Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 18. maí 2010

By 2. nóvember 2010No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn þriðjudaginn 18. maí 2010, í Hátúni 10, 9. hæð, kl. 17.00-19.00.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

Ari Ingólfsson, Umsjónarfélagi einhverfra
Björk Þórarinsdóttir, ADHD samtökunum
Björn Tryggvason, Málbjörgu
Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu
Eydís Sveinbjarnardóttir, Geðverndarfélaginu
Frímann Sigurnýasson, SÍBS
Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir, Blindravinafélaginu
Guðjón Sigurðsson, MND félaginu
Guðmundur Magnússon, SEM samtökunum/ÖBÍ
Hafsteinn Jóhannsson, Parkinssonsamtökunum
Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra
Ingi Hans Ágústsson, HIV-Íslandi
Ingibjörg Sigfúsdóttir, MS-félaginu
Jón Þorkelsson, Stómasamtökunum
Kjartan Valgarðsson, Geðverndarfélaginu
María Th. Jónsdóttir, FAAS
Málfríður Gunnarsdóttir, Heyrnarhjálp
Ómar G. Bragason, Samtökum sykursjúkra
Pétur Ágústsson, MG-félaginu
Sigrún Gunnarsdóttir, Tourette samtökunum
Þorbera Fjölnisdóttir, Kvennahreyfingu ÖBÍ
Þóra Sæunn Úlfsdóttir, Málefli
Örn Ólafsson, CP félaginu

Starfsfólk ÖBÍ:

Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingarfulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Þórný Björk Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ bauð fundarmenn velkomna og bað þá að kynna sig. Formaður óskaði eftir því að gerð yrði breyting á dagskrá og tekin yrði fyrir ályktun sem hann lagði fram vegna fyrirhugaðs niðurskurðar Félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Breytingin var samþykkt.

Formaður las ályktunina og var henni dreift á fundinum.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

Ályktun aðalstjórnar ÖBI þriðjudaginn 18. maí 2010

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands mótmælir harðlega að enn á ný skuli þessi ríkisstjórn sem kennir sig við „velferð“ ráðast að félagslega kerfinu með því offorsi sem félags- og tryggingamálaráðherra boðaði síðastliðinn föstudag 14. maí. Kominn er tími til að leggja af verðmætamat frjálshyggjunnar.
Allt frá janúar 2009 hafa lífeyrisþegar orðið að bera hlutfallslega mestar byrðar vegna bankahrunsins, þar sem óprúttnir fjárglæframenn mökuðu krókinn á kostnað skattborgaranna. Allt síðastliðið ár dundu skerðingar á örorku- og ellilífeyrisþegum í formi skerðinga á lífeyri eða auknum lyfjakostnaði og hækkun komugjalda.

Það er skýlaus krafa Öryrkjabandalags Íslands að ríkisstjórnin láti af þeirri aðför sem hún hefur stundað gegn lífeyrisþegum og láglaunafólki, en fari að forgangsraða að nýju með félagsleg gildi í fyrirrúmi.

2. Málefni Fjölmenntar. María Hildiþórsdóttir, framkvæmdastjóri, kom á fundinn.

a) Drög að nýrri skipulagsskrá Fjölmenntar.

María Hildiþórsdóttir, framkvæmdastjóri Fjölmenntar, sagði frá því að unnið hafi verið að nýjum þjónustusamningi við menntamálaráðuneytið sl. 3 ár og er niðurstaða þeirrar vinnu að Fjölmennt verði gert að sjálfseignarstofnun og því þarf að breyta skipulagsskrá stofnunarinnar. Skipulagsskráin sem er í gildi heyrir undir dómsmálaráðuneytið en sú nýja mun tilheyra viðskiptaráðuneytinu. Vegna ólíkra laga innan þessara ráðuneyta þarf að breyta ýmsum greinum skipulagsskrárinnar. Afskrifa þarf gömlu stofnunina og stofna nýja. Stofnunin sem lögð er niður heitir Fjölmennt, fullorðinsfræðsla fatlaðra og sú nýja kemur til með að heita Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð. Nýja stofnunin mun yfirtaka alla samninga sem stofnunin er með í dag.

Drög að nýrri skipulagsskrá Fjölmenntar var fagnað en engar umræður voru um málið og voru drögin borin upp.

Samþykkt samhljóða.

b)Tilnefning í stjórn Fjölmenntar til bráðabirgða.

Þeir sem hafa setið í stjórn Fjölmenntar fyrir hönd ÖBÍ eru Þorsteinn Jóhannsson og Vilmundur Gíslason. Þeir eru tilbúnir að sitja áfram fram að næsta aðalfundi bandalagsins.

Samþykkt með lófaklappi.

