Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 23. mars 2006

By 31. janúar 2012No Comments

Fundur aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands 23. mars 2006.

Fundargerð

Fimmtudaginn 23. mars 2006, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar að Hátúni 10, 9. hæð. Fundur var boðaður kl. 16:45.

Fundi stýrði formaður Öryrkjabandalags Íslands, Sigursteinn Másson.

Eftirtaldir sátu fundinn:

Sigursteinn Másson – Geðhjálp
Berglind Stefánsdóttir – Félagi heyrnarlausra
Þröstur Sverrisson – Umsjónarfélagi einhverfra
Guðmundur Johnsen – Félagi lesblindra
Guðmundur Magnússon – SEM-samtökunum
Pétur Ágústsson – MG-samtökunum
Jón Sigurðsson – Parkinsonssamtökunum
Svavar G Jónsson – Alnæmissamtökunum
Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir – Blindravinafélagi Íslands
Sigurjón Einarsson – Blindrafélaginu
Bára Snæfeld – ÖBÍ  -  fundarritari.
Þóra M Þórarinsdóttir – Styrktarfélagi vangefinna
Vilmundur Gíslason – Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Guðríður Ólafsdóttir – ÖBÍ
Sigríður Jóhannsdóttir – Samtökum sykursjúkra
Garðar Sverrisson – Daufblindrafélagi Íslands
Birgir Þ Kjartansson – SÍBS
Kristján Freyr Helgason – Stómasamtökum Íslands
Ægir Lúðvíksson – MND-félaginu
Steinunn Þóra Árnadóttir – MS-félagi Íslands
Hafdís Gísladóttir – ÖBÍ
Guðjón Ingvi Stefánsson – Heyrnarhjálp
María Th. Jónsdóttir – FAAS
Valgerður Ósk Auðunsdóttir – SPOEX
Ragnar Gunnar Þórhallsson – Sjálfsbjörg lsf.
Emil Thóroddsen – Gigtarfélagi Íslands

Formaður setti fund kl. 16.50 og bauð fundarmenn velkomna og óskaði eftir að fá að færa 4. dagskrárlið undir 1. dagskrárliðinn. Var það samþykkt.  Að því búnu var gengið til dagskrár.

1. Skýrsla formanns

(sjá fylgiskjal 1)

1.1. Umræða opnuð fyrir skýrslu formanns

Til máls tók Garðar Sverrisson.
Hann gerði athugasemd við ályktanir framkvæmdastjórnar að undanförnu sem hann telur að aðalstjórn ætti að samþykkja einnig.
Formaður sagði að þetta yrði tekið til athugunar.

Garðar,  Sigríður Jóhannsdóttir, Guðmundur Johnsen  sögðu um hópastarf ÖBÍ, gott starf en spurning hvernig hefði verið valið í þá hópa. Einhver félög með allt að fimm fulltrúa þó kallað væri eftir einum. Einnig kom fram í máli Guðmundar og Sigríðar ósk um kynningu fyrir kjörnum aðalstjórnarfulltrúum á niðurstöðum hópanna og þeir legðu samþykki sitt yfir niðurstöðurnar.

Ægir Lúðvíksson, Guðmundur Magnússon, sögðu í stuttu máli frá hve öflugt starf væri í gangi inni í þeim starfshópum sem þeir sitja.

Formaður útskýrði að stjórnir aðildarfélaganna hefðu í flestum tilfellum tilnefnt sína fulltrúa og eingöngu örfá tilfelli þar sem 2-3 fulltrúar eru tilnefndir frá sama aðildarfélagi. Hann benti á að mikill auður væri fólgin í því fólki sem situr í starfshópunum. Hafdís Gísladóttir benti einnig á að skipan í hópanna hafi verið kynnt á fundi formanna og framkvæmdastjóra aðildarfélaganna þann 9. febrúar og þar hafi félögum boðist að tilnefna fleiri ef áhugi væri fyrir því.
Hafdís bar fram tillögu um að fundur yrði með fulltrúunum 4. apríl til að kynna niðurstöður starfsins. Var það samþykkt.

