Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 21. janúar 2009

By 7. desember 2009No Comments

Fundur aðalstjórnar ÖBÍ haldinn miðvikudaginn 21. janúar 2009, kl. 17.00-19.30 að Háaleitisbraut 11-13, 4. Hæð, Reykjavík.

Fundargerð

Miðvikudaginn 21. janúar 2009, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) saman til fundar að Háaleitisbraut 11-13, 4. hæð í húsnæði Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Fundur var boðaður kl. 17.00.
Fundi stýrði formaður ÖBÍ, Halldór Sævar Guðbergsson.

Eftirtaldir aðalstjórnarfulltrúar sátu fundinn:

Dagný E. Lárusdóttir, SÍBS
Emil Thóroddsen, Gigtarfélagi Íslands
Friðjón Erlendsson, Daufblindrafélagi Íslands
Fríða Bragadóttir, Parkinsonssamtökunum
Garðar Sverrisson, MS félaginu
Grétar P. Geirsson, Sjálfsbjörg
Guðmundur Magnússon, SEM samtökunum
Guðmundur S. Johnsen, Félagi lesblindra á Íslandi
Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp
Halldór S. Guðbergsson, Blindrafélagi Íslands
Hjördís A. Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra
Ingi H. Ágústsson, HIV-Ísland, alnæmissamtökunum
Ingibjörg Karlsdóttir, ADHD samtökunum
Jón Þorkelsson, Stómasamtökunum
Kristín Sæunnar- og Sigurðardóttir, Félagi nýrnasjúkra
María Th. Jónsdóttir, FAAS
Pétur Ágústsson, MG félaginu
Rakel Róbertsdóttir, Hugarfari
Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra
Sigurður Þ. Sigurðsson, Ási styrktarfélagi
Steinunn Þ. Árnadóttir, Kvennahreyfingu ÖBÍ
Tryggvi Þ. Agnarsson, Tourette samtökunum
Þorlákur Hermannsson, LAUF
Þröstur Emilsson, Voninni
Ægir Lúðvíksson, MND félaginu
Starfsfólk ÖBÍ:
Anna G. Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri

1. Fundur settur – fulltrúar kynna sig

Formaður setti fund kl. 17.10. Tilkynnti að heilbrigðisráðherra hefði hringt kl. 16 og afboðað komu sína á fundinn. Samkvæmt fundarboði var gert ráð fyrir að heilbrigðisráðherra kæmi og kynnti fyrirhugaðar breytingar á heilbrigðisþjónustu í landinu og hækkanir sem hafa átt sér stað á gjaldskrá. Fundarmenn kynntu sig.

2. Fundargerð 11. desember 2008 borin upp til samþykktar

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, óskaði eftir leiðréttingu í umræðunni um stefnumótunina þannig að í stað núverandi orðalags komi skýrt fram að það voru tilmæli hans að annar hagfræðingur en hagfræðingur BSRB yrði fenginn til að vinna með starfshópnum. Fundargerð var samþykkt með þeim breytingum.

3. Skýrsla formanns (fylgiskjal 1)

Skýrsla formanns var send til aðalstjórnar í tölvupósti fyrir fundinn. Ræddi hann þar m.a. um hækkanir á bótum almannatrygginga sl. áramót en flestir öryrkjar hækkuðu um 9,6 % en lítill hópur um 19,6 %.
Formaður sagði að fyrir fundinum lægju drög að ályktun vegna niðurskurðar í velferðarkerfinu. Ályktunin er í fundargögnum fundarmanna en var einnig varpað upp á skjá. Framkvæmdastjóri las ályktunina.
Formaður ræddi í stuttu máli vinnu starfshóps vegna húsnæðis fyrir skrifstofu ÖBÍ sem er hafin. Einnig ræddi hann hugmyndir um sameiningu verndaðra vinnustaða ÖBÍ. Formaður vísaði að öðru leiti til skýrslu sinnar.

Opnað fyrir umræður um skýrslu og ályktun.

Umræða var um orðalag, það er að breyta þyrfti „öryggisákvæði laga” í „landslög.” Tóku margir undir þá breytingu. Rætt var um að bætt yrði við ályktunina athugasemd þar sem innlagnargjaldi á sjúkrahús er mótmælt. Fulltrúar Félags nýrnasjúkra og Heyrnarhjálpar sögðu af dæmum um vaxandi kostnað sinna félagsmanna og hafði Félag nýrnarsjúkra sent heilbrigðisráðherra bréf varðandi innlagnargjaldið en nú á blóðskilun nýrnasjúkra að vera gjaldskyld. Hvergi í vestrænum heimi er tekið gjald fyrir blóðskilun.
Formaður lagði til að orðalagsbreyting yrði samþykkt.

