Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ, 20. september 2005

By 5. janúar 2006No Comments

Fundargerð

Þriðjudaginn 20. september 2005 kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar að Hátúni 10, 9. hæð. Hófst fundurinn kl. 17:10. Fundi stýrði formaður Öryrkjabandalags Íslands, Emil Thóroddsen. Fundargerð ritaði Arnþór Helgason, framkvæmdastjóri bandalagsins.
Þessir sátu fundinn:

Gísli Helgason – Blindrafélaginu
Elísabet Á Möller – Geðverndarfélaginu
Arnþór Helgason – ÖBÍ
Emil Thóroddsen – Gigtarfélaginu
Helgi Seljan – MG-félaginu
Garðar Sverrisson – Daufblindrafélaginu
Ragnar Gunnar Þórhallsson – Sjálfsbjörg
Ingi Hans Ágústsson – Alnæmissamtökunum
Guðmundur Magnússon – SEM samtökunum
Steinunn Þóra Árnadóttir – MS– félaginu
Kjartan Sigurjónsson – Stómasamtökunum
Sveinn Rúnar Hauksson – Geðhjálp
Þröstur Sverrisson – Umsjónarfélagi einhverfra
Berglind Stefánsdóttir – Félagi heyrnarlausra
Kristín Á. Björnsdóttir – Félagi sykursjúkra
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir – Blindravinafélaginu
Jónína B. Guðmundsdóttir – LAUF
María Th. Jónsdóttir – FAAS
Bryndís Snæbjörnsdóttir – FSFH
Bára Snæfeld – ÖBÍ
Guðríður Ólafsdóttir – ÖBÍ

Alls voru þetta fulltrúar 18 aðildarfélaga bandalagsins. Fulltrúar annarra félaga boðuðu hvorki forföll né sendu varamann.

Yfirlit formanns og framkvæmdastjóra.

Hinn 1. júní síðastliðinn var undirritaður samningur við Stefán Ólafsson, prófessor, um gerð skýrslu, samanber síðustu fundargerð, og er vinnuheiti hennar “Örorka á Íslandi í fjölþjóðlegum samanburði”. Er hún væntanleg í lok mánaðarins. Formaður rakti nokkuð efnistök Stefáns og sagi að leitað yrði eftir upplýsingum og samanburði við önnur ríki. Hann lagði áherslu á að hér væri ekki um eiginlegt andsvar við skýrslu Tryggva Þórs Herbertssonar að ræða heldur sjálfstæða skýrslu sem ætlað er að víkka þann sjóndeildarhring sem umræðan þarf að vera í.

Hinn 9. júní boðaði Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið til fundar þar sem lokaskýrsla starfshóps um endurhæfingu var kynnt og rædd. Ýmislegt gagnrýnis¬vert er að finna í skýrslunni en þó kvað formaður ljósa punkta þar innan um. Þeir, sem sóttu fundinn af hálfu Öryrkjabandalagsins, Hringsjár, starfsþjálfunar fatlaðra og Vinnustaða ÖBÍ ákváðu að hittast og sendu frá sér greinargerð um skýrsluna skömmu eftir miðjan mánuð. Vísaði formaður að öðru leyti til væntanlegrar ársskýrslu Öryrkjabandalagsins þar sem greinargerðin verður birt. Formaður sagðist ekki vita hver örlög skýrslunnar verða en hefur á tilfinningunni að henni hafi jafnvel verið stungið undir stól eftir að greinargerðin barst frá bandalaginu. Kvað hann það slæmt því að nauðsynlegt væri að vinna í málinu áfram. Þá sagðist hann hafa á tilfinningunni að Vinnumálastofnun hefði hug á að annast vissa þætti sem nefndir væru í skýrslunni.

