Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 10. janúar 2008

By 21. maí 2008No Comments

Fundur aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands 10. janúar 2008, kl.14.00-19.00, haldin að Radisson SAS hóteli (Hótel sögu)

Fimmtudaginn 10. janúar boðaði framkvæmdastjóri ÖBÍ til aukafundar aðalstjórnar og bauð auk aðalstjórnarfulltrúum einnig formönnum og framkvæmdastjórum félaganna. Dagskráin var tvískipt, annars vegar kynning á hugmyndafræði og áherslum í starfi örorkumatsnefndar forsætisráðherra um nýtt örorkumat og endurhæfingu og hins vegar kosningu í stjórn Brynju hússjóðs ÖBÍ.

Þessari boðun var mótmælt af hluta framkvæmdastjórnar og sent eftirfarandi bréf á netföng formanna, framkvæmdastjóra og aðalstjórnarfulltrúa:

Ágæti viðtakandi!
Við undirritaðir aðilar í framkvæmdastjórn ÖBÍ teljum að ekki hafi verið rétt staðið að boðun aðalstjórnarfundar sem halda á á morgun 10. janúar. Til fundarins eru boðaðir aðalstjórnarmenn ÖBÍ auk formanna og framkvæmdastjóra aðildarfélaga þess. Sú ákvörðun að boða formenn og framkvæmdastjóra aðildarfélaganna var ekki tekin af aðalstjórn bandalagsins heldur einungis af formanni þess. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að aðalstjórn samþykki breytingar á því hverjir sitji aðalstjórnarfundi hverju sinni.

Við undirritaðir teljum því réttara að áður auglýstar kynningar fari fram og þær geti formenn og framkvæmdastjórar aðildarfélaganna setið, en að þeim loknum taki við hefðbundinn aðalstjórnarfundur þar sem einungis aðalstjórnarmenn sitja.

Í þessu sambandi viljum við benda á að innan ÖBÍ eru 32 ólík aðildarfélög og því afar óeðlilegt að formaður bandalagsins ákveði einn hverjir skulu boðaðir á aðalstjórnarfundi og aðra upplýsingafundi. Ekki hafa öll aðildarfélögin til að mynda starfandi framkvæmdastjóra, þá eru aðalfulltrúar í aðalstjórn í sumum tilfellum einnig formenn.

Við óskum eftir málefnalegri umræðu í aðalstjórn um fyrirkomulag þessara mála.

Með kærri kveðju,
Emil Thóroddsen varaformaður.
Guðmundur Magnússon ritari.
Halldór Sævar Guðbergsson gjaldkeri.

Í upphafi fundar minnti ritari á þessi mótmæli og taldi að ekki væri rétt að rita fundargerð fyrr en að loknum kynningarfundinum, eða á löglegum aðalstjórnarfundi og var því ekki mótmælt.

Að loknum kynningarfundi lagði formaður MS félagsins Sigurbjörg Ármannsdóttir það til að aðalstjórnarfulltrúar fengju næði til að ræða og ákveða hvort þeir óskuðu nærveru annarra, það er formanna og framkvæmdastjóra. Fundurinn fór að þessari ósk og samþykkti aðalstjórn með 15 atkvæðum gegn 10 að leyfa þeim formönnum og framkvæmdastjórum er þess óskuðu að vera áfram á fundinum.

