Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 22. ágúst 2013

By 17. desember 2013No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn fimmtudaginn 22. ágúst 2013, kl. 17.00–19.00 í Hátúni 10, 9. hæð, Reykjavík

Mættir fulltrúar:

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás, styrktarfélag – Karl Þorsteinsson
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
Blindravinafélag Íslands – Gísli Helgason
CCU samtökin – Hrönn Petersen
Einhverfusamtökin – Sigríður Sigurjónsdóttir
FAAS – Svava Aradóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Snævar Ívarsson
Félag nýrnasjúkra – Vilhjálmur Þór Þórisson
Fjóla – Guðný Katrín Einarsdóttir
FSFH – Jón Gunnar Jónsson
Geðverndarfélag Íslands – Kjartan Valgarðsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Ingólfur Már Magnússon
HIV-Ísland – Svavar G. Jónsson
Hugarfar – Sigríður Ósk Einarsdóttir
LAUF, félag flogaveikra – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg – Árni Heimir Ingimundarson
Málefli – Kristján Geir Fenger
ME félag Íslands – Nanna G. Yngvadóttir
MS félag Íslands – Sigurbjörg Ármannsdóttir
Parkinsonsamtökin á Íslandi – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Ómar Geir Bragason
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Sveinn Guðmundsson
Sjálfsbjörg – Hannes Sigurðsson
SPOEX – Erna Arngrímsdóttir
Stómasamtök Íslands – Kristján Freyr Helgason
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Vilmundur Gíslason
Tourette samtökin á Íslandi – Arna Garðarsdóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ:

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsmenn:

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi

Gestur

Benedikt Jóhannesson, tryggingastærðfræðingur

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Guðmundur Magnússon formaður bandalagsins bauð fundarmenn velkomna. Fundarmenn kynntu sig. Samþykkt að Jón Gunnar Jónsson sæti fundinn fyrir hönd FSFH í forföllum aðal- og varafulltrúa í aðalstjórn.

Erna Arngrímsdóttir var kosin fundarstjóri og tímavörður var Klara Geirsdóttir. Fundarmenn fá fyrst tvær mínútur og svo eina mínútu í umræðum.

2. Fundargerð frá 6. júní 2013 borin upp til samþykktar.

Samþykkt samhljóða.

3. Skýrsla formanns.

Guðmundur stiklað á stóru úr áður útsendri skýrslu sinni til fundarfulltrúa,meðal annars fundi sem hann og fleiri hafa setið með ráðherrum. Hann sagði að Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hefði verið heiðarleg og sagt strax að bætur yrðu ekki leiðréttar strax en þegar sú vinni hæfist yrði það í áföngum. Á fundi með Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra kom fram að hann ætlaði að nýta sér

þetta kjörtímabil til að kynna sér málin. Fundur með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur var mjög góður og jákvæður, ráðherra tók vel í að halda áfram vinnu að sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks og sé það mál í góðum farvegi. Umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson var ekki alveg eins jákvæður, en á fundi með honum var meðal annars rætt um algilda hönnun og nýja byggningarreglugerð og kostnað við að gera íbúðir aðgengilegar í byrjun. Vakin var athygli ráðherra á að í umræðu um reglugerðina og algilda hönnun nýverið væri ekki rétt að kostnaðurinn sé 10-12 % eins og haldið hefur verið fram.

Í tengslum við þetta fór Guðmundur yfir umræðuna í fjölmiðlum undanfarna daga vaðandi þessi mál, en góð viðbrögð komu strax frá Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra og SEM samtökunum og nokkur góð viðtöl verið tekin við einstaklinga um algilda hönnun og kostnaðartölur. Guðmundur sagði að viðtal hefði verið tekið við sig sem sýna átti í fréttum á RÚV þá um kvöldið en það hafi ekki verið birt.

Guðmundur sagði að óskað hefði verið eftir fundi með forsætisráðherra. Ritari hefði hringt með þau skilaboð að formaður ætti að snúa sér að fagráðuneytunum, því forsætisráðherra væri svo upptekinn. Áætlað er að halda fund með

Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra mánudaginn, 26. ágúst nk.

Að lokum minntist Guðmundur á skýrslu um hvað það er sem stýrir vali á búsetu fatlaðs fólks en skýrslan er í heildina jákvæð en fróðlegt að sjá mun á milli stétta, aldurs og kynja.

Umræður og fyrirspurnir um skýrslu formanns.

Gísli Helgason Blindravinafélagi Íslands benti á að það þyrfti að ræða við vaktstjóra RÚV, Óðinn Jónsson um að viðtalið við Guðmund hefði ekki komið í fréttum eins og búið var að tilkynna.

