Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 19. september 2007

By 19. desember 2007No Comments
Miðvikudaginn 19. september 2007, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar að Hátúni 10, 9. hæð. Fundur var boðaður kl. 16:45. Fundi stýrði formaður Öryrkjabandalags Íslands, Sigursteinn Másson.

Eftirtaldir sátu fundinn:

 • Anna Guðrún Sigurðardóttir þjónustufulltrúi ÖBÍ
 • Guðmundur Magnússon  SEM-samtökunum
 • Sigursteinn Másson  Geðhjálp
 • Hafdís Gísladóttir  framkvæmdastjóri ÖBÍ
 • Sigrún Gunnarsdóttir  Tourette samtökunum
 • Kristín Ármannsdóttir  FSFH
 • Hjördís Anna Haraldsdóttir Félagi heyrnarlausra
 • Guðríður Ólafsdóttir  félagsmálafulltrúi ÖBÍ
 • Bára Snæfeld   upplýsingafulltrúi ÖBÍ
 • Guðbjörg Dóra Sigurðardóttir Blindravinafélagi Íslands
 • Ólína Sveinsdóttir  Parkinsonssamtökunum
 • Jón Þorkelsson   Stómasamtökum Íslands
 • Halldór Sævar Guðbergsson Blindrafélaginu
 • Ingi Hans Ágústsson  Alnæmissamtökunum
 • Haukur Helgason   FAAS
 • Ingibjörg Karlsdóttir  ADHD samtökunum
 • Emil Thóroddsen   Gigtarfélagi Íslands
 • Ragnar Gunnar Þórhallsson Sjálfsbjörg lsf
 • Guðrún Pétursdóttir  Umsjónarfélagi einhverfra
 • Sigríður Jóhannsdóttir  Samtökum sykursjúkra
 • Garðar Sverrisson  MS-félagi Íslands
 • Ægir Lúðvíksson   MND-félagi Íslands
 • Friðrik Alexandersson  Styrktarfélagi vangefinna

Fundur var settur kl. 17:00 að því búnu kynntu fundarmenn sig og formaður flutti skýrslu sína.

1. Skýrsla formanns

ÖBÍ hafði sig talsvert í frammi í aðdraganda kosninga til Alþingis í vor. Haldinn var opinn fundur með formönnum stjórnmálaflokkanna á Grand Hóteli þann 24. apríl þar sem fram kom sameiginlegur vilji um uppstokkun og einföldun almanna¬trygginga utan þess sem Siv Friðleifsdóttir fulltrúi Framsóknarflokksins lýsti sig andvíga því. Þau sjónarmið áréttaði hún í nýlegu sjónvarpsviðtali þar sem hún taldi einföldun kerfisins vinna gegn einstaklingsmiðaðri þjónustu. Þetta eru einhver mestu öfugmæli sem ég hef nokkru sinni heyrt. Einföldun almanna¬tryggingakerfisins er lífsnauðsynleg. Reyndar eru sumir orðnir það óþolinmóðir að þeir eru farnir að smíða sitt eigið almannatryggingakerfi sbr. þær fyrirætlanir sem ASÍ og SA kynntu þann 11. september sl. Almannatryggingakerfi sem notendur þess skilja ekki er vont. Öllu verra er það kerfi sem stafsmennirnir sjálfir skilja ekki. Við núverandi aðstæður ræður jafnvel hentistefna för í afgreiðslu mála hjá Tryggingastofnun og notendur hafa litla möguleika á að gæta réttar síns.