Um miðjan júní, þegar flestir voru annaðhvort farnir í sumarfrí eða teknir að undir¬búa það barst um 1300 lífeyrisþegum bréf frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna þar sem fólk var krafið um skattagögn frá því þremur árum fyrir örorkumat þess og var leitað allt aftur til ársins 1970. Sagði formaður að bréfið hefði verið hið ósmekklegasta og hefði fólki verið gert að skila þessum gögnum fyrir 15. júlí, að öðrum kosti féllu bætur þess niður frá og með 1. október. Starfsmenn Öryrkjabandalagsins ráðlögðu fólki að skila inn umbeðnum gögnum. Bandalagið mótmælti þessu bréfi harðlega og boðaði fulltrúa sjóðanna á fund þann 9. ágúst. Á fundinum fengust ekki fullnægjandi skýringar á því hvaða rétt sjóðirnir teldu sig hafa til þess að skrifa slík hótunarbréf. Öryrkjabandalagið áskildi sér allan rétt til þess að fylgja málinu eftir og verja rétt skjólstæðinga sinna ef á þyrfti að halda.

Um miðjan júnímánuð boðaði Starfsgreinasambandið ýmsa aðila til fundar vegna málefna Mannréttindaskrifstofu Íslands, en eins og kunnugt er fékk hún ekki þann stuðning við gerð síðustu fjárlaga sem búist hafði verið við. Var á fundinum ákveðið að tryggja rekstur skrifstofunnar til næstu áramóta og samþykkti fram¬kvæmdastjórn bandalagsins að veita til þess hálfri milljón króna.

Mál Öryrkjabandalags Íslands á hendur ríkisstjórninni hefur verið lengi til umræðu. Haldnir hafa verið fundir með Ragnari Aðalsteinssyni og stendur nú yfir vinna vegna stefnunnar. Er víst að málið verði þingfest í nóvembermánuði og verður dagsetning tilkynnt á aðalfundi bandalagsins.

Þá vék formaður að aldurstengdu örorkuuppbótinni sem fellur niður við 67 ára aldur, en uppbótin var hluti af samkomulagi bandalagsins við ríkisstjórnina. Nú eru tæplega 700 manns sem eiga rétt á uppbótinni en fá hana ekki vegna aldurs. Félag eldri borgara óskaði eftir fundi með fulltrúum Öryrkjabandalagsins og var þar málið reifað. Hafa eldri borgarar ákveðið að ræða það sérstaklega við ríkisstjórnina. Kvað formaður það vel því að bandalagið er tunguheft í þessu máli vegna málaferlanna framundan. Helgi Seljan skaut inn í umræðuna að Félag eldri borgara hefði leitað eftir fundi með Jóni Kristjánssyni vegna málsins. Kvaðst hann hafa heyrt þær raddir úr Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu sem spurðu hvort félagið ætlaði að taka þátt í að mismuna eldri borgurum eftir því hvort þeir væru fatlaðir.

Framkvæmdastjórn skipaði kjaramálanefnd á fundi sínum 16. ágúst síðastliðinn, en starfsumgjörð nefndarinnar hafði verið samþykkt á fundi 14. júní og send félögunum til umsagnar. Eftirtaldir fulltrúar voru skipaðir: Ingimundur Guðmunds¬son, Geðhjálp, formaður; Svala Björgvinsdóttir, Gigtarfélaginu, varaformaður; Örn Sigurðsson, Sjálfsbjörg; María Th Jónsdóttir, félagi aðstandenda Alzheimer¬sjúklinga; Sigrún Gunnarsdóttir, Tourette samtökunum. Varamenn: Málfríður Gunnarsdóttir, Heyrnarhjálp og Eiríkur Ágúst Guðjónsson, MS félagi Íslands. Starfsmaður kjaramálanefndar verður Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi.

Formaður vék að lokum að miklum önnum á skrifstofunni sem stöfuðu fyrst og fremst af kröfum Tryggingastofnunar ríkisins á hendur lífeyrisþegum. Var Rakel Elíasdóttir, laganemi, ráðin til þess að sinna þeim störfum og fleira sem snerti Tryggingastofnun ríkisins. Þakkaði formaður starfsfólki vel unnin störf og afköst þrátt fyrir fámenna liðsheild. Taldi hann auðsætt að ráða þyrfti viðbótarstarfsmann á skrifstofu bandalagsins í náinni framtíð.

