Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 11. desember 2008

By 17. febrúar 2009No Comments

Fimmtudaginn 11. desember 2008, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) saman til fundar að Grand hóteli Reykjavík. Fundur var boðaður kl. 17:00.

Fundi stýrði formaður ÖBÍ, Halldór Sævar Guðbergsson (HSG) og var Bára Snæfeld honum til aðstoðar. Tillaga kom fram um Önnu G. Sigurðardóttur sem fundarritara.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerð

Eftirtaldir aðalstjórnarfulltrúar sátu fundinn

Halldór S. Guðbergsson, Blindrafélaginu/ÖBÍ
Tryggvi Þ. Agnarsson, Tourette samtökunum
Ingi H. Ágústsson, HIV Íslandi, alnæmissamtökunum
Ingibjörg Karlsdóttir, ADHD samtökunum
Þröstur Emilsson, Voninni
Emil Thoroddsen, Gigtarfélagi Íslands
Guðmundur Magnússon, SEM samtökunum
Garðar Sverrisson, MS félaginu
Guðrún Pétursdóttir, Umsjónarfélagi einhverfra
Dagný E. Lárusdóttir, SÍBS
Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra
Guðbjörg J. Sigurðardóttir, Blindravinafélaginu
Vilmundur Gíslason, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Guðmundur S. Johnsen, Félagi lesblindra á Íslandi
Jón Þorkelsson, Stómasamtökunum
Þóra Þórarinsdóttir, Ás styrktarfélagi
Kristín Michaelsen, Hugarfari
Kristín Sæunnar- og Sigurðardóttir, Félagi nýrnasjúkra
Þorlákur Hermannsson, LAUFI
Ægir Lúðvíksson, MND-félaginu
Pétur Ágústsson, MG félaginu
Grétar P. Geirsson, Sjálfsbjörg
Kristín Ármannsdóttir, FSFH
Hjördís A. Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra
Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp

Starfsfólk ÖBÍ

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Þórný B. Jakobsdóttir, aðstoðarmaður formanns
Anna G. Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Formaður setti fund kl. 17.06 og bauð fundarmenn velkomna til síðasta fundar þessa árs og bað fundarmenn að kynna sig.

Hann bar upp tillögu um breytingu á dagskrá, að liðurinn um skýrslu formanns yrði færður á eftir liðnum um stefnumótun. Tillagan var samþykkt.

2. Fundargerð frá 5. nóvember borin upp til samþykktar.

Samþykkt.

3. Stefnumótun ÖBÍ.

Kynnt voru lokadrög að stefnu ÖBÍ en vinna við hana hefur staðið yfir undanfarna mánuði. Gert er ráð fyrir að ný stefna bandalagsins verði lögð fyrir til samþykktar á næsta aðalstjórnarfundi í janúar. Formaður sagði mikilvægt að þessi vinna hafi farið fram og að niðurstaðan sé spennandi og ögrandi. Glærum var dreift til fundarmanna. Fjóla María Ágústsdóttir frá Capacent fór yfir stefnumótunarferlið (fylgiskjal 1).

Úrbótaatriði sem varða starfsemi ÖBÍ voru greind á fundi með starfsfólki bandalagsins ásamt fulltrúum aðildarfélaga. Þá voru verkefni valin sem talið var brýnt að takast á við. Tilgangur þessarar vinnu var að bæta árangur af starfsemi bandalagsins. Nýtt fólk tók við verkefninu á skrifstofu ÖBÍ og kynnti sér vel þau gögn sem lágu fyrir áður en framkvæmdahópar og stýrihópur héldu áfram vinnu sinni.

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ, kynnti nú störf stýrihópsins. Hún kom að þessari vinnu þegar hún hóf störf vorið 2008. Þau gögn sem lágu fyrir hafa hjálpað henni að kynna sér betur starfsemi ÖBÍ. Glærukynning (fylgiskjal 2).

Tillaga að vegvísi eða stefnu ÖBÍ var dreift til fundarmanna. Hún sagði að margt af því sem þar kemur fram gæti virst sem sjálfsagður hlutur en nauðsynlegt er að tilgreina þessi atriði í stefnunni til að hún sé öllum ljós.