2. Fjárhagsáætlun

Steinunn Þóra Árnadóttir gjaldkeri kynnti fjárhagsáætlun ÖBÍ fyrir árið 2006. (sjá fylgiskjal 2) 

Fram kom meðal annars að veruleg breyting verður frá fyrri árum þar sem framlag til Hússjóðs er lækkað verulega. Samþykki fékkst fyrir því frá stjórn Hússjóðs. Þessi breyting kemur meðal annars til að því að í heimsóknum formanns til aðildarfélaga síðast liðið haust kom fram skýr ósk um að hækka styrki til félaganna og einnig að starf skrifstofu yrði eflt.

Mælendaskrá opnuð.

Til máls tóku, Sigurjón Einarsson, Guðmundur Johnsen, Guðmundur Magnússon, Jón Sigurðsson, Ægir Lúðvíksson, Ragnar Gunnar Þórhallsson, Garðar Sverrisson, Emil Thóroddsen, til svara voru  Sigursteinn Másson, Hafdís Gísladóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Emil Thóroddsen.

Spurt um liðinn “Erlend samskipti” mikla hækkun milli ára –
Svar; sá liður var langt undir áætlun í fyrra miðað við árin á undan, gert er ráð fyrir sambærilegu starfi og var árin á undan á þessu ári og einnig er inni í tölunni kostnaður við að fá erlenda fulltrúa á málþing á Íslandi um málefni fatlaðra. Koma Evald Krog fellur m.a. undir þennan lið.

Spurt; um liði fjárhagsáætlunar sem snúa að flutningi skrifstofu, rök fyrir flutningi, ráðningu nýs starfsmanns.
Svar; húsakostur orðin þröngur, vinnustaðir ÖBÍ, Hússjóður ÖBÍ kalla eftir auknu rými einnig er gert ráð fyrir að bæta aðstöðu íbúa til félagsstarfs.

Ljóst er að félögin sem eru með starfsemi í Hátúni 10b hugsa sér til hreyfings vegna þrengsla. Huga beri að því að vera sem næst allri stjórnsýslu og að húsnæði sé í alla staði mjög aðgengilegt fötluðum utan- sem innanhúss og samgöngur að þjónustunni góðar. Nýr starfsmaður yrði þjónustufulltrúi í afgreiðslu sem sæi einnig um símsvörun. Bent á að í dag endurrukkar Hússjóður fyrir ½ stöðu sambærilega þeirri sem ráða á í, sá kostnaður falli undir skrifstofukostnað en ekki launalið því sé eingöngu um aukning á ½ stöðugildi að ræða.

Spurt; um liðinn “styrkir námssjóð SJ” 
Svar; ekki fastur liður. En á sl. ári talin þörf á að auka það framlag sem væri til úthlutunar úr sjóðnum. Sama hugsunin þetta árið.

Spurt; um liðina “lögfræðiþjónusta ÖB͔ og lögfræðikostnaður hver væri munurinn.
Svar; “lögfræðiþjónusta ÖB͔ sú ráðgjöf sem er veitt alla miðvikudaga á skrifstofu ÖBÍ, “lögfræðikostnaður” væri annar slíkur kostnaður sem hlytist nú t.d. vegna máls þess sem rekið er gegn Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti vegna svika á samkomulagi við ÖBÍ frá 2003.

Fundarmenn voru sammála um að hér væri á ferð metnaðarfull og framsækin fjárhagsáætlun. 
Fjárhagsáætlun borin undir atkvæði og samþykkt samljóða.

Annað sem kom fram undir þessum lið dagskrár var athugasemd Garðars um nauðsyn þess að ÖBÍ tæki aftur upp samband við Indipendant living. Fundarmenn sammála því.

