Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ, 19. maí 2005

By 5. janúar 2006No Comments

Fundargerð

Fimmtudaginn 19. maí 2005 kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar að Hátúni 10, 9. hæð. Hófst fundurinn kl. 17:10. Fundi stýrði formaður Öryrkjabandalags Íslands, Emil Thóroddsen. Fundargerð ritaði Arnþór Helgason, framkvæmdastjóri bandalagsins.

Í upphafi fundar greindi formaður frá stofnun Kvennahreyfingar Öryrkjabandalagsins og sagði að framkvæmdastjórn hefði samkvæmt lögum hreyfingarinnar skipað eftirtaldar konur í stjórn hennar: Brynju Arthúrsdóttur, Guðbjörgu Kristínu Eiríksdóttur, Jóhönnu Leópoldsdóttur, Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur, Ólínu Sveinsdóttur, Steinunni Þóru Árnadóttur og Þorberu Fjölnisdóttur. Kvennahreyfingin hefur kjörið Guðbjörgu Kristínu Eiríksdóttur til að sitja fundi aðalstjórnar ásamt aðalfundum með málsfrelsi og tillögurétt. Framkvæmdastjórn bandalagsins mælir með þessari skipan. Bar formaður þetta upp til samþykktar og var þessi skipan mála staðfest með lófataki.

Að því búnu kynntu fulltrúar sig. Þessir sátu fundinn:

Valgerður Auðunsdóttir – SPOEX
Gísli Helgason – Blindrafélaginu
Friðrik Alexandersson – Styrktarfélagi vangefinna
Garðar Sverrisson – Daufblindrafélaginu
Helgi Seljan – MG – félaginu
Gísli Ásmundsson – Tourettesamtökunum
Ingi Hans Ágústsson – Alnæmissamtökunum
Ragnar Gunnar Þórhallsson – Sjálfsbjörg
Kristján Freyr Helgason – Stómasamtökunum
Kristján Pétursson – Félagi nýrnasjúkra
Sveinn R. Hauksson – Geðhjálp
Guðmundur Magnússon – SEM-samtök endurhæfðra mænuskaddaðra
Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir – Kvennahreyfingu ÖBÍ
Steinunn Þóra Árnadóttir – MS – félaginu
Bára Snæfeld – ÖBÍ
Jónína B. Guðmundsdóttir – LAUF
Hafsteinn Jóhannsson – Parkinsonssamtökunum
Garðar Sverrisson – MND – félaginu
Helgi Hróðmarsson – SÍBS
Vilmundur Gíslason – Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Bryndís Snæbjörnsdóttir – Foreldrafélagi heyrnardaufra
Kristín Á. Bjarnadóttir – Samtökum sykursjúkra
Berglind Stefánsdóttir – Félagi heyrnarlausra
María Th. Jónsdóttir – FAAS
Guðríður Ólafsdóttir – ÖBÍ
Rakel Elíasdóttir – ÖBÍ
Elísabet Á. Möller – Geðverndarfélaginu
Björn Tryggvason – Málbjörg
Málfríður Gunnarsdóttir – Heyrnarhjálp
Þröstur Sverrisson – Umsjónafélagi einhverfra.

 

Yfirlit formanns.

Formaður gat þess í upphafi að miklar annir hefðu verið hjá starfsmönnum og framkvæmdastjórn. Haldnir hefðu verið 5 fundir í framkvæmdastjórninni frá síðasta aðalstjórnarfundi og væru þó enn nokkur verkefni óafgreidd.
Styrkir til aðildarfélaganna.

Mikil vinna var lögð í að fara yfir umsóknir aðildarfélaganna um styrki. Kvað formaður umsóknirnar hafa batnað mjög frá því sem var og auðveldaði það yfirferðina. Að honum læðist sá grunur að sum félögin haldi ekki nægilega vel utanum félagaskrár sínar. Sagði hann mátt þeirra byggjast á félagatalinu og staða öryrkjabandalagsins mótaðist af því.
Skýrsla Tryggva Þórs Herbertssonar um fjölgun öryrkja.

