Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 19. september 2013

By 17. desember 2013No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 19. september 2013, kl. 17.00–19.00 í Hátúni 10, 9. hæð, Reykjavík

Mættir fulltrúar:

Ellen Calmon, ADHD samtökunum
Karl Þorsteinsson, Ás styrktarfélagi
Halldór Sævar Guðbergsson, Blindrafélaginu
Gísli Helgason, Blindravinafélaginu
Hrönn Petersen, CCU samtökunum
Sigríður Sigurjónsdóttir, Einhverfusamtökunum
Sigríður Eyjólfsdóttir, FAAS
Klara Geirsdóttir, félagi CP á Íslandi
Guðmundur S. Johnsen, félagi lesblindra
Vilhjálmur Þ. Þórisson, félagi nýrnasjúkra
Friðgeir Jóhannesson, Fjólu
Jón Gunnar Jónsson, FSFH
Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu
Ingólfur Már Magnússon, Heyrnarhjálp
Ingi Hans Ágústsson, HIV-Íslandi
Ólöf Þráinsdóttir, Hugarfari
Brynhildur Arthúrsdóttir, LAUF
Kristján Geir Fenger, Málefli
Pétur Halldór Ágústsson, MG félaginu
Ægir Lúðvíksson, MND félaginu
Garðar Sverrisson, MS félaginu
Ólína Sveinsdóttir, Parkinsonsamtökunum
Ómar Geir Bragason, Samtökum sykursjúkra
Guðmundur Magnússon, SEM Samtökunum
Sveinn Guðmundsson, SÍBS
Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg lsf
Erna Arngrímsdóttir, Spoex
Kristín Björnsdóttir, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Sigrún Gunnarsdóttir, Tourette samtökunum

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Þorbera Fjölnisdóttir, ráðgjafi

Gestur:

Kristinn Halldór Einarsson, forsvarsmaður Almannaróms

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig

Guðmundur Magnússon, formaður bandalagsins bauð fundarmenn velkomna og bað fundarmenn að kynna sig. Samþykkt var að Erna Arngrímsdóttir og Klara Geirsdóttir yrðu fundarstjórar og tímaverðir. Eftirtaldir aðilar voru samþykktir sem fundarfulltrúar sinna félaga þar sem hvorki aðal- né varamenn félaganna gátu mætt á fundinn: Friðgeir Jóhannesson, Fjólu, Guðmundur Löve, SÍBS, Sigríður Eyjólfsdóttir, FAAS, Ólöf Þráinsdóttir, Hugarfari og Sigrún Gunnarsdóttir, Tourette samtökunum.

 2. Fundargerð frá 22. ágúst 2013 borin upp til samþykktar.

Samþykkt samhljóða.

 3. Skýrsla formanns

Guðmundur fór í fáum orðum yfir skýrslu sína sem hafði verið send út. Guðmundur sagði meðal annars frá hvatningarfundinum sem haldinn var á Austurvelli 10. september og að stefnt væri að því að halda framhaldsútifund 15. október næstkomandi Lilja benti á að í möppum fundarmanna væru gögn sem voru afhent á fundum sem bandalagið hefur haldið með ráðherrum.

