Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 25. apríl 2007

By 19. desember 2007No Comments

Miðvikudaginn 25. apríl 2007, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands saman til fundar að Hátúni 10, 9. hæð. Fundur var boðaður kl. 16:45.

Fundi stýrði formaður Öryrkjabandalags Íslands, Sigursteinn Másson.

Eftirtaldir sátu fundinn:

Auður Thorarensen  Félagi nýrnasjúkra
Sigríður Jóhannsdóttir  Samtökum sykursjúkra
Kristján Freyr Helgason  Stómasamtökum Íslands
Guðmundur Magnússon  SEM-samtökunum
Halldór Sævar Guðbergsson Blindrafélaginu
Svavar G. Jónsson  Alnæmissamtökunum
Ragnar Gunnar Þórhallsson Sjálfsbjörg landssambandi fatlaðra
Garðar Sverrisson  MS-félagi Íslands
Steinunn Þóra Árnadóttir gjaldkeri í framkvæmdastjórn ÖBÍ
Emil Thóroddsen   Gigtarfélagi Íslands
Þórey Ólafsdóttir  Daufblindrafélagi Íslands
Hafdís Gísladóttir  framkvæmdastjóri ÖBÍ
Sigursteinn R. Másson  Geðhjálp – formaður ÖBÍ
Ægir Lúðvíksson   MND-félaginu
Valgerður Auðunsdóttir  SPOEX
Haukur Helgason   FAAS
Helgi Hróðmarsson  SÍBS
Guðrún B. Pétursdóttir  Umsjónarfélagi einhverfra
Þórunn S. Pálsdóttir   Geðverndarfélagi Íslands
Tryggvi Þór Agnarsson  Tourette samtökunum
Ásbjörn Einarsson  Parkinsonssamtökunum
Sigurður Þór Sigurðsson  Styrktarfélagi vangefinna
Hjördís Anna Haraldsdóttir Félagi heyrnarlausra
Björk Þórarinsdóttir  ADHD samtökunum
Ársæll Arnarsson  Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra
Guðríður Ólafsdóttir  félagsmálafulltrúi ÖBÍ
Bára Snæfeld   upplýsingafulltrúi ÖBÍ

Fundur var settur kl. 17:00 að því búnu kynntu fundarmenn sig og formaður flutti skýrslu sína.

1. Skýrsla formanns.

Ágætu aðalstjórnarfulltrúar!
Þann 5. mars sl. skilaði svonefnd Örorkumatsnefnd forsætisráðherra áliti sínu. Í því er áhersla lögð á stóraukna endurhæfingu sem ríkissjóður, lífeyrissjóðir og aðilar vinnumarkaðarins komi sameiginlega að fjármögnun á. Nefndin leggur það til að við örorkumat verði skilið á milli mats á þörf einstaklingsins fyrir stoðþjónustu og mats á færni hans til að afla sér tekna. Matið á stoðþjónustu verði ótekjutengt sem er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir fólk með fötlun enda miði stoðþjónustan að því að skapa einstaklingi eins jöfn tækifæri og kostur er. Er þá bæði átt við þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Hins vegar er gert ráð fyrir að tekið verði upp mat á færni einstaklingsins til að afla tekna í kjölfar sjúkdóms eða slyss. Mikilvægt er að hafa í huga að þær hugmyndir sem eru á borðinu eru fyrst og fremst hugsaðar út frá þeim sem áunnið hafa sér einhver réttindi á vinnumarkaði. Það er og eðlilegt í ljósi þess hvernig til vinnu nefndarinnar var stofnað. Hún var hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar árið 2005 til að liðka fyrir samningum milli aðila vinnumarkaðarins.

