Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 12. ágúst 2009

By 7. desember 2009No Comments

Fundargerð.

Miðvikudaginn 12. ágúst 2009, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) saman til fundar að Hátúni 10, 9. hæð. Fundur var boðaður kl. 17.00. Fundi stýrði formaður ÖBÍ, Halldór S. Guðbergsson.

Eftirtaldir aðalstjórnarfulltrúar sátu fundinn:

Björk Þórarinsdóttir, ADHD samtökunum.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, Daufblindrafélaginu.
Brynhildur Arthúrsdóttir, LAUF.
Dagný E. Lárusdóttir, SÍBS.
Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu.
Garðar Sverrisson, MS félaginu.
Grétar P. Geirsson, Sjálfsbjörg.
Guðmundur Magnússon, SEM samtökunum.
Halldór S. Guðbergsson, Blindrafélaginu.
Hjördís A. Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra.
Jón Þorkeslsson, Stómasamtökunum.
Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra.
Kristín Michelsen, Hugarfari.
María Th. Jónsdóttir, FAAS.
Málfríður D. Gunnarsdóttir, Heyrnarhjálp.
Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra.
Sigrún Gunnarsdóttir, Tourette samtökunum.
Sigursteinn Másson, Geðhjálp.
Snorri M. Snorrason, Parkinssonsamtökunum.
Þorbera Fjölnisdóttir, Kvennahreyfingu ÖBÍ.
Þröstur Emilsson, Voninni.
Ægir Lúðvíksson, MND félaginu.

Starfsmenn ÖBÍ:

Anna G. Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður H. Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Þórný B. Jakobsdóttir, aðstoðarmaður formanns

1. Formaður setur fund og fundarmenn kynna sig

Formaður setti fund kl. 17.05, bauð fundarmenn velkomna. Þessu næst bað hann fundarmenn að kynna sig.

Formaður lagði til að farið yrði beint í lið 3 og liður 2 yrði geymdur þar til síðar. Stefán Ólafsson mun vera með um 10 mínútna framsögu um drög að skýrslu vegna einföldunar á almannatryggingakerfinu og svo verða umræður og fyrirspurnir. Félags- og tryggingamálaráðuneytið bað um umsögn um skýrsluna í júlí en frestur til að skila henni hefur verið fenginn. Umræður verða teknar niður og umsögnin send fljótlega. Einstök aðildarfélög geta einnig sent sína umsögn.

2. Drög að skýrslu vegna einföldunar á almannatryggingakerfinu

Stefán Ólafsson þakkaði boðið og sagðist hlaupa yfir helstu tillögur úr skýrslunni. Skýrslan er byggð á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar vorið 2007, Jóhanna Sigurðardóttir skipaði verkefnisstjórn og sett voru ítarleg markmið. Hugsunin var tvíþætt, annars vegar að einfalda kerfið verulega og hins vegar kjarabætur. Draumurinn var að nota tækifærið til að bæta kjör lífeyrisþega umtalsvert og sem betur fer hófst sú vinna strax. Nefndinni var falið að skila tillögum í tvennu lagi, annars vegar í desember 2007 og hins vegar til lengri tíma varðandi breytta uppbyggingu almannatryggingakerfisins. Báðum tillögunum var skilað í desember.

Breytingar miðað við þessar tillögur komu fyrst til framkvæmda 1. janúar 2008, síðan 1. apríl 2008 og svo smám saman allt árið. Meðal annars voru hækkanir á lágmarks-framfærslutryggingunni og 9,6% hækkun á viðmiðunarstærðum í almannatrygginga-kerfinu. Þrátt fyrir að verðbætur hafi ekki verið greiddar að fullu miðað við lög, þá var þetta jákvætt í ljósi þess að á sama tíma voru menn að horfa fram á lækkun á almennum launamarkaði. Margir vildu bíða með breytingar þar til heildarpakkinn væri ljós en Jóhanna Sigurðardóttir vildi laga ýmislegt í kerfinu strax og er það því fyrir tilstilli hennar að menn eru ekki í eins slæmri stöðu og ella hefði verið.