Þeir sem sátu fundinn voru:
Sigursteinn R. Másson – Geðhjálp, aðalfulltrúi
Þóra Margrét Þórarinsdóttir – Styrktarfélagi vangefinna, frkv.stj.(fundarstjóri frá kl. 14-17)
Guðmundur Magnússon – SEM-samtökunum, aðalfulltrúi
Bára Snæfeld – upplýsingafulltrúi ÖBÍ
Kristín Michelsen – Hugarfari, aðalfulltrúi
Ægir Lúðvíksson – MND-félagi Íslands, aðalfulltrúi
Pétur Ágústsson – MG- félagi Íslands, aðalfulltrúi
Svanur Kristjánsson – Geðhjálp, formaður
Steinunn Þóra Árnadóttir – Kvennahreyfingu ÖBÍ
Þórey Vigdís Ólafsdóttir – Daufblindrafélagi Íslands, aðalfulltrúi
Sigurbjörg Ármannsdóttir – MS-félagi Íslands, formaður
Ásbjörn Einarsson – Parkinsonssamtökunum, aðalfulltrúi
Þröstur Emilsson – Voninni, hagsmunasamtökum krabbameinsgreindra, aðalfulltrúi
Málfríður D. Gunnarsdóttir – Heyrnarhjálp, aðalfulltrúi
Haukur Helgason – FAAS, framkvæmdastjóri
Helgi J. Hauksson – FAAS, aðalfulltrúi
María Th. Jónsdóttir – FAAS, formaður
Vilmundur Gíslason – Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, varafulltrúi
Halldór S. Guðbergsson – Blindrafélaginu, aðalfulltrúi
Ólafur Halldórsson – Blindrafélaginu, framkvæmdastjóri
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir – Blindravinafélagi Íslands, aðalfulltrúi
Tinna Laufey Ásgeirsdóttir – Hagfræðistofnun HÍ
Guðmundur Haraldsson – Hagfræðistofnun HÍ
Sigurður Jóhannesson – Hagfræðistofnun HÍ
Halla B. Þorkelsdóttir – Heyrnarhjálp, formaður
Kolbrún Stefánsdóttir – Sjálfsbjörg, lsf. framkvæmdastjóri
Ragnar Gunnar Þórhallsson – Sjálfsbjörg, lsf. aðalfulltrúi
Daði Hreinsson – Félagi heyrnarlausra, framkvæmdastjóri
Hjördís Anna Haraldsdóttir – Félagi heyrnarlausra, aðalfulltrúi
Sveinn Magnússon – Geðhjálp, framkvæmdastjóri
Garðar Sverrisson – MS-félagi Íslands, aðalfulltrúi
Jón Þorkelsson – Stómasamtökum Íslands, aðalfulltrúi
Þórunn S. Pálsdóttir – Geðverndarfélagi Íslands, aðalfulltrúi
Þorlákur Hermannsson – LAUF, aðalfulltrúi
Björn Tryggvason – Málbjörgu, varafulltrúi
Ingi Hans Ágústsson – Alnæmissamtökunum, aðalfulltrúi
Ingibjörg Karlsdóttir – ADHD-samtökunum, aðalfulltrúi
Emil Thoroddsen – Gigtarfélagi Íslands, aðalfulltrúi
Dagný Erna Lárusdóttir – SÍBS, aðalfulltrúi
Sigurður Rúnar Sigurðsson – SÍBS, formaður
Helgi Hróðmarsson – SÍBS, framkvæmdastjóri
Guðríður Ólafsdóttir – félagsmálafulltrúi ÖBÍ
Hafdís Gísladóttir – framkvæmdastjóri ÖBÍ
Ásta Björk Björnsdóttir – FSFH, varafulltrúi
Tryggvi Þór Agnarsson – Tourettesamtökunum, aðalfulltrúi
Guðjón Sigurðsson – MND-félagi Íslands, formaður
Guðrún Pétursdóttir – Umsjónarfélagi einhverfra, aðalfulltrúi
Guðmundur S. Johnsen – Félagi lesblindra á Íslandi, aðalfulltrúi
Valgerður Auðunsdóttir – SPOEX, aðalfulltrúi
Helgi Hjörvar – Blindrafélaginu, formaður Brynju hússjóðs ÖBÍ
Sigríður Jóhannsdóttir – Samtökum sykursjúkra, aðalfulltrúi
Sigurður Þór Sigurðsson – Styrktarfélagi vangefinna, aðalfulltrúi

Aðalstjórnarfundurinn hófst síðan kl. 17:20

Greinargerð formanns vegna tillögu um skipan fulltrúa í stjórn Brynju hússjóð, sem var dreift á fundinum. (sjá fylgiskjal 1)

Á eftir greinargerðinni og tillögu formanns um nýja stjórn var opnað fyrir umræður.

Emil Thóroddsen, Gigtarfélagi Íslands, minnti á fyrri umræðu á fundi aðalstjórnar 6. desember síðastliðinn. Hann sagði mikið að gerast í Brynju hússjóði og miklar breytingar í gangi. Emil lagði síðan fram eftirfarandi tillögu að nýrri stjórn, en undir þá tillögu rituðu ásamt honum Halldór Sævar Guðbergsson, gjaldkeri og Guðmundur Magnússon ritari framkvæmdastjórnar.

„ Fundur aðalstjórnar Öryrkjabandalagsins 10. janúar 2007
Tillaga um stjórn Brynju – Hússjóðs
Minnihluti framkvæmdarstjórnar gerir eftirfarandi tillögu um stjórnarmenn í stjórn Brynju Hússjóðs.