Hinn 26. apríl síðastliðinn kom út skýrsla Tryggva Þórs Herbertssonar “Fjölgun öryrkja-orsakir og afleiðingar”. Hún var kynnt fulltrúum bandalagsins um svipað leyti og fjallað var um hana í ríkisstjórninni. Samdægurs hélt framkvæmdastjórn bandalagsins fund og boðaði á hann Stefán Ólafsson, prófessor, sem er manna fróðastur um hagi öryrkja. Í kjölfar fundarins var send út svohljóðandi fréttatilkynning:

Öryrkjabandalagi Íslands hefur verið kynnt skýrsla Tryggva Þórs Herberts¬sonar, hagfræðings, um fjölgun öryrkja, orsakir og afleiðingar.

Skýrslan er á margan hátt athyglisvert innlegg í þarfa umræðu um þessi málefni. Skýrslan staðfestir þau tengsl sem Öryrkjabandalagið hefur haldið fram að séu á milli atvinnustigs og örorku. Að því leyti til koma niðurstöður hennar ekki á óvart.

Augljóst er að ýmsar forsendur, sem höfundur gefur sér, þarfnast nánari skoðunar, auk þess sem efnistök höfundar eru þröng – taka mið af einstakling¬num. Sleppt er að fjalla um þá samfélagsgerð sem einstaklingurinn býr við, þróun hennar og ábyrgð og þeirra sem að málum koma.

Í skýrslunni er ekki að finna neinn kerfisbundinn samanburð á velferðarkerfi Íslendinga og annarra þjóða sem við berum okkur saman við hvorki varðandi fjölda öryrkja né upphæðir bóta, og er hér átt við Norðurlönd og ríki Vestur-Evrópu.

Efast má um að skýrslan gefi raunhæfa mynd af tekjum öryrkja þar sem ekki er byggt á skattagögnum sem gæfu raunhæfari mynd af tekjum þessa hóps en þau gögn sem höfundur notar.

Öryrkjabandalag Íslands leggur áherslu á að ráðist verði að rótum þess vanda sem fjallað er um í skýrslunni. Bandalagið lýsir sig reiðubúið til samstarfs við stjórnvöld og aðra þá sem að því starfi þurfa að koma.

Formaður sagði að í skýrslunni kæmi fram mjög þröngt, hagfræðilegt sjónar¬horn og jafnvel væri ýjað að því að það borgaði sig fyrir fólk að verða öryrkjar. Samt eru ýmsar gagnlegar staðreyndir í skýrslunni svo sem tölulegar upp¬lýsingar sem safnað hefur verið saman. Enginn fjölþjóðlegur samanburður er í skýrslunni, umfjöllun um tekjur öryrkja er varasöm og komið hefur í ljós að staðhæfingin um gífurlega fjölgun hinna yngstu í hópi öryrkja fær ekki staðist. Formaður nefndi fleiri dæmi um ósamræmi í umfjöllun höfundar. Taldi hann því ófært að þessi skýrsla yrði undirstaða þeirrar umræðu sem fara mun fram um málefni fatlaðra á næstunni.