Emil lagði fram tillögu um að á aðalstjórnarfundi 18. maí nk., verði starfsemi  Hússjóðs kynnt, m.a. ný þjónustu- og skoðanakönnun, helstu verkefni og áherslur. Tillagan var samþykkt

3. Hringferð ÖBÍ

Formaður kynnti hugmynd sem kviknað hefur um að ÖBÍ fari í hringferð um landið til að vekja athygli á málefnum fatlaðra á jákvæðan hátt. Faraskjótar yrðu hestar, fjórhjól og þau faratæki sem henta fötluðum. Slegið verði upp hátíð á hverjum stað og ferðinni lokið í Reykjavík 17. júní. Fengin verði verktaki til að skipuleggja framkvæmdina, sem hefji störf í maí byrjun. Kostnaður áætlaður 2 milljónir og 2 milljónir fáist frá styrktaraðila. Hugmynd um að fá ÖSSUR að því máli ekki enn verið rætt við þá, því trúnaðarmál enn sem komið er.

Umræða um hugmyndina,

 til máls tóku Þóra, Ægir, Garðar, Guðmundur, Guðjón Ingvi Stefánsson, Guðmundur Johnsen, Emil, Valgerður Auðunsdóttir, Vilmundur Gíslason, Guðríður Ólafsdóttir, Kristján Freyr Helgason, Birgir Þ Kjartansson Jón Sigurðsson.

Fundarmenn voru sammála um að þetta væri góð hugmynd sem hrinda ætti í framkvæmd. Nokkur umræða varð um tímasetningu, of snemma of seint fresta til komandi árs. Niðurstaða sem langflestir tóku undir að “keyra á þetta”, Verkefnaráðinn starfsmaður yrði ráðinn strax, ekki í maí (of seint). Tíminn fram til júní loka væri í lagi en eftir það mikið annríki hjá hestaeigendum vegna hestaferða, þátttöku á mótum o.fl.  Ekki tengja verkefnið við bæja- eða héraðshátíðir þar með hyrfi þetta í skuggann, enda skipulag þeirrar dagskrár væntanlega langt komin. Virkja fatlaða á hverju svæði fyrir sig og deildir félaga sem starfandi eru úti á landi. Mætti í leiðinni vekja athygli á þeim aukakostnaði sem fatlaðir á landsbyggðinni búa við varðandi sína fötlun.

Vísað til framkvæmdastjórnar og að unnið sé hratt í málinu. Á fundinum 4. apríl verði tilbúin einhver rammi um verkið og kynntur fundarmönnum.

Formaður kallaði eftir að fulltrúar aðildarfélaganna sendu sínar hugmyndir um framkvæmd og útfærslur í tölvupósti til skrifstofu hið fyrsta.

Samþykkt samhljóða.
 
4.Önnur mál

Formaður kynnti ráðningarsamning nýs framkvæmdastjóra Hafdísar Gísladóttur, þar sem m.a. kom fram að ráðið er á sambærilegum kjörum og fyrrum framkvæmdastjóri hafði, að undanskildum ferðakostnaði til og frá vinnu með leigubifreiðum sem fellur út. Samningur uppsegjanlegur með samkvæmt kjarasamningum.
Óskað var eftir samþykki fundar við samningnum.

Löng umræða um samninginn. Athugasemdir komu frá Guðmundi Magnússyni, Guðmundi Johnsen og Sigurjóni Einarssyni þar sem kallað var eftir að samningurinn yrði sýndur öllum aðalstjórnarfulltrúum. GM vísaði til beiðni sinnar á fundi 12. jan sl., um að inn í samning yrðu sett tímamörk tengd formannaskiptum, svo ekki kæmi til sárinda líkt og nú í vetur.

Formaður taldi það óeðlilegt að dreifa ráðningarsamningi á svo stórum fundi.
Undir hans mál tóku Þóra M Þórarinsdóttir, Emil Thóroddsen, Berglind Stefánsdóttir, Garðar Sverrisson, Birgir Þ Kjartansson, Ægir Lúðvíksson, Valgerður Auðunsdóttir og bentu á að í lögum væri það framkvæmdastjórn sem sæi um ráðninguna og hefði haft samþykki aðalstjórnar frá 12. jan sl. að gera samning við Hafdísi.