Tillögur að breytingum eru einkum tvíþættar. Í fyrsta lagi er tillaga um róttæka einföldun á kerfinu og í öðru lagi breyting á skerðingarreglum sem er framhald af því sem byrjað var að gera í fyrra, aðallega með innleiðingu aukinna frítekjumarka. Í þriðja lagi er lágmarksframfærsla sem kom til framkvæmda 1. september 2008 og hækkaði 1. janúar 2009. Lágmarksframfærslan er mikilvæg í þessu kreppuástandi því hún hækkar þá sem eru með allra lægstu tekjurnar í hópi lífeyrisþega. Tillaga 1 er um einföldunina og tillaga 2 er í tveimur liðum, A og B lið. A liður kallar ekki á auka útgjöld því tilfærsla er innan kerfisins en tillaga B kallar á aukin útgjöld.

Varðandi tillögu 1 um einföldun á kerfinu þá er ekkert sem myndi réttlæta það að ekki yrði farið í einföldun á því, hvað sem líður fjárhag ríkisins eða kröfum eða þörfum á niðurskurði. Hugmyndin er róttæk breyting en hún þarf ekki að kosta nema um 10 til 15 milljónir hjá TR sem felst aðallega í að lagfæra tölvukerfið í átt til einföldunar. Vilji er til þess að ganga alla leið í að fækka lífeyrisflokkum almannatrygginga, sem nú eru grunnlífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót, í einn flokk og honum til viðbótar væru tvær tegundir uppbóta ásamt lágmarksframfærslutryggingunni. Ekki er gert ráð fyrir að breyta muninum á greiðslum til einstaklinga annars vegar og sambúðarfólks hinsvegar. Hjón hafa ekki fengið heimilisuppbót og hafa verið með 84% af fullum bótum einhleyps einstaklings. Skoðað var hvernig þessu er háttað á vesturlöndum og það er alls staðar þannig að hvort hjóna fær minna en einhleypir. Á Íslandi er þetta í meðallagi miðað við norðurlöndin svo ekki er talin ástæða til að gera breytingar á þessu stigi. Ekki er eingöngu verið að tala um að einfalda uppbyggingu kerfisins heldur framkvæmdina líka. Draga þarf úr hnökrum á kerfinu, t.d. svo að fólk missi ekki ýmis réttindi ef það missir ákveðna bótaflokka eins og grunnlífeyri. Fleiri slíkir annmarkar eru á kerfinu sem laga þarf og auka gegnsæi. Strúktúrinn yrði þá svipaður og í norska kerfinu eftir breytingar sem gerðar hafa verið á síðustu árum.

Tillaga 2A er hófstilltari en til stóð en þar er frítekjumark á lífeyristekjur öryrkja komið inn. Þann 1. janúar sl. var sett frítekjumark á fjármagnstekjur sem er óhemjulágt, um kr. 8.000 á mánuði en hugmyndir eru uppi um að hækka það upp í kr. 30.000 á mánuði. Megininntakið á skerðingar núna er að koma þeim inn fyrir ellilífeyrisþega sem öryrkjar eru þegar búnir að fá og að skerðingarhlutfall verði 50% á þeim lífeyrissjóðstekjum sem eru yfir kr. 30.000. Lykilatriði í þessari útfærslu er að skert verði að núlli vegna lífeyrissjóðstekna. Þessi tillaga sparar ríkinu um 360 miljón kr.

Tillaga 2B er alveg eins nema að ekki verður skerðing að núlli. Skert verði að 29.000 kr. þannig að ellilífeyrisþegar haldi ígildi núverandi grunnlífeyris, þ.e. enginn fari verr út en nú er. Útgjöld ríkisins munu hækka um 1,5 milljarða frá því sem nú er.

