Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 12. janúar 2006

By 30. mars 2006No Comments

Fundur aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands 12. janúar 2006.

Fundargerð

Fimmtudaginn 12. janúar 2006 kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar í fundarsalnum Háteigi, að Grand Hóteli Reykjavík. Hófst fundurinn kl. 17:35.
Fundi stýrði formaður Öryrkjabandalags Íslands, Sigursteinn Másson.

Eftirtaldir sátu fundinn:

Jón Sigurðsson – Parkinsonssamtökunum
Steinunn Þóra Árnadóttir – MS-félagi Íslands
Guðríður Ólafsdóttir – ÖBÍ
Guðmundur Magnússo – SEM-samtökum endurhæfðra mænusksaddaðra
Helgi Seljan – MG-félagi Íslands

Þröstur Sverrisson – Umsjónarfélagi einhverfra
Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir – Kvennahreyfingu ÖBÍ
Hafrún Kristjánsdóttir – Geðverndarfélagi Íslands
Auður Thorarensen – Félagi nýrnasjúkra
Vilmundur Gíslason – Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir – Blindravinafélagi Íslands
Ingi Hans Ágústsson – Alnæmissamtökunum
Garðar Sverrisson – Daufblindrafélagi Íslands
Ragnar Gunnar Þórhallsson – Sjálfsbjörg lsf.
Berglind Stefánsdóttir – Félagi heyrnarlausra
Elín H Hauksdóttir – SPOEX– samtökum psoriasis og exemsjúklinga
Bryndís Snæbjörnsdóttir – FSFH – foreldra- og styrktarfélagi heyrnardaufra
Birgir Þ Kjartansson – SÍBS – samtökum íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga
Kristján Freyr Helgason – Stómasamtökum Íslands
Málfríður Gunnarsdóttir – Heyrnarhjálp
Björn Tryggvason – Málbjörg
Sigríður Jóhannsdóttir – Samtökum sykursjúkra
Tryggvi Þór Agnarsson – Tourette samtökunum
Halldór S Guðbergsson – Blindrafélaginu
Ingibjörg Karlsdóttir – ADHD samtökunum
Friðrik Alexandersson – Styrktarfélagi vangefinna
Emil Thóroddsen – Gigtarfélagi Íslands
Sigursteinn Másson – Geðhjálp
Ægir Lúðvíksson – MND – félagi Íslands
Guðjón Sigurðsson – MND– félaginu (áheyrn)
Garðar Steinþórsson – LAUF – landssamtökum áhugafólks um flogaveiki
Guðmundur Johnsen – Félagi lesblindra
María Th. Jónsdóttir – FAAS – félagi aðstandenda Alzheimersjúklinga
Bára Snæfeld ÖBÍ – fundarritari.

Formaður bauð aðalstjórnarfulltrúa hjartanlega velkomna. Hann þakkaði fjölmiðlamönnum þann mikla áhuga sem þeir sýndu fundinum, en óskað eftir að þeir vikju af fundi fljótlega til að ganga mætti til dagskrár fundarins.

Skýrsla formanns.

Kæru félagar,
Ég lýsi þennan Aðalstjórnarfund Öryrkjabandalags Íslands settan. Hér er um að ræða fund sem halda átti í desember en vegna veikindaforfalla formanns var honum frestað þar til nú. Með fyrstu verkum mínum sem nýr formaður ÖBÍ var að ganga á fund aðildarfélaga Öryrkjabandalagsins í því skyni að kynnast forsvarsmönnum þeirra og áherslum félaganna. Þessar heimsóknir veittu mér innsýn inn í það merkilega starf sem verið er að vinna, oft við þröngan kost. Mér varð það ljóst að flest félaganna eru komin mjög langt í málefnanlegri hagsmunabaráttu sinni auk þess að veita gríðarlega mikilvæga þjónustu til handa félagsmönnum sínum. Ég notaði tækifærið og reifaði hugmyndir um áherslur, mögulegar skipulagsbreytingar og viðfangsefnin sem framundan eru. Ég óskaði sérstaklega eftir tillögum félaganna um með hvaða hætti styrkja mætti tengslin milli Öryrkjabandalagsins annarsvegar og aðildarfélaganna hinsvegar.

