Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 21. september 2006

By 19. desember 2007No Comments

Fimmtudaginn 21. september 2006, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar að Hátúni 10, 9. hæð. Fundur var boðaður kl. 16:45.

Fundi stýrði formaður Öryrkjabandalags Íslands, Sigursteinn Másson.

Eftirtaldir sátu fundinn:

Kristján Pétursson  Félagi nýrnasjúkra
Sigríður Jóhannsdóttir   Samtökum sykursjúkra
Bryndís Snæbjörnsdóttir  Foreldra- og styrktarfélagi heyrnarlausra
Guðjón Ingvi Stefánsson  Heyrnarhjálp
Guðmundur S Johnsen  Félagi lesblindra
Valgerður Auðunsdóttir  SPOEX-samtökum.psoriasis og exemsjúklinga
Ægir Lúðvíksson   MND-félagi Íslands
Jón Þorkelsson   Stómasamtökum Íslands
Guðmundur Magnússon  SEM-samtökunum
Halldór S Guðbergsson  Blindrafélaginu
Ragnar Gunnar Þórhallsson  Sjálfsbjörg landssambandi fatlaðra
Garðar Sverrisson   MS-félagi Íslands
María Th. Jónsdóttir   FAAS- félagi aðstandenda Alzheimersjúklinga
Steinunn Þóra Árnadóttir  gjaldkeri í framkvæmdastjórn ÖBÍ
Emil Thóroddsen   Gigtarfélagi Íslands
Þórey Ólafsdóttir   Daufblindrafélagi Íslands
Sigursteinn Másson   Geðhjálp – formaður ÖBÍ
Pétur  Halldór Ágústsson  MG-félagi Íslands
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir  Blindravinafélagi Íslands
Hafdís Gísladóttir   framkvæmdastjóri ÖBÍ
Guðríður Ólafsdóttir   félagsmálafulltrúi ÖBÍ
Bára Snæfeld    upplýsingafulltrúi ÖBÍ

Sigursteinn formaður setti fund kl. 16:55 og bauð fulltrúa velkomna. Hann las síðan bréf Berglindar Stefánsdóttur fulltrúa Félags heyrnarlausra, til aðalstjórnar þar sem hún segir sig frá setu í aðalstjórn af persónulegum ástæðum. Þá var gengið til dagskrár.

1. Skýrsla formanns
(sjá fylgiskjal 1)

Orðið gefið laust um skýrslu formanns. Garðar Sverrisson hvatti til að annar liður dagskrárinnar yrði tekin með skýrslu formanns þar sem meginefnið í skýrslu hans fjallaði um sama mál það er aðgerðir lífeyrissjóðanna gegn öryrkjum, aðrir fundarfulltrúar sammála og var það gert.

 
2. Aðgerðir lífeyrissjóða gegn öryrkjum

Hafdís lýsti nánar því mikla starfi og álagi sem verið hefði á skrifstofu ÖBÍ síðastliðnar vikur. Lýsti fundarhöldum og bréfaskrifum sér í lagi til lífeyrissjóða. Einnig sagði hún frá bréfum til Fjármálaráðuneytis meðal annars var send kæra til ráðuneytisins þar sem framkvæmd lífeyrissjóðanna er gagnrýnd og óskað eftir ógildingu framkvæmdar lífeyrissjóðanna. Benti Hafdís á að einnig hefði verið gerð athugasemd við Fjármálaráðuneytið vegna Lífeyrissjóðs bænda og Samvinnulífeyrissjóðsins sem væru á gráu svæði með sína framkvæmd. Hafdís rakti umsögn lífeyrissjóðanna til Fjármálaeftirlitsins og Fjármálaráðuneytisins þar sem tilgreint sé að breytingar sjóðanna á samþykktum hefðu “óveruleg áhrif á sjóðsfélaga”.