Framkvæmdastjóri rakti síðan nokkur atriði:

Aðalfundur EDF var haldinn í Barcelona í maí síðastliðnum og sóttu hann Valgerður Ósk Auðunsdóttir og Emil Thóroddsen. Þar var í fyrsta sin kosið samkvæmt nýjum lögum samtakanna og var þetta því þýðingarmikill fundur.

Framkvæmdastjóri sótti námskeið sem haldið var í Maastricht í Hollandi 21. – 26. júní og fjallaði um Evrópurétt fatlaðra. Íslendingar eru sjálfkrafa áskrifendur að ýmsum tilskipunum Evrópusambandsins sem byggja á Maastricht-sáttmálanum en hann er grundvöllur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Aðrir hlutar Evrópulöggjafarinnar grundvallast á Amsterdam-sáttmálanum sem er ekki hluti samningsins. Minntist framkvæmdastjóri einkum á tilskipunina um bann gegn mismunun á vinnumarkaði vegna trúarbragða og skoðana, kynhneigðar, fötlunar og aldurs. Þá vék hann að þeirri leið sem hægt er að fara með kærur beint til Evrópuráðsins en til þess þurfa samtök að vera lögskráð á Evrópska efnahags¬svæðinu. Er mælt með samstarfi við verkalýðshreyfingu viðkomandi lands, en hreyfingin nýtur samþykkis á svæðinu. Ræddi hann einnig um nauðsyn þess að lögskrá Öryrkjabandalagið eftir að lagabreytingar hafa verið samþykktar á næsta aðalfundi.

Framkvæmdastjóri vék síðan að aðalfundinum 19. okt., og kvað undirbúning ganga samkvæmt áætlun. Allmörg félög hafa hvorki skilað reikningum né ársskýrslum eins og lög bandalagsins gera ráð fyrir. Beindi hann því til fulltrúa í aðalstjórn að þeir hefðu samband við félögin og kölluðu eftir þessum gögnum. Þá kvað hann brýnt að tilkynnt yrði um fulltrúa á fundinn til þess að hægt yrði að senda þeim gögn í tæka tíð.

Stefnt var að því að dreifa Kynningarriti Öryrkjabandalagsins með Morgunblaðinu 30. sept. Af því gat ekki orðið vegna þess hversu seint gögn bárust frá nokkrum aðildarfélaganna. Að ráði varð að fá Garðar Guðjónsson, blaðamann, til þess að ganga endanlega frá ritinu til umbrots og prentunar og er stefnt að dreifingu þess eigi síðar en 14. okt.

Formaður hnykkti á orðum framkvæmdastjóra um aðalfund EDF. Hann kvað mikilvægar breytingar hafa orðið á lögum samtakanna sem styrktu mjög stöðu öryrkjabandalaganna á kostnað ýmissa evrópskra samtaka..

Umræður um skýrslu formanns og framkvæmdastjóra.

Steinunn Þóra Árnadóttir og Sveinn Rúnar Hauksson gerðu athugasemdir við skipun í kjaramálaráð og töldu að útsent bréf hefði verið þannig orðað að allir, sem tilnefndir yrðu, væru sjálfkrafa skipaðir. Formaður og framkvæmdastjóri skýrðu málið. Fyrst var beðið um tilnefningar áður en starfsumgerðin var tilbúin. Þegar starfsreglurnar höfðu verið samþykktar á fundi framkvæmdastjórnar 14. júní síðastliðinn voru þær sendar félögunum til umsagnar og bárust engar athugasemdir. Um leið var beðið um nýjar tilnefningar. Þar sem engar bárust var skipað í nefndina samkvæmt þeim tilnefningum sem fyrir lágu og í samræmi við áður samþykktar reglur. Formaður þakkaði ábendingar og sagði að þær leiddu til þeirrar niðurstöðu að ekki ætti að biðja um tilnefningar í nefndir fyrr en starfsum¬gjörð lægi fyrir.