Fram komu ýmis athyglisverð sjónarmið. Augljóst var að vilji félaganna stendur til þess að efla hina faglegu hagsmunagæslu til muna. Áberandi voru óskir um bætt samskipti ÖBÍ og stjórnvalda. Rætt var um skort á lögfræðilegri ráðgjöf. Sameiginlegt aðgengi að sálfræðilegri þjónustu. Sérstakan tengilið milli ÖBÍ og aðildarfélaganna og auknar styrkveitingar til margvíslegra verkefna aðildarfélaganna. Ýmislegt fleira bar á góma sem of langt mál væri að telja. Ég lýsti vilja mínum um að ÖBÍ kæmi til móts við þessar óskir. Sömuleiðis kynnti ég hugmyndir, sem ræddar hafa verið í framkvæmdastjórn, um faglega styrkingu bandalagsins þannig að við komum öflugari til leiks í þeirri vinnu sem framundan er í aðdraganda tveggja kosninga – sveitarstjórnarkosninga í vor og Alþingiskosninga vorið 2007. Þá er fyrir því vilji innan framkvæmdastjórnar að breyta áherslum við gerð fjárhagsáætlunar Öryrkjabandalagsins þannig að hvort tveggja verði gert að efla Öryrkjabandalagið og hækka nokkuð styrki til aðildarfélaganna. Þess verkefnis bíður framkvæmdastjórnar á næstu dögum og vikum og nýs framkvæmdastjóra Öryrkjabandalagsins með hliðsjón af uppgjöri íslenskrar Getspár.

Í nóvember var skipaður framkvæmdahópur um stefnumótun sem í sitja Ragnar Gunnar Þórhallsson, Emil Thóroddsen, Hafdís Gísladóttir, Valgerður Auðunsdóttir og Sigursteinn Másson. Hópnum er ætlað að afla upplýsinga erlendis og hérlendis og leiða stefnumótunarvinnu ÖBÍ hvað varðar innra skipulag bandalagsins, framtíðarhlutverk og tengsl þess við aðildarfélögin. Við þurfum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvar við viljum að ÖBÍ sé eftir tvö ár og eftir fimm ár? Hvernig viljum við að regnhlífarsamtökin þróist á næstu misserum og árum og mikilvægt er að aðildarfélögin öll komi að þessari vinnu.

Þann fjórða október síðastliðinn öðlaðist gildi reglugerð frá heilbrigðisráðuneytinu um stöðvunarrétt Tryggingastofnunar Ríkisins á öllum bótagreiðslum til handa öryrkjum og öldruðum. Formaður fór ásamt með formanni Sjálfsbjargar og lögfræðingi bandalagsins á fund heilbrigðisráðherra og mótmælti þessari aðgerð harkalega. Með fulltingi samtaka aldraðra og góðra þingmanna var reglugerðin dregin til baka í desember. Þegar óskað var tilnefningar í nefnd forsætisráðherra um tillögur að nýju örorkumati og um endurhæfingarmál var ljóst að þar var ekki gert ráð fyrir fulltrúa Öryrkjabandalagsins. Formaður átti fund með Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra þar sem þess var krafist að ÖBÍ fengi aðild og sömuleiðis var fundað með forsvarsmönnum ASÍ sem hétu því að standa ekki í vegi okkar. Á Þorláksmessu varð svo ljóst að ÖBÍ yrði boðin þátttaka í nefndarstarfinu. Þá hefur Heilbrigðiráðherra sagt að ÖBÍ muni fá aðild að starfshópi til endurskoðunar mála vegna hinnar slysalegu reglugerðar um stöðvunarrétt Tryggingastofnunar sem ÖBÍ og aldraðir náðu að hrinda.