Nú er að hefjast vinna í félagsmálaráðuneytinu um einföldun á lífeyrishluta almanna¬trygginga og hefur ÖBÍ verið boðið sæti í ráðgjafarhópi. Innan Tryggingastofn¬unar ríkisins er jafnframt í undirbúningi uppskipting stofnunarinnar í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og mun sá sem hér talar koma að því starfi sem nýr stjórnarmaður í Tryggingastofnun. Eftir tvo stjórnarfundi hefur stjórn TR sent skýr skilaboð til yfirmanna stofnunarinnar um að leita verði allra leiða til að koma í veg fyrir endurreikninga og bakreikninga til viðskiptavina frá stofnuninni. Komið hefur verið á sérstöku samstarfi við ríkisskattstjóra í þessu skyni. Ég tel nauðsynlegt að fljótlega fari í gang öflugt stefnumótunarstarf um TR og það hlutverk sem stofnuninni er ætlað eftir breytingar. Auk almennra sjúkra¬trygginga og niðurgreiðslna á lyfjum og meðferð tel ég að hin almenna skil¬greining sjúkrahluta Tryggingastofnunar verði sú að jafna aðstöðumun fatlaðra og ófatlaðra, sjúkra og heilbrigðra. Ný Tryggingastofnun á að mínu mati að búa yfir þeim tækjum og tólum sem nauðsynleg eru í þessu tilliti en að framfærsla, menntun og starfsendurhæfing fari út úr stofnuninni. Verksviðið þarf að vera skýrt og auðskiljanlegt öllum sem til Tryggingastofnunar leita.

Breytingar sem gerðar verða á fyrirkomulagi lífeyrishluta almannatrygginga munu hanga saman við niðurstöður svonefndrar örorkumatsnefndar forsætisráðherra en gert er ráð fyrir að þær líti dagsins ljós í vor. Mjög spennandi hugmyndir eru þar á borðinu sem bæta munu mjög framfærslumöguleika fatlaðra og sjúkra og skapa hvata til virkrar þátttöku í samfélaginu. Þær útfærsluhugmyndir sem nú eru á borðinu verða kynntar undir öðrum lið hér á eftir. Í félagsmálaráðuneytinu er jafnframt að hefjast vinna í svokallaðri verkaskiptinganefnd ríkis og sveitarfélaga. Í samræmi við áherslur í málefnaskrá ÖBÍ, landssambands eldri borgara og Þroska¬hjálpar er gert ráð fyrir að sveitarfélögin taki í auknum mæli að sér þjónustu við fatlaða og fyrir liggur skýr krafa aldraðra um að málaflokkurinn flytjist til sveitarfélaganna. Af hálfu ÖBÍ hefur verið lögð áhersla á að flutningurinn taki til nærþjónustuverkefna sem eðli málsins samkvæmt eigi best heima hjá sveitar¬félögunum en að sértæk þjónusta sem kalli á umtalsverða sérfræðiþekkingu verði miðlæg og sinni landinu öllu frá sérstökum kjarnasvæðum. Varðandi flutning verkefna er nærtækast að líta til svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra en lang stærsti hluti verkefna þeirra eru nærþjónustuverkefni. Í þessu sambandi er brýnt að skoða vel ellefu ára reynslu tilraunasveitarfélaga á Íslandi sem og þá reynslu sem komin er á flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga á hinum norður¬löndunum. 

Um síðustu mánaðamót sendi greiðslustofa lífeyrissjóða fyrir hönd 9 sjóða um 1.700 örorkulífeyrisþegum bréf um breytingu á réttindum þeirra. Einhverjir fengu hækkun, aðrir lækkun og sumir niðurfellingu á lífeyrisréttindum sínum í við¬komandi sjóði. ÖBÍ fór strax fram á að yfirlit yrði gefið yfir hópinn, aldur, tekjur, tímabil og breytingar til lækkunar eða hækkunar, svar hefur enn ekki borist okkur. Ljóst var strax að aðgerðir lífeyrissjóðanna nú væru mun vægari og næðu til færri örorkulífeyrisþega en á síðasta ári þegar 2.300 öryrkjar fengu slík bréf. Meðal krafna ÖBÍ þá var að við samanburð á launum fyrir orkutap og eftir orkutap yrði að notast við launavísitölu en ekki framfærsluvísitölu. Á þetta var að lokum fallist af hálfu flestra sjóðanna en þó ekki allra. Lífeyrissjóður Norðurlands fór fyrir hópi sjóða sem neituðu alfarið að breyta vísitöluviðmiði sínu og við það situr. ÖBÍ gerði einnig alvarlegar athugasemdir við að ekki væri virt upplýsingaskylda né andmælaréttur og virðist nú sem mun betur sé að þessu staðið en áður. Þá stendur í raun eftir tvennt. Annað er siðferðið á bak við aðgerð sem einkum bitnar á tekjulægsta fólkinu í hópi öryrkja, fólkinu sem var að reyna að berjast á vinnu¬markaði árum saman með litla vinnufærni eftir að sjúkdómur eða fötlun greip inn í þeirra líf, fólkið sem stundaði láglaunastörf fyrir orkutap og bjó við starfsóöryggi árum saman, konur sem eignuðust börn á þeim tíma sem réttindi þeirra voru mjög takmörkuð o. s. frv. Hvar er siðferði stjórnenda lífeyrissjóða sem sitja sam¬tals á annað þúsund milljörðum af hreinum eignum en hafa svo geð í sér að skerða kjör fólks sem þegar lifir undir fátæktarmörkum? Hitt sem eftir stendur er að láta reyna á eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Síðustu tvær vikur hefur ÖBÍ farið vel yfir þetta með lögmönnum. Við vitum að málaferli geta tekið langan tíma og á meðan koma skerðingarnar til framkvæmda. Þegar dómsniðurstaða er fengin er hugsanlegt að lífeyrissjóðirnir hafi þá þegar ýtt skuldbindingum sínum gagnvart þessum hópi öryrkja, öllum eða að miklu leyti, yfir á ríkið.