Helgi Seljan sagðist hafa vakið athygli Félags eldri borgara á því hversu miklum árangri Öryrkjabandalagið hefði í raun náð með aldurstengdu örorkuuppbótinni sem sýndi sig best í því að tekjuhrap þeirra ellilífeyrisþega sem hefðu verið öryrkjar frá ungum aldri væri mikið. Taldi hann rétt að menn hefðu þetta í huga. Hann vék svo að orðum formanns sem hafði sagt að menn hefðu verið uppteknir við það að vera í sumarfríi og kastaði fram þessari vísu:

Víkinga ykkur víst ég tel
og virðist sko engin lygi
fyrst þið nú svona vinnið vel
og vasklega í sumarfríi.

Ragnar Gunnar Þórhallsson tók undir orð Helga Seljan um aldurstengdu örorku¬uppbótina og sagði að rökin fyrir samþykkt hennar sýndu m.a. hversu órökrétt væri að hún félli niður við 67 ára aldur. Þá bað hann um nánari skýringu formanns á orðum hans um afstöðu Vinnumálastofnunar til endurhæfingar. Formaður svaraði því að hann hefði það á tilfinningunni að starfsmenn Vinnu¬málastofnunar “losi þjónustuþáttinn í þessu”. Formaður og framkvæmdastjóri skýrðu síðan nánar gerð starfsumgjörðar kjaramálanefndar sem spratt m.a. af athugasemdum frá nokkrum aðildarfélaganna, en þau töldu vanta starfsreglur fyrir nefndina.

Nýtt kennimerki Öryrkjabandalags Íslands.

Bára Snæfeld kynnti fundarmönnum nýtt kennimerki Öryrkjabandalags Íslands. Starfsmenn auglýsingastofunnar Hvíta hússins voru fengnir til að gera drög að merkinu og komu að því af hálfu bandalagsins Emil Thóroddsen, Bára Snæfeld, Valgerður Ósk Auðunsdóttir, Rakel Elíasdóttir og Arnþór Helgason. Tillögur voru bornar undir starfsmenn Öryrkjabandalagsins, Hússjóðs, Gigtarfélags Íslands og Hvíta hússins auk þess sem framkvæmdastjórn fjallaði um hugmyndirnar. Niðurstaðan varð eitt merki sem unnið var með í nokkrum litum. Tvær litahugmyndir þóttu bera af.

Form kennimerkisins eru þrjár bogalínur sem fléttast hver í aðra. Neðsti og efsti boginn eru í sama lit en miðboginn hefur sérlit. Í svart/hvítu eða þegar bréfsefni verður ljósritað aðgreina litirnir sig vel.

Letur: nafn Öryrkjabandalags Íslands sett fram í einni línu og síðan sem upphafsstafir, báðar gerðir í hástöfum.
1. Bogarnir mynda 2/3 úr hring utan um Ö í upphafstöfum bandalagsins ÖBÍ.
2. Bogarnir mynda 2/3 úr hring utan um Ö og R í nafni Öryrkjabandalags Íslands.

Litasamsetning er dökksægrænn litur (litanr. PANTONE 560-C) í efsta og neðsta boga. Í miðboga er dökkgulur litur (PANTONE 130-C). Letur er dökksægrænt eins og í bogunum.

Nokkrar umræður urðu um kennimerkið og luku flestir lofsorði á það.

Önnur mál.

Gísli Helgason greindi frá því að forstöðumönnum Heyrnar- og talmeinastöðvar ríkisins og Sjónstöðvar Íslands hefði verið tilkynnt í síðustu viku að ráðherra heil¬brigðismála hefði ákveðið að sameina stofnanirnar frá og með næstu áramótum. Taldi Gísli að þessi ákvörðun myndi ekki leiða til bættrar þjónustu við hópinn þar sem þessar stofnanir þyrftu fyrst og fremst á auknu fjármagni að halda. Þá sagði hann að vart gæti ólíkari þarfir en á meðal blindra og sjónskertra annars vegar og heyrnarlausra og heyrnarskertra hins vegar. Kvað hann vanda stofnanna nú þegar ærinn vegna fjárskorts. Þá kvað hann ákvörðun ráðherra hafa verið tekna án nokkurs samráðs við hagsmunasamtökin.