Steinunn Þóra Árnadóttir
Steinunn er MA nemi í mannfræði við HÍ, fyrrum stjórnarmaður í MS félaginu og fyrrum fulltrúi þess félags í aðalstjórn og framkvæmdarstjórn ÖBÍ. Situr í stýrihóp kvennahreyfingar ÖBÍ og er áheyrnarfulltrúi kvennahreyfingarinnar í aðalstjórn.

Þórey Vigdís Ólafsdóttir
Þórey er sálfræðingur. Sat um langt skeið í stjórn og framkvæmdarstjórn Öryrkjabandalagsins. Þá hefur hún starfað á vettvangi nokkurra félaga, s.s. Daufblindrafélagsins og FAAS ofl., auk þess sem hún m.a. lagt Íslensku Óperunni lið.

Emil Thoroddsen
Emil hefur háskólapróf í félagsfræði auk MA – gráðu í rekstrarhagfræði (MBA). Hefur gengt framkvæmdarstjórastarfi hjá Gigtarfélagi Íslands frá 1994 og setið í stjórn og framkvæmdastjórn bandalgsins, er varaformaður bandalagsins. Hefur setið á ellefta ár í stjórn Brynju Hússjóðs.

Garðar Sverrisson
Garðar þarf vart að kynna, en Garðar hefur háskólapróf í stjórnmálum og viðskiptafræðum, auk MA – gráðu í bókmenntum. Hefur starfað sem blaðamaður og rithöfundur. Sat í stjórn Öryrkjabandalagsins áratug, lengst af sem formaður. Þekkir innviði Hátúnsins betur en flestir aðrir og aðstæður fólksins þar.

F.h. Minnihluta framkvæmdarstjórnar Öryrkjabandalagsins
Emil Thoroddsen, varaformaður
Halldór Sævar Guðbergsson, gjaldkeri
Guðmundur Magnússon, ritari“

Næstur tók til máls Helgi Hjörvar, fráfarandi formaður Brynju hússjóðs ÖBÍ. Hann hóf sitt mál með að þakka Sigursteini fyrir að bjóða sér á fundinn til að kveðja. Hann minnti á að eftir 30 ára starf hússjóðsins væri komið að miklum viðhaldsverkefnum og að á síðustu 6 árum hefð verið varið 750 milljónum króna til viðhalds á húseignunum í Hátúni. Hann ræddi aðdragandann að því að þessir listar væru komnir fram og minnti á að ekki hefði náðst samkomulag um að einn eða fleiri úr fyrri stjórn héldu áfram til að halda eðlilegu flæði í stjórninni og því væru listarnir tveir. Hann taldi að mikilvægt væri að samhugur ríkti um nýja stjórn, því oft þyrfti að taka á erfiðum málum. Hann mælti fyrir sitt leiti með lista „minni hlutans” og taldi það eðlilegt að jafnt væri af báðum kynjum, hér væru á ferð mjög frambærilegar konur, önnur ungur námsmaður í HÍ og hin sálfræðimenntuð og báðar hefðu þær starfað mikið innan ÖBÍ og átt m.a. sæti í framkvæmdastjórn. Auk þess ítrekaði hann að mjög mikilvægt væri að hans mati að einhver væri úr fyrri stjórn eins og Emil og taldi líka að það væri mjög gæfulegt fyrir ÖBÍ að fá aftur að njóta krafta Garðars Sverrissonar. Að lokum óskaði hann þess að okkur bæri gæfa til að halda hreinskiptum umræðum um Brynju hússjóð, sem og okkar málefni almennt.

Formaður minnti á nú væri farið að líða á þann tíma sem við hefðum og bað menn að stytta mál sitt.
Guðmundur Magnússon, SEM, tók undir orð Emils og Helga. Hann minnti á velheppnaða aðgerð í Fannborginni og bað menn að vera þess minnugir að hér væri verið að ráðskast með heimil fólks og taldi mikilvægt að í stjórninni væri ákveðið framhald. Taldi að ef til vill hefði verið betra að kjósa um menn, þ.e.a.s. einn og einn, en mælti annars með lista minnihluta stjórnar.