Með því að ÖBÍ hafði uppi háværar kröfur um þátttöku í starfinu má með sanni segja að áherslur nefndarinnar hafi breyst. Þær snúast nú miklu fremur um að skapa á Íslandi réttlátara kerfi sem byggir undir færni fólks og þátttöku og viðurkennt er að breytingin muni til að byrja með hafa í för með sér mjög aukinn kostnað fyrir ríkið og aðila vinnumarkaðarins. Eftir er að útfæra hugmyndirnar en ný framkvæmdanefnd um endurskoðun örorkumats var skipuð á mánudag 23. apríl. Ragnar Gunnar Þórhallsson formaður Sjálfsbjargar hefur setið í Örorkumatsnefndinni fyrir hönd ÖBÍ og skilað þar góðu starfi. Haldinn var kynningarfundur fyrir formenn og framkvæmdastjóra aðildarfélaga ÖBÍ þann 15. apríl og aðildarfélög hafa átt þess kost að fá Ragnar Gunnar til að halda kynningu á starfinu í nefndinni sem félög eru þegar byrjuð að nýta sér. Nokkurs uggs hefur gætt meðal sumra félagsmanna með þann hraða sem verið hefur á málinu. Um er að ræða mjög viðkvæm mál sem brýnt er að skoða gaumgæfilega en hugmyndir í forsætisráðuneytinu hafa gengið út á að ljúka starfinu á haustmánuðum með löggjöf sem taki gildi um næstu áramót.

Á fundi formanns ÖBÍ með forsætisráðherra miðvikudaginn 18. apríl var þessum áhyggjum komið á framfæri og sagði forsætisráðherra það vel koma til greina af sinni hálfu að ljúka vinnunni seinna en í haust eða næsta vetur en lagði áherslu á samvinnu við ÖBÍ um málið.  Það er auðvitað undir stjórnarþátttöku hans komið. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga vinnubrögð Norðmanna en stjórn Verkamannaflokksins hefur svipuð markmið og hér hafa verið kynnt. Hún ætlar sér að undirbúa málið mjög vel og stefna að lagasetningu um nýtt örorkumat og endurhæfingarmál í árs¬byrjun 2009. Íslensk stjórnvöld eru sem sagt reiðubúin nú að taka Norðmenn sér til fyrirmyndar að þessu leiti og gefst því gott tóm til að skoða vel allar hliðar málsins áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar. Af hálfu ÖBÍ hefur Ragnar Gunnar verið tilnefndur til áframhald¬andi starfs í framkvæmdahópnum og er það m.a. verkefni þessa fundar að afgreiða áframhaldandi umboð Ragnars Gunnars til þátttöku sem fulltrúi ÖBÍ í starfinu.

Strax að loknum kosningum eða þann 14. maí verður málflutningur í Hæstarétti í máli Öryrkjabandalagsins á hendur heilbrigðisráðherra f.h. ríkisstjórnarinnar vegna vanefnda á samkomulagi um aldurstengdar örorkuuppbætur. Formaður ÖBÍ hefur lagt áherslu á það í fjölmiðlum að fari svo að Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms ríkinu í vil þá þýði það að ráðherrar ríkisstjórnar Íslands séu algjörlega óbundnir af samningum sem þeir gera nema þá aðeins að um þá hafi áður verið sett lög á Alþingi. Slík niðurstaða hlýtur þá að hafa víðtæk áhrif á stöðu æðstu manna framkvæmdavaldsins en hingað til hafa aðilar vinnumarkaðarins litið svo á að stjórnvöld væru skuldbundin samkomulagi sem þau gera fyrirfram til að greiða fyrir kjarasamningum svo dæmi sé tekið. Hvernig svo sem fer í Hæstarétti mun niðurstaðan hafa þýðingu.