4. Skýrsla Talnakönnunar um þróun bóta TR til öryrkja 2008-2013. Samanburður við helstu vísitölur.

Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur hóf sitt mál á að þakka fyrir það tækifæri á að koma og kynna skýrsluna, sem hann hafi unnið síðast liðinn vetur. Markmið könnunarinnar var að fá tölur sem yrðu ekki umdeildar, hvernig bætur TR til öryrkja hafa þróast miðað við önnur laun. Viðmiðunarárin frá janúar 2008 til 2013. Réttarbætur hefðu náðst á árunum  þar á undan og tilkynntu stjórnvöld að þær yrðu grunnur að bótum næstu ára. Könnuð voru tengsl við kaupmátt og verðlag en líka launaþróun lágmarkslauna og þannig fékkst mynd af bótunum eins og þær koma út.

Margar gagnlegar ábendingar komu frá stjórn og starfsfólki ÖBÍ þegar skýrslan var gerð.

Varðandi reglur um skerðingar, frítekjumörk, bótaflokka og fleira, þá þurfti að horfa á tekjur öryrkja í heild.

Verkefnið var að reikna breytingar bóta miðað við launavísitölu, meðaltals hækkun launa og vísitölu neysluverðs. Bætur eiga að hækka eftir því hvaða framangreinda vísitala hækkar mest. Bætur öryrkja séu á stærðargráðu á við lægstu laun.

Á árunum 2008-2013 hækkuðu lágmarkslaun(taxtalaun) fastráðins launafólks um 54 % en örorkubætur TR til einhleypings um 29%. Sláandi að bæturnar hafi ekki hækkað meira miðað við yfirlýsingar. Neysluverð hefur hækkað um 42,8% á meðan bæturnar hafa hækkað um 29%. Meðalvísitala hefur hækkað um 33% en samt sem áður nær hækkun bótanna ekki launavísitölunni. Á tímabilinu sem miðað var við hefur verið örlítið launaskrið en bætur samt sem áður ekkert hækkað.

Tryggingastofnun ríkisins var fengin til að keyra út hvað meðaltekjur öryrkja eftir skatta hefðu hækkað og var miðað við sama hópinn allan tíma, svokallaður paraður samanburður. Samkvæmt því hafði neysluverð frá 2009 til 2013 hækkaði um 20,5% en meðaltekjur öryrkja eftir skatta hækkað, í krónum talið, um 4.1% þannig að bilið er meira en var talað um fyrr eða 15%. Einnig voru skoðaðar meðaltekjur öryrkja fyrir skatta, hækkun í krónum talið 4,7% og borið saman við launavísitöluna, þá hafa bætur hækkað aðeins meira en launavísitalan hækkað um 23,5%, munurinn því enn meiri. Kaupmáttarskerðingin er því mjög mikil.

Sagði Benedikt að mönnum hætti til að horfa bara á bæturnar en það séu sem betur fer margir sem hafa verið að vinna en aðstæður þeirra orðið verri en annarra, vegna aukinna skerðinga bóta. Margir öryrkjar höfðu fjármagnstekjur  á bilinu 10-20 þúsund, en skattar á þær tekjur hafa aukist mikið. Niðurstaðan er sú að það hallar á bótaþega, ef við horfum á meðaltekjur er bilið enn meira, bætur hafa dregist meira aftur úr tekjum almennings og tekjusamsetning skiptir máli. Kjör öryrkja hafa því versnað meira en hjá öðrum.

Fundarstjóri þakkaði Benedikt fyrir greinargott erindi og góða skýrslu.

5. Stefna stjórnvalda. Viðbrögð ÖBÍ.

Guðmundur sýndi nokkrar glærur um stöðuna í tengslum við bætur almannatrygginga og fleira. Heildarmánaðartekjur fyrir skatt fyrir efnahagshrun voru kr. 175.000 (meðaltal hópsins).

Árið 2009 var 69. grein laga um almannatryggingar nr. 100/2007 tekin úr sambandi og hefur það ekki verið tekið til baka aftur sem er mjög alvarlegt mál en í greininni segir að bætur almannatrygginga skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverð.

Næst fór Guðmundur yfir helstu skerðingar 1. júlí 2009 og benti á að það skorti aðgerðaráætlun stjórnvalda. Einnig benti hann á að frítekjumörk og tekjuviðmið hafa verið nánast óbreytt frá 2009. Á síðastliðnum fimm árum eru dæmi um að gjöld vegna heilbrigðisþjónustu hafi hækkað um 75% og hafa þau hækkað mest hjá öryrkjum og atvinnulausum. Guðmundur kynnti að í nýju frumvarpi sem tekið var fyrir á sumarþingi hafi aðeins tvær af sex skerðingum á bótum almannatrygginga verið leiðréttar.

Í framhaldi af ofangreindu lagði Guðmundur fram drög að ályktun en hún hnykkir á um mikilvægi þess að allar skeriðngar verði dregnar til baka ásamt auknum tekjutengingu. Nokkrar umræður urðu um ályktunina hvað varðar orðalag, meðal annars hvort ætti að nota orðin „hvetja“ eða „krefjast“.

