Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 20. janúar 2010

By 4. maí 2010No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn í Hátúni 10, 9. hæð, miðvikudaginn 20. janúar 2010, kl. 17.00-19.30.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

Árni Þ. Birgisson, Málbjörg
Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu
Eydís Sveinbjarnardóttir, Geðverndarfélaginu
Friðjón Erlendsson, Daufblindrafélaginu
Frímann Sigurnýasson, SÍBS
Grétar P. Geirsson, Sjálfsbjörg
Guðbjörg J. Sigurðardóttir, Blindravinafélaginu
Guðbjörg K. Eiríksdóttir, Kvennahreyfingu ÖBÍ
Guðmundur Magnússon, SEM samtökunum
Hjördís A. Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra
Ingi H. Ágústsson, HIV-Íslandi
Ingibjörg Sigfúsdóttir, MS félaginu
Jón Þorkelsson, Stómasamtökunum
Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra
Kristín Ármannsdóttir, FSFH
Kristín Michelsen, Hugarfari
Lárus R. Haraldsson, Geðhjálp
María Th. Jónsdóttir, FAAS
Málfríður D. Gunnarsdóttir, Heyrnarhjálp
Ómar G. Bragason, Samtökum sykursjúkra
Sigrún Gunnarsdóttir, Tourette samtökunum
Snorri M. Snorrason, Parkinssonsamtökunum
Sturla Þengilsson, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Þórdís Bjarnadóttir, Málefli
Ægir Lúðvíksson, MND félaginu
Örn Ólafsson, CP félaginu

Starfsfólk:

Anna G. Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður H. Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Þórný B. Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, bauð fundarmenn velkomna og bað þá um að kynna sig.

2. Kynning á verkefninu virkara velferðarkerfi (ViVe), sjálfstætt líf utan stofnana. Oddur Ástráðsson, starfsmaður ViVe verkefnisins kynnir hugmyndina.

Sjálfstætt líf og notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) var höfð að leiðarljósi við vinnslu verkefnisins. Hugmyndin var að ýta við stjórnvöldum til að koma á NPA. Undirbúningur verkefnisins hófst í september 2009. Í verkefnahópnum voru: Guðjón Sigurðsson, Guðmundur Magnússon, Sigursteinn Másson, Evald Krog og Sigrún Björk Jakobsdóttir, sem er forseti bæjarráðs á Akureyri og hefur setið í undirbúningsnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga um tilfærslu á grunnþjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Vigdís Finnbogadóttir er verndari verkefnisins. Heimasíða þess er www.vive.is.

Þungamiðja verkefnisins var í september til október 2009 og var m.a. farið í heimsóknir til þeirra sem þurfa á NPA að halda. Í nóvemberlok voru tillögur lagðar fyrir ráðherra. Guðmundur Steingrímsson þingmaður Framsóknarflokksins hefur sett saman þingsályktunartillögu um að NPA verði notuð sem þjónustuleið fyrir þá sem vilja. Meðflutningsmenn úr öllum flokkum munu skrifa undir tillöguna.

Landssamband eldri borgara kom að starfinu í miðju ferli og í árslok 2009 var samþykkt á aðalfundi eldri borgara að leggja meiri áherslu á þessa leið í stað stofnanavæðingar. Talað var við lífeyrissjóðina varðandi styrki og hafa nokkrir þeirra ákveðið að leggja málefninu lið á þessu ári.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var beðin um að reikna út ábatann og kostnað í tengslum við breytingu yfir í NPA. Vonandi liggur samantektin fyrir í febrúar eða mars 2010. Gögn til útreiknings eru ekki aðgengileg og sum eru ekki til, t.d. er ekki vitað hver heildarþjónustuþörfin er.

Opnað var fyrir umræður og fyrirspurnir.

Spurt var hvaða munur væri á hugtökum, sem virðast vera nokkur yfir sama hlut og aðferðarfræði? Af hverju heitir þetta aðstoð en ekki þjónusta?

Oddur svaraði því til að á norðurlöndum væri farið mismunandi leiðir. Í Svíþjóð fer fólk beint inn í kerfið, í Danmörku er meiri aðgreining og NPA er aðallega fyrir fólk með hreyfihömlun. ViVe leggur áherslu á að þjónustuþörf sé metin út frá félagslegum forsendum en ekki læknisfræðilegu mati og að þjónustumatið sé aðskilið mati á aðbúnaði.