Föstudaginn 30. mars skrifaði fulltrúi Íslands hjá fastanefnd Sameinuðu þjóðanna í New York undir sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Fyrir Íslands hönd ritaði hann einnig undir sérstakan viðauka við sáttmálann sem gerir ráð fyrir nýrri kæruleið til úrskurðarnefndar sem Sameinuðu þjóðirnar komi á fót. Hin Norðurlöndin rituðu undir sáttmálann sama dag og Íslendingar en Danir ákváðu að undirrita ekki viðaukann þar sem þeir töldu í honum felast framsal á dómsvaldi. Á fundi HNR – Heildarsamtaka fatlaðra á Norðurlöndum í Helsinki þann 13. mars var samþykkt tillaga ÖBÍ um að samtökin sendu frá sér sameiginlega ályktun. Í henni er sáttmálanum fagnað og lýst þeirri von að hann færi fötluðum aukin lífsgæði. Einnig er vakin athygli á fjórðu grein sáttmálans sem kveður á um samráð og samvinnu við heildarsamtök fatlaðra um framkvæmd hans. Sáttmálinn gerir ráð fyrir þremur megin verkfærum við framkvæmdina: Samþætting, framkvæmdanefnd og óháð eftirlit. Hvert land á að skila skýrslu um framkvæmdina til Sameinuðu þjóðanna, fyrst eftir tvö ár og síðan á fjögurra ára fresti. Í viðræðum við embættismenn félagsmálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis og við forsætisráðherra hefur ÖBÍ lagt áherslu á samvinnu og samráð um framkvæmd og eftirlit. Mismunandi er milli landa hvernig samþættingu milli ráðuneyta er háttað og er hún til að mynda á könnu utanríkisráðuneytisins í Noregi. Í Danmörku starfar sérstakt fötlunarráð undir þinginu en þar í landi hefur verið komið á fót sérstakri samráðsnefnd vegna sáttmálans með þátttöku DSI, dönsku systrasamtaka ÖBÍ. Á fundi með forsætisráðherra lagði formaður ÖBÍ það til að samþættingarhlutinn yrði á hendi forsætisráðuneytisins. Ástæðurnar eru einkum þær að félagsmálaráðuneytið þarf sjálft að fara ofan í saumana á löggjöf sem því tilheyrir og reglugerðum í aðlögun að sáttmálanum eins og önnur fagráðuneyti og að með virkri þátttöku forsætisráðuneytisins eykst vægi sáttmálans í stjórnsýslunni. Þá er með þessu fyrirkomulagi líklegra að sáttmálinn verði lögfestur á næsta ári eins og Evrópusamtök fatlaðra leggja áherslu á. Það bíður nýrrar ríkisstjórnar að taka afstöðu til þessara atriða. ÖBÍ hefur gengið á eftir þýðingu sáttmálans í utanríkisráðuneytinu og átt um það mál fund með ráðuneytisstjóra. Búist var við að þýðingin mundi klárast í þessum mánuði en það kann að dragast um nokkra daga.

Í undirbúningi er alþjóðleg ráðstefna um gildi Sáttmála sameinuðu þjóðanna og þýðingu hans sem ÖBÍ heldur í samvinnu við Háskólann í Reykjavík, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp. Von er á erlendum sérfræðingum sem unnið hafa ötullega að því að gera sáttmálann að veruleika, þeirra á meðal Holgeir Kallehauge fyrrverandi landsyfirdómara í Danmörku sem ÖBÍ hefur haft milligöngu um að bjóða til landsins. Gert er ráð fyrir að kostnaður ÖBÍ við ráðstefnuhaldið, sem ætlað er að standa yfir í tvo daga í lok september mánaðar, nemi útgjöldum vegna komu eins erlends fyrirlesara og rúmast það innan fjárhagsáætlunar. Markmiðið með ráðstefnunni er að ná sérstaklega til sérfræðinga og áhugafólks á sviði lögfræði og mannréttinda, stjórnmála- og embættismanna auk fulltrúa hagsmunasamtaka og almennings.