Emil lagði fram þá tillögu um að; fundurinn staðfesti saminginn og þeir sem vildu kynna sér hann nánar gætu mætt á skrifstofu ÖBÍ. Sambærilegt við fundargerðir framkvæmdastjórnar.

Umræðan dróst enn þar sem tvær ólíkar skoðanir voru í gangi.

Formaður kom þá með þá tillögu að fresta staðfestingu til aðalstjórnarfundar 18. maí nk., og þeir sem vildu kynna sér samninginn gætu mætt á skrifstofu ÖBÍ fyrir þann tíma.
Undir þessa tillögu tóku Vilmundur, Sigriður, Valgerður. Emil mælti bæði með sinn tillögu og Sigursteins.

Formaður ítrekaði að hann teldi það ekki sjálfsagt að allir fengju aðgang að ráðningasamningi, bar hann því næst upp tillögu um að;

 “staðfesting á ráðningarsamningi framkvæmdastjóra Hafdísar Gísladóttur, fari fram á aðalstjórnarfundi 18. maí og þeir sem vilja kynna sér samninginn mæti fyrir þann tíma á skrifstofu ÖB͔

Samþykkt með meirihluta greiddra atkvæða.

Kristján Freyr, óskaði eftir að á aðalfundi ÖBÍ í október nk. verði feldur út hluti setningar í 8 gr. laga ÖBÍ  þar sem segir:

“…sem staðfestur skal af aðalstjórn bandalagsins”..

Borið undir atkvæði og samþykkt með meirihluta greiddra atkvæða.

Vísað hér með til laganefndar.

Bára sagði að undir liðnum önnur mál hefði átt að vera stutt kynning á heimasíðu ÖBÍ, starfsmaður Hugsmiðjunnar mætti, en vegna langrar umræðu sem orðið hefði væri nú búið að senda hann heim. Sagði hún að síðan færi í loftið brátt. Lagði til að á aukafundi aðalstjórnar þann 4. apríl nk. yrði hún opnuð.

Fulltrúi Hugsmiðjunnar ætlaði í leiðinni að kynna þann tilboðspakka sem boðinn verður aðildarfélögunum í gerð heimasíðna fyrir þau. ÖBÍ hefur keypt allan þann hugbúnað sem þeir bjóða upp á með þeim skilyrðum að aðildarfélögin fái aðgang að þeim hugbúnaði einnig. Útaf stendur þá kostnaður sem snýr að vinnu útlits síðu hvers og eins félags, veftrés og vefun á þessum tveim þáttum. Sendur verðu tölvupóstur til allra aðildarfélaga með þessum upplýsingum og einnig slóð inn á heimasíðuna, aðildarfélögum til kynningar, á morgun eða síðasta lagi á mánudaginn.

Sigurjón spurði hvar vinna við lagabreytingar væri stödd. Tiltók hann nokkrar athugasemdir sem hann hefði lagt fram á sl. aðalfundi þegar málinu var vísað til næsta aðalfundar og ný nefnd skipuð.
Formaður tjáði honum að ekki stæði til að leggja sömu lagabreytingar fyrir næsta aðalfund. Hvatti hann Sigurjón til að senda Garðar Sverrissyni formanni laganefndarinnar sínar athugasemdir.

Að lokum fór formaður nokkrum orðum um starfslokasamning við Arnþór Helgason sem ekki hefur verið gengið frá enn, þar sem lögfræðingur Arnþórs hefur ekki enn svarað tilboði lögfræðings ÖBÍ. Framkvæmdastjórn vill nú fara að ljúka málinu og mun ef gengið verður einhliða frá samningnum gera ráð fyrir greiðslu fyrir sex mánaða í stað þriggja mánaða eins og gert er ráð fyrir í ráðningarsamningi, ef ekkert verður rætt við eða ÖBÍ ekki svarað um málið.
Annars verður gengið frá samningi í anda þess sem niðurstaða var um á aðalstjórnarfundi 12. janúar síðastliðinn.

Formaður þakkaði síðan fundinn og óskaði málefnalegrar umræðu á næsta fundi þann 18. maí nk. Sleit því næst fundi kl. 19.45

Fundarritari Bára Snæfeld.