Dómsmál ÖBÍ á hendur heilbrigðisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar vegna vanefnda á samkomulaginu frá því í mars 2003 var í desember þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur. Lögmaður ríkisins hefur beðið um frest til að svara greinargerð Öryrkjabandalagsins fram yfir næstu mánaðamót og að ráðleggingu lögmanns okkar hefur sá frestur verið veittur. Vænta má dómsniðurstöðu í vor eða í sumar. Ekkert verður gefið eftir í málinu en á fundum formanns með fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra hefur komið fram að aðeins með ígildi þess sem sama og upp á vantar svo samkomulag ÖBÍ og stjórnvalda sé að fullu efnt sé möguleiki á dómssátt í málinu. Um leið hefur verið lögð á það áhersla að eiga samstarf um önnur hagsmunamál fatlaðra á meðan dómsmálið hefur sinn gang.

Þann fyrsta desember kom út skýrsla Stefáns Ólafssonar prófessors um Örorku og velferð á Íslandi og í öðrum vestrænum löndum. Þetta rit færði ÖBÍ öllum alþingismönnum að gjöf á velheppnuðum útifundi öryrkja og aldraðra. Með úttekt Stefáns hafa skapast alveg ný tækifæri til málefnalegrar hagsmunabaráttu. Skýrslan staðfestir gagnrýni okkar og annarra og færir okkur heim sannin um það mikla verkefni sem vinna þarf ef við eigum að verða samanburðarhæf við Norðurlönd í velferðarmálum.

Gísli Helgason sagði sig úr aðalstjórn og framkvæmdastjórn Öryrkjabandalagsins í desember síðastliðnum án nokkurs ágreinings við Öryrkjabandalagið en af allt öðrum ástæðum. Gísla eru þökkuð góð störf í þágu Öryrkjabandalagsins.

Mánudaginn 9. janúar síðastliðinn var ráðningarsamningi Arnþórs Helgasonar sagt upp að undangenginni einróma samþykkt framkvæmdastjórnar Öryrkjabandalagsins á framkvæmdastjórnarfundi sem sérstaklega var til boðað af þessu tilefni föstudaginn 6. janúar. Ástæða uppsagnar Arnþórs eru skipulagsbreytingar sem m.a. hefur verið komið að hér að framan en nánar verða ræddar hér á eftir. Áhersla var frá upphafi lögð á að freista þess að ná eins góðri sátt um starfslok Arnþórs eins og mögulegt var. Ástráður Haraldsson fyrrverandi lögmaður Alþýðusambands Íslands var fenginn til að ganga frá samningi við Arnþór og lögmann hans. Fráfarandi framkvæmdastjóri býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á ýmsum málefnum fatlaðra og lýsti ég þeirri von minni við hann strax á mánudagsmorgun að hann muni í framtíðinni koma að verkefnum innan bandalagsins. Arnþóri Helgasyni eru hér með þökkuð óeigingjörn störf í þágu Öryrkjabandalagsins. Ekki hefur verið gengið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra en framkvæmdastjórn veitti formanni og varaformanni umboð á fundi sínum 6. janúar að ganga til samninga við Hafdísi Gísladóttur. Hafdís var framkvæmdastjóri félags heyrnarlausra frá árinu 1997 til 2005. Hún er í grunninn leikskólakennari með sérkennsluréttindi frá háskóla í Osló og er nú að ljúka meistaranámi í stjórnsýslufræðum frá Háskóla Íslands. Á síðasta ári gegndi hún stöðu framkvæmdastjóra Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar fyrir Miðborg og Hlíðar. Hafdís var fulltrúi í aðalstjórn ÖBÍ frá 1997 til 2003 og sat í framkvæmdastjórn Öryrkjabandalagsins frá 1998 til ársins 2000. Það er mitt mat að hæfari einstakling til þeirra verkefna sem fram undan eru sé vart hægt að finna.

