Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 14. mars 2013

By 17. desember 2013No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 14. mars 2013, kl. 17.00–19.00 í Hátúni 10, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar

ADHD samtökin – Björk Þórarinsdóttir
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
Blindravinafélag Íslands – Gísli Helgason
CCU samtökin – Hrönn Petersen
FAAS – Sigríður Eyjólfsdóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Fjóla – Ágústa Gunnarsdóttir
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
Hugarfar – Hallfríður Sigurðardóttir
LAUF, félag flogaveikra – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg – Árni Heimir Ingimundarson
Málefli – Kristján Geir Fenger
ME félag Íslands – Nanna G. Yngvadóttir
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Sveinn Guðmundsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Vilmundur Gíslason
Umsjónarfélag einhverfra – Svavar Kjarrval

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ

Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari og starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, setti fund kl. 17.05, bauð fundarmenn velkomna og kynnti fundarstjóra fundarins, Ernu Arngrímsdóttur, SPOEX og tímavörð Klöru Geirsdóttur, CP félaginu.

Gísli Helgason, Blindravinafélaginu spurði hvort ekki ætti að kjósa um fundarstjóra? Var Erna kosin fundarstjóri með handauppréttingu.

FAAS óskaði eftir því að Sigríður Eyjólfsdóttir verði fulltrúi þeirra á fundinum, í stað aðal- og varamanns, sem hvorugur komust. Samþykkt. Fundarmenn kynntu sig.

2.  Fundargerð frá 17. janúar og 7. febrúar 2013 bornar upp til samþykktar.

Fundargerðirnar voru samþykktar samhljóða.

3.  Skýrsla formanns.

Formaður flutti skýrslu sína sem send var til aðalstjórnarfulltrúa fyrir fundinn. Spurningar frá ÖBÍ voru sendar til þeirra framboða sem bjóða fram í kosningum til alþingis og eiga framboðin að skila svörum til ÖBÍ fyrir 3. apríl.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, þakkaði fyrir að fá skýrsluna senda fyrir fundinn því þá kæmi fólk betur undirbúið. Ægir spurði hvort það væri til listi yfir umsagnir aðildarfélaganna um frumvörp og hvort tekið sé  tillit til þeirra? Framkvæmdastjóri sagði að mismunandi væri hvort aðildarfélög svari fyrirspurnum ÖBÍ um umsagnir, hvort þau sendi almennt inn umsagnir eða ekki og að ekki væri til listi yfir umsagnir aðildarfélaga ÖBÍ.

Gísli Helgason, Blindravinafélaginu, spurði um fundinn á Írlandi varðandi algilda hönnun. Gísli lagði til að framkvæmdastjórn fylgdist betur með þessum málum og legði meiri áherslu á þau. Formaður sagði að framkvæmdastjórn þyrfti að fjalla sérstaklega um þessi mikilvægu mál á sínum fundum.

4.  Húsnæðismál ÖBÍ.

Formaður sagði frá því að Ólafur Gísli Björnsson hefði gert erfðaskrá og ánafnað öllum fjármunum sínum til ÖBÍ, sem voru við andlát hans árið 2002 rúmlega 50 milljónir króna. Féð hefur verið ávaxtað og árið 2013 er það um 270 milljónir króna. Þessi arfur var eyrnamerktur til kaupa á skrifstofuhúsnæði fyrir ÖBÍ.

Formaður og framkvæmdastjóri fóru yfir forsögu húsnæðismála bandalagsins en umræða um flutning skrifstofunnar hófst árið 2006. Tilboð hafa verið gerð í nokkrar eignir á þeim tíma sem liðinn er en ýmislegt hefur hamlað kaupum, til dæmis hafa meðeigendur húsnæðis ekki samþykkt nauðsynlegar breytingar vegna aðgengis.

Framkvæmdastjóri sýndi myndir og sagði frá húsnæðinu að Sigtúni 42, 1. hæð. Heildareign er 1.224 fm, séreign er 957 fm og sameign 267 fm. Eignin skiptist í tvær álmur, álma A er 435 fm og B 396 fm. Eldhús sem tilheyrir B álmu er notað sem mötuneyti fyrir allt húsið. Herbergi og tvær geymslur eru í kjallara, um 100 fm. Húsnæðið er vel staðsett hvað samgöngur varðar og er í göngufæri við Hringsjá, Örtækni, Brynju hússjóð og þá ráðstefnustaði sem bandalagið hefur mest nýtt sér. Gera þarf breytingar á húsnæðinu vegna aðgengis og fer kostnaður eftir því hversu miklar kröfur menn gera í þeim efnum. Ásett verð var 245 milljónir en kauptilboð ÖBÍ, með ýmsum fyrirvörum, meðal annars um samþykki aðalstjórnar, upp á 225 milljónir var samþykkt. Framkvæmdastjórn og aðalstjórn hafa fengið að skoða húsnæðið. Framkvæmdastjórn hefur samþykkt kaupin og leggur til að húsnæðið verði keypt.

Umræður

Fimm aðalstjórnarfulltrúar kváðu sér hljóðs og lýstu yfir ánægju sinni með húsnæðið og kaup á því. Samþykkt samhljóða að kaupa húsnæðið að Sigtúni 42, 1. hæð.

