Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 17. janúar 2013

By 22. apríl 2013No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 17. janúar 2013, kl. 17.00 – 19.00, Hátúni 10, sal á 9. hæð

Mættir aðalstjórnarfulltrúar

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
CCU samtökin – Hrönn Petersen
FAAS – Fanney Proppe Eiríksdóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Guðmundur S. Johnsen
Fjóla – Guðný Katrín Einarsdóttir
FSFH – Ásta Björk Björnsdóttir
Geðverndarfélag Íslands – Kjartan Valgarðsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
HIV Ísland, alnæmissamtökin á Íslandi – Ingi Hans Ágústsson
LAUF, félag flogaveikra – Helga Sigurðardóttir
Málbjörg – Árni Heimir Ingimundarson
Málefli – Kristján Geir Fenger
ME félag Íslands – Nanna G. Yngvadóttir
MND félag Íslands – Ægir Lúðvíksson
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Ólína Sveinsdóttir
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Sveinn Guðmundsson
Sjálfsbjörg – Hannes Sigurðsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Bryndís Snæbjörnsdóttir
Tourette samtökin – Arna Garðarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Þórný Björk Jakobsdóttir, ritari og starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, setti fund kl. 17.05, bauð fundarmenn velkomna og sagði að nú yrði farið eftir því sem óskað hafi verið eftir, að fundirnir verði skipulagðari og því vonandi betri og í því sambandi spurði hann hvort fulltrúar myndu samþykkja að Erna Arngrímsdóttir, SPOEX yrði fundarstjóri og Klara Geirsdóttir, CP félaginu henni til aðstoðar. Samþykkt.

Fundarmenn kynntu sig.

Fundarstjóri tók við fundinum og sagði frá því að ákvörðun hefði verið tekin um að hver og einn fulltrúi sem tæki til máls fengi fyrst 2 mínútur til umræðu en síðan 1 mínútu en hver fulltrúi fengi að tjá sig þrisvar sinnum um hvert mál.

2.  Fundargerð frá 13. desember 2013 borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

3.  Skýrsla formanns.

Formaður fór örfáum orðum yfir skýrslu sína sem send var út til aðalstjórnarfulltrúa 16. janúar.

Umræður

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu þakkaði fyrir nýtt form og skipulag á fundinum, einnig þakkaði hann fyrir að fá öll gögn send fyrir fundinn. Í skýrslu formanns kom fram varðandi málarekstur að ákveðið hafi verið að vera ekki með öll málin í gangi í einu til að taka ekki athyglina hvert frá öðru. Ægir sagðist halda að hagstæðast væri að vera með öll málin í einu, það væri ekki verið að kalla eftir athygli heldur réttlæti.

Formaður sagði það rétt hjá Ægi að kallað væri eftir réttlæti en ekki þótti rétt að taka öll málin fyrir í einu, sérstaklega þar sem sami lögfræðingurinn sér um þau. Málin eru óskyld og ólík en öll eru þetta mannréttindamál.

4.  Fjármál ÖBÍ.

a) Ráðstöfun rekstrarhagnaðar ársins 2012.

Framkvæmdastjóri sagði frá tillögum framkvæmdastjórnar varðandi ráðstöfun rekstrarhagnaðar ársins 2012 og las upp fylgiskjal sem ber heitið: Fjárhagsáætlun ÖBÍ 2013 og ráðstöfun rekstrarhagnaðar ársins 2012.

Tillaga framkvæmdastjórnar um ráðstöfun rekstrarhagnaðar 2012 er eftirfarandi: Brynja hússjóður fái eingreiðslu upp á 21 milljón, Hringsjá, náms- og starfsendur-hæfing fái 3,3 milljónir, TMF Tölvumiðstöð fái 5 milljónir og afgangur verði lagður í varasjóð ÖBÍ.

Umræður

Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra, spurði hver rökin væru fyrir því að láta TMF Tölvumiðstöð fá 5 milljónir?

Framkvæmdastjóri svaraði því til að framlög ríkisins hafi skerst að raungildi og að miðstöðin hefði ráðið annan starfsmann rétt fyrir bankahrun því talið var að nóg fjármagn fengist með námskeiðshaldi. Það gekk hins vegar ekki upp svo að segja þurfti upp þeim starfsmanni á síðasta ári.

Formaður sagði að það hefði verið skýr vilji aðalstjórnarfundarins í desember að leggja þessa fjárhæð í miðstöðina.

Tillagan um aukafjármagn til TMF kom frá Bryndísi Snæbjörnsdóttur og sagði hún að ástæða hennar væri að þjónusta TMF væri þvert á félög og væru menn ekki spurðir um félagsskírteini þegar þeir leiti til miðstöðvarinnar. Núverandi eigendur komu til vegna þess að á því þurfti að halda á sínum tíma en ÖBÍ gæti allt eins tekið starfsemina yfir. Mikilvægast er að fólk fái notið þessarar þjónustu áfram því hún skiptir gríðarlega miklu máli og ekki má missa miðstöðina út úr höndunum.