Framkvæmdastjórn hefur beðið Stefán að taka saman þau atriði sem hann telur vera ábótavant í skýrslunni. Hefur hann skilað skrá um 19 atriði. Eru þau nú til frekari skoðunar hjá honum til þess að hægt verði að senda þau út til fjölmiðla ef og þegar Öryrkjabandalagið telur ástæðu til þess að vekja þessa umræðu að nýju. Þá hefur formaður sérstaklega rætt við Stefán um þau atriði sem vantar í skýrsluna, þ.e. þróun og umfang örorku í alþjóðlegum saman¬burði, nánari athugun á snemmtöku lífeyris og atvinnuþátttöku fatlaðra, þróun lífeyrisgreiðslna á vinnumarkaði, fengin verði staðfesting á auknu álagi á vinnumarkaðinum, skoða útgjöld Íslendinga til vinnumarkaðsaðgerða og setja þau í samhengi við aðildarríki OECD, og að lokum skoða meginstefnu OECD-ríkjanna í örorkumálum og fá þá umræðu inn í íslenskt samfélag. Formaður sagði að í raun væri verið að ræða hér um gerð nýrrar skýrslu, en ákvörðun hefur ekki verið tekin þar um í framkvæmdastjórninni. Nauðsynlegt er að Öryrkjabandalagið fái skotfæri í hendurnar til þess að hnekkja þessari um¬ræðu um freistingu þess að láta meta sig til örorku og að samanburður við örorkubætur megi ekki verða hagstæður við lægstu laun í landinu. “Það er umræða sem við viljum ekki. Við viljum miklu fremur samanburð við meðal¬tekjur í landinu”. Formaður sagði að hættan væri sú að örorkubætur miðuðust jafnan við lægstu laun, en það viljum við ekki. Nauðsynlegt er að afsanna þessa freistingakenningu. Þá er í skýrslunni haldið fram að ein meginástæða fjölgunar öryrkja séu þær breytingar sem gerðar voru á örorkumatinu 1999 og er niðurstaðan fengin með því að bera saman tvö tímabil þar sem synjunum vegna örorku hafði fækkað frá því sem verið hafði. En með því að fara lengra aftur í tímann fullyrðir Stefán Ólafsson að skýringarnar séu aðrar, enda fjölgaði öryrkjum þá meira en undanfarin ár.

Formaður sagðist hafa falið Stefáni Ólafssyni að gera kostnaðaráætlun um gerð nýrrar skýrslu sem yrði skilað í september. Kvað hann verða fjallað um málið í framkvæmdastjórn en óskaði eftir viðbrögðum fundarmanna við þeim athugasemdum sem hann hefði gert. Hann sagði jafnframt að meginvandi íslenska velferðarkerfisins væru of lágar bætur, hækka þyrfti atvinnuleysis¬bætur, bæta endurhæfingu og menntun öryrkja – með öðrum orðum: bæta stoðkerfið í kringum endurmenntun og endurhæfingu í stað þess að lækka bæturnar.
Ný reglugerð um þjálfun

Um síðustu mánaðamót tók gildi reglugerð um þjálfun sem margfaldar útgjöld sumra lífeyrisþega sem eru í fullri atvinnu. Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið hefur svarað því til að ákveðinn hópur öryrkja muni njóta góðs af þessum breytingum. Að öðru leyti er vísað á sjúkrasjóði verkalýðsfélaganna.

Formaður taldi þetta dæmi um þá áráttu stjórnvalda að vilja auka stöðugt þátt¬töku sjúklinga í lyfja- og lækniskostnaði. Þessa þróun þurfi að stöðva með einhverjum ráðum. Öryrkjabandalagið mótmælti setningu reglugerðarinnar og fékk svör frá Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu sem voru í samræmi við það sem sagt var hér að framan.
Nýtt kennimerki fyrir Öryrkjabandalag Íslands.

Þá greindi formaður frá því að haldinn hefði verið fundur með fulltrúum aug¬lýsingastofunnar Hvíta hússins og þess farið á leit að gerðar yrðu tillögur að nýju kennimerki fyrir Öryrkjabandalagið. Taldi hann að núverandi merki þjónaði ekki þeirri breidd sem Öryrkjabandalagið bæri vitni um.

Yfirlit framkvæmdastjóra.

Öryrkjabandalag Íslands sendir á hverju ári fjölmargar umsagnir um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur til alþingis. Þetta ár sker sig úr að því leyti að um fremur fáar umsagnir hefur verið að ræða. Framkvæmdastjóri tók upp það nýmæli að senda nokkur lagafrumvörp til aðildarfélaga bandalagsins og óskaði eftir ábendingum um atriði sem rétt væri að taka tillit til. Einungis bárust tvær ábendingar um eina þingsályktunartillögu. Æskilegt hefði verið að fulltrúar eða starfsmenn aðildarfélaganna tækju sér lengri tíma til þess að rýna í þau mál sem snertu hagsmuni félagsmanna þeirra.

Öryrkjabandalag Íslands veitti umsögn um þingsályktunartillögu um rannsóknir á þunglyndi á meðal eldri borgara. Samkvæmt ábendingum var lagt til að slík rannsókn næði einnig til fatlaðra og sendi bandalagið inn drög að breyttri tillögu.