Nefndin hefur tekið stefnumótandi ákvörðun í kerfinu þar sem lögð er áhersla á að einfalda kerfið, auka notkun frítekjumarka og að hægt verði að breyta eða draga úr skerðingum með tvennum hætti, annars vegar með því að hafa hærri frítekjumörk og hins vegar lægri skerðingarhlutföll. Nefndin hefur lagt til við ráðuneytið að frítekjumark verði hækkað strax á þessu ári. Það er engin glóra í öðru en að fólk geti átt sparifé, t.d. 5 til 10 milljónir eftir starfsferil án þess að ávöxtunartekjur af því þurfi að koma niður á lífeyristekjum. Áður skertust bætur af helmingi fjármagnstekna en nú 100% eftir að frítekjumari er náð.
Ef lífeyriskerfið þarf að spara meira mun Stefán mæla með því að lífeyrinn verði lækkaður eða sleppt að verðbæta hann en halda strúktúr kerfisins. Þegar hagur þjóðfélagsins fer að vænkast á ný myndi hópurinn vilja að frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur fari að minnsta kosti í kr. 60.000 á mánuði og að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækki verulega. Frítekjumark á fjármagnstekjur myndi hækka að minnsta kosti í kr. 50.000 til kr. 60.000 á mánuði.

Breyta þarf endurhæfingarlífeyri og kerfið tengt því. Vinna er hafin við að sameina Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun. Partur af þessari hugmyndavinnu er að úr þeirri sameiningu verði til velferðarstofnun sem verður vettvangur hins nýja starfsgetumats og endurhæfingarúrræða í samvinnu við endurhæfingarsjóð vinnumarkaðarins. Nefndin leggur áherslu á að það eigi að byggja upp eitt kerfi en ekki tvö.

Hugmyndir eru uppi um að draga úr víxlverkunum skerðinga milli almannatrygginga og lífeyrissjóða en Stefán sagði að viðræður um það við lífeyrissjóðina hafi gengið illa. Réttindi í lífeyrissjóðum eru keypt réttindi og fáránlegt er að þau skerði bætur almannatrygginga.

Formaður opnaði fyrir umræður og fyrirspurnir. Sagði jafnframt að núverandi kerfi væri allt of flókið og skiljanlegt væri að fólk ætti erfitt með að fóta sig í því þegar þeir sem leiðbeina fólki telja það flókið.
Spurt var út frá jafnréttishugmyndum hvort ekki væri rangt að halda inni tengingum við maka, t.d. varðandi heimilisuppbót? Þetta gæti ýtt undir félagslega einangrun. Tillagan er að öðru leyti jákvætt skref í átt að réttlátara, einfaldara og betra almannatryggingakerfi. Tillögurnar eru ekki fullmótaðar nema að nýtt örorkumatskerfi og nýtt fyrirkomulag á mati eða s.k. vinnugetumati kæmi inn líka.

Nefnt var að strax eftir hrun var byrjað að klípa af bótum lífeyrisþega, það sem gert var um áramót var á skjön við lög og svo eru það fjármagnstekjurnar. Það má ekki seilast dýpra í vasa öryrkja sem ekki mega við því miðað við þær skerðingar sem á undan eru gengnar. Þetta hljómar eins og Stefán tali fyrir hönd stjórnvalda. Réttlátt er að skerða almenning sem heild en ekki að taka ákveðna hópa út fyrir og skerða þá sérstaklega. Á meðan að þessi endurskoðun fer fram eru skerðingar komnar á fullt. Það á að heita að við séum í samráði en samt er sífellt verið að skerða. Litið er á Tryggingastofnun ríkisins sem stofnun þar sem hægt er að skera niður en ekki horft á að einstaklingar eru þar á bak við sem verða fyrir skerðingunum.
Spurt var um vinnuna tengda Bollanefndinni um breytt örorkumat og starfsendur-hæfingu, hvort starfssvið þessara nefnda skarist ekki og vinni hvor á móti annarri.