Umræða var um að hóa þyrfti saman eigendum og skoða reksturinn í framhaldi.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

b) Fjárhagsáætlun ÖBÍ 2013 lögð fram til samþykktar.

Framkvæmdastjóri sagði frá því að ekki hefðu borist neinar breytingatillögur við drög að fjárhagsáætlun sem lögð var fyrir aðalstjórnarfund 13. desember og væri hún því lögð fyrir óbreytt.

Framkvæmdastjóri fór yfir fjárhagsáætlun í grófum dráttum. Gert er ráð fyrir að lottótekjur 2013 verði 325 milljónir, spáin er gerð í samráði við Stefán Konráðsson framkvæmdastjóra Íslenskrar getspár. Upphæðin til Brynju, hússjóðs var hækkuð í 90 milljónir en hún hefur verið óbreytt, 80 milljónir í nokkur ár. Styrkir til aðildarfélaga verði 50 milljónir, aðrir styrkir 5 milljónir, styrktarlínur 400 þúsund, innlent hjálparstarf 2 milljónir, námssjóður Sigríðar Jónsdóttur 1,5 milljón og 5 milljónir fari til Fötlunarfræði við HÍ til að styrkja undirbúning BA náms í fötlunarfræðum.

Gjaldaliðir hafa verið skoðaðir í ljósi verðlagshækkana. Vegna alþingiskosninga hækkar liðurinn auglýsingar og kynningar þar sem hugsanlega verður farið í ímyndarherferð og auglýst í tengslum við kosningar til Alþingis. Liðurinn aðkeypt þjónusta og rannsóknir hækkar vegna rannsóknar sem samþykkt hefur verið að gerð verði.

Hægt er að endurskoða áætlunina um mitt ár ef einhverra breytinga er þörf.

Umræður

Bent var á að athuga þurfi hvort að þeir einstaklingar sem dómsmálin byggja á séu með málskostnaðartryggingu.

Spurt var hvort ekki væri eðlilegt að vera með lögfræðing í fullu starfi þar sem dómsmál hafa færst í aukana? Hvort bandalagið vilji ekki ráða fjölmiðlafulltrúa eða einhvern sem samhæfir aðgerðir ÖBÍ ef að bandalagið ætlar að beita sér nánar fyrir kjörum öryrkja? Hvort ekki væri rétt að færa bókhaldskostnað undir liðinn skrifstofuhald og aðkeypt þjónusta? Hvort ekki væri eðlilegra að hafa 50% starf ritstjóra undir lið sem nefnist útgáfukostnaður í stað þess að hafa of margt undir liðnum aðkeypt þjónusta? Með því eykst gegnsæi, framsetning verður auðveldari og eðlilegast er að flokka útgáfukostnað saman í einn lið. Bent var á að gott væri að skoða það að gera samning við lögfræðing því að ljóst væri að töluverð aukning verði á málum þegar samningur SÞ verður lögfestur.

Formaður skýrði frá því að lögfræðingur ÖBÍ, sem er í hálfu starfi, sinnir ráðgjöf en stendur ekki í málaferlum. Samningur er við lögmannsstofur varðandi málaferli. Daníel Isebarn Ágústsson hrl. sem áður sinnti ráðgjöf fyrir ÖBÍ er einn eiganda Málflutningsstofu Reykjavíkur og hefur verið gerður hagstæður samningur við hann um þau dómsmál sem nefnd eru í skýrslu formanns. Lögmannsstofan Réttur er einnig með nokkur mál í vinnslu fyrir bandalagið. Varðandi fjölmiðlafulltrúa þá var bandalagið í mjög góðu sambandi við fjölmiðlafyrirtækið Athygli í kringum uppistand við Alþingi og er stefnt að því að gera samning við fyrirtækið.

Framkvæmdastjóri áréttaði að bandalagið væri ekki bundið samningum við Daníel heldur væri samið um hvert mál fyrir sig. Varðandi bókhaldskostnað þá sér fyrirtækið Stemma um að færa bókhald og því er sá kostnaður aðkeyptur. Sagðist sammála því að betra væri að hafa einn lið yfir útgáfukostnað og að starf ritstjóra félli þar undir.

Fjárhagsáætlun var samþykkt samhljóða.

5.  Nefnd um endurskoðun á uppbyggingu og skipulagi ÖBÍ sbr. samþykkt aðalfundar ÖBÍ 2012. Framhald.

Formaður sagði frá því að óskað hefði verið eftir tillögum frá aðildarfélögum ÖBÍ. Framkvæmdastjórn fór yfir þær tillögur sem bárust og útbjó tillögu til framlagningar á aðalstjórnarfundinum. Meiningin er að starfsmaður verði ráðinn til að vinna með nefndinni.

