Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 2. maí 2013

By 17. desember 2013No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn miðvikudaginn 2. maí 2013, kl. 17.15 – 19.00 í Hátúni 10, Reykjavík.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar og gestir

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
CCU samtökin – Hrönn Petersen
FAAS – Svava Aradóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag nýrnasjúkra – Vilhjálmur Þór Þórisson
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Geðverndarfélag Íslands – Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
HIV-Ísland – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Kristín Michelsen
LAUF, félag flogaveikra – Helga Sigurðardóttir
Málbjörg – Árni Heimir Ingimundarson
Málefli – Kristján Geir Fenger
ME félag Íslands – Nanna G. Yngvadóttir
MND félagið – Guðjón Sigurðsson
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Guðmundur Löve
Sjálfsbjörg – Hilmar Guðmundsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Vilmundur Gíslason
Umsjónarfélag einhverfra/Einhverfusamtökin – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsfólk ÖBÍ

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Þórný Björk Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins bauð fundarmenn velkomna og kynnti að Klara Geirsdóttir, fulltrúi CP félagsins myndi byrja sem fundarstjóri, svo tæki Erna Arngrímsdóttir, fulltrúi SPOEX við og að Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra yrði tímavörður. Jón Gunnar Jónsson, FSFH, Guðmundur Löve, SÍBS, Kristín Michelsen, Hugarfari og Hilmar Guðmundsson, Sjálfsbjörg voru samþykkt sem auka fulltrúar sinna félaga þar sem hvorki aðal- né varamaður gátu mætt. Klara Geirsdóttir tók við fundarstjórn. Fundarmenn kynntu sig.

2.  Fundargerðir frá 14. mars og 3. apríl bornar upp til samþykktar.

Fundargerðirnar voru samþykktar.

3.  Skýrsla formanns.

Formaður fór í stuttu máli yfir skýrslu sína sem send hafði verið til fundarmanna fyrir fundinn.

Umræður.

Ellen Calmon, ADHD samtökunum, sagði að nýja lyfjagreiðsluþátttökukerfið væri mjög íþyngjandi fyrir ákveðna hópa, t.d. hefur fólk með ADHD ekki þurft að greiða fyrir lyf sem greitt er fyrir nú. Hún er ekki sátt við að réttur eins hóps sé skertur til að rétta hlut annars. Ellen bað um að bókað yrði að lögfræðingur ÖBÍ skoði hjá Umboðsmanni Alþingis hvort apótekum sé stætt á því að veita ekki afslátt á þeim forsendum að þá þurfi þau einnig að veita Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) sama afslátt.

Erna Arngrímsdóttir tók við fundarstjórn og sagði frá því að hver ræðumaður fengi 2 mínútur til að tjá sig í fyrstu umræðu og síðan tvisvar sinnum 1 mínútu.

Svava Aradóttir, FAAS og formaður hússtjórnar Þjónustuseturs líknarfélaga, sem staðsett er á 9. hæð, Hátúni 10b, spurði hvar umræðan varðandi aðkomu aðildarfélaga bandalagsins að nýju húsnæði væri stödd og óskaði eftir fundi með formanni og framkvæmdastjóra ÖBÍ hið fyrsta til að ræða málið. Formaður svaraði því til að skiptar skoðanir væru á því hvort félögin eigi að fylgja með eða ekki. Kanna þarf vilja þeirra og taka ákvörðun í framhaldi af því.

Guðbjörn Jónsson, Parkinsonsamtökunum, sagði að SÍ hefði ekki svarað erindum sínum varðandi nýja greiðsluþátttökukerfið og að þeir brytu stjórnarskrá Íslands og að kerfið væri í þversögn við 29. grein laga um sjúkratryggingar þar sem segir í 6. lið um lyf að ekki sé heimilt að taka gjald fyrir lyf sem sjúkratryggðum er nauðsynlegt að nota að staðaldri. Fólk með parkinson hefur fengið frí lyf fram að þessu og er þessi framkvæmd svo gróf að hún verður ekki liðin.

Halldór Sævar Guðbergsson, Blindrafélaginu, lýsti yfir ánægju sinni með  að fundur bandalagsins með fulltrúum þeirra framboða sem buðu fram til alþingiskosninga hefði verið sýndur á heimasíðu bandalagsins. Með því sinnir ÖBÍ einnig þeim sem búa á landsbyggðinni. Hann kom með hugmynd um að haldinn verði annar fundur í haust með þeim framboðum sem komust á þing þar sem rætt verður hvaða frumvörp og mál þeir ætli að leggja fram á nýju þingi varðandi málefni fatlaðs fólks.

Formaður þakkaði Halldóri hugmyndina en ræddi jafnframt um hugmynd sína um að haldið yrði námskeið fyrir alþingismenn varðandi málefni öryrkja.