Þá má nefna umsagnir um frumvörp til breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti, innheimtulögum og lögum um atvinnuleysisbætur. Var þar um að ræða breytingar á lögum sem fóru saman við hagsmuni öryrkja.

Þá skilaði bandalagið umsögn um frumvarp til laga um lágmarkslaun þar sem þess var getið að upphæðin, sem nefnd væri í frumvarpinu, væri ekki í neinu samræmi við upplýsingar sem liggja fyrir um framfærslukostnað. Í raun má segja að frumvarp þetta sé hálfgert skrípi og ef til vill var framhald umsagnarinnar samkvæmt því.

Að lokum skal nefnd umsögn um frumvarp til laga um breytingu á 37. gr. laga um almannatryggingar nr.117/1993 með síðari breytingum þar sem heimildir ráðherra voru rýmkaðar frá fyrri lögum. Bandalagið endurskoðaði þá umsögn í ljósi nýrra upplýsinga frá flutningsmönnum tillögunnar og sendi félagsmálanefnd þingsins ítarlega umsögn þar sem bandalagið benti á heldur slaka reynslu af setningu reglugerða án samráðs við samtök lífeyrisþega. Framkvæmdastjóri og upplýsingafulltrúi voru boðaðir á fund heilbrigðis- og trygginganefndar alþingis 25. fyrra mánaðar. Segja verður hverja sögu eins og hún er að formaður nefndarinnar brást ókvæða við viðbótargögnum sem lögð voru fyrir nefndina og hélt yfir fulltrúum bandalagsins fyrirlestur um starfshætti þingsins og lagastarf. Sams konar móttökur munu fulltrúar Landsambands eldriborgara hafa fengið og jafnvel öllu verri.

Öryrkjabandalag Íslands hefur sent stjórnarskrárnefnd erindi í samræmi við samþykkt síðasta aðalstjórnarfundar. Skal í því sambandi vísað til heimasíðu nefndarinnar, www.stjornarskra.is.

Gerð nýrrar heimasíðu Öryrkjabandalags Íslands var boðin út um miðjan mánuð. Valin voru 6 fyrirtæki. Eftir að hafa skoðað útboðsgögn kom í ljós að fjögur fyrirtækjanna uppfylla flest skilyrði sem sett voru í útboðsgögnunum. Hefur verið ákveðið að skoða nánar kerfi þau sem tilboðin byggja á og fá nánari skýringar á einstökum atriðum.

Aðalfundur Íslenskrar getspár var haldinn 14. þessa mánaðar. Eins og fram kom á síðasta fundi aðalstjórnar skilaði fyrirtækið eigendum sínum meiri arði á síðasta ári en nokkru sinni fyrr. Áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir um 200 millj. kr. til Öryrkjabandalagsins á þessu ári. Áætlanir hafa staðist að mestu fram til þessa. Lottópotturinn hefur þó ekki orðið jafnoft margfaldur og í fyrra. Er rétt að brýna fyrir fulltrúum að kynna fyrirtækið og þau málefni sem það stendur fyrir.

Í júlímánuði verður tekið í notkun nýtt sölukerfi frá fyrirtækinu Scientific Games. Mun það opna getspánni ýmis ný sóknarfæri sem vonandi nýtast eigendunum í framtíðinni.

Í dag hefur öllum aðildarfélögum Öryrkjabandalags Íslands verið sent bréf um kynningarrit bandalagsins og aðildarfélaga þess sem fyrirhugað er að dreifa með Morgunblaðinu föstudaginn 30. september. Er farið fram á að félögin skili inn efni eigi síðar en 20. júní næstkomandi. Í bréfinu er að finna leiðbeiningar um það efni sem óskað er eftir. Endanleg ritstjórn verður í höndum starfsmanna Öryrkjabandalags Íslands.