Vilmundur Gíslason tók við og kynnti störf framkvæmdahóps 1 sem fjallaði um Ímynd ÖBÍ og fatlaðra. Starf hópsins var kynnt með glærum (fylgiskjal 3) en þeim hafði verið dreift til fundarmanna. Hann fór yfir þau úrlausnarverkefni sem hópurinn leggur til að verði framkvæmd til að ná fram stefnu bandalagsins. Hann nefndi m.a. mikilvægi þess að lógó ÖBÍ væri sýnilegt, sérstaklega í útgáfustarfsemi og á heimasíðum aðildarfélaga ÖBÍ. Eitt verkefni sem hópurinn lagði til að ÖBÍ hrinti í framkvæmd eru hvatningarverðlaun ÖBÍ þann 3. desember ár hvert og er verkefnið þegar komið til framkvæmda.

Emil Thoroddsen tók við og kynnti verkefni framkvæmdahóps 2 um Rýni og innri umræðu innan ÖBÍ. Starf hópsins var kynnt með glærum (fylgiskjal 4) en þeim hafði verið dreift til fundarmanna. Hann fór yfir þau úrlausnarverkefni sem hópurinn leggur til að verði framkvæmd. Eitt verkefni sem þau tóku fyrir var að setja niður á blað eins konar viðmið fyrir þá sem starfa innan bandalagsins undir yfirskriftinni „Svona vinnum við“ (fylgiskjal 5).

Sigríður Jóhannsdóttir tók við og kynnti verkefni framkvæmdahóps 3 sem bar yfirskriftina Samskipti ÖBÍ við ytri og innri hagsmunaðaðila. Glærum hafði verið dreift til fundarmanna í pappírsformi (fylgiskjal 6).
Tillaga að samskiptaáætlun bandalagsins var kynnt með glærum (fylgiskjal 7). Það er listi yfir þá aðila sem ÖBÍ þarf að vera í sambandi eða í samstarfi við. Merkja á við þá aðila sem ætlað er að hafa samband við og þegar því er lokið.

Lilja kom nú aftur í pontu og kynnti verkefni framkvæmdahóps 4 sem tók fyrir húsnæðismál ÖBÍ (fylgiskjal 8).

Lögð var fram eftirfarandi tillaga um að skipa í starfshóp um húsnæðismál til að fylgja málum eftir: Halldór S. Guðbergsson, Lilja Þorgeirsdóttir, Sigríður Jóhannsdóttir, Dagný E. Lárusdóttir og Jórunn Sörensen. Samþykkt samhljóða.

Formaður tók nú til máls og þakkaði Fjólu fyrir hennar miklu störf ásamt Lilju sem þekkir til stefnumótunarvinnu frá fyrri störfum. Hann lagði áherslu á að sú stefna sem lögð er fyrir hér sé tillaga og að óskað væri eftir athugasemdum frá aðildarfélögum.

Opnað var fyrir umræður og fyrirspurnir.

Framkvæmdahópunum var þakkað fyrir frábæra vinnu. Lagt var til að lögð yrði sérstök áhersla á kjaramál í stefnu bandalagsins. Aðilar sem þátt tóku í framkvæmdahópunum svöruðu því til að til væru gögn hjá ÖBÍ varðandi stóru málin, heilbrigðismál, kjaramál og fleira og stefnu ÖBÍ þar um og einnig að einblínt hefði verið á hagsmunamál fatlaðra. Það þótti ekki þurfa að tilgreina kjaramál sérstaklega þar sem þau væru stór hluti af hagsmunamálum fatlaðra. Bent var á að það vantaði nokkur atriði í gögnin, það er að ÖBÍ gæti sinnt einhverju af því sem aðildarfélögin geta ekki sinnt vegna fæðar starfsfólks og skorts á fjármagni. Beiðni var um að ÖBÍ sinnti áfram einstaklingsþjónustu, sérstaklega hvað varðar kjaramál, þó að hið opinbera eigi að sinna þeirri þjónustu.

