aðstæður í þjóðfélaginu kom fram í máli Ólafs Darra.
Lögð var áhersla á að draga fram aðgerðaráætlun í ríkisfjármálum og að jöfnuði yrði náð. Tekjustofnar dragast saman og mikilvægt að hlutdeild tekjuöflunar í aðgerðunum verði ekki of mikil. Allir aðilar sáttmálans eru sammála um að ef betur gengur en áætlað er, verði fyrst dregið úr skerðingu bóta, brýnustu velferðarþjónustunni og skattahækkunum.

Mikilvægt er að bæta stöðu skuldsettra heimila og gera tillögur í samráði við aðila vinnumarkaðarins um viðbótarrúræði eftir því sem þörf krefur. Greiða á götu ákveðinna stórframkvæmda til að efla hagkerfið og draga úr atvinnuleysi, t.d. með tveimur álverum, gagnaverum, kísilflöguframleiðslu o.fl. Sveitarfélögin ætla að hafa samstarf sín á milli vegna aðhaldsaðgerða svo að einstaklingar lendi t.d. ekki í því að þeim verði kastað á milli kerfa og sveitarfélaga og til að koma í veg fyrir ágreining um greiðslu. Með stöðugleikasáttmálanum verður frekari möguleiki á að draga úr sköttum.

Beðið var um útskýringar á því af hverju mætti ekki ganga á skattstofnana, og að það hafi verið rætt að setja hátekjuskatt á lægri laun en gert var?

Ólafur sagði nauðsynlegt að fara í skattahækkanir og að þær yrðu brattastar í byrjun. Einnig sagði hann að það mætti búast við hressilegri hækkun á tekjuskatti um næstu áramót. Skattkerfisbreytingar verða gerðar og þá skattþrep hugsanlega komið á. Eflaust verður líka farið í virðisaukaskattinn.

Ingibjörg tók nú við. Sagði að það sem hefði verið í fréttum varðandi niðurskurð og skattahækkanir, snerist um atvinnuleysið að mati atvinnurekanda. Ef fyrirtæki lokast frekar þá gætu aðstæður versnað meira. Sat fund með ráðherra þar sem tilkynnt var að sameining stórra stofnana væri í býgerð, s.s. TR og Atvinnumálastofnunar. Varaformaður ÖBÍ sat einnig fundinn.

Guðmundur sagði að ÖBÍ gagnrýndi það mjög að 44.000 einstaklingar sem væru lífeyrisþegar hefðu ekki verið kallaðir að samningsborði varðandi stöðugleikasáttmálann og spurði hvort ASÍ myndi styðja við þátttöku ÖBÍ að umræðunni varðandi kjarasamninga í nóvember 2010?

Spurt var hvort ASÍ hefði heyrt um niðurskurð í utanríkisþjónustunni?

Ingibjörg sagði að utanríkisþjónustunni yrði gert að skerða niður um 10% eins og önnur ráðuneyti nema félagsmálaráðuneytið.

Spurt var hvernig staða skilanefnda væri?

Ólafur Darri svaraði varðandi bankana að ganga eigi frá endurskipulagningu þeirra fyrir 17. júlí nk. en ákveðin vandkvæði eru í því starfi sem snýr mest að erlendum lánum sem Íslendingar eru með í bönkunum. Mikilvægt að landið verði ekki reyst á sömu rökum og það féll á.

Nefnt var að horfa þyrfti á nýjar leiðir varðandi sparnað og nýjar leiðir í skerðingum, t.d. má skoða svokallaða þjónustusamninga. Spurt var hvernig koma eigi í veg fyrir skerðingu á þjónustu við þá sem verst eru settir, t.d. Alzheimer sjúkir sem sendir eru heim en geta hvorki verið einir heima né geta ættingjar þeirra sinnt þeim eins og þörf er á? Nefnt var að viðhorfsbreyting yrði að koma til vegna öryrkja, það væri ekki endalaust hægt að skera niður hjá þeim. Ekki er rétt að tala um vernd fyrir heimilum fólksins í landinu ef heimili öryrkjar eru dregin út fyrir rammann.