Formaður svaraði spurningunni varðandi hugtökin. Þjónusta er eitthvað sem er veitt út frá forsendum þjónustuveitanda, aðstoð ræður maður sjálfur, hún er fengin á forsendum einstaklingsins.
Framkvæmdastjóri bað um að þingsályktunartillagan yrði send til ÖBÍ.

3. Fundargerð frá 16. desember 2009 borin upp til samþykktar. (Fylgiskjal 1)

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram.

Lárus R. Haraldsson, Geðhjálp, bað um að bókað yrði að hann hefði ekki mætt á síðasta fund þar sem fundarboð komst ekki til skila til hans. Óskaði eftir því að aðalstjórnarfundarboð yrði sent á formann, aðalfundarfulltrúa og varamann.

Fundargerð samþykkt samhljóða.

4. Skýrsla formanns.

Formaður flutti skýrslu sína. Skýrslan fylgir með fundargerð sem viðhengi.
Orðið var gefið laust um skýrsluna. Enginn kvað sér hljóðs.

5. Fjárhagsáætlun 2010, frh. frá seinasta fundi. (Fylgiskjal 2)

Fjárhagsáætlun 2010 var lögð fram en hún var kynnt á seinasta fundi. Formaður óskaði eftir að tveir liðir í fjárhagsáætlun yrðu hækkaðir.

1. Aðkeypt ráðgjöf og álitsgerðir hækki í 5 milljónir úr 2. Vísað var til samþykktar sem gerð var á aðalstjórnarfundi að ÖBÍ léti kanna kosti og galla þess, fyrir aðildarfélög ÖBÍ, að ganga í ESB. Við þá könnun þarf að láta vinna skýrslur, álitsgerðir og fleira og óvíst er hversu hár sá kostnaður verður.

2. Aðrir styrkir hækki í 6 milljónir úr 3. ViVe verkefnið var styrkt um þrjár milljónir og rétt væri að styrkja Samtök fólks um sjálfstætt líf (SSL) um sömu upphæð og því hækkar liðurinn sem því nemur. SSL vinnur að því að stofna samvinnufélag sem mun aðstoða fólk við að fá NPA.

Spurt var af hverju ekki væri komið á einum hóp ef allir eru að vinna að sama málinu? Eru samvinnufélög eða einkafélög sem standa að rekstri í tengslum við NPA á norðurlöndum?

Formaður sagði að SSL hefði verið stofnað 17. júní 2009 en að Guðjón Sigurðsson, MND félaginu, hefði fengið Evald Krog hingað til lands án samvinnu við SSL. Varðandi rekstur þá eru fjögur mismunandi rekstrarform í gangi í Svíþjóð en hér hugnast fólki best samvinnufélög.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, leiðrétti þetta og sagði að samstarf við Danina hófst árið 2004 og hefur Evald Krog komið til Íslands nokkrum sinnum áður til að hitta ráðherra og fleiri. Aðrir hópar hafa unnið í hljóði. Spurði um lektorsstöðuna í Háskólanum, hvort það væri fyrir tiltekið verkefni sem tengdist okkar fólki beint, því rætt hefur verið að ÖBÍ á ekki að gera það sem ríkinu ber? Er Kvennahreyfingin ekki aðili að styrkjunum sem úthlutaðir eru? Af hverju er þessi mikla hækkun í öðrum styrkjum?

Formaður sagði að peningarnir yrðu eyrnamerktir fötlunarfræði HÍ, því þau berjast fyrir lífi sínu. Gera þarf samning milli ÖBÍ og fötlunarfræði HÍ þar sem fram kemur hvað við viljum fá út úr samstarfinu. Kvennahreyfingin hefur verið hluti af rekstri skrifstofu bandalagsins og því ekki beinn aðili að styrkjum ÖBÍ. Með því að skilgreina fjármagnið sem fer til Kvennahreyfingarinnar sérstaklega í fjárhagsáætlun er verið að gera hana sýnilegri. Varðandi hækkun á öðrum styrkjum þá er m.a. hugmyndin sú að ÖBÍ geti aðstoðað aðildarfélög eða dótturfyrirtæki ef þau lenda í fjárhagsvandræðum á árinu og væri sérstakur neyðarsjóður hugsaður til þess.