Tillaga framkvæmdastjórnar að 7 manna nefnd raðað eftir stafrófsröð: Auður Ólafsdóttir, SÍBS, Björk Þórarinsdóttir, ADHD samtökunum, Bryndís Snæbjörnsdóttir, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, Daniel Björnsson, Heyrnarhjálp, Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu, Fríða Bragadóttir, LAUF og Samtökum sykursjúkra og Kristinn Halldór Einarsson, Blindrafélaginu.

Umræður

Fanney Proppe Eiríksdóttir, FAAS sagði að henni fyndist nauðsynlegt að rödd síns félags heyrðist innan bandalagsins og kom með tillögu um að bæta fulltrúa FAAS, Svövu Aradóttir við tillögu bandalagsins og kosið verði um aðila.

Fundarmenn sem tjáðu sig voru sammála um að allir þeir einstaklingar sem framkvæmdastjórn hefði lagt til, sem og fulltrúi sá sem FAAS kom með tillögu um, væru mjög vel að því komnir að sitja í nefndinni. Fundarstjóri spurði hvort fundarmenn vildu kjósa 7 aðila til setu í nefndinni? Tveir fulltrúar voru fylgjandi kosningu en meirihluti á móti.

Nefnt var að mestu máli skipti hvaða veganesti nefndarmenn fá og hvernig erindisbréfið hljóðar. Nefndarmenn munu leita til félagsmanna innan bandalagsins til að fá upplýsingar og vinna úr þeim gögnum.

Yfirgnæfandi meirihluti fundarmanna samþykktu tillöguna. Enginn var á móti.

6.  Fundaráætlun 2013.

Framkvæmdastjóri sagði frá því að útbúin hefðu verið drög að fundaráætlun. Skjalið var lagt fram til kynningar en með fyrirvara um hugsanlegar breytingar. Ef félag óskar eftir aukafundi þá má boða aðalstjórnarfund með þriggja daga fyrirvara.

Formaður sagði frá næsta aðalstjórnarfundi sem haldinn verður 7. febrúar nk. en sá fundur er framhald af aðalstjórnarfundi frá síðastliðnu hausti og snýst um skýrslugerð Rannveigar Traustadóttur, hvort innganga í ESB hefði jákvæð eða neikvæð áhrif á fatlað fólk. Allir eiga að hafa fengið skýrslu hennar. Kristinn Halldór Einarsson, Blindrafélaginu og Guðjón Sigurðsson, MND félaginu koma einnig á fundinn og verða með innlegg. Hvert aðildarfélag getur sent sinn fulltrúa auk eins gests.

Umræður

Því var velt upp hvort ekki væri vilji til að hafa aðalfund ÖBÍ tvo daga í röð eins og áður var gert? Fyrri hluti fundarins fór fram á föstudagseftirmiðdegi og voru skýrslurnar teknar fyrir. Seinni hlutinn fór fram á laugardeginum. Mun betur vannst úr fundunum með því fyrirkomulagi.

Spurt var hvort hægt væri að halda aðalstjórnarfundi á miðvikudögum eins og var áður í stað fimmtudaga? Því var svarað að ástæða þess að fimmtudagar voru valdir er að salur og túlkar hafa fengist á þeim tíma.

Einnig var spurt af hverju fundirnir væru skráðir á fundaráætlun til kl. 19:30 en ekki til 19:00 eins og verið hefur? Formaður svaraði því til að fundirnir ættu, eins og áður að vera frá kl. 17-19 en væru skráðir til kl. 19:30 þannig að túlkar séu bókaðir til þess tíma, ef fundirnir dragast á langinn.

7.  Önnur mál.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra þakkaði fyrir fundarstjórnina og sagði að þegar góður tími gæfist til að ræða önnur mál þá væri fólk tilbúnara að taka fyrir mál undir þessum lið. Ef fundurinn dregst á langinn eins og oft hefur verið þá er fólk orðið þreytt og pirrað og sleppir því frekar að taka til máls.

Fundarstjóri þakkaði hólið og sagði að þær Klara hefðu ætlað sér að hafa fundinn markvissari og skilvirkari og óskaði þess að allir fundir ársins yrðu eins markvissir og góðir og þessi fundur hefði verið.

Formaður þakkaði góða fundarstjórn og frábæra tímavörslu. Hann benti á að kjarahópur bandalagsins væri opinn öllum félögum sem áhuga hafa að taka þátt. Fundargerðir eru sendar út þannig að fólk getur lesið sér til um hvað gert er.

Fundi var slitið kl. 18.20.

Fundarritarar:

Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.