Að lokum gat framkvæmdastjóri þess að nokkrir einstaklingar úr aðildarfélögum Öryrkjabandalagsins hefðu haft samband við sig og leitað ráða vegna starfsemi félaganna á landsbyggðinni. Höfðu þeir annaðhvort í huga stofnun sérstakra deilda eða jafnvel stofnun nýrra félaga. Hann kvaðst hafa hvatt fólk til að rjúfa ekki tengsl við móðurfélagið og vísað til reynslu Sjálfsbjargar, SÍBS og annarra félaga.
Umræður um yfirlit formanns og framkvæmdastjóra.

Ragnar Gunnar Þórhallsson sagðist styðja þá tillögu að bandalagið svaraði skýrslu Tryggva Þórs með annarri skýrslu. Taldi hann að skýrslan væri fyrst og fremst úttekt á vissum hagfræðilegum staðreyndum en málið væri mun víðfeðmara. Í raun ætti bandalagið að móta sína eigin stefnu í þessum málum og út frá eigin forsendum.
Þá minntist Ragnar á frumvarp til laga um happdrætti, en þar voru ákvæði sem hefðu lagt happdrætti aðildarfélaga bandalagsins í rúst. Þakkaði hann formanni, framkvæmdastjóra o.fl. skjót viðbrögð sem hefðu orðið til þess að tillögurnar voru teknar aftur.
Þá gat Ragnar þess að um daginn hefði verið haldinn fundur ýmissa samtaka þar sem fjallað var um skattaumhverfi mannúðarfélaga. Var þar kynnt skýrsla sem unnin hefur verið um málið. Þar eru bornar saman aðstæður slíkra félaga á Íslandi og ýmsum löndum eins og Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi o.fl. Í ljós kemur að skattar á fyrirtæki hafa lækkað á meðan skattaumhverfi félag¬anna hefur versnað. Má þar nefna afnám erfðarfjárskattsins að mestu, einnig það að félögin greiði nú fjármagnstekjuskatt og að gjafir einstaklinga til sam¬taka séu víðast hvar frádráttarbærar frá skatti.

Formaður kvaðst ekki eiga hrósið að fullu skilið vegna happdrættismálsins og rakti hvernig Krabbameinsfélagið hefði upppgötvað þetta og sent tölvupóst sem borist hefði víða. Daginn eftir fengu Krabbameins- og Gigtarfélagið fund með Alþingismönnum og tóku með sér fulltrúa 5 annarra félaga. Þar tókst að hnekkja þessum tillögum.

Helgi Seljan fagnaði viðbrögðum framkvæmdastjórnar við skýrslu Tryggva Þórs og rakti m.a. hvernig hann hefði orðið tvísaga í kynningu um freistingar örorkumats og svarta vinnu vegna lágra bóta. Taldi hann nauðsynlegt að fá virtan aðila til þess að undirbúa umræðu af hálfu bandalagsins. Velti hann því fyrir sér hvort rætt væri að kalla saman aðalstjórn þegar ákvörðun um viðbrögðin liggur fyrir.

Sveinn Rúnar Hauksson greindi frá því að skýrsla Tryggva hefði þegar haft óæskileg áhrif og nefndi dæmi um þrýsting sem hún hefði myndað á lækna TR. Greindi hann jafnframt frá því hvernig ferlið við umsókn örorkumats væri háttað og hversu misjafnt mat sérfræðinga sem fengnir væru til að fara yfir gögnin og starfsmanna TR gæti verið.

Garðar Sverrisson (DBF) kvað afar mikilvægt að skýrsla Tryggva yrði ekki um of höfð að leiðarljósi við gerð skýrslu Öryrkjabandalagsins. Hann kvað nauð¬synlegt að fjalla um fjölgun öryrkja út frá þeim forsendum sem við þekkjum. Hann taldi fjölgun og fjölda vera sitt hvað enda væri fjöldi öryrkja minni hér en á öðrum Norðurlöndum og fjölgunin í raun ekki meiri. Hann kvað skot ríkis¬stjórnarinnar hafa geigað en hefði þó hrætt um stund lækna og starfsfólk TR.

Formaður tók undir orð Garðars. Hann sagði að aðalatriðið væru tengsl nýgengis örorku og atvinnustigs og á þetta hefðu Garðar Sverrisson, Stefán Ólafsson og Sigurður Thorlacius margsinnis bent á. Einungis væri tæpt á þessu í skýrslunni enda væri þetta óþægileg staðreynd sem ekki mætti bera um of á.