Nýr framkvæmdastjóri tekst á hendur risavaxið verkefni, ekki síst hvað snertir áherslubreytingar inn á við í starfi Öryrkjabandalagsins. Þær breytingar lúta að bættum samskiptum við aðildarfélög jafnt sem opinbera aðila, Þær lúta að nýrri samskiptatækni, gegnsærri stjórnarháttum og auknu lýðræði innan hreyfingarinnar. Þær lúta að faglegri nálgun á viðfangsefnið, virkum nefndarstörfum og vandaðri tillögugerð og stefnumótun. Þær lúta og að bættu vinnuumhverfi og vinnuanda starfsfólks Öryrkjabandalagsins. Framkvæmdastjórn og framkvæmdahópur um stefnumótun sem tvívegis kom saman í nóvember munu vinna markvisst að þessum innri skipulagsbreytingum með nýjum framkvæmdastjóra. Þá hafa í framkvæmdastjórn verið reifaðar hugmyndir um flutning á skrifstofu Öryrkjabandalagsins sem hinn nýi framkvæmdastjóri mun þá leiða. Með eflingu starfsins verður húsnæðið orðið of þröngt, húsakynnin sjálf eru óaðlaðandi fyrir starfsmenn og gesti og þörf er á núverandi skrifstofurými fyrir aukna þjónustu við íbúa í Hátúns blokkunum. Málið hefur verið reyfað við Helga Hjörvar formann Hússjóðs en þar á bæ er einnig verið að huga að öðrum breytingum sem Helgi mun greina frá þegar að kemur. Flutningur skrifstofu ÖBÍ gæti komið til skoðunar mjög fljótlega.

Kæru félagar,
Á undanförnum árum hafa orðið ýmsar lagalegar framfarir sem lúta að gegnsærri stjórnsýslu. Nægir að nefna stjórnsýslulögin og upplýsingalögin. En einnig breytir tilkoma embættis umboðsmanns alþingis miklu og athyglisvert verður að sjá hverju embætti umboðsmanns neytenda muni skila. Miklu varðar að ÖBÍ hafi greiðan aðgang að góðri faglegri þekkingu til að nýta sér þær lagabætur sem orðið hafa og þær stofnanir sem við getum leitað til. Öryrkjabandalagið hefur á undangengnum árum horfið frá því að byggja hagsmunabaráttu sína á velvilja stjórnmálamanna en gert ýtrustu kröfur um að réttindi fatlaðra séu virt. Þessu þurfum við að halda áfram og styrkja þennan áhersluþátt hagsmunabaráttunnar enn frekar. Krafan á alltaf að vera sú að staða fatlaðra sé sambærileg þeim sem ófatlaðir eru hvort sem snýr að búsetu, þjónustu eða atvinnutækifærum. Það gerum við með því að beita fyrir okkur hæfustu lögfræðingum á sviði félagaréttar og mannréttinda en einnig hagfræðingum, félagsfræðingum og öðrum sem við þurfum á að halda hverju sinni. Það er óhjákvæmlegt að styrkja umtalsvert regnhlífarsamtökin hvað þetta varðar, aðildarfélögunum öllum og málefnum fatlaðra og langveikra til hagsbóta.

Frá okkur þurfa að koma mótaðar og málefnalegar tillögur. Frjóar hugmyndir til lausnar þeim vandamálum, öllu heldur verkefnum sem við sameiginlega stöndum frammi fyrir. Þær koma ekki frá stjórnvöldunum einum. Við þurfum að sýna fram á útreikninga og koma með raunhæfar tillögur um útfærslu og fjármögnun hugmynda okkar. Með öðrum orðum, við gerum kröfu um að vera tekin mjög alvarlega og þá þurfum við að mæta vel undirbúin til leiks. Í Danmörku á Öryrkjabandalagið aðild að svokölluðu fötlunarráði sem er löggjafanum til halds og trausts um öll málefni sem varða fatlað fólk. Þar sitja stjórnmálamenn og fulltrúar fatlaðra við sama borð og finna sameiginlegar leiðir til lausnar. Þannig verður þetta einn daginn hér líka.

