Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 22. júní 2011

By 6. janúar 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn í Hátúni 10, 9. hæð, miðvikudaginn 22. júní 2011, kl. 17.00-19.00.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Ellen Calmon
Ás styrktarfélag – Guðrún Gunnarsdóttir
Blindrafélagið – Halldór Sævar Guðbergsson
FAAS – María Th. Jónsdóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Snævar Ívarsson
Félag nýrnasjúkra – Hallgrímur A. Viktorsson
Fjóla – Ágústa Gunnarsdóttir
FSFH – Ásta Björk Björnsdóttir
Geðverndarfélag Íslands – Kjartan Valgarðsson
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
Heyrnarhjálp – Halla B. Þorkelsson
HIV-Ísland – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Kristín B. Michelsen
LAUF – Helga Sigurðardóttir
Málbjörg – Benedikt Benediktsson
Málefli – Þórdís Bjarnadóttir
MG-félag Íslands – Pétur Halldór Ágústsson
Parkinsonsamtökin – Guðbjörn Jónsson
Samtök sykursjúkra – Sigríður Jóhannsdóttir
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
Sjálfsbjörg – Grétar Pétur Geirsson
SPOEX – Hrund Hauksdóttir
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Bryndís Snæbjörnsdóttir
Tourette-samtökin á Íslandi – Sigrún Gunnarsdóttir
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ:

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Starfsmenn ÖBÍ:

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Sigríður H. Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Þórný B. Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu
Hrefna K. Óskarsdóttir, starfsmaður yfirfærsluhóps
S. Hafdís Runólfsdóttir, ferlimálafulltrúi

Fundargerð

1.  Formaður setur fund og fundarmenn kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ setti fundinn kl. 17.05. Fundarmenn kynntu sig.

2.  Fundargerð frá 12. maí 2011 borin upp til samþykktar.

Tvær athugasemdir voru gerðar við fundargerðina og verður hún lagfærð í samræmi við þær. Önnur var að Benedikt Benediktsson er sagður hafa setið fundinn sem hann gerði ekki. Hin var að fram kemur að Seltjarnarnes sé á þjónustusvæði Álftanes sem er ekki rétt, það er á þjónustusvæði Reykjavíkur. Álftanes telst til Garðabæjar.

3. Starfshópur um endurskoðun almannatryggingalaga, kynning.

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi ÖBÍ, er fulltrúi ÖBÍ í starfshóp velferðarráðuneytisins um endurskoðun almannatryggingalaga og hefur haldið utan um  bakhóp ÖBÍ í tengslum við þá endurskoðun. Hún sagði stuttlega frá tilgangi hópanna, sem báðir hafa hist vikulega en eru í sumarfríi í júlí.

Starfshópur ráðuneytisins hefur rætt um sameiningu bótaflokka til að einfalda kerfið, hvort eigi að sameina og þá hvaða flokka. Einnig hefur verið rætt um frítekjumörk, hvort eigi að sameina þau eins og hjá atvinnulausum. Í dag eru þrjú frítekjumörk, það er á atvinnutekjur, fjármagnstekjur og lífeyristekjur. Tillögur eru um nýtt barnatryggingakerfi og hafa þær verið ræddar. Einnig hafa greiðslur fyrir aldraða og mál sem tengjast ellilífeyrisþegum verið rædd en umræða um örorkumat hefur ekki farið fram. Stofnaður var undirhópur í sambandi við umönnunargreiðslur. Fulltrúi ÖBÍ í þeim hóp er Halla B. Þorkelsson, Heyrnarhjálp. Einnig á að stofna undirbúningshóp um starfshæfnismat.

Bakhópur ÖBÍ vinnur að tillögum á breytingum á almannatryggingum og allir sem vilja geta verið með. Hópurinn var myndaður rétt eftir páska og hefur fundað sjö sinnum. Sigríður lagði fram drög að tillögum hópsins til kynningar. Ef athugasemdir eru eða ábendingar vinsamlegast sendið þær til Sigríðar því fyrirhugaðar breytingar eru mjög viðamiklar og mikilvægt að aðildarfélögin komi sem mest að þessari vinnu. Huga þarf meðal annars að því hvert markmið laganna er því engin markmiðsgreining er í þeim í dag. Bakhópurinn lítur svo á að þetta sé ekki ölmusa heldur tryggingakerfi og réttur fólks.