Styrkir til aðildarfélaga.

Elísabet Á Möller, gjaldkeri Öryrkjabandalagsins, kynnti þar næst tillögur framkvæmdastjórnar um styrki til aðildarfélaga sem voru sem hér segir í þúsundum króna::

ADHD samtökin ……………………………………………………………… 1.450
Alnæmissamtökin …………………………………………………………… 1.450
Blindrafélagið ………………………………………………………………… 1.500
Daufblindrafélag Íslands …………………………………………………. 1.000
FAAS-félag aðstandenda Alzheimersjúklinga ………………………    950
Félag heyrnarlausra ……………………………………………………….  1.600
Félag lesblindra ……………………………………………………………….   800
Félag nýrnasjúkra …………………………………………………………….  700
Foreldrafélag heyrnardaufra ………………………………………………  900
Geðhjálp ……………………………………………………………………….  2.200
Geðverndarfélag Íslands ……………………………………………………  850
Gigtarfélag Íslands …………………………………………………………  2.350
Heyrnarhjálp …………………………………………………………………  1.100
LAUF – samtök áhugafólk um flogaveiki …………………………….  1.100
Málbjörg ………………………………………………………………………….  800
MND-félag Íslands …………………………………………………………….  850
MS félag Íslands …………………………………………………………….. 1.600
Parkinsonssamtökin ……………………………………………………….. 1.400
Samtök sykursjúkra ……………………………………………………….. 1.550
SEM – Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra   ……………………..  750
SÍBS  ……………………………………………………………………………  2.350
Sjálfsbjörg …………………………………………………………………….. 2.350
Spoex …………………………………………………………………………… 1.750
Stómasamtökin ………………………………………………………………… 650
SLF ………………………………………………………………………………. 1.650
Styrktarfélag vangefinna …………………………………………………. 2.250
Tourette samtökin …………………………………………………………….  900
Umsjónarfélag einhverfra ………………………………………………… 1.200
                                                                                 Samtals 38.000

Nokkrar umræður urðu um styrkina og veltu menn einkum fyrir sér hvernig framkvæmdastjórn stæði að úthlutun. Til máls tóku Guðmundur Magnússon, Emil Thóroddsen, Valgerður Ósk Auðunsdóttir, Gísli Helgason, Kristján Freyr Helgason og Garðar Sverrisson. Á meðal þeirra ábendinga sem komu fram var hugmynd um staðlað form fyrir umsóknir til þess að auðvelda framkvæmdastjórn vinnu við tillögur um úthlutun styrkjanna. að lokum voru tillögur framkvæmdastjórnar samþykktar samhljóða.

Hugmyndir laganefndar um breytingar á lögum Öryrkjabandalags Íslands.

Formaður gaf síðan Helga Seljan orðið og kynnti hann þær hugmyndir sem reifaðar hafa verið í nefndinni:

Við 2. grein.

B.liður  Að starfrækja upplýsinga- og ráðgjafarmiðstöð fyrir öryrkja.
Stuðla að stofnun félaga um allt land og efla tengsl þeirra á milli.
C. liður falli brott eftir sameiningu liða.

Við 3. grein

Seinni málsliður fyrri málsgreinar falli brott. (Þau félög sem áttu …. o.s.frv. 

Við 4. grein.

Við A lið bætist: Skal einn þeirra vera tilnefndur í aðalstjórn Öryrkjabanda¬lagsins. Við tilnefningu félags á fulltrúum á aðalfund skal gæta jafnræðis kynjanna. Tilnefning skal bundin því að a.m.k. 2/3 fulltrúa séu fatlaðir eða aðstandendur fatlaðra.
Niður falli lokaorð A liðar: “og mynda þeir fulltrúaráð”
Við C lið. Niður falli í fyrstu málsgrein: “sem óskað er eftir að ræddar verði”.