2.
Annað dagskrármálið sem ég óska sérstakrar umræðu um og afstöðu til, snýr að kröfugerð og áhersluatriðum ÖBÍ fyrir tvennar kosningar, sveitarstjórnarkosningar í vor og kosningar til Alþingis eftir tæplega eitt og hálft ár. Tíminn er naumur og því þurfum við að halda vel á spöðunum ætlum við okkur að hafa veruleg áhrif á hinar pólitísku áherslur.
Að undanförnu hef ég í opinberri umræðu lagt mikla áherslu á að breyta verði lögum um almannatryggingar ekki síst með tilliti til tekjutenginga. Krafa ÖBÍ um hækkun bótanna sjálfra stendur og með sigri fyrir dómstólum munu, að öllum líkindum, rúmar 500 milljónir króna bætast við heildarbótafjárhæðina árlega. Hið sorglega er að ríkisvaldið hefur haft geð í sér að þyngja til muna skattbyrði öryrkja þannig að aldurstengda uppbótin sem um var samið við heilbrigðisráðherra árið 2003 og aðeins efnd að tveimur þriðju hlutum, skilar sér alls ekki nægilega til yngstu öryrkjanna þegar upp er staðið. Við næstu samningalotu þarf að tryggja að hækkun bótanna verði ekki með slíkum hundakúnstum ríkisvaldsins hrifsuð burt með sköttum.

Á þriðjudag átti ég mjög ánægjulegan fund með forsvarsmönnum Landssamtaka eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík. Þar var rætt um möguleikann á náinni samvinnu okkar og eldri borgara við kröfugerð í aðdraganda tvennra kosninga. Með því að leggjast á eitt, þessi stóru heildar¬samtök, við að setja fram skýrar og málefnanlegar tillögur, þar sem þær fara saman, og með aðstoð færustu sérfræðinga, er vandséð hvernig stjórnmálaflokkar í kosningabaráttu ætla að hundsa okkur. Hugmyndin er sú að kalla eftir skuldbindandi yfirlýsingum allra stjórnmálaflokka um að vinna með okkur að grundvallarbreytingum sem varða bætur almannatrygginga, tekjutengingar bóta, stóreflda endurhæfingarþjónustu með áherslu á starfsendurhæfingu, aðgerðum til aukinnar atvinnuþátttöku öryrkja og sveigjanlegri starfslokum eldri borgara, aðgerðir í húsnæðismálum öryrkja og aldraðra og nýrri forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Þá voru ræddar hugmyndir um bætta heimahjúkrun og persónulega liðveislu og síðast en ekki síst okkar eigin forgangsröð í þjónustu sjúkrahúsanna. Samtök aldraðra eru reiðubúin að útvega hagfræðing sinn til þessa verkefnis. Í gær átti ég fund með formanni og framkvæmdastjóra Þroskahjálpar og þau eru tilbúinn að starfa með okkur þegar kallið kemur.