Stefán þakkaði fyrir sig og svaraði athugasemdunum. Varðandi sambúðina, það er ýmislegt til í því að þetta gæti verið jafnréttismál, að ekki sé gert upp á milli lífeyrisgreiðslna einstaklinga og hjónafólks en þetta er alls staðar þannig, þó mismikið eftir löndum. Hugsunin er að hjón og sambúðarfólk njóti samlegðaráhrifa með því að deila fjárhag og heimili og er ekki talin ástæða til að hreyfa við því fyrirkomulagi á þessu stigi. Varðandi það að starfsgetumatið og endurhæfingarkerfið þurfi að koma fyrst og það sem tengist Bollanefndinni sagðist Stefán ekki sammála því. Vinna við sameiningu stofnana er hafin og umræða um hvernig eigi að byggja upp nýtt endurhæfingarkerfi og útfærslu á áður nefndu starfsgetumati. Stefán brýndi fyrir fundarmönnum að fylgjast vel með því ferli.

Varðandi skerðingar á bótum almannatrygginga strax eftir hrunið þá var Stefán vera sammála því að ekki hafi verið farið að lögum varðandi hækkunina 1. janúar s.l. Það hefðu átt að koma til framkvæmda fullar verðlagsbætur og á alla línuna eða hátt í það. En Stefán taldi að lífeyrisþegar ættu þessa hækkun inni og halda ætti því til haga í framtíðinni en eins og staðan væri í dag er niðurskurður framundan. Hann hefði verið með aðrar hugmyndir um skerðingar en þær sem komu til framkvæmda 1. júlí s.l. og hann væri því ekki að verja ríkisstjórnina. Hann sagðist ekki reikna með að taka áfram þátt í þessari vinnu því starfshópurinn hafi skilað skýrslu og félags- og tryggingamálaráðuneytið muni klára málið. Það þarf að semja ný lög um hina nýju sameinuðu stofnun og er gert ráð fyrir að það muni ganga hratt fyrir sig innan ráðuneytisins. Hvatti hann ÖBÍ til að fá reglulega samráðsfundi til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri jafnóðum og sæu vinna færi fram. Það er rétt að þeir sem eru með lægstu tekjurnar finna fyrst fyrir kaupmáttarrýrnun en að hans mati þá sigla lífeyrisþegar inn í kreppuna í betri stöðu en fólk á vinnumarkaði og enn betri stöðu en þeir sem verða fyrir því að missa vinnuna.

Rætt var um að mikilvægt væri að skoða kerfisbreytinguna annars vegar og kjörin hins vegar. Kerfisbreytingin er einföldun sem mun gera kerfið skiljanlegra en núverandi kerfi. Ákveðnar reglur verða settar er varða samspil almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðskerfisins sem hefur skort. Skilyrði númer eitt er að lífeyrissjóður skerði ekki tekjur almannatrygginga. Sá rammi sem nú er gerir fólk óvirkt en ef menn geta notað frítekjumörkin þá sjá menn ekki bara lífsfyllingu í að taka þátt á vinnumarkaði heldur einnig efnahagslegan. Starfsgetumatið er tæknileg útfærsla en lykilatriði er hvernig við vinnum úr stoðkerfinu svo fólk verði ekki sett á bás og verði óvirkt. Tækifærið er núna til að breyta rammanum. Það verður mun auðveldara að berjast fyrir bættum kjörum innan þessa kerfis og því eigum við að styðja þessa kerfisbreytingu.

Þá var fjallað um í tengslum við framtíðarsýnina og nýja kerfið að nauðsynlegt er að auka samstarf milli sviða, opna lífeyriskerfið, heilbrigðiskerfið, lífeyrissjóðina, vinnumarkaðinn, endurhæfingarstöðvar og jafnvel sveitarfélögin sem eru að þjónusta fólk. Spurt var hvort búið væri að útbúa aðgerðaráætlun og skoða hvaða áhrif þetta hefur? Er byrjað að skoða þetta í tengslum við breytingarnar til að bæta lífeyriskerfið, að einfalda það og framtíðartengslin við starfsgetumatið?