Sigursteinn sagði af sjö blaðsíðna greinargerð sem Ragnar Aðalsteinsson hefur tekið saman um málið. Þar bendir Ragnar á eignarréttarákvæði, jafnræðisregluna og framkvæmdir sjóðanna sem væru óviðunandi. Einnig kom fram í máli Sigursteins að tryggingarstærðfræðingur TR væri sammála skoðun ÖBÍ í málinu. Nú væri svo komið að Pétur Blöndal væri farin að taka undir orð ÖBÍ um að óeðlilegt væri að framreikna laun viðmiðunarára lífeyrisþegans út frá neysluvísitölu og bera síðan við heildar skattskyldar tekjur ársins 2005. Vill hann meina að þar myndist skekkja upp á 60-70% öryrkjum í óhag.

Sigursteinn sagðist hafa verið fullur bjartsýni um að gærdagurinn yrði vendipunktur í þessu máli en þá var fundur ASÍ og stjórna lífeyrissjóðanna, en raunin varð önnur.

Fjöldi fulltrúa tóku til máls og lýstu vanþóknun sinni á þessari framkvæmd. Ítrekað var bent á að lífeyrissjóðir væru samtryggingasjóðir. Fram kom einnig í umræðum að með þessari framkvæmd væri verið að gera öryrkja að annars flokks þegnum. Gífurleg blóðtaka fyrir fjölda öryrkja. Rætt um að forsendur lífeyrissjóðskerfisins væru brostnar. Örorkulífeyrisþegar gætu ekki tryggt sig hjá tryggingarfélögum. Vangaveltur um hvort nýtt kerfi ætti að taka upp líkt því sem er í nágrannalöndum þar sem væru gegnumstreymissjóðir. Einnig hvort núverandi greiðslur í lífeyrissjóði ættu frekar að vera á einni hendi. Fram hefði komið í fjölmiðlum að lífeyrissjóðirnir notuðu 2,5 milljarða króna í rekstur árið 2004. Spurt hvort ÖBÍ hefði tryggingastærðfræðing á sínum snærum. Mörgum fannst verkalýðsforystan og alþingismenn vera hljóðir mjög um málið.

Varpað var upp drögum að ályktun fyrir aðalstjórnarfulltrúa að ræða og samþykkja. Mikill meirihluti vildi stytta textann, gera skýra kröfu á lífeyrissjóðina að falla frá framkvæmdinni fyrir 1. október. Ályktunin samþykkt samhljóða þannig:.

Ályktun aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands 21. september 2006

Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands skorar á stjórnir þeirra lífeyrissjóða sem ákveðið hafa að skerða eða fella niður lífeyrisgreiðslur til öryrkja að hverfa frá þeirri framkvæmd.

Komi ákvörðun lífeyrissjóðanna til framkvæmda mun það valda keðjuverkandi tekjurýrnun margra öryrkja næstu þrjú ár. Við það verður ekki unað og mun sjóðunum verða stefnt fyrir dómstóla ef ákvörðun þessari verður ekki breytt fyrir 1. október nk.

Öryrkjabandalag Íslands lýsir fullri ábyrgð á hendur ASÍ, Sjómanna¬sambandinu, Starfsgreinasambandinu og Samtökum atvinnulífsins.

Óskað var eftir að ályktunin yrði send hið fyrsta til viðkomandi sjóða og þeirra aðila sem kæmu að þessu máli sem og til fjölmiðla, aðildarfélaga og sett á heimasíðu ÖBÍ.

Beiðni kom einnig um að greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar yrði send til aðalstjórnar og til aðildarfélaga.

Sigursteinn þakkaði góða umræðu og sagði að þessum óskum yrði sinnt strax. Hann sagði einnig að upplýsingar, um þróun málsins á næstu dögum, yrðu sendar til aðastjórnar og aðildarfélaga til kynningar.

3.Hópavinna – Hugmyndir að betra samfélagi.