Fram kom í máli fulltrúa að mjög mikilvægt starf er unnið í fötlunarfræðinni og að það sé lykilatriði að ÖBÍ styðji við það starf. Einnig að fylgja þyrfti áætlun og fylgjast með því hvort farið sé fram úr kostnaðaráætlun í ákveðnum liðum og ef það gerist að taka það þá upp á aðalstjórnarfundi og fá samþykki fyrir því.
Rætt var um tímarit ÖBÍ. Menn voru almennt sammála um að núverandi brot blaðsins sé óþægilega stórt og að lífdagar þess séu styttri en ef það væri í tímaritaformi. Hugmynd kom upp um að hafa blaðið viðaminna og vísa í heimasíðuna eða að búa til auglýsingu á mbl.is þar sem vísað er í viðhorf ÖBÍ til ýmissa mála, sem efst eru á baugi hverju sinni.

Breytingartillögur voru bornar upp, hver liður fyrir sig.
Aðkeypt ráðgjöf og skýrslugerð hækka upp í 5 milljónir. Samþykkt.
Aðrir styrkir hækka upp í 6 milljónir. Samþykkt.
Fjárhagsáætlunin í heild sinni var samþykkt.

Hlé var gert á fundi frá kl. 18:20 til 18:30.

6. Viðmiðunarreglur um úthlutun á styrkjum bandalagsins til aðildarfélaganna. (Fylgiskjal 3)

Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu, sagði að framkvæmdastjórn félagsins hafi farið yfir tillögur að reglunum. Fyrir hönd stjórnar Gigtarfélagsins lagði hann fram átta breytingartillögur við upphaflegu tillöguna.

Breytingatillaga 1

Eftirfarandi texti verði strokaður út:
Allar tölur í þessum tillögum eru miðaðar við að úthlutað sé 50 milljónum króna í heildina. Þar af sé um 20% af fjárhæðinni úthlutað samkvæmt lið 1 en um 80% samkvæmt lið 2.
Og í stað komi:
Miða skal við að um 20% af styrkfjárhæð hvers árs verði úthlutað samkvæmt lið 1 og um 80% samkvæmt lið 2.

Breytingatillaga 2

Í neðangreindum texta strokist út orðin: meiriháttar viðhald eða endurbæt-ur á húsnæði sem nýtist öryrkjum;
Félög geta sótt um styrki fyrir sérstök verkefni, svo sem fundi og ráðstefnur bæði innanlands og utan; fundahöld með félagsmönnum; meiriháttar viðhald eða endurbætur á húsnæði sem nýtist öryrkjum; kaup áhalda og tækja; útgáfu afmælisrits eða annarra sérstakra ritverka; átaksverkefna ýmis konar o.fl.

Breytingatillaga 3

Eftirfarandi texti verði strokaður út:
Hámarksstyrkur samkvæmt tölulið 2 er 3.5 milljónir króna. Félög geta ekki fengið hámarksstyrk nema tvö ár í röð.

Og í stað komi:
Við auglýsingu styrkja er framkvæmdarstjórn ÖBÍ heimilt að auglýsa hámarks- og lágmarksstyrki.

Breytingatillaga 4

Bætt verði inn nýju atriði sem tillit skal taka til við úthlutun styrkja:
Algengi fötlunarhóps og þröskuldi hindrana (þyngd fötlunar) í samfélaginu.

Breytingatillaga 5

Röð atriða verði sem hér segir:

1)(Áður eitt) Virkni félagsins í starfi ÖBÍ, svo sem mæting fulltrúa félagsins á aðalstjórnarfundi ÖBÍ (80% mæting telst fullnægjandi) og mæting á aðalfund ÖBÍ (tveir fulltrúar telst fullnægjandi).

2)(Nýtt viðmið) Algengi fötlunarhóps og þröskuldi hindrana (þyngd fötlunar) í samfélaginu.

3)(Áður þrjú) Eðlis verkefnis – er það nýjung, framhald af eldra verkefni eða hefðbundið.

4)(Áður fjögur) Stærðar félags.

5)(Áður tvö) Frágangi umsóknar.
Einnig er ábending um hvort eftirfarandi orðalag geti orkað tvímælis:
Athuga skal hvort sótt er um vegna eðlilegrar þjónustu félagsins eða þjónustu sem opinberir aðilar ættu að veita.