Til að fara í slíkan dómsleiðangur er mikilvægt að hafa vaðið fyrir neðan sig. Við teljum líkur á að dómsmál geti unnist en við verðum að vera viðbúin öllu. Aðal¬atriðið er þetta, við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að semja við lífeyris¬sjóðina og okkar mat er að við komumst ekki lengra með það. Sú staða er nú uppi að allar kjarabætur sem ÖBÍ semur um fyrir öryrkja, og sem einnig eiga rétt í lífeyris¬sjóða¬kerfinu verða jafnharðan hirtar til baka af lífeyrissjóðunum. Almanna¬tryggingarnar bæta það að hluta upp en þá koma lífeyrissjóðirnir aftur og skerða krónu á móti krónu. Í dag eru það á annað þúsund manns sem horfa fram á kjara¬skerðingar vegna aðgerða lífeyrissjóðanna. Ef okkur tekst að ná fram langþráðri hækkun á grunnlífeyri í vetur í samræmi við málefnaskrá okkar verða bréfin frá greiðslustofu lífeyrissjóða líklega fleiri að ári. Við þetta verður ekki unað. Það er útilokað að við sættum okkur við það að lífeyrissjóðirnir, ein af megin¬stoðum samtryggingarkerfisins í landinu, verði þannig notaðir til kerfisbundinnar kjaraskerðingar öryrkja. Hér verður að höfða til samfélagslegrar ábyrgðar verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda um leið og við verðum að sýna að okkur er full alvara í að stöðva þessar aðgerðir með góðu eða illu. Með málsókn sendum við slík skilaboð en það er mikilvægt að við fylgjum henni fast á eftir og hvikum hvergi í sanngjörnum kröfum okkar.

