Skip to main content
Frétt

Fundargerð aðalstjórnar ÖBÍ 27. maí 2009

By 7. desember 2009No Comments

Aðalstjórnarfundur ÖBÍ haldinn í sal SEM samtakanna Sléttuvegi 3, Reykjavík, miðvikudaginn 27. maí kl. 17.00.

Fundargerð

Miðvikudaginn 27. maí 2009, kom aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) saman til fundar í sal SEM samtakanna Sléttuvegi 3 í Reykjavík. Fundur var boðaður kl. 17.00. Fundi stýrði formaður ÖBÍ, Halldór Sævar Guðbergsson.

Eftirfarandi aðalstjórnarfulltrúar sátu fundinn

Dagný E. Lárusdóttir, SÍBS
Emil Thóroddsen, Gigtarfélaginu
Friðjón Erlendsson, Daufblindrafélaginu
Garðar Sverrisson, MS-félaginu
Grétar P. Geirsson, Sjálfsbjörg
Guðmundur Magnússon, SEM-samtökunum
Guðmundur S. Johnsen, Félagi lesblindra
Halla B. Þorkesson, Heyrnarhjálp
Halldór S. Guðbergsson, Blindrafélaginu
Hjördís A. Haraldsdóttir, Félagi heyrnarlausra
Ingibjörg Karlsdóttir, ADHD samtökunum
Jórunn Sörensen, Félagi nýrnasjúkra
Kristín Michelsen, Hugarfari
María Th. Jónsdóttir, FAAS
Sigríður Jóhannsdóttir, Samtökum sykursjúkra
Sigursteinn Másson, Geðhjálp
Snorri M. Snorrason, Parkinssonsamtökunum
Tryggvi Þ. Agnarsson, Tourette samtökunum
Þorbera Fjölnisdóttir, Kvennahreyfingu ÖBÍ
Ægir Lúðvíksson, MND félaginu
Starfsfólk ÖBÍ
Anna G. Sigurðardóttir, þjónustufulltrúi
Bára Snæfeld, upplýsingafulltrúi
Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi
Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri
Sigríður H. Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi
Þórný Björk Jakobsdóttir, aðstoðarmaður formanns

1. Formaður setur fund – fulltrúar kynna sig

Formaður ÖBÍ, Halldór Sævar Guðbergsson setti fundinn kl. 17:10. Hann hóf fundinn á því að þakka SEM samtökunum fyrir afnot af húsnæði og bað fundarmenn um að kynna sig.

2. Fundargerð frá 6. apríl borin upp til samþykktar (Fylgiskjal 1)

Fundargerð samþykkt samhljóða.

3. Sáttmáli sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. (Fylgiskjal 2)

Helgi Hjörvar formaður innleiðingarnefndar greinir frá stöðu mála. Helgi þakkaði boðið. Reifaði hvar innleiðingin væri stödd og hver væru næstu skref. Fulltrúi ÖBÍ í innleiðingarnefndinni er Guðmundur Magnússon.

Farið var yfir stöðu mála fyrir 6 vikum í fundarherferðinni „Verjum velferðina“ sem ÖBÍ og Landssamtökin Þroskahjálp (LÞ) stóðu fyrir. Lítið hefur gerst síðan þá. Nefndin hefur hitt hagsmunafélög, fulltrúa fagstétta sem tengjast málefninu o.fl. Einnig hefur hún hitt ýmsa sérfræðinga, t.d. Ragnar Aðalsteinsson, lögfræðing og fengið leiðbeiningar frá viðkomandi hvernig best verður staðið að þessum málum.
Ýmis lönd hafa innleitt sáttmálann án nokkurs undirbúnings eða breytinga á lögum og reglugerðum. Niðurstaðan hér á landi er sú að breyta þarf lögum og reglugerðum til að geta innleitt sáttmálann. Nefndin telur að sáttmálinn sé róttækt mannréttindarskjal þó í rauninni séu engin ný réttindi í honum, heldur er verið að taka saman helstu réttindi sem fötluðum eru tryggð nú þegar, en hafa verið í mörgum lögum og reglugerðum til þessa. Hægt er að innleiða aðalatriði sáttmálans í lög með tvennum hætti. Annars vegar með sérstakri löggjöf og hins vegar að samþætta ákvæði inn í aðrar löggjafir.