Sigursteinn sagði að hópastarfið væri að hefjast að nýju. Benti hann á að útreikningur á framfærsluviðmiði Hagstofu Íslands sem kynnt var 24. janúar síðastliðinn hefði sýnt fram á að framfærsla á mánuði árið 2004 var kr. 178.000.

Frítekjumörk hafa verið rædd og skoðuð en verulegur munur er á milli þessa hjá LEB og ÖBÍ lífeyrisþegum. Víxlverkun tekjutenginga á milli TR og Lífeyrissjóða hefur verði rædd ásamt því hvaða leiðir væru færar í að hækka grunnlífeyri. Þessi hugmynda¬vinna verður á fullu næstu mánuði. Allt verður gert til að halda fast í 60% hlutfallið vegna eigin launatekna. Frítekjumarkið er loðið, og hafa verði í huga að skerðingar eru á tekjutryggingarauka frá fyrstu krónu.

Óskað hefur verið eftir að Hagstofan geri könnun á framfærslu dagsins í dag og taki þá einnig inn í framfærlsuna fleiri nauðsynjar eins og t.d. tölvur, gsm síma, adsl-tengingar o.fl sem gert er ráð fyrir að allir hafi aðgang að í dag, en eru ekki teknar inn í þeirra útreikninga.
 
Sigursteinn sagði þá tillögu hafa komið fram á síðasta aðalstjórnarfundi að ÖBÍ ætti tvo fulltrúa inni í stýrihópi með stjórnvöldum, LEB og Þroskahjálp, enda ÖBÍ sem dregur vagninn. Vildi hann fá samþykki fundarins fyrir því að hann og  Hafdís Gísladóttir yrðu fulltrúar ÖBÍ, einnig óskaði hann eftir samþykki fundarins um að Guðmundur Magnússon stýrði bakhópnum um almannatryggingar. Samþykkt samhljóða.

4. Önnur mál.

a)  Steinunn Þóra fyrir hönd laganefndar lagði fram og kynnti þær breytingar sem laganefndin gerir tillögur um fyrir aðalfund ÖBÍ (sjá fylgiskjal 2-útprentað). Vitnaði hún í lög ÖBÍ um að skriflegar breytingar þyrftu að vera komnar fram þrem vikum fyrir aðalfund., því væru seinust forvöð að skila inn fyrir 22. september..
Umræða um orðalag og 6. greinina þ.e. fjölgun í framkvæmdastjórn, í stað eins meðstjórnanda yrðu þeir þrír. Annað árið væri formaður, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur kosnir og hitt árið varaformaður, ritari og einn meðstjórnandi. Fulltrúar lýstu yfir ánægju með vinnu laganefndar.

b) Umræða um aðalfund og hví hann væri virka daga í framhaldi af vinnudegi. Langt að sitja til ellefu að kvöldi eða lengur og nú væri gert ráð fyrir að  fundurinn væri aðeins þrír tímar sem væri afar knappur tími fyrir aðalfund. Óskað var eftir að kannað yrði hvort hugsanlega væri hægt að nýta 19. október sem var frátekin fyrir ráðstefnu ÖBÍ en nú hafði verð frestað. Aðalfundurinn yrði þá 18. og 19. okt  milli kl. 16:00 og 19:00 báða dagana.
Sigursteinn taldi þetta góðar ábendingar farið yrði í að kanna málið strax með morgni. Tilkynning um breytingu á fundartíma yrði þá send strax til fulltrúa. Fleiri höfðu ekki beðið um orðið. Sigursteinn þakkaði góðan fund og sleit fundi kl. 19:03

Fundarritari, Bára Snæfeld
 
Fylgiskjal 1.