Ágætu félagar,
Ofan á þetta mál tilkynntu forystumenn Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnu¬lífsins þriðjudaginn ellefta september að þeir hygðust stofna sérstakan áfalla¬trygginga¬sjóð sem hefði það hlutverk að sjá um framfærslu félagsmanna í áföllum og veikindum í allt að fimm ár frá orkutapi eða þegar lífeyrissjóðirnir tækju við því hlutverki. Í millitíðinni verði einstaklingunum úthlutað þjónustufulltrúar sem starfi á ábyrgð viðkomandi verkalýðsfélags en þeir hafi það hlutverk að koma viðkomandi einstaklingi í endurhæfingu og vinnu. Margt í þessu er óskýrt en eitt af því sem hinir sameinuðu forsvarsmenn ASÍ og SA hafa kynnt er Endurhæfing ehf. sameinað einkahlutafélag sem hafi það hlutverk með höndum að votta gæði þeirra sem hafa með endurhæfingu að gera en félagsmenn Alþýðusambandsins eiga þá ekki að fá stuðning til endurhæfingar nema Endurhæfing ehf. samþykki það. Þjónustufulltrúi ASÍ og SA á svo að fylgjast grannt með því að einstaklingur¬inn nýti sér þau úrræði sem honum hafa verið úthlutuð. Þegar þessi áfalla¬trygginga¬sjóður verður stofnaður á að finna honum fé m.a. með því lækka mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð og setja þess í stað í þennan áfalla¬tryggingasjóð. Hvað segja sjóðsfélagar um það? Og hvað með hugmyndirnar um að öll aðildarfélög sjóðsins hafi aðgang að hinu sameiginlega tölvukerfi þar sem hægt verði að halda utan um öll mál sjóðsfélaganna? Hvað með persónuvernd? Þegar ég sá tillögurnar kynntar í sjónvarpi vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. Hvernig í ósköpunum á hið nýja velferðarkerfi atvinnulífsins að sam¬rýmast hlutverki verkalýðshreyfingarinnar? Einu sinni átti það að heita að ASÍ gætti hagsmuna launamanna en hver er staða launamannsins og félagsmanns¬ins sem þarf aðstoð við að gæta hagsmuna sinna gagnvart verkalýðs¬félaginu? Sama verkalýðsfélaginu og er nú með alla afkomuna hans á sinni könnu, endurhæfinguna og atvinnuna? Þetta gengur auðvitað ekki upp. ASÍ og SA, hönd í hönd, ætla að sitja allan hringinn og það eina sem vantar er að þessi samtök ætli sér að annast húsnæðismál félagsmanna sinna einnig. Þetta er auðvitað hugmynd sem aldrei getur gengið! Hún sýnir hins vegar að það eru kannski bara ein heildarsamtök eftir í landinu sem standa vilja vörð um eitt almannatrygginga¬kerfi fyrir alla í landinu og það er Öryrkjabandalag Íslands. Við megum aldrei sofna á verðinum gagnvart hugmyndum sem veikja undirstöður velferðarkerfisins eða skapa mismunun jafnvel þótt góður hugur fylgi máli. Við höfum langa reynslu af gagnslausum velvilja!

Góðir félagar,
Frá því í vor hefur staðið yfir öflug stefnumótunarvinna á vettvangi ÖBÍ. Einnig er hópur frá aðildarfélögunum auk starfsmanna að vinna að stefnumótun fyrir Brynju hússjóð. Þessi vinna er spennandi og kraftmikil. Hún hefur líka haft áhrif á aðildar¬¬félögin þar sem sum þeirra hafa nýtt sér þann ramma sem Capacent Gallup hefur utan um vinnuna til að hefja stefnumótunarstarf í félögunum. Það er vel. Í þessari vinnu höfum við horft til margra þátta s.s. innri og ytri samskipta, rýni á innri máli, ímynd og húsnæðismál. Gert er ráð fyrir að áfangaskýrslu verði skilað á aðalfundi ÖBÍ þann 6. október.
Fimmtudaginn 27. september hefst tveggja daga alþjóðleg ráðstefna um réttindi fatlaðra og Sáttmála sameinuðu þjóðanna í Háskólanum í Reykjavík en Hafdís Gísladóttir hefur fyrir hönd ÖBÍ komið að skipulagningunni. Frábærir fyrirlesarar víðs vegar að úr heiminum taka þátt í ráðstefnunni og stendur ÖBÍ straum af kostnaði við einn þeirra Holgeir Kallehauge fyrrverandi hæstaréttardómara og forman danskra samtaka fatlaðra. Hann notar rafknúinn hjólastól og öndunarvél en hefur rétt eins og baráttumaðurinn Evald Krogh ætíð tvo aðstoðarmenn sér til halds og trausts. Holgeir kom mikið að gerð sáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra þau fjögur ár sem sáttmálinn var í smíðum. Á föstudag mun Holgeir heimsækja Hæstarétt og Alþingi.