4.  Styrkir til aðildarfélaga ÖBÍ. Úthlutun 2013.

Framkvæmdastjóri ÖBÍ, Lilja Þorgeirsdóttir, sagði frá því að 31 aðildarfélag ÖBÍ hefði sótt um styrk. Hún fór yfir verklag framkvæmdastjórnar við úthlutun styrkja. Tillögu framkvæmdastjórnar að styrkveitingum var dreift til fundarmanna. Samtals eru veittar 50 milljónir króna í styrki, 14,2 milljónir króna til grunnreksturs og 35,8 milljónir króna til sérgreindra verkefna.

Umræður.

Guðmundur Löve, SÍBS, sagði það fagnaðarefni þegar peningum væri úthlutað en minntist á að enn væri verið að veita styrki út fyrir bandalagið. Benti á að misræmi væri í því hvernig grunnstyrkirnir nýtast félögunum en þar sem þeir styrkir eru háðir félagafjölda kemur það niður á stóru félögunum. Bað um að bókað yrði að þeirri vinnu sem hafin var til að endurskoða úthlutunarreglur bandalagsins verði haldið áfram.

Níu fulltrúar tóku til máls og var sú skoðun reifuð að breyta ætti fyrirkomulagi styrkveitinga, mat á verkefnum ætti að vera faglegt, skoða ætti gæði þeirra og umfang, þannig að menn geti ekki búist við ákveðinni upphæð árlega. Taka ætti veitingu styrkja úr höndum framkvæmdastjórnar og láta faglega utanaðkomandi aðila meta styrkumsóknirnar. Einnig var nefnt að grunnstyrkir til stóru félaganna hefðu verið hækkaðir og að þau félög hefðu mun meiri möguleika á að afla sér peninga og varað var við því að hækka grunnstyrki frekar. Skiptar skoðanir voru á því hvort grunnstyrkir ættu að standa í stað eða hækka og hvort breyta ætti fyrirkomulagi styrkveitinga.

Framkvæmdastjóri sagði að endurskoða þyrfti úthlutunarreglurnar fyrir úthlutun 2014 og lagði til að nefnd sem endurskoðar þær verði skipuð mjög fljótlega.

Tillaga framkvæmdastjórnar um úthlutun styrkja til aðildarfélaga ÖBÍ varsamþykkt samhljóða.

Formaður kynnti aukagreiðslu frá Íslenskri getspá upp á 60 milljónir sem rann til eignaraðila. Af þeirri fjárhæð fengu ÖBÍ 24 milljónir. Framkvæmdastjórn lagði til að greiðslan færi til aðildarfélaga ÖBÍ á sama hátt og gert var með desember úthlutunina 2011, þannig að úthlutun færi eftir seturétti félaganna á aðalfundi. Félögin þurfa að senda inn áritaða ársreikninga og ársskýrslu til að fá úthlutunina greidda.

Tillögu framkvæmdastjórnar var dreift og var úthlutunin samþykkt samhljóða.

5.  Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur verður haldinn fimmtudaginn 30. maí, kl. 17-19.

6.  Önnur mál.

a) Flutningur skrifstofu ÖBÍ.

Formaður kynnti flutning bandalagsins og spurði hvort ekki væri vilji til að ræða það að bjóða aðildarfélögunum að flytja með ÖBÍ í Sigtún. Hægt væri að samnýta fundarsali o.fl. og gæti þetta því verið allra hagur.

Spurt var hvort mögulegt leiguverð hefði verið reiknað út? Svarið var að ekki er búið að ákveða verð en að það verði líklega á bilinu 1500 til 2000 krónur á fermetrann. Skoða þarf hvaða leiguverð er í gangi á svæðinu, hvað er eðlilegt og sanngjarnt. Æskilegt væri að húsnæðið ræki sig sjálft.

Spurt var hvort búið væri að skipa í nýja húsnæðisnefnd og hverjir ættu þá sæti í henni? Svarið var að búið er að skipa í nefndina og sitja eftirtaldir aðilar í henni: Dagný Erna Lárusdóttir, SÍBS, Emil Hallgrímsson, CCU samtökunum, Guðbrandur Garðars, MND félaginu, Guðmundur Magnússon, SEM samtökunum og formaður ÖBÍ, Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ÖBÍ og varamaður er Andri Valgeirsson, Sjálfsbjörg.

Ítrekað var að skoða þurfi öll aðgengismál og vanda til verka. Hönnunarvinna varðandni aðgengi þarf að fara strax af stað. Formaður sagði að náið samráð yrði við ferlinefnd ÖBÍ og að Harpa Celia hjá Góðu aðgengi myndi rýna í teikningar arkitekta og skoða aðgengi fyrir alla hópa.

7.  Fundarslit.

Fundi var slitið kl. 18:40.

Fundarritarar: Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.