Nefnt var að mikið er af öldruðu fólki sem er með veikt fólk heima en hvergi er minnst á að hækka eigi umönnunarbætur til þeirra. Jafnframt er ekki gert ráð fyrir að greiða umönnunarbætur til ellilífeyrisþega sem annast sína nánustu heima fyrir en til að fá greiðslur þarf að sýna fram á vinnutekjutap en öryrkjar og ellilífeyrisþegar geta það ekki. Bent var á að það væri dýrt að vera með sjúkan einstakling á heimilinu og ekki síst fyrir þá sem þurfa að kaupa leigubíl, t.d. í apótek og til lækna. Í mörgum tilvikum er um að ræða fólk sem virkilega þarf að líta til og ekki síst í þjóðfélaginu eins og það er í dag því í vaxandi mæli fær fólk ekki vistunarmat því vistunarúrræði eru ekki fyrir hendi. Það vantar stórlega bætur fyrir þetta fólk því margt lifir á sultarmörkum eða fyrir neðan þau sem er til skammar fyrir þjóðfélagið en hópurinn fer vaxandi.
Umræður voru um að hækka þyrfti frítekjumark lífeyrisþega vegna atvinnutekna og fjármagnstekna. Sparnaður er til hins góða en lágt frítekjumark gerir það að verkum að fólk sem sparaði áður hættir því. Oft eru ófyrirsjáanleg útgjöld sem fólk á erfitt með að mæta nema að hafa einhvern varasjóð. Þegar slíkt gerist leitar fólk í auknum mæli til sveitarfélaga. Þetta er því farið að vinna í þveröfuga átt. Undarlegt að ekki sé samræmi á milli kerfa en fólk á atvinnuleysisbótum er með mun hærra frítekjumark á fjármagnstekjur en lífeyrisþegar og á það einnig við um námsmenn. Spurt var hvort áform væru um að hækka frítekjumarkið hjá lífeyrisþegum?

Stefán tók undir það að um væri að ræða annars vegar kerfisbreytingu og hins vegar kjör fólks. Þó að menn séu ósáttir með kjaraþróunina er hægt að koma á nýju örorkumatskerfi. Núverandi stoðkerfi er í molum og ef til tekst að koma á nýju kerfi með þau stefnummið sem hafa verið sett þá verðum við komin með mjög fínt kerfi eftir nokkur ár.

Varðandi samstarf milli sviða og kerfa og hvort það hafi verið hugsað heildstætt þá svaraði hann því játandi. Það er verið að hugsa þetta í heild en það þýðir ekki að það nái til alls sem skiptir máli fyrir lífeyrisþega. Það þarf að vinna þetta áfram í tengslum við lög, ýmis réttindi og margt fleira.
Stefán upplýsti að það var ekki hlutverk nefndarinnar að gera tillögu um breytingar á fyrirkomulagi umönnunarbóta hjá þeim sem búa heima eða vasapeninga fyrir þá sem eru vistaðir á hjúkrunarstofnunum. Vilji var fyrir því að leggja niður vasapeninga en það á að vinna að því innan ráðuneytisins. Nú er allt komið í hendur þess og ekki er frágengið hvort hópurinn starfi áfram. Varðandi vistunarmat þá er dýrt að sinna sjúku fólki heima en hópnum var ekki falið að fjalla um þá hluti.
Stefán sagði það vera samhljóm við sína skoðun að óhjákvæmilegt væri annað en að hækka frítekjumark fjármagnstekna.

Nefnt var að mikilvægt væri að móta sameiginlega stefnu ÖBÍ í þessum málum og einnig almennt um skerðingarnar og frítekjumörk. Lögð var áhersla á að varhugavert er að bera saman atvinnulausa og öryrkja, því atvinnuleysi er tímabundið.

ÖBÍ mun senda inn umsögn um skýrsluna til að koma sjónarmiðum bandalagsins á framfæri.

Stefán yfirgaf fundinn 18.20 og gert var fimm mínútna fundarhlé.