Eftir síðasta aðalstjórnarfund var lokið við að klára hugmyndavinnu og augýsingagerð eins og kynnt var á fundinum. Þá var skiplögð uppákoma í Kringlunni undir yfirskriftinni Íslenskur veruleiki – samfélag sem mismunar fólki. Laugardaginn 14. apríl var síðan slegið upp nýstárlegri tískusýningu þar sem veruleiki fatlaðra var kynntur. Uppákoman vakti mjög jákvæð viðbrögð og fylgdist fjöldi fólks með. Sérstaklega ánægjulegt var að sjá hve margir úr aðildarfélögum ÖBÍ sáu sér fært að koma í Kringluna þennan dag. Kvöldið áður var sjónvarpsauglýsing ÖBÍ frumsýnd sem ætlað er að vekja fólk til umhugsunar um aðgreiningarsamfélagið og mismunun fatlaðra og ófatlaðra. Þar er svokallað veruleikasjónvarp sett í nýtt samhengi. Auglýsingarnar og uppákoman hafa vakið mikil viðbrögð og hafa fjölmargir haft samband við Öryrkjabandalagið til að lýsa ánægju sinni með þessa herferð.

Dagana 12. og 13. apríl sl. var á Flúðum haldinn stefnumótunarfundur ÖBÍ og sá fyrirtækið Capacent um framkvæmdina. Fulltrúar flestra aðildarfélaganna tóku þátt og komu fram ýmsar ábendingar um hlutverk og tilgang ÖBÍ sem og það sem betur mætti fara í starfi bandalagsins. Þann 2. maí nk. er áformað að sömu aðilar hittist að nýju til að fara yfir greiningu Capacent og áframhaldið. Í þessu starfi er leitast við að svara spurningum um það hvað ÖBÍ er og hvað það vill verða? Í því felst að ræða hlutverk hagsmunafélaga annars vegar og Öryrkjabandalagsins hinsvegar. Hverskonar starfsemi á ÖBÍ að hafa með höndum og hvað eiga aðildarfélögin einkum að sjá um. Þótt stefnt sé að því að ljúka ákveðnum áfanga stefnumótunar vinnunnar fyrir aðalfund ÖBÍ sem áformaður er laugardaginn 6. október á Grand hóteli, þá er mikil umræða og vinna eftir áður en við getum með vissu sagt að við vitum hvert við ætlum sem heildarsamtök fatlaðra.

Samkomulag ÖBÍ annarsvegar og Biskupsstofu hinsvegar um kostnaðarþátttöku í 50% stöðugildi djákna sem sinni þjónustu í Hátúni auk annarrar þjónustu á vegum Laugarneskirkju, rennur út í lok ársins. Á þessu ári greiðir ÖBÍ eina milljón og fjörutíu þúsund krónur til að standa straum af kostnaðinum við starfið. Nokkur umræða hefur verið innan framkvæmdastjórnar bandalagsins með þessa tilhögun og var samþykkt á síðasta fundi hennar að endurnýja ekki samkomulagið við Biskupsstofu. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi þykir ástæða til að verja þessu fé fremur til verkefna sem beint tengjast heildarhagsmunastarfi bandalagsins. Í því sambandi hefur verið nefnd möguleg ráðning aðgengisfulltrúa í hlutastarf sem sinni verkefnum á borð við “hönnun fyrir alla” – aðgengi fyrir alla, úttektum og upplýsingagjöf. Þá hefur staða íbúa í Hátúnsblokkunum númer tíu breyst umtalsvert annarsvegar með tilkomu virkra íbúasamtaka og starfsemi á þeirra vegum sem og með reglulegum heimsóknum kaþólskra nunna sem hafa boðið upp á mat og félagsstarf. Þá hefur það sjónarmið verið sterkt í framkvæmdastjórn að öll sóknarbörn kirkjunnar eigi að sitja við sama borð og því eigi þjónusta við íbúa í Hátúni ekki að vera háð sérstakri greiðsluþátttöku Öryrkjabandalagsins til kirkjunnar.

Öryrkjabandalagið fer með formennsku í Íslenskri getspá næstu tvö árin og verður ný stjórn kjörin á aðalfundi á morgun fimmtudag. Þórir Þorvarðarson sem setið hefur f. h. ÖBÍ í stjórninni um árabil gefur ekki kost á sér áfram. Ég færi Þóri bestu þakkir bandalagsins fyrir gæfuríka stjórnarsetu. Vífill Oddsson gefur kost á sér áfram. Framkvæmdastjórn veitti formanni umboð til viðræðna við Þóru Margréti Þórarinsdóttur framkvæmdastjóra Styrktarfélags vangefinna um að taka sæti í stjórninni. Það hefur Þóra Margrét samþykkt og verður það tillaga ÖBÍ á morgun. Hún mun verða fyrsta konan sem sæti tekur í stjórn Íslenskrar getspár.