Skýrsla formanns  á aðalstjórnarfundi ÖBÍ 21.09.2006

Kæru félagar,

Síðustu tveir mánuðir eða frá byrjun ágúst mánaðar hefur starf ÖBÍ einkennst af slökkvistarfi. Það bál sem stjórnir lífeyrissjóða kveiktu í samræmdri aðgerð með bréfum dagsettum þann 28. júlí síðastliðinn var stórt og umfangsmikið. Aðgerðin náði til rúmlega 2300 öryrkja um land allt einkum sjómanna, bænda og verkafólks. 907 af þessum einstaklingum hafði árið 2005 lægri heildartekjur en 1.000.000- króna. Í upphafi var reynt að láta líta svo út af hálfu Landssamtaka lífeyrissjóða að reynt hefði verið að hafa samráð við ÖBÍ en árangurslaust en það var ósatt. Hið rétta er að fyrst var haft samband við ÖBÍ eftir að tilkynningarnar frá Greiðslustofu lífeyrissjóða höfðu verið sendar.

ÖBÍ freistaði þess að skapa samingsgrundvöll um að hverfa frá aðgerðunum eða fresta þeim að öðrum kosti. Þá lýstu fulltrúar Greiðslustofu og Landssamtaka lífeyrissjóða yfir umboðsleysi í málinu og vísuðu á stjórnir lífeyrissjóðanna hverja fyrir sig. Lífeyrissjóðirnir voru að bera saman tekjur þriggja ára fyrir orkutap saman við skattaálagningu ársins 2005. Við nánari skoðun kom í ljós að upplýsingarnar voru oft ekki samanburðarhæfar þar sem lífeyrissjóðirnir miðuðu við örorkumat lífeyrissjóða og þrjú ár fyrir það en ekki orkutapið sjálft.

Þessi ruglingur olli svo því að verið var að taka til samanburðar tímabil þegar einstaklingurinn naut mjög lítilla tekna t.d. eftir slys og á meðan á endurhæfingu stóð. Þá kom í ljós að lífeyrissjóðirnir komust að þeirri niðurstöðu að fólk hefði hækkað í tekjum árið 2005 með því að leggja allar greiðslur Tryggingastofnunar saman sem launatekjur væru, meðlög, námsstyrki og dánarbætur svo eitthvað sé nefnt.

Sérfræðingar Tryggingastofnunar vöruðu lífeyrissjóðina við í lok júlí og bentu á að skattaskýrslur væru ekki endanleg niðurstaða um tekjur í mörgum tilvikum. Af framangreindum ástæðum hefði lífeyrissjóðunum átt að vera það ljóst að forsendur væru ranger og endurskoða þyrfti ákvörðunina. Nei, af stað hélt framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða Hrafn Magnússon og lýsti því í fjölmiðlum að það gengi ekki að öryrkjar væru að fá meira út úr lífeyrissjóðakerfinu en þeir höfðu í laun fyrir orkutap. Á þessu var hamrað.

ÖBÍ benti á að lífeyrissjóðirnir styddust við neysluvísitölu þegar rétt væri að bera laun á einum tíma saman við laun á öðrum tíma með því að notast við launavísitölu. Öryrkjabandalaginu bættist óvæntur liðsauki þegar Pétur Blöndal þingmaður hóf að lýsa því sama yfir.

Fljótlega var ljóst að megin fyrirstaðan við að hverfa frá boðuðum lækkunum og niðurfellingum var ekki hjá atvinnurekendum heldur hjá verkalýðshreyfingunni. Þetta hefur vakið upp ýmsar spurningar um hagsmunaárekstra. Hverra hagsmuna eru heildarsamtök launþega í landinu að gæta þegar forkólfar þeirra sem sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna taka slíkar ákvarðanir?

Þeir segjast þurfa að gera þetta vegna örorkubyrðarinnar eins og það er orðað, hún sé sem sagt að sliga þessa sjóði. Gildi er sá lífeyrissjóður sem dró vagninn í þessari aðgerð og hversu aðframkomin skyldi sá sjóður nú vera. Á síðasta ári námu hreinar eignir Gildis 198 milljörðum króna og höfðu hækkað um 18% á milli ára. Sami sjóður synjaði ÖBÍ um skýrslur s.l. þriggja ára um tryggingafræðilegar athuganir á fjárhæð sjóðsins og tóku það fram að það væri. m.a. vegna þess að það viðfangsefni, sem hér um ræðir, afnám og skerðing lífeyris væri ekki hluti af hinni tryggingafræðilegu athugun. Með öðrum orðum. aðgerð sjóðsins átti ekki rót sína að rekja til athugasemda eða tillagna tryggingastærðfræðings sem þvert á móti taldi sjóðnum skylt að hækka greiðslur til sjóðsfélaga.