 4. Stofnun Almannaróms. Aðkoma ÖBÍ.

Kristinn Halldór Einarsson þakkaði fyrir tækifærið að fá koma og kynna fyrirhugaða stofnun Almannaróms. Kristinn sýndi glærur máli sínu til stuðnings. Undirbúningur að stofnun Almannaróms hefur verið í gangi um nokkurt skeið en auk hans sitja í undirbúningshóp þau Eiríkur Rögnvaldsson, Garðar Guðgeirsson, Hrafn Loftsson, Jón Guðnason, Sigríður M Oddsdóttir og Sigrún Helgadóttir.Í hnotskurn snýst verkefnið og fyrirhuguð vinna hjá Almannaróm um tækniframfarir og samskipti en örar breytingar hafa verið á því á undanförnum árum. Hætta er á að lítil tungumál hverfi í þessu umhverfi. Félagið vill smíða máltækniverkfæri fyrir íslensku og er ætlunin að sækja um styrki til þess. Þróunin er gríðarlega hröð á sviði máltækni, s.s. leitar- og þýðingarvélar á netinu sem þýða líka talað mál rafrænt. Markmiðið að tryggja að íslenska standi jafnfætis öðrum tungumálum í tækniheiminum, vernda íslenska tungu og stuðla að aðgengi almennings og atvinnulífs að nauðsynlegri tækni. Annars er hætta á stafrænum dauða íslenskunnar. Með nýjum lausnum í tækni og samskiptum  verður tækni allsráðandi í samskiptum fólks við vélar. Máltækni mun leiða til aukinnar stærðarhagkvæmni og lægri kostnaðar, tungumálaerfiðleikar verða úr sögunni og fleiri viðskiptavinir munu geta nálgast vörur og þjónustu á þann hátt sem þeim hentar. Þessari tækni fylgja líka aukin mannréttindi s.s. aukin tækifæri til mennta. Almannarómur mun smíða máltæknikerfi eftir þörfum fyrir fyrirtæki, stofnanir o.fl.

Almannarómur verður sjálfseignarfélag. Stofnfé þarf til að koma félaginu af stað en það verður síðan sjálfbært en verk- og kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir þremur tímabilum í starfi félagsins, þ.e. stofnun félagsins, fyrstu skrefin og sjálfbær rekstur. Gert er ráð fyrir að hver stofnaðili muni greiða frá kr. 100.000 og upp í 450.000 sem stofnfé. Nú þegar eru komnir 10-12 stofnaðilar og 7-8 milljónir.

Umræður um málið fóru fram og voru fundarmenn sammála um mikilvægi þessa máls.

Formaður sagði að framkvæmdastjórn hefði samþykkt að bera það undir aðalstjórn að bandalagið gerðist stofnaðili með stofnfé að upphæð kr. 450.000 og bar hann það undir fundinn. Samþykkt samhljóða.

5. Endurskoðun á fjárhagsáætlun ÖBÍ 2013

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri kynnti.

Framlag frá Íslenskri Getspá verður hærra á þessu ári en áætlað var og verða tekjur bandalagsins því hærri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Framkvæmdastjórn leggur til við aðalstjórn að hækka fjárhagsáætlun um 35 milljónir vegna breytinga á Sigtúni 42. Ástæðan er sú að nýjir liðir bætast við sem ekki voru fyrirsjáanlegir, þar sem ekki var vitað að hentugt húsnæði fyndist á þessu ári. Gert er ráð fyrir að breytingar á norðurálmu í Sigtúni muni kosta um 58 milljónir og við bætist kostnaður vegna vinnu arkitekta, verfræðings og eftirlits með framkvæmdum sem er um 12 milljónir, alls um 70 milljónir króna með virðisaukaskatti. Afgangur af arfi Ólafs er 50 milljónir en það dugar ekki fyrir breytingunum. Við borgum auk þess 7,7 milljónir á þessu ári í rekstrarkostnað af Sigtúninu. Mikilvægt er að eiga hús sem hentar okkar þörfum. Þetta er góð fjárfesting því hægt er að hafa leigutekjur af annarri álmunni og einnig er hægt að selja hana síðar. Rekstarkostnaður hækkar líka þar sem bandalagið er einnig að greiða leigu hjá Brynju hússjóði. Einnig þarf alfarið að skipta um símkerfi. Á árinu 2014 gæti síðan komið til kostnaður vegna húsgagna, lagfæringa á bílastæðum og fleira.

Umræður:

Garðar Sverrisson, MS félaginu spurði hvort arkitektar kæmu frá Batteríinu og Lilja svaraði því til að svo væri en sagði að þeir hefðu jafnframt eftirlit með framkvæmdum en Harpa Ingólfsdóttir, byggingafræðingur hjá fyrirtækinu Aðgengi fylgist einnig með verkefninu ásamt húsnæðisnefnd bandalagsins.

