Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 24. febrúar 2011

By 6. janúar 2012No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn í „Rauða sal“, Hátúni 12, fimmtudaginn 24. febrúar 2011, kl. 17.00-19.00.

Mættir aðalstjórnarfulltrúar:

ADHD samtökin – Björk Þórarinsdóttir
Ás styrktarfélag – Guðrún Gunnarsdóttir
Blindravinafélag Íslands – Guðbjörg Jóna Sigurðardóttir
FAAS – María Th. Jónsdóttir
Félag CP á Íslandi – Klara Geirsdóttir
Félag heyrnarlausra – Hjördís Anna Haraldsdóttir
Félag lesblindra á Íslandi – Snævar Ívarsson
Félag nýrnasjúkra – Jórunn Sörensen
Gigtarfélag Íslands – Emil Thóroddsen
HIV-Ísland – Ingi Hans Ágústsson
Hugarfar – Kristín B. Michelsen
LAUF – Brynhildur Arthúrsdóttir
Málbjörg – Árni Þór Birgisson
MG-félag Íslands – Bryndís Theodórsdóttir
MS-félagið – Sigurbjörg Ármannsdóttir
SEM samtökin – Guðmundur Magnússon
SÍBS – Frímann Sigurnýasson
SPOEX – Albert Ingason
Stómasamtök Íslands – Jón Þorkelsson
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra – Vilmundur Gíslason
Umsjónarfélag einhverfra – Sigríður Sigurjónsdóttir

Áheyrnarfulltrúi Kvennahreyfingar ÖBÍ:

Sóley Björk Axelsdóttir

Starfsmenn ÖBÍ:

Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Sigríður H. Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Anna Guðrún Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Þórný B. Jakobsdóttir, starfsmaður skrifstofu
Hrefna K. Óskarsdóttir, starfsmaður yfirfærsluhóps
 

Fundargerð

1.  Formaður setur fund og fundarmenn kynna sig.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ setti fundinn, bauð fundarmenn velkomna og bað þá jafnframt að kynna sig.

2.  Skýrsla formanns. (Glærur fylgja með í viðhengi)

Formaður flutti skýrslu sína og sagði meðal annars frá yfirstandandi fundaröð ÖBÍ um landið, ráðstefnunni „Fátækt og félagslegar aðstæður öryrkja“, stækkun skrifstofu ÖBÍ, nýjum ritstjóra tímarits ÖBÍ, afmæli ÖBÍ 5. maí, NNDR ráðstefnu 27.-28. maí og fundi EDF í Mílanó 18.-19. febrúar.

3.  Fundargerð frá 12. janúar 2011.

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.

4.  Íslensk neysluviðmið.

Skýrsla velferðarráðuneytisins sem kynnt var á blaðamannafundi 7. febrúar sl. Sérfræðingar sem komu að gerð hennar kynna hana. Umræður. (Glærur fylgja með í viðhengi)

Lára Björnsdóttir, Björn Þór Hermannsson og Sigríður Jónsdóttir kynntu.

Neysluviðmið voru kynnt 7. febrúar sl. á fundi m.a. með hagsmunasamtökum o.fl. Viðmiðin eru í kynningarferli en hægt er að sjá þau á vef velferðarráðu-neytisins, sem og skýrslu og kynningarefni (glærur). Frestur er til 7. mars að koma með athugasemdir eða ábendingar.

Tvö útgjaldaviðmið voru gerð, til lengri tíma og skemmri tíma. Einnig var þróað grunnviðmið og var m.a. ástæða þess að útkomu viðmiðanna seinkaði. Neyslu-viðmið eru til upplýsinga fyrir einstaklinga, til stuðnings við fjárhagsaðstoð og til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir varðandi framfærslu. Áhersla er lögð á að viðmiðin eru ekki algild fyrir alla einstaklinga eða fjölskyldur, þau eru tæki til að fylgjast með þróun og eru ekki innleidd með löggjöf. Samráð milli ráðuneytisins og félaga fatlaðra er mjög mikilvægt og að sátt sé milli aðila um hvernig viðmið eru notuð.

Spurt var af hverju kostnaður vegna húsnæðis hefði ekki verið settur inn?

Ástæða þess að ekki er settur inn kostnaður vegna húsnæðis, hitunar, bifreiða og fleira er að settar eru inn aðstæður einstaklingsins og er það ekki stjórnvalda að ákveða hvað það viðmið eigi að vera heldur þeirra aðila semð nýta viðmiðin hverju sinni. Yfirleitt eru þessar tölur of lágar þar sem þær hafa verið settar inn. Eins er með bifreiðakostnað, margir freistast til að segja að þeir sem eru með lágmarksframfærsluna, eigi t.d. ekki að eiga bíl, en sumir bara verða að eiga bíl.

Formaður sagði frá því að viðmiðin væru sterkt baráttutæki fyrir bandalagið því samanburður á neysluviðmiðum og greiðslum TR sýnir að bætur TR eru fyrir neðan skammtíma viðmiðin.

Spurt var hvort tölurnar í viðmiðunum breyttust eftir því sem neysluverð breytist?

Tölurnar voru uppfærðar í desember sl. og byggja á niðurstöðum kannanna 2003 til 2008. Hugmyndin er að þær verði uppfærðar reglulega, allavega einu sinni á ári og þá miðað við neysluvísitölu.