Okkur er það fullljóst að lífeyrissjóðirnir standa misvel en það er þá sérstakt viðfangsefni að fækka þeim og styrkja þá þannig að þeir geti betur staðið undir skuldbindingum sínum. Það verður ekki gert með aðför að öryrkjum.

ÖBÍ fékk Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmann til að gæta hagsmuna bandalagsins. Öryrkjar voru hvattir til að krefjast skriflegra skýringa frá sjóðunum eða til að veita ÖBÍ umboð í gegnum aðildarfélögin, á heimasíðu ÖBÍ og með tilkynningum í útvarpi. Þetta gaf góða raun. Hátt í fjögur hundruð manns veittu með skriflegum hætti ÖBÍ umboð. og hefur starfsemi bandalagsins meira og minna verið undirlögð í þessu verkefni í september.

Fundað hefur verið með forsætisráðherra, formanni Samfylkingarinnar, fjármálaráðherra, heilbrigðis og tryggingaráðherra, forystu Alþýðusambandsins, tvívegis með efnahags og viðskiptanefnd Alþingis, fundað var með framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins sem um leið er varaformaður Gildis lífeyrissjóðs og fleirum. Alltaf hefur verið lögð áhersla á að nauðsynlegt væri að hverfa frá boðuðum aðgerðum eða fresta þeim að öðrum kosti um óákveðinn tíma þannig að aðilum gefist kostur á að fara almennilega ofan í saumana á þessu.

Í gær fundaði miðstjórn Alþýðusambandsins og haft er eftir forseta ASÍ að þar hafi menn skipst á skoðunum. Sömuleiðis var fundað hjá Gildi lífeyrissjóði og eftir hann sögðu menn að ekki kæmi til greina að hverfa frá aðgerðunum en verið væri að skoða málið. Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri ASÍ kom á fund Efnahags og viðskiptanefndar Alþingis í gær og lýsti því þar yfir að verið væri að vinna að því að málinu yrði frestað.

Formaður ÖBÍ lýsti því þar yfir að ekki kæmi til greina að fresta málinu um 2-3 mánuði eins og ýjað var að á fundinum, fresturinn þyrfti augljóslega að vera miklu lengri. Þetta er miklu stærra mál en blasir við í fyrstu. Lífeyrissjóðirnir hafa að því er virðist ætlað sér á nokkrum árum, að færa skuldbindingar sínar gagnvart örorkulífeyrisþegum frá sjóðunum yfir til Tryggingastofnunar og gera það án nokkurs samráðs við stjörnvöld eða Öryrkjabandalagið.

Á  fundinum á Alþingi í gær kom fram hjá fulltrúum TR að með þessu færi í gang þriggja ára spírall sem mundi leiða til samfelldrar skerðingar á lífeyristekjum öryrkja og fyrir þá sem hefðu lífeyrissjóðstekjur mundu hækkanir á bótum almannatrygginga engu breyta. Það yrði alltaf tekið til baka af lífeyrissjóðunum aftur, króna á móti krónu.

Þrátt fyrir að rúmlega fjögur hundruð bréf hafi verið send sjóðunum, kærur til fjármálaráðuneytisins og lögfræðileg greinargerð til stærsta lífeyrissjóðsins sem leiðir í ljós ólögmæti verknaðarins, er samt haldið áfram. Það skal með góðu eða illu losa lífeyrissjóðakerfið við öryrkjana þótt þeir haldi því alltaf fram að það sé ekki ætlunin. Eitt er gott, við vitum nú við hvað er að eiga. Þeir sem töldu öryrkja eiga skjól hjá verkalýðshreyfingunni vita nú betur. Lífeyrissjóðakerfið er líka að bregðast.