(Fylgiskjal 1)

Aðalstjórnarfundur í Hátúni 10, 23. mars 2006.

Kæru félagar,
Síðastliðna daga hefur maður að nafni Evald Krog vakið athygli fyrir skörulega framgöngu á Íslandi. Evald er með vöðvarýrnunarsjúkdóm á háu stigi og hefur verið í öndunarvél síðustu þrjú ár. Hann stýrir dönskum regnhlífarsamtökum fólks með vöðvarýrnun og átti stóran þátt í því að lög um persónulega liðveislu, einstaklingsbundinn stuðning voru sett í Danmörku. Þau hafa gerbreytt lífi fólks sem áður var stofnanamatur og baggi á nánustu fjölskyldu. Þau hafa einnig gert fólki eins og Evald kleyft að lifa vegna þess að hefði hann ekki öndunarvélina sítengda og tvo hjálparliða til að sjá um hana og hann allan sólarhringinn þá ætti hann enga tilveru. Þá hefði hann ekki nú sjötíu og fimm manns í vinnu og stæði að tónleikum fyrir kvart milljón Dana á ári hverju. Evald kom hingað til lands á vegum ÖBÍ til að kynna þetta liðveislu fyrirkomulag í Danmörku. Það er háð því að hinn fatlaði hafi andlega færni til ráða sér hjálparliða og stjórna lífi sínu sjálfur. Þetta tiltekna kerfi er fyrir þá sem lífsnauðsynlega þurfa á hjálparliðum að halda til þátttöku í samfélaginu. Evald hefur bent á að miðað við þann fjölda sem nýtur þjónustunnar í Danmörku séum við hugsanlega að tala um 50 manns á Íslandi. Það eru kannski ekki margir en það er afar brýnt að strax sé komið til móts við þarfir þessa hóps. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða. Á fundi með félagsmálaráðherra á þriðjudag kom fram að ákveðið væri að skipa starfshóp um málið með þátttöku hagsmunaaðila. ÖBÍ er reiðubúið til þátttöku. Sé hinu danska liðveislukerfi komið á nú á allra næstu mánuðum er ég sannfærður um að það muni hafa mjög jákvæð áhrif á þróun liðveislu fyrir aðra hópa fatlaðra. Það er brýnt að við sjáum hið mikla tækifæri hér til að stíga alveg nýtt skref í einstaklingsbundinni þjónustu við fatlaða á Íslandi og að þetta er fyrsta skrefið af mörgum sem við þurfum að stíga. Ég vil sérstaklega færa Guðjóni Sigurðssyni formanni MND félagsins þakkir ÖBÍ fyrir að kynna Evald til sögunnar á Íslandi og fyrir að vera honum innan handar allan tímann í heimsókn hans hingað til lands. 

Frá síðasta aðalstjórnarfundi þann tólfta janúar síðastliðnum hefur starf ÖBÍ að miklu leyti snúist um innra skipulag og starfshætti. Þar er að mörgu að huga og hefur það einkum fallið í hlut Hafdísar Gísladóttur nýs framkvæmdastjóra að framkvæma þá vinnu. Á fundinum í janúar var það rætt að fljótlega gæti komið til flutnings á skrifstofu ÖBÍ úr núverandi húsnæði í Hátúni 10. Athugun á húsnæði til leigu stendur yfir en hefur enn ekki borið árangur. Áhersla er lögð á mjög gott aðgengi, nálægð við stjórnsýslu og almenningssamgöngur og ímynd. Framkvæmdahópur um stefnumótun sem kynntur var á síðasta fundi hefur ákveðið að láta framkvæma ímyndarmælingu á ÖBÍ- Hvar við stöndum í dag gagnvart almenningsálitinu. Þannig fáum við skýrari mynd um það hvert stefna skuli með heildarsamtökin. Einnig hefur verið ákveðið að leita sérfræðiþekkingar varðandi þau skref sem stigin verða á næstunni í samvinnu við aðildarfélög ÖBÍ. Í þessari vinnu felst endurskilgreining á hlutverki, tilgangi og markmiðum ÖBÍ og hvernig við sjáum ýmsa þætti starfseminnar þróast á næstu árum.