EDF – Evrópusamtök fatlaðra standa nú fyrir undirskriftarsöfnun í tilefni 10 ára afmælis heildarhreyfingarinnar þann 4. október nk. Markmiðið er að safna einni milljón undirskrifta um kröfuna um jafnrétti til handa fötluðum. Í dag bárust þær fréttir frá Brussel að þrjú lönd af 29 hefðu náð tilsettu marki í söfnun undirskrifta. Þau eru Belgía, Lúxemburg og Ísland sem miðað við höfðatölu hefur náð að safna næst flestum eða 120% af tilskildum fjölda undirskrifta. Belgía hefur safnað 160% þeirra undirskrifta sem lagt var upp með og betur má því ef duga skal ef við viljum verða í efsta sætinu í þessari EDF keppni.

Á þessum fundi erum við að afgreiða styrki ÖBÍ til aðildarfélaganna og einnig til annarra sem sótt hafa um styrki til bandalagsins. Eins og fram kom við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í febrúar hafa tekjur Íslenskrar getspár verið að dragast nokkuð saman og þar með tekjur Öryrkjabandalagsins. Við höfum þó von um bjartari tíð þar sem margfaldir vinningar í Lottóinu eru aftur farnir að láta á sér kræla. Sama upphæð rennur til styrkja í ár eins og síðasta ár. Framkvæmdastjórn var nokkur vandi á höndum þar sem ljóst var að tillaga um hækkun styrks til eins félags hefði í för með sér tillögu um lækkun hjá öðru. Sem fyrr var misjafnlega mikil vinna lögð í umsóknirnar af hálfu félaganna. Á eyðublöðum ÖBÍ sem send voru félögunum var farin ný leið sem reyndist að mörgu leyti vel. Auðveldara var fyrir framkvæmdastjórn að fara skipulega yfir umsóknirnar og bera saman þær upplýsingar sem gefnar voru. Þótt nokkur breyting sé á tillögum varðandi félögin frá fyrra ári var þess gætt að ekkert félag lækkaði um meira en fimmtíu þúsund krónur nema þá að umsóknin sjálf væri þeim mun lægri. Tillaga framkvæmdastjórnar varðandi flest félög er að þau hækki eða standi í stað á milli ára. Það var samdóma álit framkvæmdastjórnar að áberandi væri hve upplýsingagjöf félaganna hefði batnað frá því á síðasta ári. Umsóknirnar eru flestar betur unnar í ár og fylgigögn skila sér sömuleiðis mun betur. Það er sérstök ástæða til að hrósa mörgum aðildarfélögunum fyrir vandaðri vinnubrögð við umsóknirnar og metnað í verkefnalýsingum.

