Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 22. júní 2010

By 2. nóvember 2010No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn þriðjudaginn 22. júní 2010, í Hátúni 10, 9. hæð, kl. 17.00-19.30.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin, Ingibjörg Karlsdóttir
Ás styrktarfélag, Sigurður Þór Sigurðsson
Blindrafélagið, Halldór Sævar Guðbergsson
Blindravinafélag Íslands, Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir
Félag CP á Íslandi, Örn Ólafsson
Félag heyrnarlausra, Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi, Guðmundur S. Johnsen
Félag nýrnasjúkra, Jórunn Sörensen
Geðverndarfélag Íslands, Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir
Geðhjálp, Höskuldur Sæmundsson
Gigtarfélag Íslands, Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp, Halla B. Þorkelsson
HIV-Ísland, Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar, Kristín B. Michelsen
LAUF, Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg, Sveinn Snær Kristjánsson
Málefli, Þórdís Bjarnadóttir
MND-félag Íslands, Ægir Lúðvíksson
MS-félag Íslands, Ingibjörg Sigfúsdóttir
Samtök sykursjúkra, Ómar Geir Bragason
SEM, Guðmundur Magnússon
SÍBS, Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg, Grétar Pétur Geirsson
SPOEX, Valgerður Ósk Auðunsdóttir
Stómasamtök Íslands, Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Sturla Þengilsson
Tourette-samtökin á Íslandi, Sigrún Gunnarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra, Jón Ari Ingólfsson

Starfsfólk ÖBÍ:

Bára Snæfeld, upplýsingarfulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Þórný Björk Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu

Fundargerð

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig.

Formaður setti fund kl. 17.05 og bað fundarmenn að kynna sig.

2. Fundargerð frá 18. maí 2010 borin upp til samþykktar. (Fylgiskjal 1)

Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

3. Skýrsla formanns.

Formaður flutti skýrslu sína. Sagði meðal annars frá hvernig gengur í afmælisnefndinni, frá tímabundnum samstarfssamningi við Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum HÍ og félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, um stofnun tímabundins 50% starfs lektors í fötlunarfræðum, skýrslu sem Þjóðmálastofnun vinnur að fyrir ÖBÍ, sagði frá bréfi dags. 22. júní, sem ÖBÍ fékk frá félags- og tryggingamálaráðherra þar sem tilkynnt er að við útreikning á sérstakri uppbót skuli hvorki taka tillit til uppbótar á lífeyri vegna sjúkra- eða lyfjakostnaðar né eingreiðslna (orlofs- og desemberuppbóta) frá Tryggingastofnun ríkisins. Benti aðildarfélögunum á að Fosshótel veitir félögum innan bandalagsins góðan afslátt, nóttin kostar 10.000 í stað 29.000 krónur, sýna þarf fram á aðild að einhverju aðildarfélagi ÖBÍ. Kona að nafni Áslaug vill skrifa greinar um það hvernig hægt er að lifa af á lágum bótum og biður um fólk í viðtöl, óháð sjúkdómsgreiningu. ÖBÍ mun senda nánari upplýsingar um málið til aðildarfélaganna. Starfsmenn skrifstofu ÖBÍ, Sigríður og Guðríður, voru í viðtali á RÚV, laugardaginn 19. júní í tengslum við fátækt í Evrópu. Laugardaginn 26. júní verða formaður og framkvæmdastjóri í viðtali á Útvarpi Sögu til að ræða málefni öryrkja.

4. Ályktun vegna yfirfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. (Fylgiskjal 2)

Ályktun frá hópnum var lögð fyrir aðalstjórnarfund 18. maí. Á þeim fundi var beðið um að ályktunin yrði dregin tilbaka og endurskoðuð af hópnum. Ný ályktun var lögð fram og rædd.

Eftir minniháttar breytingar var eftirfarandi útgáfa samþykkt:

Yfirfærsla á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitafélaga

Samkvæmt viljayfirlýsingu milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirrituð var þann 13. mars 2009 er áætlað að færa þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga þann 1. janúar 2011. Um er að ræða alla þá þjónustu sem og lagalega ábyrgð sem Svæðisskrifstofur málefna fatlaðra hafa sinnt fram til þessa.

Öryrkjabandalag Íslands telur að til að yfirfærslan geti farið fram svo sómi sé að verði eftirfarandi skilyrðum að vera fullnægt:

  1. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafi verið fullgiltur og gerðar þær breytingar á lögum sem nefnd um fullgildinguna hefur lagt til.
  2. Lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992 verði þar með endurskoðuð og heiti laganna breytt í „lög um réttindi fatlaðs fólks“.
  3. Sett verði lög er banna mismunun á grundvelli fötlunar, annað hvort sem sérlög eða slík ákvæði felld inn í lög um réttindi fatlaðs fólks.
  4. Tryggt lagaumhverfi verði sett um Notendastýrða persónulega aðstoð – NPA, eins og kveðið er á um í þingsályktun er samþykkt var 8. júní 2010, Þskj. 641 — 354. mál.
  5. Öryrkjabandalag Íslands gerir kröfu um að félags- og tryggingamálaráðuneytið taki ákvörðun sína til endurskoðunar að nota SIS matskerfið á alla hópa fatlaðs fólks óháð fötlun og skerðingu. Það gerir kröfu um að við mat á þörfum þeirra verði hugað að aðferðum sem byggja á hugmyndafræði SSL (Samtök um sjálfstætt líf)* og félagslegri sýn þar sem litið er á samfélagsþátttöku einstaklingsins í samhengi við hindranir í umhverfinu en ekki við skerðingu einstaklingsins. Slíkt verður að gera eins og segir í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í fullri samvinnu við hagsmunasamtök fatlaðra. Einnig verður að kanna betur þarfir fatlaðs fólks sem fær þjónustu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og tryggja að sá hópur fái þann stuðning sem uppfyllir þarfir hans. Öryrkjabandalagið væntir góðrar samvinnu við sveitarfélögin við eflingu þjónustunnar og treystir því að þau nýti sér þá þekkingu á aðstæðum og þörfum fatlaðra sem ÖBÍ býr yfir og hafi náið samráð við samtök fatlaðra um þróun þeirra víðtæku þjónustuverkefna sem sveitarfélögin munu bera ábyrgð á gagnvart fötluðum.