Mikil áhersla er lögð á blöndun og horfið frá sérlausnum. Spurning er hvort eigi að leggja af lög um málefni fatlaðra. Niðurstaða nefndarinnar er sú að sterkasta og áhrifaríkasta vopnið væru sérstök lög sem tækju af öll tvímæli um þessi réttindi. Tillaga nefndarinnar til ráðherra er sú að lög um málefni faltaðra verði endurskoðuð og verði að lögum um réttindi fatlaðs fólks. Þar verði ákvæði sem tryggi og staðfesti margvísleg réttindi sem eru í sáttmálanum.

Fyrir liggur að Ísland hefur staðfest sáttmálann og valfrjálsa bókun við hann sem lítur að eftirlits- og áfrýjunarleiðum. Nefndin hefur jafnframt gert tillögur um breytingar á almennum lögum sem eiga að skýra og skerpa á réttindum um fatlaða, eins og tillögur varðandi réttindagæslu. Einnig tillögur sem ekki eru í lögum eða verða í lögum, nokkurs konar tilmæli. Tilmæli eru einnig um það að ráðuneyti vinni náið með samtökum fatlaðra að kynningu á sáttmálanum o.fl.

Skil til ráðherra á gögnum frá nefndinni verða á næstu dögum. Í framhaldi af því verða þær kynntar samtökum fatlaðra og almenningi. Tekið verður á móti ábendingum fram á haust. Öll innleiðingarvinna er síðan eftir.

Formaður þakkaði Helga erindið og opnaði fyrir fyrirspurnir.

Spurt var hvort samstaða væri um aðferðarfræðina í nefndinni? Hvort fjármagn fylgi innleiðingunni? Hvort 6. grein í sáttmálanum sem fjallar sérstaklega um fatlaðar konur bryti í bága við jafnréttislög? Hvort sáttmálinn yrði almennur eða hvort verði aðrir sértækir sáttmálar? 3. og 9. grein fjalla um aðgengi að upplýsingum og samskiptaþjónustu. Í dag eru stórtíðindi ekki textuð í sjónvarpi sem er þó nauðsynlegt, hafa ber þetta í huga þegar innleiðing hefst.

Helgi svaraði því til varðandi táknmál og textun að ekkert launungamál sé að nauðsynlegt sé að innleiða táknmál sem fullgilt tungumál og að það verði innleitt með sáttmálanum og því sem því fylgir en málið er ekki í höfn. Full samstaða er innan nefndarinnar um aðferðafræðina.

Helgi sagði það ekki vera brot á jafnréttislögum að sér grein fjalli um fatlaðar konur því þær standi enn lakar en fatlaðir karlar mjög víða um lönd. Ein af tillögum nefndarinnar er sú að gerð verði lífskjarakönnun og þá gefst tækifæri til að bera saman konur, karla og fatlanir.

Varðandi fjármagnið, þá verður erfitt að fá það til að fylgja eftir innleiðingunni t.d. með kynningu eins og fjárhagur ríkisins er um þessar mundir. Eftir er að gera kostnaðarmat á tillögum nefndarinnar en Helgi benti þó á að kreppan opni líka ákveðin tækifæri, t.d. varðandi búsetumál fatlaðra og hugsanlega á fjölmörgum öðrum sviðum.

Aðalstjórnarfulltrúar nefndu meðal annars að mikilvægt væri að bann við mismunun kæmi inn í nýju lögin. Vanda þarf mjög vinnu og undirbúning að innleiðingunni því lögin munu fara inn í löggjafir allra ráðuneyta og virkja ætti forsætisráðuneytið sérstaklega í tengslum við það. Mikilvægt er að halda starfinu vakandi því hræðsla er við að innleiðingin stoppi í kreppunni. Notendastýrð persónuleg aðstoð er til dæmis tækifæri til atvinnusköpunar.

Formaður sagðist hafa rætt það við LÞ að samtökin tækju höndum saman í kynningarmálum á sáttmálanum. Mikilvægt er að kynna hann eins vel og möguleiki er því sáttmálinn er tæki í réttindabaráttu, t.d. gætu aðildarfélög ÖBÍ unnið sameiginlega að kynningum. Möguleiki er að boðið verði upp á námskeið varðandi sáttmálann hjá endurmenntun HÍ. Íslenska ríkið þarf reglulega að gefa út skýrslu hvernig unnið er samkvæmt sáttmálanum og mikilvægt er að ÖBÍ og samtök fatlaðra komi sínu sjónarhorni á framfæri. Hugsanlega verða settir á fót málefnahópar.