Kæru félagar,
Í hönd fara alþingiskosningar. Í gær hélt ÖBÍ í samstarfi við Landssamband eldri borgara og Þroskahjálp framboðsfund með oddvitum flokkanna, á Grand hóteli í Reykjavík. Fundurinn var mjög fjölsóttur og tókst vel. Fram kom sameiginlegur vilji flokkanna, annarra en Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, að hækka grunnlífeyri og gera hann ótekjutengdan. Þetta hefur verið sameiginleg krafa heildarsamtaka fatlaðra og aldraðra enda sú aðgerð sem kemur öllum þeim lífeyrisþegum sem veikast standa strax best og ýtir um leið undir atvinnuþátttöku fatlaðra og aldraðra. Allir voru sammála um nauðsyn einföldunar á almannatryggingakerfinu þótt fulltrúi Framsóknarflokks teldi stóreinföldun þess bitna á hinum verst stöddu og allir voru sammála um að minnka þyrfti verulega tekjutengingar. Þá var ekki ágreiningur um hækkun skattleysismarka þótt misjafnt væri hve langt menn vildu ganga og formaður Sjálfstæðisflokks hafði sig lítt í frammi í þeirri umræðu. Pólitískur samhljómur virðist sömuleiðis vera að myndast um það að fjármagn fylgi fólki með fötlun og öldruðum en ekki stofnunum og þjónustan verði þannig einstaklingsmiðuð. Hér er í raun samt verið að tala um aðgerðir til skamms tíma því með tilkomu nýs örorkumats í samræmi við álit örorkumatsnefndar og nauðsynlegra breytinga á almannatryggingum sem því mun fylgja má segja að bætur almannatrygginga verði í raun með öllu ótekju¬tengdar. Þannig mun mögulega einstaklingur sem metin er með 50% vinnufærni hafa tækifæri á hálfu starfi ótekjutengdu hvort sem hann hefur upp úr því 100.000 krónur eða 300.000 auk helmings af fullum bótum. Það breytir ekki því að þar til niðurstaða fæst um nýtt örorkumat og breytingu á lögum um almannatryggingar þarf að brúa bilið og ÖBÍ mun í aðdraganda kosninga halda áfram að leggja áherslu á hækkun ótekjutengds grunnlífeyris sem og hækkun skattleysismarka.
SM

Orðið var gefið laust um skýrslu formanns og var honum þökkuð greinargóð skýrsla.

2. Afgreiðsla styrkumsókna

Steinunn Þóra Árnadóttir, gjaldkeri í framkvæmdastjórn ÖBÍ, gerði grein fyrir þeirri aðferðarfræði sem notuð var til að úthluta þeim 44 milljónum sem fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir í styrki til aðildarfélaganna.

Nokkur umræða varð um aðferðarfræðina og þótti sumum ekki nægileg tekið tillit til stærðar og möguleika stærri félaganna á annarri fjáröflun. Aðrir töldu að ekki væri um nógu skýrar reglur og gagnsæjar að ræða til að allir sitji við sama borð. Einnig var á það bent að sum stærri félaganna hefðu undir sínum hatti nokkur minni félög og þau hefðu til þessa notið umræddra styrkja. Formaður sagði að nýja umsóknarformið hafi gefið mun vandaðri umsóknir en áður og taldi að metið hafi verið á mjög lýðræðislegum grunni.

3. Þátttaka ÖBÍ í framkvæmdahópi um nýtt örorkumat.

Ragnar Gunnar Þórhallsson ræddi skýrslu Örorkumatsnefndarinnar sem lögð var fram í byrjun mars. Hann hvatti fundarmenn til að lesa hana og taka til umræðu í félögum sínum. Skýrsluna má finna hjá forsætisráðuneytinu á slóðinni: http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir/Alitogtillogur.pdf
Ragnar Gunnar sagðist hafa boðið kynningu á skýrslunni í aðildarfélögunum og nú þegar hefðu allnokkur þeirra þegið boðið sem og Þroskahjálp. Um afar gagnlega fundi hefði verið að ræða.
Nú hefur borist bréf frá forsætisráðuneytinu, þar sem, forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa framkvæmdanefnd til að fylgja eftir tillögum nefndar um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar. Tillögurnar miða að því að breyta núgildandi örorkumati þannig að það verði sveigjanlegra og taki fremur mið af starfsgetu einstaklingsins en örorku. Einnig er gert ráð fyrir að starfsendurhæfing verði stórefld og skipulag hennar bætt þar sem m.a. verði lögð áhersla á að saman fari læknisfræðileg endurhæfing og starfsendurhæfing eftir því sem við á og að hún hefjist eins fljótt og hægt er. Þessar tillögur hafa verið samþykktar í ríkisstjórn og skal framkvæmdanefndin tryggja að þær komi til framkvæmda svo fljótt sem auðið er. Verkefni framkvæmdanefndarinnar yrðu m.a. að koma með og greina hvaða breytingar þarf að gera á lögum og reglugerðum, og gera kostnaðargreiningu. Hafður yrði til hliðsjónar nýr sáttmáli SÞ um réttindi fatlaðra, við þessa vinnu.