Eftirfarandi ályktun með áorðnum orðalagsbreytingum var samþykkt með meirihluta atkvæða.

Ályktun Öryrkjabandalags Íslands

Fundur aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 22. ágúst 2013, hvetur stjórnvöld til að draga til baka allar þær skerðingar og auknu tekjutengingar sem gerðar voru á kjörum lífeyrisþega 1. júlí 2009 og gera það afturvirkt eins og stjórnarflokkarnir lofuðu í aðdraganda kosninga.

Eins og fram kemur í skýrslu Talnakönnunar hf. um þróun bóta TR til öryrkja 2008-2013 hafa bætur almannatrygginga ekki náð að halda í við verðlagshækkanir, almenna launaþróun né hækkun lægstu launa og er munurinn gríðarlegur. Bilið er stöðugt að breikka og er nú svo komið að lægstu laun hafa hækkað nær tvöfalt á við bætur öryrkja. Þá hafa ýmis tekjuviðmið verið fryst sem eykur bilið enn frekar.

Aðgerða er þörf og það strax.

Ekkert um okkur án okkar!

6. Fjárhagur ÖBÍ 2013

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri fór yfir fjárhagsstöðu bandalagsins.

Tekjurnar eru umfram áætlun miðað við fyrstu sex mánuði ársins. Útgjöldin fyrir sama tímabil eru samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir utan tvo liði sem gætu farið aðeins fram úr áætlun ársins, þeir eru erlendur ferðakostnaður og Hvatningaverðlaun ÖBÍ.

Nýir liðir hafa bæst við vegna kaupa bandalagsins á húsnæðinu í Sigtúni 42 sem var ekki gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun en leit að húsnæði hefur tekið nokkur ár og ekki var vitað hvenær af kaupum yrði. Rekstarkostnaður hækkar því á árinu vegna reksturs nýju fasteignarinnar eins og fasteignagjöld, hiti, rafmagn og hússjóður. Á sama tíma er verið að greiða leigu til Brynju hússjóðs Öryrkjabandalagsins. Rekstrarkosnaður vegna húsnæðis er því hár á meðan á framkvæmdum stendur í nýja húsnæðinu sem tekur tíma þar sem við viljum að aðgengið verði til fyrirmyndar.

Annar liður sem mun hækka í tengslum við flutninginn er vegna kaupa á ýmsum tækjabúnaði svo sem nýju símakerfi, ljósritunarvél, prentara, tónmöskvakerfi, skjávarpa og fleira sem beðið hefur verið með að endurnýja vegna fyrirhugaðra kaupa á nýju húsnæði. Arfur Ólafs Gísla Björnssonar fjármagnaði kaupin á Sigtúni 42 og eru 50 milljónir eftir í þeim sjóði sem verður notaður til að greiða fyrir breytingar á nýja húsnæðinu. Sú upphæð mun ekki duga og því þarf að taka málið sérstaklega fyrir á aðalstjórnarfundi þegar tölur liggja fyrir.

Í ljósi ofansögðu er nauðsynlegt að endurskoða fjárhagsætlunina með hliðsjón af þeim kostnaði sem bætist við. Tillaga að breytingum á áætluninni verður kynnt og borin upp til samþykktar á næsta aðalstjórnarfundi.

7. Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur er áætlaður 19. eða 26. september, nánar tilkynnt síðar.

8. Önnur mál.

Þorbera Fjölnisdóttir, ráðgjafi hjá bandalaginu kynnti ráðstefnu sem ÖBÍ er aðili að ásamt fleirum sem haldin verður 3. október næstkomandi um kynferðisofbeldi gagnvart fötluðu fólk. Ráðstefnan verður haldin á Grand hóteli. Dagskrá er væntanleg.

Halldór Sævar Guðbergsson, Blindrafélaginu, spurði hvort áætlað væri að skipulagsnefnd ÖBÍ héldi fund með aðildarfélögunum 7. september næstkomandi.

Lilja svaraði því til að svo væri.

Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra, tilkynnti að dagana 27. og 28. september næstkomandi yrði alþjóðleg vika heyrnarlausra og eru slagorð vikunnar „Jafnrétti“. Einnig tilkynnti hún að félagið væri nú flutt í nýtt húsnæði, boð með dagskrá væri væntanlegt.

Ómar Geir Bragason, Samtökum sykursjúkra, spurði hvort ÖBÍ hefði fylgst með málefnum ferðaþjónustu fatlaðra.

Formaður sagði bandalagið fylgjast vel með þessu máli. Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi og starfsmaður ferlinefndar ÖBÍ og fleiri hafa lesið yfir drög að nýjum reglum.

9. Fundarslit.

Fundi slitið kl. 18:45.

Fundarritarar, Anna Guðrún Sigurðardóttir og Bára Snæfeld