4. Skýrsla formanns

Formaður reifaði hvað helst hefði verið á döfinni frá síðasta aðalstjórnarfundi. Á fundinum lágu frammi bækur og bæklingar tengdu ungmennastarfi, ársskýrsla Hringsjár, o.fl. og bað formaður fulltrúa endilega um að taka eintök fyrir sín félög. Nefndi að tækifæri væri nú til að sækja um styrki vegna ungmennastarfs.

Verjum velferðina

Fundarröðin „Verjum velferðina“ var haldin með Landssamtökunum Þroskahjálp á Grand hótel þar sem stjórnmálaflokkar svöruðu fyrirspurnum tengdum málefnum hvers fundar, en fundirnir voru sex talsins. Almenn ánægja var með fundina en mæting hefði mátt vera meiri. Á næsta ári verða sveitarstjórnarkosningar og gaman væri að fara út á land með svona fundaröð.

Tímarit ÖBÍ kom út laugardaginn 18 apríl

Tvö blöð verða gefin út á þessu ári, það fyrra kom út 18. apríl sl. og stefnt er að því að seinna blaðið komi út í haust. Gott ef athugasemdir og hugmyndir bærust frá aðildarfélögunum í næsta blað.

Greiningarfundur vegna innri og ytri vefs ÖBÍ 6. og 7. maí sl.

Samkvæmt stefnumótun á að vinna að endurskipulagningu á ytri vef bandalagsins og koma á fót innri vef en fundir voru haldnir með greiningu á vefmálum í samstarfi við fyrirtækið SJÁ. Mjög ítarleg og góð skýrsla er komin frá fundunum. Bára Snæfeld heldur utan um vefvinnslumál.

EDF fundur í Aþenu 9. og 10. maí

Lilja Þorgeirsdóttir sótti fundinn fyrir hönd ÖBÍ í veikindaforföllum formanns. Mjög sérstakt að hjá EDF er ekki tekið tillit til að upp geti komið veikindi og að hægt sé að boða varamann.

Aðalfundur TMF 19. maí

Sex félög koma að miðstöðinni í dag. Breyttir tímar eru frá því að miðstöðin var opnuð. Brýnt er að ná fram þjónustusamningi við ráðuneytin þannig að starfsemin nái að vaxa og dafna á næstu árum enda hefur miðstöðin sannað gildi sitt sem óháður ráðgjafaraðili varðandi tækni og tölvubúnað fyrir fatlaða. Fjögurra manna stefnumótunarhópur hefur verið myndaður. Auk formanns ÖBÍ eru í hópnum: Ragnar Gunnar Þórhallsson Sjálfsbjörg, Hartmann Guðmundsson Örtækni, Gerður A. Árnadóttir formaður Þroskahjálpar.

Húsnæðishópur ÖBÍ

Húsnæðishóp var falið að vinna að því að finna hentugt húsnæði sem gæti rúmað skrifstofu bandalagsins og jafnvel aðstöðu fyrir aðildarfélög. Búið er að skoða tvö húsnæði. Í sumar þarf að boða aðalstjórn til fundar til að ræða þessi mál sem og sameiningu vinnustaða ÖBÍ.

Vinnustaðir ÖBÍ

Í umræðu er komin hugmynd um að sameina Vinnustaði ÖBÍ, Blindravinnustofuna og Múlalund. Slíkt gæti leitt til hagræðingar fyrir alla aðila.
Yfirfærsla málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga, ráðstefna 20. maí
Margir mættu á ráðstefnuna þar sem þessi mál voru rædd. Ljóst er að mörg tækifæri eru varðandi flutninginn en ekki síður ógnanir, framkvæmdin skiptir öllu máli. Það sem vakti athygli formanns var að sveitarstjórnarmenn væru ekki nógu vel að sér í sáttmála SÞ um réttindi fólks með fötlun. Veldur honum áhyggjum að sveitarfélögin ræddu sjálfræði þeirra vegna þessara mála.

Samráð við ýmsa aðila

Fundir verða haldnir áfram með nýjum félags- og tryggingamálaráðherra og heilbrigðisráðherra. LÞ hafa verið með í því samstarfi. Einnig eru samráðsfundir haldnir með TR.

Formaður þakkaði gott hljóð og opnaði fyrir umræður um skýrsluna.