Í júlí framkvæmdi Capacent Gallup viðhorfskönnun á ÖBÍ meðal almennings. Niðurstaðan er mjög ánægjuleg og mikil hvatning fyrir okkur að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið. Úrtakið var 1350 manns og var svörunin um 62%. 89% sögðust jákvæðir í garð ÖBÍ en aðeins 3% sögðust neikvæð í garð bandalagsins. Þá sögðust 70% bera mikið traust til ÖBÍ en 5% lítið. 75% telja ÖBÍ sinna réttindamálum öryrkja vel en 9,5% telja bandalagið gera það illa. Þessar tölur eru mikil hvatning fyrir forystu ÖBÍ og samtökin í heild sinni og ástæða til að halda þeim hátt á lofti. Þá skal nefnt að spurt var um sýnileika ÖBÍ og töldu 57% svarenda ÖBÍ sýnilegt en tæp 30% að svo væri ekki. Þegar spurt var hvað ÖBÍ stæði fyrir komu mjög mismunandi svör og augljóst að skýra þarf hlutverk og starfsemi ÖBÍ fyrir almenningi líkt og gera þarf inn á við í bandalaginu sjálfu og unnið er að í stefnumótunarvinnunni. Undanfarnar vikur hefur formaður ÖBÍ heimsótt meirihluta aðildarfélaganna. Þær heimsóknir hafa verið mjög áhugaverðar og ánægjulegar. Augljóst er að hauststarfið er víða hafið af miklum krafti. Mörg félaganna standa að blómlegri útgáfustarfsemi, skipuleggja fyrirlestra og norræna og alþjóðlega fundi og standa að margvíslegu fræðslustarfi. Sum félaganna hafa farið í gegnum stefnumótunarstarf og önnur eru að skipuleggja það. Formaður fór í slíkar heimsóknir fyrir einu og hálfu ári síðan og rétt er að líta á þær sem eðlilegan þátt í starfi formanns ÖBÍ. Það gefur persónuleg tengsl við grasrótina sem starfið byggir á og innsýn inn í veruleika hinna margvíslegu hópa og einstaklinga sem Öryrkjabandalagið er samnefnari fyrir. Í heimsóknunum hef ég fundið mikinn stuðning við þau sjónarmið sem ég hef sett fram á undanförnum árum sem og við þær áherslur sem ÖBÍ stendur fyrir. Einnig hefur á fundunum komið fram einlægur vilji um að fylgt verði fast eftir áætlunum um breytingar á almannatryggingakerfinu, örorkumati, aukinni endurhæfingu og nýrri verka¬skiptingu ríkis og sveitarfélaga í málefnum fatlaðra svo það helsta sé nefnt.  Því hef ég nú ákveðið að gefa kost á mér til áframhaldandi formennsku í Öryrkja¬banda¬lagi Íslands til næstu tveggja ára. Fyrsta áfanga í breytingaferlinu er að ljúka. Viðhorf og skilningur á nauðsyn breytinga er loks fyrir hendi. Næsti áfangi snýst um að sameinast um leiðir og að fylgja þeim úr hlaði. Árangurinn veltur ekki síst á styrk okkar og samstöðu um breytingar til aukinna lífsgæða fatlaðra og sjúkra.

Umræður um skýrslu formanns:

Nokkrir tóku til máls um skýrslu formanns, þar sem honum var þökkuð skýrslan. Menn áréttuðu áhyggjur sínar varðandi yfirgang lífeyrissjóðanna og töldu mikilvægt að ÖBÍ stæði þá vakt áfram sem hingað til. Varað var við hættum af yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna, einkum þeirra smærri, en þau yrðu að sameinast og vera á varðbergi gagnvart ýmsum ókostum, svo sem of mikilli nálægð og ættartengslum. Minnt var á nauðsyn þess að jafnræði milli fötlunarhópa væri gætt.

Menn lýstu áhyggjum sínum gagnvart áformum Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins um stofnun svokallaðs áfallatryggingasjóðs.

2. Áherslur ÖBÍ í kjaramálum

Á framkvæmdastjórnarfundi var fjallað um mögulegar áherslur í komandi kjaramálum og það bil sem þarf að brúa þar til lög á grundvelli örorkumatsnefndar koma til framkvæmda. Þau lög munu ekki taka gildi fyrr en í fyrsta lagi í ársbyrjun 2009 og þá fyrst og fremst gilda fyrir þá sem koma nýir inn í kerfið til að byrja með.
Samþykkt var í framkvæmdastjórn að leggja fyrir aðalstjórn eftirfarandi tillögur:

 • Í fyrsta lagi að frítekjumark hækki úr þeim 300.000,- krónum sem það er í dag í 900.000,- kr.
 • Að grunnlífeyrinn verði tvöfaldaður upp í 50.000,- og með öllu ótekjutengdur.
 • Að skattleysismörk verði hækkuð upp í 140.000,- eða sem næst því, sem þau hefði verið, hefðu þau fylgt vístöluþróun frá 1988.
 • Að heilbrigðiskerfið verði gert notendum að kostnaðarlausu, gjaldtöku verði hætt með öllu í heilbrigðiskerfinu.