Hér er lagt til að skipaðir verði 5 til 6 starfshópar utan um mismunandi málaflokka og í byrjun febrúar verði óskað tilnefninga í þá af hálfu aðildarfélaganna. ÖBÍ og samtök aldraðra útvegi starfsmenn hópanna þeim til halds og trausts. Hóparnir skili af sér grunn hugmyndum til frekari útfærslu í apríl n.k og þá verði leitað til stjórnmálaflokkanna um hvort þeir vilji vinna með okkur að uppbyggingu Íslenska velferðarkerfisins á þeim nótum. Það verður þá eftir því tekið ef einhverjir sitja hjá. Eitt af því sem við skulum gera okkur grein fyrir, ef út í þetta verður farið, er að þetta kostar mikið fé og eina leiðin til árangurs er að við komum með raunhæfar tillögur um það hvað aðgerðirnar eigi að kosta og hvernig þær verði fjármagnaðar. Auðvitað er það svo að þetta er alltaf spurning um forgangsröðun hjá ríkinu en það höfum við alltaf sagt og oft lítið verið hlustað á okkur. Nú legg ég til að við förum nýja leið. Því ætla ég að varpa þeirri tillögu inn í þennan hóp að við viðurkennum að stofnkostnaður við að byggja upp velferðarkerfið muni hlaupa á tugum milljarða króna og geri það hér með að tillögu minni að við, Öryrkjabandalagið og aðildarfélög þess fögnum hugmyndum um nýtt háskólasjúkrahús, en að við leggjum það eindregið til, á þessum tímapúnkti, að framkvæmdum við svonefnt hátæknisjúkrahús verði slegið á frest um óákveðinn tíma svo fram geti farið vandaður undirbúningur um fyrirhugaða starfsemi slíks sjúkrahúss og staðsetningu. Þess í stað verði þeim hluta af söluandvirði Símans sem ætlað hefur verið til verkefnisins, varið til þeirra verkefna sem heildarsamtök fatlaðra, sjúkra og aldraðra á Íslandi telja brýnast að komið sé í framkvæmd. Um leið sé tryggt aukið fé til reksturs Landsspítala háskólasjúkrahúss svo hann geti nú þegar sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Með slíku rausnarlegu stofnframlagi til velferðarkerfisins væri best komið til móts við þarfir og væntingar notenda þess.
Góðir fundarmenn, þessa tillögu vil ég óska eftir að fjallað verði um innan aðildarfélaganna og afstaða tekin til innan skamms tíma. Mér er óhætt að segja að forsvarsmenn samtaka aldraðra tóku vel í tillöguna á fundi okkar 10. janúar þótt svo hún bíði formlegrar afgreiðslu og það sama á við um forsvarsmenn Þroskahjálpar.
Ég tel að við höfum sögulegt tækifæri til að koma málefnum fatlaðra og langveikra á Íslandi á nýjan stað. Við höfum öll beðið lengi eftir slíku tækifæri. Hvernig svo sem slíkri tillögu yrði tekið af yfirvöldum mundum við alltaf verða í betri samningsstöðu gagnvart þeim vegna þess að þá yrði ekki lengur hægt að segja að við gerðum bara kröfur en kæmum ekki með raunhæfar hugmyndir um fjármögnun. Annars óttast ég kæru félagar að málefni okkar kunni að lenda í margra ára spennitreyju þar sem ávallt verði vísað til rausnarskaps ríkisstjórnarinnar við sjúkrahússbygginguna.

Formaður opnaði síðan fyrir mælendaskrá.

Helgi Seljan; þakkaði fyrir yfirgripsmiklar upplýsingar í yfirliti formanns, sem megi sem fyrst komast í framkvæmd – djarft sé teflt. HS taldi samstarf milli ÖBÍ og Félags eldri borgara mikilvægt og sagði félagið tilbúið til samstarfs. Formlega yrði þetta lagt fyrir fund félagsins nk. þriðjudag. Málið yrði í framhaldinu lagt fyrir Landssamband eldri borgara til samþykkis.
Varðandi tillögu SM vildi HS segja að í spjalli hans við fjölda manna, þar á meðal lækna, hefði komið fram að eingöngu væri verð að setja fjármagn í steinsteypu en ekkert fé hugsað til reksturs heilbrigðisþjónustunnar.
Ræddi HS loks uppsögn framkvæmdastjóra ÖBÍ sem hefði borið snöggt að. Vonaði hann að vel tækist að vinna úr því máli. Óskaði HS eftir að skilað yrði til AH góðum þökkum fyrir vel unnin störf.

Guðmundur Magnússon, tók undir hugmyndir formanns um samstarf við Félag eldri borgara og Þroskahjálp. Hann vildi einnig benda á að danska fötlunarráðið hefði nýst mjög vel og teldi hann afar brýnt að slíku ráði yrði komið á hér. Vék GM því næst að uppsögn framkvæmdastjóra, honum hefði brugðið mjög, en hefði skilning á að með nýrri stjórn kæmi nýr framkvæmdastjóri. Lagði GM tvær ályktanir fyrir fundinn:

Ályktun 1.
“Stjórn lýsir yfir fullum stuðningi við formann og framkvæmdastjórn í starfi þeirra fyrir bandalagið???..” (sjá lokaútgáfu hér neðar)

GM fylgdi síðari ályktun sinni úr höfn með því að benda á að framkvæmdastjórar væru aldrei æviráðnir, þar gæti þurft að skipta út annað slagið. Jafnvel eðlilegra að það héldist í hendur við skipti á formanni. Því væri eftirfarandi ályktun lögð fram.