4.  Skýrsla formanns.

Formaður sagði frá nýútgefnum upplýsingabæklingi um ÖBÍ, bæði á íslensku og ensku. Hann fór yfir fundaröð ÖBÍ vegna yfirfærslunnar, samninga ASÍ og SA, hækkun bóta TR, nefndavinnu, bakhópa, nýtt örorkumat, innleiðingu NPA, starfshóp til að undirbúa tillögu að þingsályktun um framkvæmdaáætlun málefna fatlaðs fólks og starfsemi skrifstofu ÖBÍ.

Fundaröð.

Heimsóttir hafa verið 14 staðir úti á landi og hefur almenn ánægja verið með fundina þó að mæting hafi verið misjöfn. Þeir staðir sem eftir er að heimsækja eru Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjar auk höfuðborgarsvæðisins.

Á fundunum hefur verið sagt frá NPA miðstöðinni og Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar. Mikilvægt er að kynna nýja hugmyndafræði og samning SÞ, því það virðist sem að fólk sé að færast aftur í gamalt form sambýla. Fólki finnst NPA spennandi en reynir að troða henni inn í núverandi kerfi og áttar sig ekki á að hugmyndafræðin er önnur. Áberandi er hvað mikill áhugi er hjá fólki að komast inn hjá Brynju hússjóði, því Brynja á töluvert af íbúðum um allt land.

Trúnaðarmenn hafa hafið störf á svæðunum en ekki eru þeir allir komnir með síma, starfsstöðvar eða netföng. Upplýsingar um þá eru á heimasíðu ÖBÍ.

Töluvert hefur verið spurt um SIS matið. Fólk sem vinnur á þjónustumiðstöðvunum kvartar yfir því að ekki sé hægt að vinna með það og skilur ekki hver tilgangurinn sé með matinu. Mikilvægt er að koma á þessu sambandi við landsbyggðina því oft reynist fólki utan af landi erfitt að leita sér upplýsinga, bæta þarf aðgengi að opinberum aðilum.

Aðrar áherslur verða á fundunum á höfuðborgarsvæðinu því margir hafa farið á námskeið hjá fötlunarfræði HÍ um samning SÞ og nýju hugmyndafræðina. Kynna þarf samninginn fyrir félagsmönnum aðildarfélaga ÖBÍ og kom upp sú hugmynd að vera með námskeið í samningi SÞ um réttindi fólks með fötlun fyrir stjórnir aðildarfélaga og starfsfólk í haust. Mikilvægt er að stjórnir aðildarfélaga ÖBÍ mæti vel þannig að allir tileinki sér þessa nýju hugmyndafræði.

Samningar ASÍ og SA, hækkun bóta TR.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra lofaði því að öryrkjar fengju að njóta nýju kjaranna. Allir lífeyrisþegar sem fengu greiddan einhvern lífeyri á tímabilinu 1. mars til 31. maí 2011 fengu 50.000 kr. eingreiðslu. Aðrar félagslegar bætur hækka um 8,1% frá 1. júní 2011. Orlofsuppbót hækkaði einnig.

Nefndir.

Nýtt örorkumat. Rætt hefur verið að taka upp nýtt örorkumat í tengslum við endurskoðun almannatryggingalaga. Í þeirri nefnd hefur fulltrúi ÖBÍ verið Guðrún Hannesdóttir.

Innleiðing NPA. Formaður nefndarinnar er Guðmundur Steingrímsson. Leggja á fram frumvarp fyrir áramót og á nefndin að skila af sér skýrslu fyrir 1. október. Fundur var haldinn með Adolf Ratzka þegar hann heimsótti landið.

Starfshópur sem undirbýr tillögu að þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Verkefni starfshópsins eru að setja fram stefnu í málefnum fatlaðs fólks, skýra forgangsröðun verkefna, útbúa markvissa aðgerðaráætlun, skilgreina árangursmælikvarða, setja fram tímasettar aðgerðir vegna lögfestingu samings SÞ, skoða aðgengismál, biðlista eftir þjónustu og samræma mat á þjónustu.

Starfsemi skrifstofu ÖBÍ.

Afmælishátíð var haldin á 50 ára afmæli ÖBÍ, 5. maí, á Nordica Hilton hóteli, þar sem heimildarkvikmynd um ÖBÍ var frumsýnd. Samskipti við TR eru harðari en áður og fyrst og fremst lögfræðileg, því þeir skilgreina lögin sífellt þrengra. Vegna þessarar hörku hafa stöðugar kærur verið í gangi. Áberandi er að ráðgjafar ÖBÍ eru í slag við fjölda lögfræðinga. Aðgengi ráðgjafa ÖBÍ að einum lögfræðingi einu sinni í viku er ekki nóg. Ráða þyrfti lögfræðing í hálfa stöðu.