Við 5. grein

Fulltrúaráðsfundur og svo framvegis, báðar málsgreinar falli niður.
í þessari mynd.  Í staðinn komi: Ef aðalstjórn þykir bera nauðsyn til eða fimm félög óska þess, skal boða til aukafundar þar sem seturétt eiga allir þeir er hann áttu á síðasta aðalfundi. Fund skal boða með minnst viku fyrirvara með tilgreindu umræðuefni.  
Fyrirsögn 5. greinar: Aukafundur milli aðalfunda.                  

Við 6.grein.

Eftir:  Á aðalfundi …. o.s.frv. við bætist ný setning: Sé fulltrúi félags kjörinn í framkvæmdastjórn á aðalfundi, skal hann eiga þar sæti til loka þess kjör¬tímabils.
Úr hópi aðalstjórnarmanna …. “og 3 meðstjórnendur”. (Tillaga um fjölgun í framkvæmdastjórn).
Í framkvæmdastjórn skulu að meirihluta kjörnir einstaklingar sem búa við fötlun eða eru aðstandendur fatlaðra.
Á eftir lokasetningu 6. gr. komi: Ef framkvæmdastjórn telur nauðsyn til bera eða 5 félög eða fleiri æskja þess skal halda aðalstjórnarfund á milli reglulegra aðalstjórnarfunda og skal fundarefni þá sérstaklega tilgreint og til fundarins boða með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara.

Við 7. grein.

Í málsgreininni falli niður: “framlagi frá félögum bandalagsins”.
Í stað: Árlegar greiðslur ……….. komi: Aðalfundur getur ákveðið aðildargjöld félaganna. Skulu þau þó aldrei vera hærri en 1% af heildartekjum félaganna.

Leiðrétta stafsetningarvillu í c lið 8. gr. í annarri línu.: ráðningarsamning……….

Helgi lauk síðan orðum sínum með því að árétta þá skoðun nefndarmanna að lög Öryrkjabandalagsins væru að meginstofni góð og þyrftu ekki mikilla breytinga við.

Arnþór Helgason gerði örstutta athugasemd vegna orðalags í 6. gr., að talað verði um fatlaða, fatlað fólk í stað fólks sem búi við fötlun. Hann beindi því til laganefndar að dagskrá aðalfundar yrði sett upp þannig að inntaka nýrra aðildarfélaga væri á vissum stað í dagskrá fundarins.

Sveinn Rúnar Hauksson velti fyrir sér hvort hægt væri að setja skilyrði í lög bandalagsins um það hverjir ættu seturétt í stjórn og á fundum án þess að menn hefðu áður skilgreint hvað fötlun væri. Ræddi hann um hugtakið “notandi” eða sá sem hefði lifað af og um hlutverk aðstandenda fatlaðra.

Kristján Freyr Helgason greindi frá síðasta fundi Krabbameinsfélagsins þar sem ýmsar hugmyndir um lagabreytingar voru samþykktar í óþökk stjórnar.

Gísli ræddi um 6. gr. laganna og þær hugmyndir nefndarinnar að fulltrúar í framkvæmdastjórn séu í raun kjörnir af aðalfundi og því sé réttmæt að þeir sitji út kjörtímabilið. Hann ræddi einnig þá þróun erlendis að þeir sem eru fatlaðir standi sjálfir fyrir eigin málum og í tillögum nefndarinnar sé ekki kastað rýrð á neinn með tillögunum.

Formaður þakkaði laganefnd gott starf og kvaðst geta tekið undir flest sem í tillögunum felst. Hann efaðist um kosti þess að fjölga í framkvæmdastjórn þar sem erfiðara sé að ná saman fjölmennum stjórnum en fámennum, en fram¬kvæmdastjórn þurfi að vera til taks við daglegt starf samtakanna.

Björn Tryggvason sagði að með því að samþykkja félag inn í Öryrkjabandalagið hefði verið tekin ákvörðun af þeim sem fyrir sátu um að félagið uppfyllti ákveðin skilyrði. Velti hann því fyrir sér hvort hægt væri að kveða á um að þeir sem sitja í stjórn af hálfu félaganna skuli vera með þann sjúkdóm eða fötlun sem félagið snýst um.