Ingibjörg sagði að mikil áhersla hafi verið lögð á það í vinnuferli sáttmálans að það yrði reynt af fremsta megni að verja öryrkja og ellilífeyrisþega og nefndi að það hefði t.d. verið rætt um að það væri þó skárra að fara í niðurskurð varðandi tekjutengingu ellilífeyrisþega en að fara að koma aftur á tekjutenginum vegna tekna maka öryrkja.

Ólafur útskýrði að laun hefðu alla jafna hækkað í janúar. Í fyrra var það ekki fyrr en í febrúar og á þessu ári varð ekki af þeirri launahækkun sem átti að vera fyrr á árinu og verið er að hækka ákveðinn láglaunahóp innan starfsgreinasambandsins, um rúmlega 6.000 kr. Minntist á að öryrkjar hefðu fengið hækkanir í janúar s.l. ASÍ kom ekki að því að velja hvar átti að skera niður. ASÍ er sammála því að langmest verður að fá í gegnum skattahækkanir, síðan í rekstri ríkisins og svo í gegnum aðrar skerðingar, s.s. í velferðarkerfinu.

Spurt var af hverju hátekjuskattur hefði ekki verið lagður á lægri laun en 700.000?

ASÍ kom ekki að því að ræða á hvaða tekjur hátekjuskatturinn kæmi.

Nefnt var að það þyrfti að koma á nýjum gildum en jafnframt að verja þau réttindi sem öryrkjar væru þó búnir að fá. Spurt var hvað verið væri að tala um nákvæmlega þegar rætt er um að verja grunnþjónustu?

Ingibjörg, sagði að hún skyldi það ekki þannig að það væri verið að taka hóp öryrkja út úr samhenginu um fjölskyldurnar í landinu. Loforð hefur verið tekið af stjórnvöldum að byrjað verði á velferðarkerfiinu ef vel gengur.

Nefnt var að sjálfsagt væri sáttmálinn betri en margur viðurkennir en að eðlilegt væri að hagsmunasamtök lífeyrisþega kæmi að slíkum sáttmála. 

2. Önnur mál

Ályktun  ÖBÍ

Guðmundur las upp eftirfarandi ályktun sem samþykkt var með áorðnum orðalagsbreytingum eftir töluverðar umræður.

Ályktun aðalstjórnar ÖBÍ 1. júlí 2009.

Öryrkjabandalag Íslands mótmælir þeirri kjaraskerðingu sem lífeyrisþegar verða fyrir við gildistöku laga um ríkisfjármál í dag 1. júlí 2009.

Horfið er mörg ár aftur í tímann hvað varðar réttindi lífeyrisþega. Einnig eru innleiddar nýjar skerðingar með því að láta lífeyrissjóðstekjur skerða bæði grunnlífeyri og aldurstengda uppbót.

Grunnlífeyrir almannatrygginga var m.a. hugsaður til að mæta þeim kostnaði sem fylgir fötlun og því óháður tekjum, líkt og hvers konar hjálpartæki.

Skerðing lífeyristekna með aðeins nokkurra daga fyrirvara er siðlaus. Hér er um tekjur tugþúsunda heimila að ræða, þar sem hverri krónu er ráðstafað fyrirfram. ÖBÍ fordæmir að heimili öryrkja og aldraðra skuli ekki talin með öðrum heimilum sem standa á vörð um.

Öryrkjabandalag Íslands er þess fullmeðvitað að samfélagið stendur frammi fyrir meiri vanda en nokkru sinni fyrr í sögu lýðveldisins. Ólíðandi er þó þegar reynt er að ná sáttum í samfélaginu að fulltrúar 44 þúsund landsmanna, öryrkja og eldri borgara, skuli ekki hafðir með í slíkri sáttagjörð.

Öryrkjabandalag Íslands

Fundi slitið kl. 19.25

Fundarritari; Anna G. Sigurðardóttir