Formaður sagði að fólk gæti áfram leitað til ÖBÍ, sérstaklega ef fólk þarf að koma á framfæri stjórnsýslukærum og fleiru þess háttar.

Nefnt var að mikilvægt væri að skýr verkaskipting væri á milli ÖBÍ og aðildarfélaga þess. ÖBÍ væri með heildarsýnina en aðildarfélögin væru ólík og störfuðu á mismunandi hátt. Efla þyrfti starf ungs fólks innan ÖBÍ og aðildarfélaga þess. Koma þyrfti á innri vef fyrir bandalagið, meðal annars til að ná betur til ungs fólks. Mikilvægt væri að flytja skrifstofu ÖBÍ úr Hátúni 10. Lagt var til að skjalið „Svona vinnum við“ myndi heita „Viðmiðunarreglur.“

Fjóla María Ágústsdóttir þakkaði fyrir frábært samstarf við ÖBÍ. Hún hefur kynnst fólki innan ÖBÍ og starfsemi bandalagsins sem hefur verið mjög gefandi og fannst henni frábært og skemmtilegt að sinna þessu verkefni.

Formaður bar upp þá tillögu að framkvæmdastjórn verði falið að ráða starfsmann í 50% starf í ráðgjöf og var það samþykkt samhljóða.

Hann þakkaði öllum sem komu að stefnumótunarstarfinu.

4. Skýrsla formanns.

Skýrsla formanns (fylgiskjal 9) var send til fundarmanna fyrir fundinn og var hún ekki rædd sérstaklega en hann sagði frá fundi sem hann sat með fjárlaganefnd Alþingis.
Formaður bar upp tillögu um að færa umfjöllun um fjárhagsáætlun til næsta fundar. Samþykkt.
Formaður reifaði nokkur mál. Nú á tímum skiptir máli að huga vel að velferðinni – næsta vika verður erilsöm fyrir aðildarfélögin, t.d. vegna fjárlagagerðar. Ekki verður mikill niðurskurður í félags- og tryggingamála- ráðuneytinu. Gefið hefur verið út að verja eigi öryrkja og ellilífeyrisþega. Sett hefur verið fram reglugerð frá félagsmálaráðuneytinu sem segir að enginn eigi að hafa lægri tekjur en 180.000 ef þeir búa einir. 100.000 króna frítekjumark verður framlengt. Gert er ráð fyrir að fjárlögin 2009 verði rekin með 150 milljarða halla en formaður hefur sérstakar áhyggjur af fjárlögum 2010 varðandi almannatryggingar og málefni öryrkja.

Formaður bar upp tillögu um að setja á fót starfshóp sem myndi fjalla um fjárlögin og fara í útreikninga og að hagfræðingur BSRB komi að því. Tillaga að starfshóp vegna fjárlaga: Guðríður Ólafsdóttir, Halldór S. Guðbergsson, Grétar Pétur Geirsson, Garðar Sverrisson og Helgi J. Hauksson. Tillagan var samþykkt eftir umræður.

Sagt var frá því að lög voru sett 1995 þar sem slitin voru tengsl milli lágmarkslauna og örorkubóta og í framhaldi af því hækkuðu lágmarkslaun fram yfir bætur. Önnur lög voru sett um 98 þar sem sagði að bætur ættu að fylgja launaþróun, þannig að á næsta fjárlagaári ættu bætur að fylgja hækkun launa viðkomandi árs, en það hefur ekki gerst. Varnagli okkar er að bætur skuli hækka í samræmi við laun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en neysluvísitala milli ára. Nú reynir fyrst á þetta ákvæði í lögum og stjórnvöld virðast ekki ætla að halda lögin. Þau virðast ætla að færa fjármagn frá þeim hópi öryrkja sem hafi það skár til þeirra sem fá lægri bætur.

Aðildarfélög voru hvött til að mæta betur á kynningarfundi sem ÖBÍ heldur fyrir þau. Mjög léleg mæting var á fund um heimahjúkrun sem haldinn var í nóvember.

Umræða var um að þegar farið væri í kröfugerðir yrði að passa að stuða ekki aðra í samfélaginu þar sem flestir hópar þjóðfélagsins hafa það slæmt þessa dagana. Hins vegar mætti ÖBÍ ekki vera með afslætti á kröfum.