Stærsta verkefni ÖBÍ að undanförnu hefur verið hópastarf ÖBÍ og aðildarfélaga þess í samvinnu við Landssamband eldri borgara og Landssamtökin Þroskahjálp. Með hópastarfinu sem fram fer í húsnæði Hringsjár hefur leyst úr læðingi mikil orka, kraftur og nýjar hugmyndir um leiðir í velferðarmálunum. Hóparnir eru:

  1. Hópur um hönnun heilbrigðisþjónustu og aðgengi út frá sjónarmiðum notenda.
  2. Hópur um búsetumál og einstaklingsbundna þjónustu.
  3. Hópur um endurskoðun bóta almannatrygginga
  4. Hópur um endurhæfingu og menntun
  5. Hópur um aukna atvinnuþátttöku.

Sérfræðingar sem fengnir voru hópunum til halds og trausts eru Einar Árnason hagfræðingur, Stefán Ólafsson professor, Rannveig Traustadóttir professor, Hjördís Jónsdóttir lækningaforstjóri, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir.
Í þessari umfjöllun brjótum við niður aðskilnaðarmúra milli fötlunar- og aldurshópa en komum fram með heildrænar grunn hugmyndir. Vinnan gengur vel og nú er aðeins vika þar til hóparnir skila niðurstöðum sínum. Hugmyndin er að kynna meginefni þeirra fyrir leiðtogum stjórnmálaflokkanna og almenningi í þar næstu viku eða fyrir páska. Þá munum kalla eftir skuldbindandi yfirlýsingum stjórnmálaflokkanna um þátttöku þeirra í því að breyta með okkur íslenska velferðarkerfinu á þeim nótum sem niðurstöður hópanna segja fyrir um. Þetta er spennandi verkefni sem hefur fært aðildarfélögin og ÖBÍ nær hvort öðru en einnig styrkt tengslin við samtök aldraðra og Þroskahjálp. Niðurstöðurnar verða vel kynntar í fjölmiðlum með það að markmiði að málefni fatlaðra verði rækilega á dagskrá sveitarstjórnarkosninganna í vor. Ljóst er að málefni aldraðra verða ofarlega á baugi með áherslum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og er það vel.

Lögmaður ÖBÍ veitti ríkislögmanni frest til að skila greinargerð sinni í málaferlum okkar á hendur heilbrigðis og tryggingaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar vegna vanefnda á samkomulagi þáverandi formanns ÖBÍ og ráðherra í mars 2003. Greinargerðin var svo lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 28. febrúar síðastliðinn. Það kemur ekki á óvart að vörnin byggir einkum á að ekki hafi verið um samkomulag að ræða um efnisinnihald samnings heldur viljayfirlýsingu. Einnig er tekið fram að ráðherra hafi ekki haft umboð til slíks samkomulags af hálfu ríkisstjórnar og vekur sú fullyrðing athygli. Þann tuttugasta mars síðastliðinn fór fram fyrsta fyrirtaka í málinu og er full ástæða fyrir okkur að vera vongóð um dómsniðurstöðu sem kann að verða í vor.

Mikill erill var á skrifstofu ÖBÍ í janúar og febrúar og var stór hluti erindanna vegna endurgreiðslukrafna Tryggingastofnunar vegna ofgreiðslu bóta fyrir árið 2004. Þann fyrsta mars átti formaður og starfsmenn ÖBÍ fund með forstjóra Tryggingastofnunar og sérfræðingum stofnunarinnar þar sem fram kom að stofnunin gæti ekki svarað og afgreitt allar þær fjölmörgu umkvartanir sem stofnuninni höfðu borist. Þann áttunda mars sendi TR út bréf til þessara aðila um að vonandi yrði hægt að afgreiða erindi bótaþega innan sex til átta mánaða frá dagsetningu bréfsins. Framkvæmdastjórn ÖBÍ sendi frá sér ályktun þar sem vinnubrögðin voru átalin enda gengju þau í berhögg við anda stjórnsýslulaga. Vandræðagangurinn vegna endurreikninga bótanna leiddi í ljós að óframkvæmanlegt væri fyrir TR að vinna samkvæmt núgildandi lögum og reglum um almannatryggingar. Nú er svo komið að það neitar því enginn maður að endurskoða þurfi og einfalda lög um almannatryggingar og er það verkefni ÖBÍ að flýta því að til þess verkefnis sé gengið.