Breytingatillaga 6

Síðasta setning eftirfarandi texta falli út:
Útborgun styrkja samkvæmt bæði tölulið 1 og 2 fer ekki fram fyrr en félag hefur skilað ársreikningi undirrituðum af meirihluta stjórnar og skoðunar-mönnum reikninga. Einnig þarf félag að hafa skilað ársskýrslu til birtingar í ársskýrslu ÖBÍ (má þarfnast styttingar).

Breytingatillaga 7

Við almenn ákvæði bætist:
Framkvæmdastjórn skal koma sér saman um, vinna skrifleg vinnuviðmið, sem snúa að ákvörðun styrkja, s.s. lágmarkstíma sem fulltrúar hafa til að kynna sér umsóknir, framlagningu tillagna hvers og eins á ákvörðunar-fundum og úrvinnslu.

Breytingatillaga 8

Við almenn ákvæði bætist:
Reglur þessar og viðmið skulu endurskoðast að tveimur árum liðnum, fyrir úthlutun árið 2012.
Nokkur umræða var um upphaflegu tillögurnar og breytingatillögur Gigtarfélagsins. Voru fundarmenn almennt á því að halda ætti inni tillögunni um að félögin geti sótt um styrki til viðhalds og/eða framkvæmda og eins að halda inni því skilyrði að skila verði ársskýrslu og ársreikningum. Nokkur umræða var einnig um hversu mikið „algengi fötlunar/sjúkdómahópa“ ætti að gilda til útgreiðslu styrkja. Spurt var hvort aðstandendafélög væru útilokuð í tillögum Gigtarfélagsins með tilkomu algengi fötlunar/sjúkdómahópa? Emil svaraði því til að svo væri ekki, því slík félög tengdust ákveðnum fötlunar/sjúkdómahópum.
Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra, gerði tillögu þess efnis að tillaga nefndarinnar verði samþykkt óbreytt, þær gildi í tvö ár og nefnd verði skipuð sem endurskoðar reglurnar og metur hvernig til hefur tekist. Eftir nokkrar umræður dró Jórunn tillögu sína til baka.
Á síðasta aðalstjórnarfundi komu fram breytingartillögur frá Sigríði Jóhannsdóttur, Félagi sykursjúkra og Sturlu Þengilssyni, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, sem þarf að ræða líka.
Formaður lagði til að allar breytingartillögur sem fram hafa komið yrðu settar upp í eitt skjal og sent aðildarfélögum til skoðunar. Félögum verði gefinn kostur á að senda inn tillögur að breytingum til og með 9. febrúar. Allar tillögur verða síðan teknar fyrir lið fyrir lið á aðalstjórnarfundi 24. febrúar nk. Samþykkt.

7. Fjárlög 2010.

Ákveðið var að fresta þessum lið þar til síðar.

8. Ályktun ÖBÍ. (Fylgiskjal 4)

Formaður las eftirfarandi ályktun ÖBÍ sem var samþykkt samhljóða án breytinga.
Öryrkjabandalag Íslands mótmælir þeim kjaraskerðingum sem felast í því að aftengja lög er tryggja hækkun lífeyris miðað við vísitölu en halda verðtryggingu lána, sem hefur hækkað húsnæðiskostnað upp úr öllu valdi.

Öryrkjabandalag Íslands mótmælir þeirri breytingu á lögum er gera Úrskurðarnefnd almannatrygginga kleift að beita aðfararhæfi gegn þeim er Tryggingastofnun ríkisins telur sig hafa ofgreitt. Með þessu getur ÚRAL gengið að eignum fólks án dómsúrskurðar, sem þarf við almennar skuldir. Lífeyrisþegar eru þannig orðnir annars flokks borgarar.

Öryrkjabandalag Íslands mótmælir þeirri áráttu stjórnvalda að byrja ávallt á lífeyrisþegum þegar þarf að draga saman seglin. Með því að skerða lífeyri fólks og auka kostnaðarþátttöku þess í heilbrigðiskerfinu verða einstaklingarnir veikari fyrir og þurfa á dýrari úrræðum að halda síðar.

Reykjavík 20. janúar 2010
Aðalstjórn ÖBÍ

9. Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur verður haldinn 24. febrúar nk.

10. Önnur mál.

Ekkert var rætt undir þessum lið.

Formaður sleit fundi kl. 19.30.

Fundarritarar; Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.