Guðmundur Löve, SÍBS sagðist ánægður með húsið og lagði áherslu á að húsnæðisnefndin væri með í öllum ákvarðatökum. Guðmundur lagði áherslu á að sú álma sem ekki yrði nýtt verði leigð út sem fyrst og helst án nokkurra breytinga.

Ellen Calmon, ADHD samtökunum sagðist sammála Guðmundi L að leigja álmuna og að ekki verði farið í miklar breytingar á þeirri álmu, þó svo að það verði alltaf að huga að aðgenginu.

Guðmundur S. Johnsen, Félagi lesblindra spurði hvort það væri ekki óeðlilegt að þeir sem sæju um hönnun og arkitektúr tækju líka verkið út. Það væri þörf á hlutlausum aðila.

Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg lsf. tók undir með Guðmundi S. Johnsen og sagði það ekki vera rétt vinnulag að aðili hefði eftirlit með sjálfum sér. Hann var einnig sammála því að leigja hina álmuna út strax til að mæta kostnaði.

Guðmundur Magnússon benti á að Batteríið hefði ekki eftirlit með sjálfu sér en að það væri þeim í hag að verkið verði vel gert og því verði þeir að sjá til þess að framkvæmd breytinganna verði eins og þau hafa teiknað og húsnæðisnefnd og fleiri aðilar bandalagsins hafi á þeim tíma samþykkt. Varðandi hina álmuna sagði Guðmundur það ekki bandalaginu sæmandi að leigja út álmuna ef vantaði upp á aðgengið.

Fundarstjóri vann hjá arkitektum og samkvæmt lögum þeirra hafa þeir rétt á að skoða verk í 10 ár eftir að því er lokið en það er hægt að biðja óháða nefnd að taka út verkið.

Lilja sagði að beðið hefði verið með að ákveða hvað ætti að gera með B-álmuna, því talið var rétt að sjá fyrst kostnaðinn við hinn hluta húsnæðisins. Hún tók undir þá skoðun að leigja þyrfti álmuna út. Lilja kvað einnig gott að fá óháðan aðila til að hafa eftirlit og nefndi að húsnæðisnefnd ÖBÍ fylgist mjög vel með framkvæmdum, auk Hörpu Ingólfsdóttur í Aðgengi.     

Nú var tillaga framkvæmdastjórnar um hækkun á fjárhagsáætlun um 35 milljónir lesin. Tillagan var samþykkt samhljóða.

6. Næsti aðalstjórnarfundur

Lilja kynnti að samkvæmt dagskrá væri næsti fundur áætlaður 26. september en líklegra væri að hann félli niður. Næsti aðalstjórnarfundur verður því eftir aðalfund, fimmtudaginn 14. nóvember kl. 17-19.

7. Önnur mál

Ellen vakti máls á niðurstöðu rannsóknar sem var gerð á starfsemi ÖBÍ en hún var kynnt á fundi með aðildarfélögunum 7. september síðast liðinn. Mæting var dræm. Niðurstöðurnar byggja á djúpviðtölum við samstarfsaðila bandalagsins, þingmenn, almenning og félagsmenn og voru sláandi neikvæðar. Ellen sagði að komið hefði meðal annars fram að bandalagið hefði neikvætt orð á sér og að það haldi við aumingjastimpli á öryrkjum. Hún sagði að í ljósi þessa þurfi að endurskoða starfsemi bandalagsins og mikilvægt væri að aðalstjórnarfulltrúar fái kynningu á þessum niðurstöðum og að fundurinn sem væri áætlaður í næstu viku væri góður til þess. Ellen sagði nauðsynlegt að kynna niðurstöður fyrir aðalfund.

Fundarstjóri tók undir með Ellen að það þyrfti að breyta áliti á bandalaginu því það væri mat þeirra aðila sem við höfum mest samskipti við að við hefðum hátt og værum aggressív. 