Margir tóku til máls og urðu miklar umræður um hvar höfuð áherslan ætti að liggja. Samþykkt var að leggja megináherslu á fyrstu þrjá liðina. Hvað varðaði fjórða liðinn voru menn ekki á eitt sáttir um orðalag og vildu sumir leggja meiri áherslu á gjaldfrjáls og mikilvægi þess að jafna aðstöðu og þá nefnt sem dæmi sjúkraþjálfun sem væri tekjutengd, en algerlega nauðsynleg fyrir marga svo þeir yfir höfuð geti stundað vinnu.

3.Þróunarstarf

Halldór Sævar Guðbergsson, formaður blindrafélagsins og Inga Dóra Guðmundsdóttir, alþjóðafulltrúi blindrafélagsins komu á fund framkvæmdastjórnar og lögðu fram fréttatilkynningu, sem sagði frá ráðherrum norðurlanda, sem bera ábyrgð á þróunarstarfi 25. ágúst 2007. Þar skuldbinda ráðherrarnir sig til að styrkja samtök fatlaðra á norðurlöndum til þróunarstarfs, hver í sínu landi. Í framhaldi af því var Ingu Dóru, Halldóri Sævari, Guðmundi Magnússyni og Valgerði Ósk Auðunsdóttur falið að koma með hugmyndir að skipulagi að þróunarstarfi innan ÖBÍ og aðildarfélaganna.

4. Aðildarumsókn Hugarfars og Vonarinnar

Formaður las upp umsóknir þessara félaga, þar sem kom fram að Hugarfar er félag fólks með heilaskaða og aðstandenda þeirra og áhugafólks um málefnið. Það var stofna 21. febrúar síðastliðinn og er fjöldi félagsmanna í dag 84 manns. Tilgangur félagsins er að vinna öllum málefnum félagsmanna, svo sem upplýsingagjöf, úrræðum í húsnæðismálum, menntun og atvinnumálum, ennfremur að vinna að því að heilaskaðaðir fái alla þá meðhöndlun og endurhæfingu sem þeir þurfa hver fyrir sig. Félagið er þegar komið í samband við formann Hjerneskadede í Danmörku Niels Anton Svensen. Með fylgdu lög félagsins.

Þá las hann upp umsókn Vonarinnar, sem eru samtök krabbameinsgreindra og voru stofnuð 30 janúar 2007. Tilgangurinn er að leita jafnræðis við aðra þegna íslensks samfélags varðandi félagsleg kjör og lagaleg réttindi félagsmanna og skyldur samfélagsins við þá. Þau telja að enginn félagsskapur sé starfandi sem borið hafi hagsmuni krabbameinsgreindra fyrir brjósti, aðeins starfandi stuðningshópar innan Krabbameinsfélags Íslands sem haldið hafi einn fund í mánuði fyrir félagsmenn sína. Munu samtökin starfa á landsvísu fyrir alla krabbameinsgreinda. Með fylgdu lög félagsins.

Eftir nokkrar umræður þar sem helst var rætt um hvort hér skaraðist á við önnur félög var samþykkt að leggja þessar umsóknir fyrir aðalfund sem samkvæmt lögum ÖBÍ afgreiðir endanlega umsóknir í bandalagið.

5. Fjárhagsáætlun

Hafdís Gísladóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ lagði til að fjárhagsáætlun verði lögð fyrir í desember í stað þess hún komi ekki fram fyrr en í mars mánuði. Nýtt ár byrji með nýrri fjárhagsáætlun en ekki sé unnið inn í hálft ár án áætlunar.

Tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

6. Lögfræðiráðgjöf

Hafdís Gísldóttir kynnti þær breytingar á lögfræðiþjónustu ÖBÍ, að í fyrra gerði ÖBÍ þjónustusamning við Landslög lögfræðistofu um lögfræðiþjónustu sem felur það í sér að starfsmenn leita til lögfræðistofunnar með aðstoð og leiðbeiningar.
Í sumar hætti Jóhannes Albert Sævarsson með lögfræðiráðgjöf fyrir ÖBÍ. Landslög munu nú taka við að sinna þeim þætti. Þetta er ráðgjöf, sem felur það í sér að lögmaður tekur ekki að sér mál, heldur leiðbeinir um hvert sé næsta skref og hvert viðkomandi eigi að snúa sér. Ef lögmaður telur að mál sem til hans koma muni snerta einhvern hóp, leggur hann það fyrir framkvæmdastjórnina sem þá ákveður hvort höfða eigi prófmál og nefndi hún um það dæmi. Það nýja í þessu er að frá og með haustinu er meiningin að bjóða aðildarfélögunum upp á ráðgjafafundi.