Formaður óskaði viðstöddum til hamingju með samþykkt á kaupum á húsnæði og sagði að við þessa ákvörðun breytist hlutverk húsnæðisnefndar bandalagsins. Skipa þarf nýja húsnæðisnefnd sem meðal annars á að koma með tillögur um það hvort bandalagið eigi að vera í öllu húsnæðinu eða hvort eigi að leigja hluta af því, t.d. til aðildarfélaga bandalagsins.

Í máli tveggja fulltrúa kom fram að mikilvægt er að ferlinefnd bandalagsins ynni náið með húsnæðisnefndinni svo að tryggt verði að húsnæðið verði fullkomlega aðgengilegt fyrir alla fötlunarhópa og að koma þurfi fram í hversu langan tíma nefndin á að starfa og hversu mikil vinna verði falin í nefndarstörfum.

Formaður lagði til að kallað yrði eftir tilefningum frá aðildarfélögum bandalagsins og að framkvæmdastjórn verði falið að skipa fimm manna nefnd til tveggja ára. Í nefndinni sitja formaður, framkvæmdastjóri og þrír þeirra sem tilnefndir verða. Farið verður yfir teikningar með þeim er málið varðar. Tillagan var samþykkt samhljóða.

5.  Spurningar til framboða í tilefni af baráttufundi ÖBÍ þann 13. apríl nk.

Formaður kynnti fyrirliggjandi spurningar sem sendar hafa verið til þeirra framboða sem bjóða munu fram til alþingiskosninga í apríl nk. Spurningar og svör munu birtast í tímariti ÖBÍ vikuna fyrir kosningar. Öllum er boðið að senda ÖBÍ spurningar sem lagðar verða fyrir framboðin og þau verða beðin að senda svör tilbaka fyrir 3. apríl.

Gísla Helgasyni, Blindravinafélaginu, leist vel á spurningarnar en spurði hvort ekki þyrfti erindreka frá bandalaginu til að framfylgja því að það sé framkvæmt sem fram kemur í svörunum? Hann nefndi herferðina „verjum velferðina“, þar voru mörg loforð gefin en efndir voru engar.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, sagðist hafa upplifað það á fundi sem hann sat og senda átti inn spurningar fyrirfram að spurningarnar voru valdar til þeirra sem sátu fyrir svörum. Hann hafi því varann á þegar senda á inn spurningar fyrirfram og vonar að sami háttur verði ekki viðhafður á þessum fundi.

Formaður sagði að því miður væru loforðin bara orðin tóm en það gæti verið styrkur þegar kljást þarf við þingmenn að geta bent þeim á svörin sem send voru inn. Spurningar verða ekki valdar ofan í framboðin, hugmyndin er að spurningarnar nái til allra.

6.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur verður miðvikudaginn 3. apríl. Fulltrúar frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) munu kynna breytingar varðandi greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði. Aðalstjórnarfulltrúar verða boðaðir og geta tekið með sér einn gest. Aðildarfélög geta pantað kynningu frá SÍ fyrir sín félög.

7.  Önnur mál.

a) Tillaga vegna húsnæðis. Ægir Lúðvíksson, MND félaginu las upp eftirfarandi tillögu í ljósi ánægjulegrar samþykktar vegna kaupa á húsnæði fyrir bandalagið:

„Fundur aðalstjórnar ÖBÍ haldin 14. mars 2013 samþykkir að heiðra minningu Ólafs G B…. með því að nefna eitt rými eða nýtt húsnæði ÖBÍ í Sigtúni í höfuð Ólafs.“ 

Nokkrir tóku undir tillögu Ægis. Formaður þakkaði góða hugmynd og sagði mikilvægt að halda nafni Ólafs Gísla á lofti.

b) Næsti aðalstjórnarfundur, 3. apríl.

Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu lagði til að alvarlega verði hugsað um að senda næsta aðalstjórnarfund út í gegnum netið, þar sem umræða um nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna lyfja skiptir stóran hóp fólks máli og þetta er kynning sem á heima inni á hverju heimili.

c) Facebooksíða ÖBÍ.

Framkvæmdastjóri sagði frá því að ÖBÍ væri komið með Facebook síðu, sem áður var síða vefrits ÖBÍ. Þetta er tilraunaverkefni í næstu 3 mánuði og einn liður í því að ná til fólks. Hvatti hún fólk til að „líka við“ síðuna.

d) Fundargerðir aðalstjórnar.

Svavar Kjarrval, Umsjónarfélagi einhverfra, spurði hvort í lagi væri að dreifa fundargerðum aðalstjórnar þegar þær hafa verið samþykktar til annarra stjórnarmeðlima aðildarfélaganna? Formaður sagði að það væri að sjálfsögðu heimilt enda væru fundargerðirnar orðnar að opinberu skjali eftir samþykkt og birtar á heimasíðu ÖBÍ.

e) Hraðbankar.

Gísli Helgason, Blindravinafélaginu sagði frá því að þegar hann var í forsvari fyrir Blindrafélagið þá hefði hann verið í samskiptum við reiknistofu bankannna og þá voru hugmyndir um að gera hraðbanka talandi, þannig að í debet/kredit kortunum væri kerfi sem kæmi þessum „talanda“ af stað. Þar sem það kostar orðið að taka peninga úr hraðbanka óskaði Gísli eftir því að bandalagið sinni skyldu sinni og hugi að þessum málum.

Fundi slitið kl. 18.40.

Fundarritarar: Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.