Umræður:

Ægir sagði að félögin þyrftu að koma mikið og vel að þessu máli og að endurskoða þurfi starf bandalagsins. Taka bæri þessar niðurstöður alvarlega, taka höndum saman og vinna að því að gera bandalagið betra. Hann benti á að ekki hefði verið mikill munur á áliti þeirra hópa sem rætt var við og það hefði slegið sig mest því félagsmenn aðildarfélaganna ættu að vera hliðhollir störfum bandalagsins. Finnst verst að félagarnir hafi ekki betra álit á okkur en þeir sem við erum að berja á.

Garðar benti á að í fyrri könnun hafi niðurstöður verið jákvæðar. Fundarmenn veltu fyrir sér ástæðum þess að niðurstöðurnar væru neikvæðari núna, hvort kreppan gæti komið þar inn í.

Guðmundur J., Félagi lesblindra, kvað það ekkert skrítið að í þessu árferði væri álit þeirra sem við eigum samstarf við ekki mjög jákvætt.

Kristín  Björnsdóttir, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra benti á að við værum grasrótarsamtök og að sem slík ættum við ekki að vera stillt og prúð. Ellen svaraði Kristínu og sagði að það hefði ekki eingöngu verið rætt við pólitíkusa. Í nútímanum er gott að hafa samstarf milli aðila, það gengur oftast betur en neikvæð barátta. Lilja benti á að árferðið væri allt annað núna en áður. Það hefur verið stöðugur niðurskurður og ráðuneytisfólk ver aðgerðir stjórnvalda.

Grétar Pétur benti á að aðildarfélögin þyrftu líka að skoða sín störf í ljósi niðurstaðnanna því bandalagið væri að vinna töluverða vinnu sem í raun ætti heima hjá félögunum sjálfum. Hann setur ekki út á félögin sem slík en bendir á að slagkrafturinn í félögunum snýst um pening en það er hægt að gera margt annað, svo sem að skrifa greinar um ýmis mál.

Ómar Geir benti á að aðildarfélögin væru mjög mismunandi, misstór og misvirk og að fjármagn til félaganna hefði dregist verulega saman. Ægir tók undir það og sagði að félögin væru með margvísleg verkefni og væru að gera marga góða hluti en það væri harðara í ári.

Guðmundur, formaður, sagði að niðurstöðurnar sem kynntar voru á greiningarfundinum væru einungis drög/stöðuskýrsla nefndar um endurskoðun á bandalaginu sem aðalstjórn samþykkti að yrði stofnuð. Stöðuskýrslan yrði kynnt á aðalfundinum. Ellen og Garðar kváðu það betra að fá kynningu á stöðuskýrslunni fyrir aðalfund þó svo að endanleg skýrsla yrði kynnt þar. Lilja kvað best að fá þann aðila sem gerði könnunina á fund. Lilja sagði að hún hefði fyrir könnunina útbúið lista yfir þá 60 aðila sem bandalagið á helst samstarf við.

Halldór Sævar sagði að umræðan væri fín en lagði áherslu á að á aðalfundi var samþykkt framtíðarnefnd. Hún væri enn að störfum, sagðist hann treysta nefndinni. Það átti að kynna niðurstöður nefndarinnar á aðalfundi. Halldór hvatti fólk til að passa sig í umræðunni að fólk þyrfti að taka hana yfirvegað. Halldór benti á og sagði leitt hversu fá félög og fulltrúar þeirra mættu á greiningarfund nefndarinnar með aðildarfélögunum en á hann mættu eingöngu 15 félög en um 30 manns en félögin máttu öll senda tvo fulltrúa.

Rætt var um hvenær gögn (skýrslan) voru send og á hverja. Bent var á að gögn greiningarfundarins hefðu verið send til þeirra sem höfðu skráð sig á fundinn. Bent var á að gögnin væru enn trúnaðarmál.

8. Fundarslit

Fundi slitið kl. 18.55

Fundarritarar: Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þorbera Fjölnisdóttir