Bolli Þór Bollason er formaður nefndarinnar, tilnefndur af forsætisráðuneytinu, Davíð Á. Gunnarsson, tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Gylfi Arnbjörnsson, tilnefndur af ASÍ, Hallgrímur Guðmundsson, tilnefndur af fjármálaráðuneytinu, Hannes G. Sigurðsson, tilnefndur af SA, Helga Jónsdóttir, tilnefnd af BSRB, Pétur H. Blöndal, tilnefndur af forsætisráðuneytinu, Ragnar Gunnar Þórhallsson, tilnefndur af Öryrkjabandalaginu, Hrafn Magnússon tilnefndur af Landssamtökum lífeyrissjóða og Þór G. Þórarinsson, tilnefndur af félagsmálaráðuneytinu.

Ragnar Gunnar taldi mikilvægt að til staðar yrðu “máthópar” til að tryggja að allir hópar nytu góðs af þeim breytingum sem stefnt væri að. Sagðist hann enn fremur tilbúinn að halda kynningu hjá öðrum þeim félögum er þess óskuðu. Hann minnti einnig á að heimilt er að boða til aukafundar í aðalstjórn samkvæmt lögum ÖBÍ, ef aðalstjórn þykir bera nauðsyn til eða fimm félög óska þess. Tillögurnar sjálfar taldi hann fyrst og fremst beinast að þeim sem væru á vinnumarkaði eða að detta af honum og vitnaði til Noregs, varðandi viðurkenningu á heimavinnandi og ungum öryrkjum. Ragnar Gunnar taldi mikilvægt að ÖBI tæki þátt í nefndinni og að hér væru góðar tillögur að líta dagsins ljós. Mikilvægt væri að aðskilja þjónustu vegna fötlunar, sem ekki á að vera tekjutengd og afkomutryggingu. Vitnaði hann í nýyrði sem hann  hafði heyrt þar sem talaði væri um “aðstöðutengdar greiðslur” og “tekjutengdar greiðslur” sem væri ljómandi aðgreining.

Nokkrar umræður urðu um starf nefndarinnar og benti Garðar Sverrisson á að örorkumat sem byggði á vinnugetu kæmi úr smiðju Péturs Blöndal og gæti jafnvel mismunað fólki enn meir en nú er. Hann minnti á baráttu Sjálfsbjargar og fleiri félaga að fá læknisfræðilegt örorkumat sem svo náðist og er það sem við búum við í dag. Alltaf mætti fínpússa, en mikilvægt væri að halda starfsendurhæfingunni aðskilinni frá umræðunni um örorkumatið. Hann lagði til að haldinn yrði hálfs dags fundur með fulltrúum allra sjúklingahópa áður en Ragnar Gunnar færi í áframhaldandi starf með „framkvæmdanefndinni“. Hann fagnaði hugmyndum um aðskilnað milli tekju- og aðstöðutengdra tekna.

Ragnar Gunnar tók undir þá hugmynd að halda fund um málið. Hann ræddi um þá tilhögun við breytingar að menn fengju að velja í hvoru „kerfinu“ menn yrðu.

Sigursteinn taldi þörf á að halda slíkan fund, og eðlilegt að það væru skiptar skoðanir innan aðildarfélaganna. Halda þyrfti vel á málum og gæta þess að semja ekki af sér. Hann lagði til að Ragnar Gunnar héldi áfram starfi sínu í anda: „ekkert um okkur án okkar“ og boðað yrði til fundar um málið í september um þær hugmyndir sem þá verða komnar.

Kristján Freyr Helgason skoraði á félögin að fá Ragnar Gunnar Þórhallsson til sín að ræða þessi mál og ekki síður fyrir Ragnar Gunnar að heyra skoðanir félaganna.