Sveinn Rúnar ræddi enn um fötlun og spurði m.a. hversu margir fulltrúar í aðalstjórn og á aðalfundi væru fatlaðir í þeim skilningi orðsins að þeir lifðu á bótum almannatrygginga. Hann drap síðan á lýðræðið og rakti að framkvæmdastjórn og þó sér í lagi formaður og framkvæmdastjóri settu mark sitt á ákvarðanir bandalagsins. Aðalstjórnarfundir væru því miður sjaldnast uppspretta hugmynda sem vísað væri til framkvæmdastjórnar.

Garðar Sverrisson skýrði þróunina í átt til meiri miðstýringar hjá bandalaginu með því að bandalagið þyrfti oft að bregðast skjótt við þegar um pólitísk álitamál væri að ræða. Þá taldi hann ákveðna fælni ríkjandi við hugtakið fötlun sem menn þyrftu að sigrast á. Að lokum ræddi hann um kynjahlutfall og taldi ekki óeðlilegt að ábending þess efnis að gæta hlutfalls kynjanna væri í lögum bandalagsins.

Berglind Stefánsdóttir fagnaði ábendingum um jafnrétti kynjanna í tillögum laganefndar. Síðan lýsti hún kostum orðsins “fötlun” í íslensku sem hefði ekki jafn neikvæða skírskotun og hugtakið “disability” í ensku og hvatti fólk til þess að vera óhrætt við að nota hugtakið.

Sveinn Rúnar Hauksson þakkaði gagnlega umræðu. Helgi Seljan fór síðan yfir þær athugasemdir sem komu fram á fundinum. Kvað hann þær verða teknar til greina í vinnu nefndarinnar.

Formaður þakkaði þarfa umræðu og minnti á að félögin væru grunneiningar banda lagsins. Þegar nýjum félögum væri veitt viðtaka væri í raun skilgreint hvað menn ættu við með hugtakinu “fötlun”.

Önnur mál.

Ragnar Gunnar Þórhallsson greindi frá því að Helgi Hjörvar, formaður Hússjóðs Öryrkjabandalagsins, hefði komið að máli við sig og fleiri forystumenn aðildarfélaga bandalagsins og boðið þeim að félögin létu húseignir sínar með einhverjum hætti ganga inn í Hússjóð bandalagsins eða tækju þátt í stofnun nýs fasteignafélags sem sæi um rekstur fasteignanna. Sagði Ragnar að ýmis félög væru í vandræðum með rekstur húseignanna og kæmi það jafnvel niður á hagsmunabaráttu þeirra. Sagði hann að Helgi hefði einnig rætt þessi mál við félagsmálaráðherra og spurði hvort þessi mál hefðu verið rædd í framkvæmdastjórn.

Formaður sagði að þetta hefði ekki komið til umræðu í framkvæmdastjórn. Hins vegar hefði félagsmálaráðuneytið haft uppi hugmyndir um að stofna fasteignafélag um sambýli, vinnustaði og aðrar eignir Framkvæmdasjóðs fatlaðra og hefði leitað eftir því hvort fleiri vildu vera með. Málið er eingöngu á um¬ræðustigi og telur stjórn Hússjóðs að hugmyndir um aðkomu félaga að Hússjóðnum verði að koma frá þeim sjálfum. Það sé alveg ljóst að ekki verði farið í stofnun neins rekstrarfélags nema það hafi hagnýtt gildi fyrir félögin og hugmyndir ráðuneytisins eru enn svo óljósar að þær verða vart ræddar. Þá tók formaður sérstaklega fram að engum slíkum hugmyndum yrði hrundið í fram¬kvæmd án samþykktar framkvæmdastjórnar og aðalstjórnar.

Friðrik Alexandersson og Garðar Sverrisson tóku að lokum til máls. Varaði Garðar m.a. við slíkum hugmyndum og taldi að rekstur hússjóðsins á eignum aðildar félaganna gæti haft margvísleg vandræði í för með sér.

Fleiri voru ekki á mælendaskrá og sleit formaður fundi kl. 19:30.

Reykjavík, 12. september 2005,

Arnþór Helgason (sign)