Umræður og fyrirspurnir.

Nefnt var að mikilvægt er fyrir félög fatlaðra að vera meðvituð um innihald samnings SÞ því það er þrýstitæki á stjórnvöld. Halda þarf námskeið um samninginn fyrir almenna félagsmenn en ekki bara fyrir stjórnir. Rætt var hvernig betur væri hægt að ná til fólks úti á landi og virkja fólk í hagsmunabaráttu í ljósi dræmrar mætingar á fundi ÖBÍ.

Umræður voru um ráðningu eða aukið aðgengi að lögfræðingi. Þörf er fyrir lögfræðing á ýmsum sviðum, t.d. berst mikið af frumvörpum og reglugerðum til ÖBÍ sem beðið er um álit á. Lögfræðingur sem til álita kæmi þyrfti að vera góður í stjórnsýslurétti því slík mál koma oft inn á borð hjá ÖBÍ. Bent var á að gott væri að skoða meistararitgerðir þeirra sem sýna áhuga, til að sjá hvort áhersla er á viðskipti, fjárfestingar eða mannréttindi.

Formaður bar upp tillögu um að fundurinn feli formanni og framkvæmdastjóra að vinna að ráðningu lögfræðings. Samþykkt samhljóða.

5.  Fundaröð ÖBÍ á höfuðborgarsvæðinu.

Hrefna K. Óskarsdóttir sagði að mikil synd væri hvað fáir fatlaðir hafa mætt á þá fundi sem haldnir hafa verið í kringum landið og vonar að breyting verði á, á höfuðborgarsvæðinu. Fundirnir voru mjög vel auglýstir enda vissi fagfólk af þeim. Á einum stað var mjög góð mæting en þar fór starfsfólkið heim til fólks og keyrði það á fundinn. Hvetja þarf aðildarfélögin til að hvetja sitt fólk til að mæta og eru persónuleg tengsl greinilega betri. Fundirnir hafa verið góðir og mjög góð umræða sem þar hefur farið fram og því er synd að nánast eingöngu starfsfólk, fagfólk og sveitarstjórnarfólk mæti.

Umræður voru um hvað hægt væri að gera og kom sú hugmynd fram að fara t.d. á Reykjalund, Grensás og biðja Íþróttafélag fatlaðra um að koma á fundi. Gott væri ef einhver gæti skrifað grein í blöðin þar sem fjallað er um fundina. Félögin þurfa að vera frjó og koma með hugmyndir að nýjum baráttuaðferðum.

6. Námskeið um Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun.

Formaður sagði að ekki væri búið að forma námskeiðið en það verður kynnt í sumar eða haust.

7. Næsti aðalstjórnarfundur.

Næsti aðalstjórnarfundur verður haldinn miðvikudaginn 7. september, kl. 17.00, Hátúni 10, 9. hæð, Reykjavík.

8. Önnur mál.

a) Málsókn gegn Stöð 2.

Grétar Pétur Geirsson, Sjálfsbjörg, spurði hvernig það mál stæði?

Formaður svaraði því til að ÖBÍ hefði sent kæru til siðanefndar blaðamannafélagsins. Svarbréf barst frá siðanefndinni þar sem fram kom að þetta mál tengdist ekki ÖBÍ og því var kæran ekki tekin til greina.

Spurt var hvort hægt væri að skoða málið á þeim grundvelli að leggja fram kæru fyrir hönd konunnar eða fá umboð hennar? Þá væri ÖBÍ lögformlegur aðili að málinu og þá bæri siðanefndinni að taka málið til málefnalegrar umræðu.

b) Viðurkenning á íslensku táknmáli.

Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra, sagði frá því að 27. maí 2011 voru samþykkt lög á Alþingi sem viðurkenna íslenskt táknmál til jafns við íslenska tungu. Þetta er mjög stór áfangi fyrir táknmálstalandi fólk.

Ágústa Gunnarsdóttir, Fjólu – félagi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, benti á að í sömu lögum er punktaletur viðurkennt sem letur og lögfest að það skuli nota fyrir þá sem þurfa á því að halda til tjáskipta. ÖBÍ á að vera til fyrirmyndar í aðgengismálum og því ætti ÖBÍ að taka til hendinni núna í Hátúni og merkja hnappana í lyftunni og hurðirnar sem gengið er framhjá. Einnig mætti setja talgervil í lyftuna.

c) Bæklingur ÖBÍ.