Í þessari stöðu þurfum við annarsvegar að hugsa hvaða leið er árangursrík til að ná markmiðum okkar sem eru þau að horfið verði frá þessu eða þessu frestað um óákveðinn tíma, hinsvegar þurfum við líka að huga að því hvernig losna megi undan þessari víxlverkan tekjutenginga. Hvernig er hægt að skipuleggja þetta þannig að við losnum við árekstra á milli kerfa?

Ein hugmynd sem Sigurður Grétarsson tryggingastærðfræðingur TR hefur sett fram á fundi stýrihóps ÖBÍ, LEB, LÞ og stjórnmálaflokkanna gerir ráð fyrir því að Tryggingastofnun sjái um allar greiðslur en rukki síðan lífeyrissjóðina fyrir þeirra hlut, því sem lífeyrisþeginn á rétt á þaðan. Þetta er ein hugmynd til einföldunar þannig að lífeyrisþegar þurfi ekki að vera að fara með skattaskýrslur og gögn á milli lífeyrissjóða og TR.

Önnur hugmynd gengur út á það að lífeyrissjóðirnir sjái um tiltekið tímabil, fyrstu árin eftir orkutap og séu þá að leggja áherslu á endurhæfingu og leiðir til samfélagslegrar virkni en að Tryggingastofnun taki svo við fram að töku ellilífeyris. Hvaða leið sem farin verður þarf að horfast í augu við þá staðreynd að með núverandi víxlverkan tekjutenginga er nær útilokað að bæta kjör stærsta hóps öryrkja.

Kerfi sem tekjutengja á víxl á sama tíma geta ekki staðist og hér þarf að endurskoða hlutina frá grunni þannig að sátt takist um lífeyrissjóðakerfið. Strax í ágúst byrjun fór af stað aðgerðaráætlun sem unnið hefur verið eftir síðan. Með rúmlega fjögur hundruð bréfum sem send voru sjóðunum, kröfum um upplýsingar og útskýringar og svo ítrekanir þegar upp á svörin vantaði, hefur forsvarsmönnum sjóðanna orðið það ljóst að ÖBÍ mun ekki hvika í þessu máli. Þetta mál fer ekki frá þeim. Þær Hafdís, Bára Snæfeld og Guðríður Ólafsdóttir hafa staðið sig hetjulega í þessari baráttu sem ég tel víst að muni skila okkur sigri. Hér á eftir verður borin upp tillaga að ályktun fundarins um þetta mál.

Ráðinn hefur verið nýr starfsmaður til Öryrkjabandalagsins Bryndís Guðjónsdóttir og mun hún til að byrja með vera í 75% starfshlutfalli við móttöku, upplýsingagjöf, tölvuvinnslu og þjónustu við gesti ÖBÍ og aðildarfélög. Bryndís er boðin velkomin til starfa. Í ágúst tókst samkomulag um starfslok Arnþórs Helgasoanr.

Ágætu aðalstjórnarfulltrúar. Nú eru tveir fundir að baki í þverpólitískum stýrihópi sem skipaður var í framhaldi af grasrótarstarfi, hópavinnu Öryrkjabandalagsins, Landssamtaka eldri borgara og Landssamtakanna Þroskahjálpar síðastliðinn vetur og vor. Í hópnum sitja fulltrúar allra stjórnmálaflokka auk fulltrúa eldri borgara og Þroskahjálpar og er starfinu stýrt af Öryrkjabandalaginu.