3. Fundargerð frá 14. apríl sl. borin upp til samþykktar.

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

4. Málefni Hringsjár. Tilnefning í stjórn Hringsjár til bráðabirgða.

Stefnt hefur verið að því að gera Hringsjá að sjálfseignarstofnun skv. samþykkt á aðalstjórnarfundi árið 2009. Sú breyting hefur orðið á að allir aðrir en ÖBÍ sem gert var ráð fyrir að yrðu aðilar að sjálfseignarstofnuninni hafa hætt við og er ÖBÍ því eini stofnaðili Hringsjár.
Lagt var til að eftirtaldir aðilar myndu sitja í stjórn Hringsjár til næstu áramóta: Halldór Sævar Guðbergsson, Blindrafélaginu, Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ, Grétar Pétur Geirsson, gjaldkeri ÖBÍ, Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, Sjálfsbjörg og María Hildiþórsdóttir, framkvæmdastjóri Fjölmenntar.

Samþykkt samhljóða.

5. Ályktanir.

Formaður lagði til að ályktun starfshóps um yfirfærslu yrði rædd fyrst. Samþykkt.

b) Ályktun starfshóps ÖBÍ um væntanlega yfirfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga.
Formaður sagði að kallað hafi verið eftir skýrri stefnu ÖBÍ í málinu. Þegar færa átti málaflokkinn yfir árið 2000 var stefnan skýr en nú er ljóst að mjög skiptar skoðanir eru á yfirfærslunni. Starfshópurinn er ekki á móti yfirfærslunni en er samþykkur því að framfylgja þarf ákveðnum atriðum til að hægt verði að færa þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga.

Eftir talsverðar umræður um störf starfshópsins og ályktunina var samþykkt að hópurinn myndi starfa áfram og ræða málið til hlýtar ásamt því að gera viðeigandi breytingar á ályktuninni. Hópurinn mun skila frá sér nýrri ályktun um málið á aðalstjórnarfundi 22. júní nk.

a) Ályktun starfshóps um drög að starfshæfnismati (þ.e. aðferðir við mat á starfshæfni – nýtt örorkumat).
Eftir umræður um orðalagsbreytingar var ályktunin borin upp til samþykktar.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun aðalstjórnar ÖBÍ um hugmyndir að nýju örorku- og starfshæfnismati, 18. maí 2010.
ÖBÍ leggur áherslu á að skilið verði á milli stöðumats og starfshæfnismats og að stöðumat verði innleitt sem allra fyrst.

Jákvætt er að starfshæfnismat byggi á ICF-kerfinu en með því er horfið frá einhliða læknisfræðilegu mati. Mjög mikilvægt er að styrkja félagslega sýn á fötlun og setja getu, færni, virkni og mögulega atvinnuþátttöku einstaklingsins í forgrunn.

Innleiðing starfshæfnismats er kostnaðarsöm og ekki framkvæmanleg nema með talsverðu fjármagni. ÖBÍ telur það ekki koma til greina að halda áfram með starfshæfnismatið nema fjármagn sé tryggt.
Ekki er tímabært að skoða alvarlega innleiðingu starfshæfnismats fyrr en það hefur verið prófað hér á landi og niðurstöður hafa fengist úr tilraunaverkefni, sem er skýrt afmarkað í tíma, fjölda þátttakenda og tegundum fatlana. Mjög mikilvægt er að nýtt matstæki hafi ótvíræða kosti umfram það fyrirkomulag sem nú er til staðar.

ÖBÍ leggur áherslu á að aðlaga þarf vinnumarkaðinn ef starfshæfnismat á að skila góðum árangri. Atvinnulífið er á engan hátt tilbúið að mæta þeim breytingum sem matið hefur í för með sér.
Starfshæfnismat má ekki valda því að tekjur öryrkja skerðist enn frekar.
Greinargerð með ályktuninni er að finna á heimasíðu ÖBÍ www.obi.is

6. Næsti aðalstjórnarfundur.

Formaður lagði til að næsti aðalstjórnarfundur verði haldinn 22. júní með fyrirvara um að hægt verði að fá túlkaþjónustu.

Samþykkt.

7. Önnur mál.

a)Verkefnisstjórn vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra.

Örn Ólafsson, CP félaginu, spurði hvort formlegt boð hefði borist til ÖBÍ um að bandalagið skipi fulltrúa í verkefnisstjórn um verkaskiptamál vegna undirbúningsvinnu í tengslum við yfirfærslu á þjónustu við fatlaða og aldraða frá ríki til sveitarfélaga?

Formaður svaraði því til að ÖBÍ hafi fengið formlegt boð um það og tilkynnti að hann væri aðalmaður í stjórninni f.h. ÖBÍ og Lilja Þorgeirsdóttir, varamaður.

Örn óskaði eftir að starfshópur ÖBÍ um yfirfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga fái upplýsingar frá skipuðum fulltrúum ÖBÍ í verkefnastjórninni og fái þannig að fylgjast með umræðunni.

Formaður sleit fundi kl. 18:50.

Fundarritarar: Anna G. Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.