Við annað tækifæri lýsti ÖBÍ stuðningi við meginsjónarmið sem fram komu í skýrslu sérfræðinga TR um réttlátari notendagjöld í sjúkratryggingum og það er ekki á hverjum degi sem TR fær stuðning úr þessari átt enda stóð frétt um ályktun ÖBÍ lengi á forsíðu á vef TR. Þess var freistað að setja aðra ályktun í farveg til afgreiðslu á vettvangi stjórna allra aðildarfélaga ÖBÍ og snérist hún um afstöðuna til fyrirhugaðrar stórbyggingar sameinaðs sjúkrahúss í Vatnsmýri. Um sama leyti var hugur aðildarfélaganna til samninga ÖBÍ fyrir þeirra hönd við olífélögin kannaður. Niðurstaðan af þessu ferli er að mínu mati mjög góð. Þetta krafðist umtalsverðrar vinnu og tíma en á endanum þá var annarsvegar samþykkt ályktun þar sem farið er fram á að heildarsamtökin komi þegar í stað að frekari ákvörðunum um svokallað hátæknisjúkrahús og hinsvegar náðist ekki full samstaða um samninga við olífélögin sem sett hefur þau mál í annan farveg. Í janúar var gengið frá samningi við Skeljung um sjálfsafgreiðsluverð til öryrkja þótt þeir nýti sér þjónustu og afslátt af öllum vörum. Samskonar samningar við Olís og ESSO eru í burðarliðnum. Spurningin er sú hvort áhugi sé fyrir því í félögunum að á vettvangi ÖBÍ verði gengið lengra í að fá fram afsláttarkjör fyrir alla öryrkja eða hvort félögin telji að þau mál séu betur komin hjá þeim sjálfum.

Kæru félagar, Kjörorð Evrópusamtaka fatlaðra sem áður var “Ekkert um okkur, án okkar” er nú: “Ekkert um fatlaða án fatlaðra”. Ég er þeirrar skoðunar að það fyrra sé betra og rétt sé að halda í það enda virðist sem það hafi þegar náð vel í gegn. Nú virðist barátta undangenginna ára vera að byrja að skila sér, nýr hugsunarháttur er að ryðja sér til rúms. Umræðan um þátttöku notenda er á allt öðru plani. Í Noregi hafa verið í gildi lög frá árinu 2002 um þátttöku notenda í stjórnum og ráðum í heilbrigðisþjónustunni. Verið er að gera úttekt á því nú í samvinnu við norska Öryrkjabandalagið hvernig til hefur tekist. Niðurstöðu er að vænta í haust og þá sjáum við hvort við eigum að fara sömu leið og Norðmenn. Með því að fara sömu leið og Danir nú með persónulega liðveislu erum við ekki að segja að við ætlum að staðnæmast þar sem þeir eru. Við erum bara að nýta okkur það sem virkar án þess að þurfa að finna upp hjólið. Við erum að skapa fordæmi, sem mun nýtast okkur í að víkka út þjónustuna þegar fram í sækir. Danir mega þá vonandi einnig líta okkur öfundaraugum vegna velferðarkerfisins en ekki aðeins vegna viðskiptanna.

Það er margt spennandi að gerast og ÖBÍ verður áberandi á næstunni. Miklu máli skiptir að nýta aðdraganda sveitarstjórnarkosninga vel sem upptakt að kosningaárinu sem framundan er. Breytingarnar liggja í loftinu. Tækifærið er núna!