Snævar Ívarsson, Félagi lesblindra þakkaði fyrir bækling um ÖBÍ sem gefinn hefur verið út á íslensku og ensku. Bað jafnframt um að honum yrði dreift á aðildarfélög ÖBÍ svo hægt væri að hafa hann með sér á ráðstefnur erlendis.

d) Fundaröð ÖBÍ.

Frímann Sigurnýasson, SÍBS, spurði hvort hægt væri að draga lærdóm af fundaröð ÖBÍ um landið? Skiluðu fundirnir því sem þeim var ætlað, varð árangur af þeim?

Í umræðum kom fram að misjafnt er hvort aðildarfélög ÖBÍ hafi þrýst á sitt fólk að fara eða ekki og þurfa félögin að taka sig á þar. Leggja mætti meiri áherslu á hver aðildarfélög ÖBÍ eru og fyrir hvað félögin standa, því hugsunin er oft sú að ÖBÍ sé fyrir fólk í hjólastól.

Lærdómar sem draga má af fundunum er mæting á fundina. Fundirnir ættu að snúast um að ná tengslum við fólk úti á landi og kynna því hvaða rétt það hefur almennt varðandi þjónustu, því oft er fólk þjónustað á grundvelli heilbrigðislaga en ekki laga um málefni fatlaðra. Full mikill tími fór í að kynna samning SÞ, en sá fundur hefur verið sér á höfuðborgarsvæðinu.

e) Afmælisrit ÖBÍ.

Formaður sagði frá því að mikið hefði komið tilbaka af afmælisriti ÖBÍ. Töluvert af blöðum hafi verið merkt látnu fólki. Hvatti hann aðildarfélögin til að uppfæra félagaskrár sínar.

Rætt var um að nánast útilokað væri að samkeyra félagaskrár og þjóðskrá því að fólk býr ekki alltaf á þeim stað sem lögheimili er skráð, þó gæti verið kostur að geta samkeyrt við þjóðskrá. Aðgengi að þjóðskrá er dýrt og kom fram sú hugmynd að ÖBÍ kaupi aðgang að þjóðskrá, sem félögin komast í. Gott væri að samkeyra félagaskrár aðildarfélaganna því margir eru skráðir í fleiri félög en eitt, jafnvel 7 til 9. Félögin þurfi því að yfirvinna erfiðleika varðandi persónuvernd. Fram kom að innan SÍBS er fólk sem tilheyrir fleiri félögum en einu en hefur bara eitt atkvæði við kosningar.

Framkvæmdastjóri sagði frá því að ætlunin hefði verið að samkeyra félagaskrár aðildarfélaganna en persónuvernd taldi það ekki heimilt. Ef ÖBÍ á að samkeyra félagaskrárnar þarf annað hvort að setja línu um það í lög hvers félags eða að fá upplýst samþykki allra félagsmanna. Miðað við uppgefnar tölur aðildarfélaga ÖBÍ eru félagsmenn um 28.000, en miðað við að margir séu í fleiri en einu félagi er raunverulegur fjöldi óþekktur.

f)  Námskeið.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, kom með þá hugmynd að til að breyta hugsanahætti fólks yrði búið til fræðsluverkfæri sem farið væri með inn á stóra vinnustaði og skóla, því viðhorf starfsfólks í leikskólum og grunnskólum skiptir miklu máli í tengslum við hvaða viðhorf börnin koma með út úr skólunum.

Rætt var að hugmyndafræði og áherslur eru að breytast og þarf þessi gerjun að ná til aðildarfélaga ÖBÍ. Hræra þarf upp í fötluðu fólki til að það velti fyrir sér valdeflingu og nýrri hugmyndafræði. Ungt fatlað fólk sækir ekki mikið til ÖBÍ og hugsar sumt ungt fólk um ÖBÍ sem bandalag gamalla vælandi öryrkja. Umræða er meðal ungs fólks að stofna réttindafélag í tengslum við mannréttindi. Fatlað fólk býr við fordóma hvert gagnvart öðru og vill ungt fólk sameinast án aðildarfélaga.

Formanni líst vel á að vinna að þessu í haust og fara í skólana í beinu framhaldi af fundaröð ÖBÍ.

Fundi slitið kl. 19.00

Fundarritari, Þórný Björk Jakobsdóttir.