Emil Thóroddsen tók undir þörfina á að halda fund um málið helst í maílok eða byrjun júní. Hann sagði Gigtarfélagið telja núverandi mat vel nýtanlegt. Hann áleit að úrræðaleysi í starfsendurhæfingarmálum síðastliðinna ára mætti rekja til þess að stjórnvöld hefðu ekki nýtt tækifæri, né lagt fjármagn í að vinna samkvæmt þeim lögum sem til væru. Því hafi verið lofað þegar samkomulag um aldurstengdu örorkuna var gert, að gera átak í starfsendurhæfingu, en ekkert orðið af efndum. Því þarf að gæta þess að halda starfsendurhæfingar umræðunni algerlega aðskilinni frá örorkumatsumræðunni. Hann taldi ekki spurningu að ÖBÍ ætti að eiga sinn fulltrúa í framkvæmdanefndinni.

Halldór Sævar Guðbergsson tók undir orð Emils. Þetta hafi verið rætt innan Blindrafélagsins og þar teldu menn að núverandi læknisfræðilegt örorkumat væri skýrt og klárt. Það sem talað væri um í skýrslu nefndarinnar væri óljóst og hætta á geðþóttamati sem við yrðum að forðast. Hann saknaði þess að fulltrúi frá menntamálaráðuneytið væri ekki í þessari nefnd sem fjallaði m.a. um starfsendurhæfingu?

Formaður lagði til að áfram yrði haldið í starfi með núverandi framkvæmdanefnd og lagði til við fundinn að Ragnari Gunnari Þórhallssyni yrði falið umboð til að vera fulltrúi ÖBÍ.

Samþykkt samhljóða.

4. Önnur mál

Emil Thóroddsen ræddi fund með stjórnmálaflokkum, á Grand Hótel kvöldið áður, sem hefði verið góður, en hann hefði saknað þess að sjá ekki fleiri úr “okkar röðum”. Hann sagðist hafa höggvið eftir því hjá forsætisráðherra að aldurstengdu örorkubæturnar væru kerfi sem hann hefði áhuga á að breyta.

Sigursteinn sagði að nú væri verið að ræða nýtt framfærslukerfi samanber það sem lagt er til í skýrslunni, Hugmynd að betra samfélagi. Lagt hefði verið til að fækka bótaflokkum, en aldrei samþykkt að leggja niður aldurstengdu örorkuuppbótina.

Emil skýrði hugmyndina á bakvið aldurstengdu örorkuuppbótina, sem sé sú að þeir sem fötluðust ungir eða væru fæddir með fötlun kæmust e.t.v. aldrei inn á vinnumarkaðinn og gætu því ekki byggt upp stofn í lífeyrissjóðum.

Garðar Sverrisson sagði að Pétur Blöndal hafi ávallt verið á móti aldurstengdu örorkuuppbótinni. Hann gagnrýndi einnig samsetningu nefndarinnar, að undanskildum okkar manni, Ragnari Gunnari Þórhallssyni, taldi hann nefndarmenn sérfræðinga í niðurskurði.

Sigursteinn taldi að ef til vill væri rétt að halda fundinn strax í maí. Hann þakkaði Ragnari Gunnari Þórhallssyni fyrir vel unnin störf í nefndinni. Sigursteinn sagðist hafa setið tvo fundi, í forföllum Ragnars Gunnars og gæti fullyrt að fulltrúar ynnu á uppbyggilegan hátt að málinu. Hann taldi að markmiðin gætu vel farið saman, það væri m.a. hagur ríkisins að leggja niður tekjutrygginguna eins og fram hefði komið nýlega í niðurstöðum rannsóknar sem gerð var hjá Háskólanum í Bifröst.

Hann bar síðan fram þá tillögu að halda fund með Ragnar Gunnari vegna starfs örorkumatsnefndar, með fulltrúum allra aðildarfélaga í lok maí. 

Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið kl. 18:25

Fundarritari Guðmundur Magnússon