Sagt var frá því að margir öryrkjar sem búa erlendis eru í slæmri stöðu vegna gengismála og væri ástandið sérstaklega slæmt í Danmörku. Sveitarfélögin þar segja þvert nei við stuðning til erlendra aðila.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu hóf gagnrýna umræðu um hvort ekki væri heppilegra að fá annan hagfræðing en hagfræðing BSRB á þeim tilmælum að annar hagfræðingur yrði fenginn. Útskýrt var að sá hagfræðingur væri með mestu þekkinguna á málefnum aldraðra og öryrkja. Formaður sagði að hlutverk hagfræðingsins væri að sinna útreikningum fyrir ÖBÍ sem á að styrkja bandalagið í hagsmunabaráttunni.

5. Málefni Hringsjár.

Kynnti drög að stofnskrá Hringsjár sem sjálfseignarstofnun og borin upp til samþykktar. Rekstur Hringsjár gekk ekki vel árið 2007 því 9 milljóna króna tap var þar sem ekki náðist að gera samning við hið opinbera. Nú er búið að gera nýjan samning og fjölda nemenda hefur verið fjölgað úr 40 í 60.

R. Linda Skúladóttir, forstöðumaður Hringsjár, kynnti tillögu um að Hringsjá verði breytt í sjálfseignarstofnun og að starfshópurinn hafi möguleika á að fjölga stofnaðilum. Kynnti hún forsögu Hringsjár. Samningur við TR rann út síðustu áramót. Einingaverð fyrir þjónustu hefur aldrei verið endurreiknað síðan samningarnir runnu út. Löngu tímabært að endurnýja allan tæknibúnað, s.s. tölvur sem eru síðan 1999.

Í stjórn hafa setið þrír aðilar sem er talin of fámenn stjórn. Mat allra er að tímabært sé að festa formið á Hringsjá. Þurfum að vera sýnileg eins og ÖBÍ sjálft. Drög lögð fram að skipulagsskrá 1999 en komst aldrei í framkvæmd. Skipulagsskrá á að vera tæmandi, ekki eiga að þurfa að vera viðaukar. Heilbrigðis-, menntamála- og félags- og tryggingamálaráðuneytið ásamt aðila að skólasamningi koma að nýjum samningi.

Spurt var hvað hefði orðið til þess að félagsmálaráðuneytið gerði ekki samning síðast? Linda svaraði því til að það hefði meðal annars verið vegna rekstrarforms Hringsjár.

Starfsemi Hringsjár var hrósað en jafnframt var bent á að það væri vel falið leyndarmál. Þarf að hvetja fólk til áframhaldandi menntunar eftir að það hefur lokið námi hjá Hringsjá.

Skipulagsskráin talin góð og nauðsynleg. Emil Thoroddsen telur eðlilegt að aðalstjórn feli framkvæmdastjórn að klára málið hið fyrsta.

Formaður bar upp þá tillögu að aðalstjórn feli framkvæmdastjórn ásamt fimm manna starfshópi sem í sitja, Atli Lýðsson, Daníel Ágústsson, Halldór S. Guðbergsson, Linda Skúladóttir og Þóra Þórarinsdóttir að ganga frá málinu. Samþykkt samhljóða.

6. Skipun í stjórn Vinnustaða ÖBÍ.

Borin upp tillaga frá framkvæmdastjórn um skipun þriggja stjórnarmanna og eins varamanns til eins árs.
Tillagan er um Sigurð Þ. Sigurðsson sem formann,  Elísabetu Árnadóttur Möller, og Magnús Pálsson.
Samþykkt.

7. Fjárhagsáætlun ÖBÍ 2009.

Frestað var kynningu og umræðu til næsta fundar í janúar.

8. Önnur mál.

Enginn kvað sér hljóðs.

Formaður þakkaði fyrir samstarfið á árinu og óskaði fundarmönnum gleðilegra jóla.

Fundi slitið kl. 19.40.

Fundarritari Anna Guðrún Sigurðardóttir