Spurt var hvort hægt væri að setja viðmiðin fram á einfaldari máta svo að fólk almennt geti skilið þau og útskýringar þeim tengdar?

Skilningur var á að fólk velti orðanotkun skýrslugerðarinnar fyrir sér. Best er að styðjast við skýrsluna og glærurnar þegar þetta er útskýrt fyrir öðrum og að fara á vefreikninn, sem er inni á vefsíðunni www.vel.is.

Spurt var hvaðan þátttakendur sem dæmigerða viðmiðið byggði á hefðu fengið sína framfærslu? Hvernig ráðuneytið ætli að nýta viðmiðin og hvort þau verði notuð í endurskoðun á almannatryggingakerfinu? Af hverju nýta Danir sér þetta ekki lengur?

Ráðherra vill umræðu um þetta í þjóðfélaginu og helst að sátt sé um viðmiðin. Ekki var spurt um framfærslu þátttakenda, einungis útgjöld. Tölurnar gefa upp raunneyslu Íslendinga. Tillaga er aftast í skýrslunni um að búin verði til önnur reiknivél sem að sýni tekjur á móti útgjöldum, svo að betri yfirsýn fáist. Viðmiðin eru ætluð til leiðbeininga en ekki sem valdboð að ofan. Hvernig þau verða nýtt er pólitísk ákvörðun en hægt er að nýta þau á mjög margan hátt. Í Danmörku var það pólitísk ákvörðun að hætta að nýtast við miðmiðin.

Spurt var hvort gerð hefði verið útgjaldakönnun hjá öryrkjum?

Ekki er vitað til að slík könnun hafi verið gerð meðal öryrkja.

Spurt var af hverju skattar og opinber gjöld séu ekki tekin með?

Ástæðan er sú að ráðstöfunartekjur eru skoðaðar eftir að skattar hafa verið greiddir. Aftast í skýrslunni er flokkur sem heitir lyf og lækniskostnaður. Þar er sundurliðun á flokkuninni en tölur koma ekki fram. Allir beinir skattar og opinber gjöld eru ekki tekin inn en óbeinir skattar sem reiknast inn í vöruverð koma þar inn. Fasteignagjöld eru tekin inn en fasteignaskattur ekki. Þessi háttur er á í öllum gerðum viðmiða í öðrum löndum sem Íslendingar bera sig saman við.

5.  Önnur mál.

a) Fjölmiðlar.

Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra sagðist hafa verið að hugsa það síðustu daga hvernig fjölmiðlar spila á ÖBÍ, hvaða álit fjölmiðlar hafa á bandalaginu og hvort bandalagið svari á réttan hátt?

Formaður sagði að mikið hefði verið um rangfærslur í fjölmiðlum að undanförnu og að sér fyndist ekki eiga að svara þeim nema þær séu þeim mun alvarlegri. Frétt sem birtist fyrir jólin var kærð til úrskurðarnefndar blaðamannafélagsins, sem vísaði málinu frá á þeim forsendum að ÖBÍ væri ekki aðili að málinu.

b) Úrsögn Geðhjálpar.

Frímann Sigurnýasson, SÍBS sagði að sér fyndist að það ætti að ræða á aðalstjórnarfundi þegar aðildarfélög segðu sig úr bandalaginu, eins og hafi nú gerst með úrsögn Geðhjálpar.

Formaður sagði að rétt hefði verið að setja þetta sem dagskrárlið og ræða það. Lög ÖBÍ eru skýr hvað það varðar ef félög eru rekin úr bandalaginu, aftur á móti er ekkert fjallað um úrsögn. Félög hafa sagt sig úr bandalaginu og komið inn aftur.

Kristín B. Michelsen, Hugarfari lagði til að ÖBÍ þakkaði Geðhjálp samstarfið og bjóði þau velkomin aftur ef þau vilja koma inn seinna.

Tillaga Kristínar var lögð fyrir fundinn og samþykkt samhljóða.

c) Frumvarp um íslenskt táknmál.

Hjördís Anna Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra tilkynnti að lagt hefði verið fram frumvarp á alþingi um fullgildingu íslensks táknmáls. Vonast er til að frumvarpið verði samþykkt sem lög. Þessu var fagnað með lófaklappi.

d) Málefli.

Þórdís Bjarnadóttir, Málefli tilkynnti að félagið hefði farið á fund Menntamálanefndar Alþingis. Vel var tekið á móti þeim og var ferli sett af stað varðandi þau vandamál sem félagið benti á að væru til staðar í skólakerfinu.

e) Bakhópur um neysluviðmið.

Framkvæmdastjóri ÖBÍ benti á að þeir sem hefðu áhuga á að sitja í bakhóp vegna neysluviðmiða gætu haft samband við sig eftir fundinn.

f)  Bæklingur um ÖBÍ.

Bæklingur hefur verið búinn til um ÖBÍ. Hann var nýprentaður þegar bréf um úrsögn Geðhjálpar barst og því eru talin upp 34 aðildarfélög í honum. Hægt er að nálgast bæklinginn á skrifstofu ÖBÍ.

Fundi slitið kl. 19.03.

Fundarritarar: Anna Guðrún Sigurðardóttir og Þórný Björk Jakobsdóttir.