Hafdís svaraði nokkrum fyrirspurnum og lagði á það áherslu að hér væri fyrst og fremst um ráðgjöf að ræða. Þetta fyrirkomulag hefur líka orðið til þess að hjá starfsfólkinu, einkum Báru og Guðríði hefur safnast mikil þekking sem leitt hefur til minni þarfar fyrir lögfræðiþjónustuna.

7. Örorkumatsnefndin

Formaður sagði frá þeim tveim fundum sem haldnir hafa verið í haust og hann setið í stað Ragnars Gunnars áður. Skipað hefur verið í bakhóp sem er meiningin að hittist af og til og verði fulltrúa ÖBÍ í nefndinni til halds og traust.

Hann sagði frá stöðunni eins og hún kemur honum fyrir sjónir en telur að útspil ASÍ og Samtaka atvinnulífsins gæti torveldað áframhaldandi starf.

Sigursteinn og Ragnar Gunnar tóku að sér að svara þeim spurningum sem upp komu. Emil ræddi um hugsanlegan kostnað sem hann taldi að athuga þyrfti vel þ.e., hvort menn væru tilbúnir að fjárfesta í þessu mati. Mikil umræða varð um starfsendurhæfinguna, sem hefur verið í skötulíki hérlendis um árabil.

Formaður óskaði eftir samþykki fundarins um að hann tæki sæti Ragnars Gunnars í nefndinni, en Ragnar Gunnar hefur beðist undan því, vegna mikilla anna á öðrum vettvangi og var það samþykkt.

8. Önnur mál

Formaður bað Hafdísi um að lesa upp ályktun frá aðalstjórninni þar sem Aðalstjórn ÖBÍ mótmælir harðlega fyrirætlunum 9 lífeyrissjóða um skerðingu eða niðurfellingu örorkulífeyris til vel á annað þúsund öryrkja. (sjá fylgiskjal 1)
Samþykkt samhljóða.

Ægir kvartaði undan því að á heimasíðu ÖBÍ væri ekki að finna neina fundargerð frá árum fyrir 2007.

Halldór Sævar spurði hvort ekki ætti að velja varamann í Örorkumatsnefndina og var samþykkt að varaformaður ÖBÍ yrði einnig varamaður í nefndinni.

Friðrik Alexandersson frá Styrktarfélag vangefinna kvaddi sér hljóðs og vildi þakka fyrir sig þau ár sem hann hafi átt í stjórn bandalagsins.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.40

Fundarritari Guðmundur Magnússon

 
(fylgiskjal 1)

Ályktun aðalstjórnar ÖBÍ

Aðalstjórn ÖBÍ mótmælir harðlega fyrirætlunum 9 lífeyrissjóða um skerðingu eða niðurfellingu örorkulífeyris á annað þúsund öryrkja. Í ljós hefur komið að margir í umræddum hópi voru með heildartekjur á bilinu 1.500.000 til 1.700.000 krónur á síðasta ári sem frá og með nóvember nk. eiga að skerðast um allt að fjörutíu þúsund krónur á mánuði. Ákvarðanir lífeyrissjóðanna munu hafa í för með sér kerfisbundna kjaraskerðingu fyrir tekjulægstu hópa samfélagsins.

ÖBÍ telur aðför lífeyrissjóðanna að lífsafkomu öryrkja siðlausa og að hún fái ekki staðist lög og hefur því falið lögmanni  að undirbúa málaferli á hendur þeim. Aðalstjórn ÖBÍ kallar ASÍ og Samtök atvinnulífsins til fullrar ábyrgðar á málinu enda stýri forsvarsmenn og fulltrúar þeirra samtaka jafnframt viðkomandi lífeyrissjóðum í sameiningu.

Reykjavík, 19. september 2007