Ályktun 2.
“Skipaður verði þriggja manna starfshópur, tveir úr aðalstjórn og einn starfsmaður skrifstofu, til að fara yfir ráðningarferli og starfssamning nýs framkvæmdastjóra. Hópurinn fjalli meðal annars um það hvort auglýsa skuli öll störf hjá ÖBÍ hér eftir og einnig ráðningartíma framkvæmdastjóra. Í því sambandi taki hópurinn afstöðu til þess hvort ráðningin skuli bundin við setu formanns á hverjum tíma.
Nýr samningur við framkvæmdastjóra verði lagður fyrir aðalstjórn ÖBÍ á næsta fundi hennar eins og 8. gr. laga bandalagsins kveður á um.”

Guðmundur Johnsen, sagðist leiður á orðinu skipulagsbreyting, og spurði hvað ylli uppsögn?

Sigursteinn, sagði að um afar viðkvæmt mál væri að ræða. Ýmislegt sem þarna liggi til grundvallar sé svo viðkvæmt að ekki verði rætt. Formaður og framkvæmdastjórn hafa unnið í samráði við aðildarfélög og lýsi hér skoðunum þeirra. Ríkar trúnaðarupplýsingar liggi að baki og til verndar einstaklingnum og honum til hagsbóta verði ekki farið í fjölmiðlaátök.

Jón Sigurðsson, vildi taka fram að Parkinsonssamtökin hefðu samþykkt á aðalfundi félagsins í desember fullan stuðning við formann og framkvæmdastjórn ÖBÍ í þeirra starfi. JS þakkaði góða skýrslu formanns.

Ægir Lúðvíksson, vildi horfa til framtíðar með jákvæðni í huga. Þakkaði góða skýrslu. Sagði nýja framkvæmdastjórn fá nýtt spil til að fara nýja leiðir. Alltaf væri hætta á að festast í ákveðnu fari, ÆL taldi ályktun 2, frá GM því afar ánægjuleg.

Halldór Sævar Guðbergsson; lýsti ánægju með báðar tillögur GM. Sagði þó brotthvarf AH ákveðiði áfall fyrir þeirra félagsmenn m.a. vegna hans fyrri starfa í þágu Blindrafélagsins. Benti HSG á að ÖBÍ þyrft að sýna gott fordæmi með að auglýsa störf og gefa öryrkjum tækifæri til að sækja um og hafa þá “okkar fólk í framsæti”.  Vildi þó leggja áherslu á að þetta mál yrði ekki leyst gegnum fjölmiðla.

Berglind Stefánsdóttir,vildi óska mönnum til hamingju með að hafa ráðið Hafdísi Gísladóttur sem framkvæmdastjóra ÖBÍ.

Málfríður Gunnarsdóttir, sagðist virða formann fyrir að fara ekki í fjölmiðlaátök. Ályktanir GM góðar. Lagði MG þó áherslu á að rangt væri að auglýsa ekki stöður.

Emil Thóroddsen, sagðist vanhæfur til að fjalla um ályktun 1, frá GM sem fulltrúi í framkvæmdastjórn. Emil tók aftur á móti heilshugar undir síðari tillöguna. Vildi þó benda á að ákveðins sveigjanleika þyrfti að gæta og kanna aðstæður hverju sinni. Emil vék síðan að fjölmiðlaumræðu sl. daga og sagði þær lýsingar sem þar hefðu komið fram ekki réttar. Hefði hann orðið fyrir miklum vonbrigðum – en ekki yrði farið í að svara í fjölmiðlum. Minnti á að alltaf væri auðveldara að gagnrýna en að koma með lausnir.

Guðmundur Johnsen, varðandi hagsmuni ÖBÍ þá styður hann ályktun GM villdi þó bæta við að AH hefði verið diggur liðsmaður. Hann vissi einnig að Hafdís Gísladóttir væri góður starfskraftur. Taldi þó að störf ætti að auglýsa.

Kristján Freyr Helgason, sagðist styðja formann og framkvæmdastjórn. Ástæðulaust og ákveðin blekking að auglýsa starf nú þegar búið væri að ráða nýjan framkvæmdastjóra.