*Samtök um sjálfstætt líf hafa verið sameinuð NPA Miðstöðinni svf.

Hlé var gert á fundinum í 10 mínútur.

5. Styrkir til aðildarfélaga. Úthlutun 2010. (Fylgiskjal 3)

Grétar Pétur Geirsson, gjaldkeri ÖBÍ, sagði frá tillögum framkvæmdastjórnar til úthlutunar styrkja til aðildarfélaga.

Umræður og spurningar.

Spurt var af hverju félög með um 300 félaga fengju nánast sömu styrkupphæð og félag með 1100 félagsmenn?

Grétar Pétur svaraði því til að verkefni væru metin en ekki félagafjöldi.
Nefnt var að eitt af því sem reglurnar sem samþykktar voru um úthlutun kveða á um, er að öllum á að vera ljóst fyrir hvaða verkefni aðildarfélögin fá styrk. Beðið var um að sendur yrði út listi yfir verkefni sem aðildarfélög sóttu um styrk fyrir, upphæð grunnstyrkjar og fjöldi félagsmanna. Einnig var nefnt að hugsanlega ætti að fá utanaðkomandi aðila til að fara yfir umsóknirnar í framtíðinni og meta þær.
Skiptar skoðanir voru á því hvort að framkvæmdastjórn eða félögin ættu að forgangsraða þeim verkefnum sem aðildarfélögin sækja um styrk fyrir.

Úthlutanirnar voru samþykktar samhljóða. Listi með félagafjölda og verkefni sem sótt var um styrk fyrir verður sendur til aðildarfélaganna fyrir helgi.

6. Húsnæðismál skrifstofu ÖBÍ.

Formaður sagði frá því að húsnæðið að Hátúni 2b (Spron húsið) henti skrifstofu ÖBÍ mjög vel. Arkitektastofan Batteríið hefur skoðað húsnæðið og lagt til breytingar á því hvað varðar aðgengi eins og utan á liggjandi lyftu. Breytingar munu hugsanlega kosta um 50 milljónir kr.. Húsnæðið getur meðal annars rúmað aukna starfsemi og aðalstjórnarfundi. Húsið hefur verið metið á um 107 milljónir kr. en uppsett verð er 200 milljónir. ÖBÍ hefur gert tilboð í húsið upp á 90 milljónir.

7. Endurskoðun á fjárhagsáætlun 2010.

Formaður lagði til að hækka fjárhagsáætlun 2010 um 20 milljónir. Dótturfyrirtæki ÖBÍ eru í miklum vanda og mun þessi fjárhæð fara í aukna styrki og lán til þeirra. Það sem eftir verður mun fara í varasjóð ÖBÍ.
Nefnt var að undarlegt væri að leggja fram hækkun á fjárhagsáætlun án þess að senda skriflega tilkynningu um það út fyrir fundinn svo hægt væri að fjalla um hækkunina í aðildarfélögunum. Viðhafa ætti opna stjórnsýslu og gögn eiga að vera til staðar. Mál ættu að vera betur undirbúin fyrir aðalstjórnarfundi svo fundirnir verði frekar vettvangur til afgreiðslu en umræðu. Einnig var spurt af hverju ekki eru til peningar til að setja í styrki ef hægt er að setja þá í steypu?

Framkvæmdastjóri sagði frá því að ÖBÍ fékk arf á sínum tíma. Ætlað er að kaupa húsnæði fyrir þann pening. Þegar fjárhagsáætlun 2010 var gerð var ekki vitað hvað kæmi inn fyrir desember mánuð úr lottó. Mun hærri upphæð kom en gert hafði verið ráð fyrir og er því til auka fjármagn. Tilgangur með að leggja í varasjóð er að geta staðið undir rekstri bandalagsins í eitt ár ef tekjurnar af lottóinu skerðast.

Samþykkt var að halda aðalstjórnarfund 1. júlí þar sem þetta mál verður tekið fyrir.

8. Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur verður haldinn 1. júlí, kl. 17.00, Hátúni 10, 9. hæð.

Eina málið á dagskrá verður endurskoðun á fjárhagsáætlun. Listinn yfir styrki til aðildarfélaga verður sendur út fyrir þann tíma.

9. Önnur mál.

a)Aðalfundur ÖBÍ og lagabreytingar.

Ægir Lúðvíksson, MND félaginu, sagði frá því að MND félagið muni leggja fram breytingu á nýsamþykktum lögum bandalagsins. Félagið telur að mistök hafi verið gerð í vinnslu laganna, því fram kemur að félög sem engum gögnum skila eigi rétt á 2 fulltrúum eins og félög sem eru með 100 félaga eða færri. Munu leggja fram þá breytingu að þeir sem engum gögnum skila eigi rétt á 1 fulltrúa eða bara áheyrnarfulltrúum.

Formaður sleit fundi kl. 19.35.

Fundarritari, Þórný Björk Jakobsdóttir.