Vilmundur Gíslason, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Taldi óheppilegt að þetta mikilsverða mál hafi komið fram undir öðrum málum í lok síðasta fundar (6. des) þegar margir hafi verið farnir. Hann taldi mikilvægt að ekki væru viðhafðar byltingakenndar aðferðir við nauðsynlegar breytingar. Hann taldi að í tillögu minnihluta væri að finna þá öflugu einstaklinga sem sjóðurinn þarfnaðist.

Helgi J. Hauksson, FAAS, minnti á að hann hafi á síðasta fundi lagt til að fresta málinu til að fá úr því skorið hvort aðalstjórn ætti að kjósa í Brynju hússjóð eða aðeins staðfesta ákvörðun framkvæmdastjórnar, sem nú væri ljóst að það væri hlutverk aðalstjórnar. Hann varaði við öllu því sem gæti skapað ótta og óvissu íbúa hússjóðs og mælti með lista minni hluta stjórnar.

Guðmundur S. Johnsen, Félagi lesblindra, taldi að hér ætti að vera kjörfundur og hann hefði óskað eftir að frambjóðendur gerðu grein fyrir hvert þeir vildu stefna með Brynju hússjóð. Honum fannst erfitt að láta reka á eftir sér og taldi það skammsýni hjá skipuleggjendum fundarins að gera ekki ráð fyrir nægum tíma til umræðu um jafn mikilsvert mál.

Svanur Kristjánsson, Geðhjálp, þakkaði fyrir góðan og málefnalegan fund og taldi að þeir mættu vera fleiri. Hann minnti á að sá einn og hálfi milljarður sem lagður var í búsetumál geðfatlaðra hefði verið að frumkvæði Geðhjálpar og þar hefði verið starfað mjög ötullega og mikilvægt að til séu íbúðir sem hægt væri að bjóða börnum sínum. Hann sagði að flestar kvartanir sem komið hafi til Geðhjálpar hafi verið úr Hátúninu. Hann sagði frá persónulegu dæmi og kynnti ályktun stjórnar Geðhjálpar, sem samþykkt hafi verið deginum áður:

„Stjórn Geðhjálpar óskar eftir hjálp aðalstjórnar ÖBÍ til að vernda það góða orðspor sem ÖBÍ hefur með því að skipa nýja einstaklinga í stjórn Brynju hússjóðs ÖBÍ. Að mati stjórnar Geðhjálpar hefur núverandi stjórn Brynju hússjóðs stefnt orðspori ÖBÍ í hættu með vangetu sinni og aðgerðarleysi. Það er óverjandi að ÖBÍ bjóði skjólstæðingum og félagsmönnum sínum upp á húsnæði og aðstæður sem í raun eru ekki einungis til skammar. Húsnæði og aðstæður sem ÖBÍ myndi aldrei líða að boðið væri öryrkjum. Núverandi stjórn sem hefur setið í rúman áratug hefur haft bæði tíma og aðstæður til að bæta ástandið. Að vísu hefur ástandið skánað eitthvað að undanförnu, en því miður mest eftir að fjallað hefur verið um málefni húsnæðis ÖBÍ í fjölmiðlum. Að mati stjórnar Geðhjálpar verður því ekki annað séð en að núverandi stjórn sé ekki starfi sínu vaxin og þeim greiði gerður að skipta þeim út áður en meiri skaði hlýst af“

Er hér var komið var ljóst að táknmálstúlkarnir voru að fara og ekki rétt að halda fundi áfram án þeirra og spurning um að fresta málinu.

Ægir Lúðvíksson, MND, benti á að komnir væru fram tveir listar með ágætis fólki á báðum og lýðræðislegast væri að ganga bara strax til kosninga og vænti þess að niðurstaðan yrði virt.

Gengið var til kosninga um tvo lista;

Listi A, sem var listi meirihluta framkvæmdastjórnar, fékk 15 atkvæði

Listi B, sem var listi minnihluta framkvæmdastjórnar, fékk 16 atkvæði

Formaður lýsti því yfir að þessi niðurstaða mundi hafa verulegar afleiðingar. Hann myndi ekki sitja sem formaður í Öryrkjabandalaginu nema að traust og trúnaður ríkti milli forystu ÖBÍ og stjórnar Brynju hússjóðs. „Þannig að þeir sem í þessum hópi hafa hugsað sér gott til glóðarinnar að losna við formann Öryrkjabandalagsins kunna að vera í góðum málum“. Með þeim orðum sleit formaður fundi.

Fundarritari
Guðmundur Magnússon, ritari framkvæmdastjórnar.