Sigursteinn, sagðist sammála ET um að sveigjanleiki þyrfti að vera í ráðningu starfsmanna. Í skýrslu sinn hefði hann reynt að lýsa ákveðnum ferli sem og ákvörðunum, ásamt tækifærum sem framundan væru. Sigursteinn sagðist vilja leiðrétta þann misskilning sem gætti um að búið væri að ráða nýjan framkvæmdastjóra, svo væri ekki, aftur á móti væri það mjög skýrt í lögum ÖBÍ að framkvæmdastjórn sæi um ráðningu framkvæmdastjóra hverju sinni, stefnt væri að því að ganga til samninga við Hafdísi á morgun. SM taldi  Hafdísi mjög hæfan starfskraft fyrir starf ÖBÍ. Óvissu þyrfti að eyða sem fyrst með því að ráða í starfið. Sigursteinn tók undir athugasemd Halldórs Sævars um að líta bæri til fatlaðs fólk við ráðningar. Benti SM á að litið hefði verið til þeirrar formúlu sem danska öryrkjabandalagið hefði sem viðmið en það er að formaður sé fatlaður og fulltrúar í framkvæmdastjórn en framkvæmdastjóri sé ófatlaður. Sigursteinn sagðist taka undir ályktun 2, frá GM en í ályktun 1, óskaði Sigursteinn eftir að menn kæmu sér saman um orðalag, en nokkur umræða hafði verið um orðalag fyrr á fundinum um ályktun 1, um þann hluta sem sneri að starfslokasamningi við AH. Til máls tóku Halldór Sævar, Málfríður, Berglind, Vilmundur, Helgi.  Niðurstaða um ályktun 1 varð þessi:

Ályktun aðalstjórnar ÖBÍ 12. janúar 2006.

Stjórnin lýsir fullum stuðningi við formann og framkvæmdastjórn í starfi þeirra fyrir bandalagið og væntir þess að nýjar áherslur verði okkur öllum til framdráttar. Jafnframt þakkar aðalstjórn fráfarandi framkvæmdastjóra óeigingjörn störf í þágu ÖBÍ og mælist eindreigið til þess að framkvæmdastjórn láti hann njóta góðra starfa með því að gera við hann starfslokasamning sem báðir aðilar hafi sóma af.

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands.

Samþykkt samhljóða.

Vilmundur Gíslason, óskaði eftir að starfskjör komandi framkvæmdastjóra verði ljós og verði kynnt á næsta aðalstjórnarfundi.

Garðar Sverrisson., benti á að í lögum ÖBÍ kæmi fram að slíkan samning þyrfti hvort eð er að leggja fyrir aðalstjórnarfund og slíkt hefði ætíð verið gert.

Sigursteinn lagði til að ályktun 2 frá GM yrði nánar unnin af framkvæmdastjórn.
Var það samþykkt af fundarmönnum.

Guðmundur Magnússon, lagði áherslu á að inn í ályktun verði settur árafjöldi.

Helgi Seljan, vildi í ljósi reynslu biðja menn að stíga hægt og með varúð til jarðar gagnvart fjölmiðlamönnum.

Berglind Stefánsd., vildi vita hvenær yrði tilkynnt um ráðningu Hafdísar.

Sigursteinn, áréttaði að ekki væri búið að ráða Hafdísi það væri rangt sem fram hefði komið í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum síðan. Reynt yrði að ganga frá þeim samningi á morgun.

Að lokum þakkaði Sigursteinn fulltrúum aðalstjórnar þann stuðning sem honum hefði verið veittur á þessum fundi. Þetta hefði verði mjög erfið vika öllum sem að málinu hafa komið. Mikil tækifæri væru framundan sem gæta þyrfti að missa ekki af. Sveitarstjórnarkosningar í vor og alþingiskosningar á næsta ári. Væri hann þess sannfærður að ekkert gæti unnið á bandalaginu ef menn stæðu þétt saman. Hann bauð fulltrúum að þiggja léttan kvöldverð í boði bandalagsins, þar í salnum, áður en heim yrði haldið.

Því næst sleit formaður fundi kl. 18:55.

Fundarritari Bára Snæfeld.