Meðfram stýrihópnum starfar nú starfshópur um laun til eðlilegrar framfærslu. Stýrihópurinn byggir á þeim grunni sem lagður var í hópastarfinu í vor og leitast er við að ná samstöðu um tilteknar leiðir. Við erum í þessari vinnu að leita að því sem sameinar en ekki sem sundrar. Það þýðir samt það að við viljum sjá áþreifanlegar hugmyndir og tillögur koma út úr þessu starfi. Það sem einkum er verið að vinna með nú eru hugmyndir um hækkun grunnlífeyris mögulega tvöföldun hans, 300.000. króna viðbótarfrítekjumark á atvinnutekjur og fjármagnstekjur og afnám tekjutenginga við tekjur maka. Hækkun grunnlífeyrisins kemur sér klárlega best fyrir þá sem lakast eru settir og hækkun skattleysismarka.

Með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins í sumar voru skattleysismörk um áramót ákvörðuð 90.000 krónur en hafa að undanförnu verið 78.000 krónur. Þótt áfram sé það eitt megináherslumál ÖBÍ að hækka skattleysismörkin þá metum við það svo að líklegra sé að svo stöddu að ná fram pólitískri sátt um nýtt frítekjumark. Það verður þá að koma ofan á það frítekjumark sem innbyggt er í núverandi bótaflokka almannatrygginga. Í yfirlýsingu eldri borgara og ríkisstjórnarinnar í sumar var gert ráð fyrir 300.0000  króna frítekjumarki sem tæki gildi árið 2010. Það er út í hött en til umræðu í stýrihópnum er að það bættist við nú strax í ársbyrjun.  Það er vaxandi póltískur og samfélagslegur skilningur á mikilvægi þess að skapa aukinn hvata til atvinnuþátttöku öryrkja og væri slík breyting jákvætt skref í því sambandi.

Sú grasrótarvinna sem unnin er samhliða, af hópnum frá því í vor, skiptir mjög miklu máli varðandi mótun hugmynda. Eins og kynnt var á fyrsta fundi hópsins þá lítur ÖBÍ svo á að með því að formenn allra stjórnmálaflokka hafa skipað fulltrúa í stýrihópinn séu flokkarnir að skuldbinda sig, fyrir alþingiskosningar, að leggja áherslu á og koma í framkvæmd því sem samstaða er um. Það þýðir ekki það að með því sé ÖBÍ að ýta undir að lægsti samnefnarinn sé fundinn og að stjórnmálaflokkarnir miði við hann í áherslum sínum. Alveg eins og gerðist í hópastarfinu sjálfu þá vonumst við til þess að með þessum hætti geti skapast nýr sameiginlegur skilningur um bættan hag öryrkja og aldraðra. Til viðbótar því sem samkomulag næst um hvetjum við svo stjórnmálaflokkanna alla til að bjóða enn betur.

Eitt af því sem merkja má í tengslum við aðgerðir lífeyrissjóðanna er aukinn skilningur stjórnmálamanna úr öllum flokkum á nauðsyn endurskoðun laga um almannatryggingar.
Gengið var frá starfslokasamningi við Arnþór Helgason þann fjórtánda ágúst síðastliðinn í samræmi við ákvörðun aðalstjórnar í vor um ígildi eins árs samnings þegar tillit er tekið til tölvu- og tækjabúnaðar sem hann fékk í sínar hendur.
Kæru félagar,

Enn stöndum við í átökum. Við höfum ekki haft hátt í fjölmiðlum undanfarna daga vegna þess að við höfum viljað gefa lífeyrissjóðunum færi á að draga ákvörðun sína til baka án þess að missa andlitið. Þrýstingur ÖBÍ hefur verið í formi bréfasendinga á alla sjóðina, stjórnsýslukærum, lögfræðilegum greinargerðum, undirbúningi að málsókn og fjölmörgum persónulegum samtölum. Nú er nýr kafli að renna upp. Við þurfum að stíga næsta skref. Við sláum tóninn í ályktun sem borin verður hér upp síðar á fundinum.

 

Fylgiskjal 2

(sjá útprentað handrit laganefndar með fundargerð með þeirra tillögum að lagabreytingum)