Eftirfarandi ályktun ÖBÍ samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

Ályktun aðalstjórnarfundar ÖBÍ 21. janúar 2009

ÖBÍ mótmælir aðför að velferðarkerfinu!
Í desember síðastliðnum ákvað ríkisstjórn Íslands að ganga gegn lögum um verðbætur á greiðslur almannatrygginga til yfirgnæfandi meirihluta elli- og örorkulífeyrisþega þann 1. janúar síðastliðinn. Í stað þess að forgangsraða í anda velferðarþjóðfélags var ákveðið að taka með þessum hætti um 2,5 milljarða (netto) af lögvernduðum lífeyri landsmanna.

Ennfremur hefur ríkisstjórnin stóraukið greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og innleitt þar nýja og áður óþekkta gjaldaliði sem bitna harðar á öryrkjum, langveikum og öðrum þeim sem mest þurfa á þessari þjónustu að halda. Þetta er gert þrátt fyrir að ekki hafi verið settar reglur um hámark á greiðsluþátttöku sjúklinga.

Skyndiatlaga að velferðarkerfinu mun koma harðar niður á samfélaginu og auka kostnað þess þegar til lengri tíma er litið.

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands mótmælir þessari aðför að lífeyrisþegum og langveikum harðlega og fer fram á að stjórnvöld grípi til annarra og réttlátari aðgerða í þeim efnahagsvanda sem við er að glíma. Verði landslög ekki virt mun bandalagið fela lögmönnum sínum að kanna lagalegan rétt félagsmanna sinna.

Reykjavík 21. janúar 2009.
Aðalstjórn ÖBÍ

4. Stefnumótun ÖBÍ – fyrirspurnir og umræður (fylgiskjal 2)

Lögð voru fram endurskoðuð gögn stefnumótunar með tilliti til athugasemda sem komu fram á síðasta fundi. Framkvæmdastjóri sýndi stefnumótunargögnin á glærum og fór yfir þær leiðréttingar sem gerðar hafa verið.

Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu, sagðist ósáttur við að orðið „innan ÖBÍ“ hafi verið skeytt aftan við „Svona vinnum við“ og sagði að það væri verið að þrengja gildissvið viðmiðanna með þessum orðum. Að öðru leyti sagðist hann samþykkur stefnumótuninni. Samþykkt  var að taka út orðin  „innan ÖBÍ“.
Stefnumótunin var borin upp í heild sinni og samþykkt samhljóða.

5. Fjárhagsáætlun ÖBÍ 2009 lögð fram til samþykktar (fylgiskjal 3)

Áætluninni var varpað á skjá. Hjördís Anna Haraldsdóttir, gjaldkeri fylgdi henni úr hlaði.
Formaður taldi að miðað við ástand þjóðfélagsins yrði áætlunin að endurskoðast um mitt árið.
Rætt var um af hverju fjárhæðin sem eyrnamerkt var flutningum árið 2008 hefði ekki verið færð yfir á árið 2009.

Framkvæmdastjóri, útskýrði að varðandi lífeyrissjóðsskuldbindingar væri um fyrrum starfsmenn að ræða og þær greiðslur hefðu einfaldlega hækkað svona mikið milli ára. Einnig útskýrði hún að kostnaður við aðalfundinn í október sl. væri ekki inni í rauntölum 2008.
Formaður sagði að ef einhver kostnaður yrði á þessu ári vegna flutninga yrði sú upphæð fengin úr sér sjóði.
Kristín Sæunnar- og Sigurðardóttir, Félagi nýrnasjúkra, spurði hvers vegna kostnaður vegna námskeiða þrefaldaðist á milli ára? Framkvæmdastjóri svaraði því til að gert væri ráð fyrir að starfsmönnum fjölgi og að þeir myndu sækja námskeið og fræðslu.

Varðandi stefnumótunina væri gert ráð fyrir að kostnaður vegna hennar árið 2009 færi inn í almennan rekstur, en á síðasta ári hafi verið töluverð aðkeypt þjónusta vegna hennar sem ekki yrði á þessu ári.
Guðmundur S. Johnsen, Félagi lesblindra, spurði af hverju ekki væri gert ráð fyrir lækkun á kostnaði við heimasíðu miðað við kostnað síðustu ára?  Formaður svaraði því til að gert var ráð fyrir gerð innri vefs á árinu 2008 sem ekki varð af, en gert væri ráð fyrir kostnaði vegna vinnu við innri vef 2009 þess í stað.
Bent var á að mikil skekkjumörk væru á milli áætlunar 2008 og rauntalna. Formaður ítrekaði að ýmsir liðir væru ekki inni í rauntölum sem voru miðaðar við 30. september 2008, s.s. aðalfundur sem haldinn var í október s.l. og að ekki hafi verið farið í breytingar á ýmsu sem gert hafði verið ráð fyrir eins og prentun á ýmsum gögnum, innri vef og fleira.

Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp, lagði til að keyptur yrði nýr tónmöskvi og var formaður sammála því.

Fjárhagsáætlunin borin upp með fyrirvara um endurskoðun um mitt ár. Samþykkt samhljóða.

6. Fundaplan framkvæmdastjórnar og aðalstjórnar 2009 (fylgiskjal 4)

Guðmundur Magnússon, SEM samtökunum, sagðist ánægður með fundaplanið en taldi að halda þyrfti fleiri aðalstjórnarfundi. Formaður sagði að fundum yrði fjölgað ef ástæður sköpuðust. Fundarplan samþykkt samhljóða.

7. Guðlaugur Þór Þórðarson kemur á fundinn

Dagskrárliður féll niður, sjá útskýringar formanns í upphafi fundargerðar.

8. Önnur mál

Formaður sagði ástandið sérstakt í þjóðfélaginu þessa dagana og ræddi hvað væri hægt að gera til að gera ÖBÍ sýnilegra. Hvatti hann aðildarfélögin til að skrifa meira í fjölmiðla og alla þá sem vilja verja velferðina.

Guðmundur S. Johnsen sagðist ekki sjá að ÖBÍ gæti fengið mikla athygli í fjölmiðlum eins og tímarnir eru núna en benti á að ef kosið yrði í vor að þá yrði ÖBÍ á mjög skipulegan hátt að ræða við alla stjórnmálaflokka um málefni öryrkja.

Guðmundur Magnússon tók undir þetta og óskaði eftir því að ályktanir sem lagðar hafa verið fram verði settar á forsíðu heimasíðu ÖBÍ.

Emil Thóroddsen sagði ályktunina mjög góða og kjarnyrta og sagðist sammála því að ÖBÍ yrði að vera sýnilegt og óskaði aðalstjórn til hamingju með að vera komin með samþykkta stefnumörkun. Telur að bandalagið geti notað stefnumótunina mjög vel á næstu árum. Það er undir starfsmönnum, formanni, framkvæmdastjórn og aðalstjórn ÖBÍ komið að sjá til þess að farið verði eftir stefnunni.
Formaður  tók undir orð Emils og taldi brýnt að nú yrði unnið í samræmi við stefnumótunina.

Hjördís Anna Haraldsdóttir hvatti fólk til að fylgjast sérstaklega með börnum og unglingum í okkar hópum á þessum tímum.

María Th. Jónsdóttir, FAAS, tók undir með Hjördísi en bætti við að minnissjúkum liði illa við kreppuumræðuna undanfarna mánuði og hvatti ÖBÍ til að koma á framfæri málefnum öryrkja og þá á sem jákvæðastan hátt.

Formaður sagði að mikilvægt væri að standa fast í fæturna og gæta að almennum mannréttindum og að farið yrði eftir sáttmála SÞ um réttindi fólks með fötlun.

Garðar Sverrisson, MS félaginu, sagði að fyrir 10 árum síðan hafi verið rætt um að efla samstarf við kirkjuna. Ættum að hafa frumkvæði að því að hitta forsvarsmenn kirkjunnar þannig að t.d. fólk sem er í erfiðri stöðu geti leitað þangað.

Fríða Bragadóttir, Parkinsonssamtökunum, óskaði eftir því að fundargerðir bærust fyrr en þær hafa gert undanfarið.

Emil Thóroddsen upplýsti að gigtarráð hefði verið skorið niður um 100%. Ráðið er teymi fagaðila á gigtarsviði og mjög brýnt starf sem þar hefur verið unnið. Svar við fyrirspurn Gigtarfélagsins til fjárlaganefndar um miðjan desember, hvers vegna ráðið yrði lagt niður var að eingöngu væri verið að minnka fjármagnið og ráðið færi undir heilbrigðisráðuneytið en yrði ekki sérliður á fjárlögum, að ekki væri verið að leggja það niður. Í byrjun janúar barst síðan bréf um að ráðið hefði verið lagt niður þar sem það væri ekki lengur á fjárlögum heldur komið beint undir ráðuneytið. Fólk innan gigtargeirans mjög ósátt vegna þessa.

Grétar P. Geirsson tók undir hugmynd Garðars um samstarf við kirkjuna og fagnaði aukinni þjónustu djákna.

Formaður sagði að samþykkt hefði verið í framkvæmdastjórn að allar fundargerðir framkvæmdastjórnar frá 1. janúar sl. yrðu sendar til aðalstjórnar en ítrekaði að þær væru trúnaðarmál.

Fleira var ekki rætt og fundi slitið kl. 19.00.

Fundarritari
Anna G. Sigurðardóttir