3. Fundargerðir frá 27. maí, framhaldsfundar 10. júní og fundargerð frá 1. júlí

Fundargerðir frá 27. maí, framhaldsfundar 10. júní og fundargerð frá 1. júlí voru bornar upp til samþykktar. GS benti á að hann vildi að það kæmi fram í fundargerð frá 1. júlí, að hann gagnrýndi að nauðsynlegt hafi verið talið að skerða örorkubætur en ekki laun þeirra sem hafa lægri tekjur en 700.000. Fundargerðir samþykktar með breytingu Garðars.

4. Kaup á húsnæði að Suðurlandsbraut 22. Tillaga frá framkvæmdastjórn

Formaður kom með tillögu um væntanleg kaup á húsnæði fyrir skrifstofur bandalagsins að Suðurlandsbraut 22, Reykjavík en fundarmenn bauðst að skoða húsnæðið fyrir fundinn. Hann sagði að ef aðalstjórn samþykkir kaupin þarf að setja upp lyftu áður en húsnæðið verði tekið í notkun. Óformlegt tilboð í það verk hefur borist, að upphæð kr. 8 milljónir kr. Einnig þarf að breyta salernum og gera þau aðgengileg. Framkvæmdir gætu kostað um 20 milljónir kr.

Tillaga að bókun aðalstjórnar ÖBÍ.

Aðalstjórn ÖBÍ samþykkir kaup á húsnæði fyrir starfsemi bandalagsins að Suðurlandsbraut 22, 2. hæð, Reykjavík, með fyrirvara um að aðkoma og aðgengi að húsinu verði í samræmi við kröfur ÖBÍ sem koma fram í samþykktu kauptilboði dagsettu 30. júlí 2009 ásamt fylgiskjali.

Kröfurnar snúast m.a. um að samþykkt húsfélagsins liggi fyrir um að ÖBÍ fái að setja upp lyftu frá jarðhæð upp á 2. hæð við austurenda hússins sé það mögulegt og að samkomulag náist um merkingar á bílastæðum á 2. hæð fyrir framan bakhús um sérmerkt bílastæði fyrir bandalagið. Framkvæmdastjórn er falið að ganga frá samningi þar um.

Spurt var hvort það væri ekki alveg skýrt að húsið yrði ekki keypt nema þær breytingar yrðu leyfðar sem kveðið er á um í kauptilboðinu, s.s. að lyfta verði sett upp? Formaður svaraði því til að svo væri. Þá var lagt til að orðalagið „sé það mögulegt“ yrði tekið út úr tillögunni. Samþykkt samhljóða.

Fundarmenn voru almennt ánægðir með kaup á húsnæðinu, nokkrir þeirra sem hafa séð það lýstu yfir ánægju sinni með það.

Tillagan var samþykkt samhljóða og var klappað fyrir því.

5. Næsti aðalstjórnarfundur

Næsti aðalstjórnarfundur verður haldinn miðvikudaginn 9. september nk.

6. Önnur mál

a) Halldór tilkynnti það formlega að hann muni ekki gefa kost á sér áfram sem formaður bandalagsins á aðalfundi þess 24. október n.k. Ástæðan er fyrst og fremst búsetu- og fjölskylduástæður. Jafnframt tilkynnti hann að hann hafi fengið nýtt starf sem ráðgjafi hjá Þekkingarmiðstöð blindra, sjónskertra og daufblindra. Guðmundur Magnússon, varaformaður, mun koma meira inn í dagleg störf á skrifstofunni þar sem Halldór mun minnka starfshlutfall sitt fram að aðalfundi.

b) GM sagði frá dönsku merkja- og skráningarkerfi um aðgengi. Fundarmenn fengu gögn í hendur og beðnir um að kynna sér vel en málið verður tekið upp á næsta fundi.

c) Jón Þorkelsson, Stómasamtökunum, sagði frá plakati sem samtökin hafa gert og hefur verið dreift í allar sundlaugar landsins. Bað fundarmenn að hafa samband við sig ef þeir frétta af sundlaug sem vantar plakat.

Formaður sleit fundi kl. 19.10.

Fundarritarar; Anna G. Sigurðardóttir og Þórný B. Jakobsdóttir.