Berglind Stefánsdóttir sagði að þessi ákvörðun hefði algerlega komið í opna skjöldu. Kvaðst hún hafa rætt málið við forstöðumann Heyrnar- og talmeina¬stöðvarinnar sem segði að stofnanirnar yrðu einungis fluttar í sama húsnæði en ekki sameinaðar. Sagðist hún vilja bíða fundar með ráðherra sem verði haldinn 22. þessa mánaðar.

Bryndís Snæbjörnsdóttir taldi að hugsanleg samvinna eða sameining stofn¬ananna fæli í sér mörg tækifæri. Hún bað menn að setja sig ekki í skotgrafir fyrirfram og fannst viðbrögð sumra mótast af fordómum. Ræddi hún um van¬þekkingu sérfæðinga á málefnum daufblindra, þ.e. starfsmanna Sjónstöðvar á heyrnarleysi og Heyrnar- og talmeinastöðvar á sjónskerðingu. Einnig taldi hún greiningu daufblindra barna mjög áfátt og sagði að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins vísaði yfirleitt slíkum málum á Sjónstöð.

Gísli tók undir orð Bryndísar um fordómalausa skoðun málsins en ítrekaði þá skoðun sína að litlar framfarir yrðu í málefnum daufblindra fyrr en litið yrði á daufblindu sem sérstaka fötlun og henni sinnt hér á landi eins og á öðrum Norðurlöndum.

Sveinn Rúnar Hauksson lagði til að forystumenn þeirra félaga sem hlut eiga að máli, hittust áður en þau fara á fund ráðherra. Hann taldi mestu skipta að stofnunum yrði búinn sem bestur starfsgrundvöllur og áréttaði að þessi félög ólíkra fatlana flyttu ekki saman heldur tvær stofnanir. Fólk yrði að vinna saman og bil milli fatlana þyrfti að brúa.

Bryndís Snæbjörnsdóttir tók aftur til máls og gerði frekari grein fyrir þeim þremur stofnunum sem sjá um greiningu fatlaðra barna, Greiningarstöð, Sjónstöð og Heyrnar- og talmeinastöð og þeim vandræðum sem af því hlytust fyrir daufblind börn. Sagðist hún treysta starfsfólki Sjónstöðvar og Heyrnar- og talmeinastöðvar til þess að meta kosti og galla sameiningarinnar.

Arnþór Helgason gagnrýndi þessa ákvörðun ráðherra og kvaðst hafa fyrir því heimildir að ekki ætti að auka fjármagn til þessara stofnana. Því væri ekki að vænta betri þjónustu. Hann taldi einnig að upphaflega hefði greining barna ekki verið á hendi Sjónstöðvar en greiningarstöðin hefði ýtt henni frá sér.

Formaður taldi rétt að fulltrúar félaganna sem hlut eiga að máli hittust og samræmdu spurningar sem leggja þyrfti fyrir ráðherra. Hann kvað mestu skipta að þjónustustigið efldist og að ekki yrðu lagðar meiri álögur á þá sem þurfa á hjálpartækjum og þjónustu stofnananna að halda.

Emil Thóroddsen vék því næst að ástæðum þess að hann varð formaður Öryrkjabandalags Íslands. Hann taldi sanngjarnt að greina frá því þar sem skammt væri til aðalfundar, að hann yrði ekki í framboði til formanns. Kvaðst hann mundu ljúka kjörtímabili sínu sem varaformaður og taldi fullvíst að hæfur einstaklingur fyndist til þess að taka við formennsku í Öryrkjabandalaginu.

Formaður sleit síðan fundi kl. 18:35.

Reykjavík, 24. september 2005,

Arnþór Helgason (sign)