Fundarmenn lýstu almennri ánægju með fundaröðina en bentu á að betra væri að hafa slíka fundaröð styttri og hugsanlega að hafa hana á öðrum tímum en fyrir kosningar því óánægjuraddir hafi heyrst þar sem komið hefur fram að í pallborði á fundunum hafi yfirleitt verið þingmenn sem héldu frekar framboðsræður en að ræða málefnin af alvöru. Sem mótrök við því var bent á að þessi fundaröð hefði verið mjög góð fyrir marga af þeim sem voru í pallborði þar sem þeir virtust ekki þekkja mikið til þeirra málefna sem rætt var um en hefðu fræðst um málefnin. Einnig var bent á að fleiri fulltrúar aðildarfélaga ÖBÍ hefðu mátt koma á fundina.

5. Tillaga Geðhjálpar er varðar Brynju hússjóð ÖBÍ, dags. 1. apríl 2009. (Fylgiskjal 3 og 4)

Sigursteinn Másson, fulltrúi Geðhjálpar sagði frá tillögunni:
Aðalstjórn Öryrkjabandalags Íslands felur framkvæmdastjórn ÖBÍ, í samvinnu við viðeigandi yfirvöld, að setja á fót nefnd til að gera tillögur um breytingar á Brynju – Hússjóði ÖBÍ svo að starfsemi sjóðsins megi samrýmast stefnu ÖBÍ um jafnrétti til búsetu, lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og 19. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra undirrituðum af Íslands hálfu 30. mars 2007.
Nefndin skili tillögum sínum eigi síðar en í september 2009 til umfjöllunar í aðalstjórn ÖBÍ og endanlegrar afgreiðslu á aðalfundi ÖBÍ 24. október nk.

Í tillögunni er vísað í stefnumörkun ÖBÍ sem samþykkt var á aðalstjórnarfundi 21. janúar 2009 en þar er ekki að finna neitt um jafnrétti í búsetu. Samkvæmt 2. grein er talað um jafnrétti, jafnræði, þátttöku og víðsýni, innleiðingu og nýjungar. Í 10. grein er rætt um að hafa velferð allra að leiðarljósi. Í 13. grein er rætt um að veita formlegar leiðir, þjónustu og sameiginlega niðurstöðu.

Sigursteinn sagði að misskilnings gætti um kjörorðin: „Við stöndum fyrir réttlæti“ og „Ekkert um okkur án okkar.“ Einhverjir teldu þetta vera kjörorð bandalagsins en þetta snýst ekki síður um einstaklinga, óháð fötlunarhópum og undir öllum kringumstæðum þarf að virða þeirra sjálfsákvörðunarrétt, friðhelgi, mannhelgi og sjálfstæði. Eitt samfélag fyrir alla þýðir eitt samfélag án aðgreiningar og í gildunum er að mannréttindasáttmálinn sé að fullu virtur. Jafnrétti til búsetu er eftir sem áður lykilatriði.

Sigursteinn las 19. grein Sameinuðu þjóðanna sem sérstaklega er nefnd í tillögunni og ber yfirskriftina: „Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.“ Þó að við höfum ekki fullgilt sáttmálann þá hlýtur að vera lágmarkskrafa félaga fatlaðra að þau standist kröfur samningsins. Í 19. grein kemur fram að fötluðum er ekki gert að búa á ákveðnum stöðum, fyrirfram skilgreindum stöðum, sem sagt án aðgreiningar.

Sú spurning hefur verið áleitin á undanförnum árum hver staðan er í samtökum fatlaðra og réttindi til búsetu í ljósi þess að á vegum heildarsamtaka fatlaðra er rekin umfangsmikil búsetustofnun með gríðarlega margar íbúðir í Hátúni 10 sem engan veginn stenst það sem við gerum kröfur um að aðrir og stjórnvöld framfylgi. Í ljósi þessa leggur Geðhjálp fram þá tillögu að hafin verði vinna í að endurskoða og endurskipuleggja Brynju hússjóð með það að leiðarljósi hvernig hægt sé að breyta sjóðnum og starfsemi hans svo hann megi samrýmast stefnu ÖBÍ, lögum, stjórnarskrá og sáttmála SÞ um réttindi fatlaðra.

Opnað var fyrir umræður og fyrirspurnir.

Rætt var um að íbúðirnar við Hátún 10 væru barn síns tíma og slíkar byggingar myndu ekki rísa aftur. Fólk fær að ráða sjálft hvar það býr og reynt er að fylgja þeim óskum. Íbúum í Hátúni 10 líður almennt vel þar enda hafa þeir val um hvort þeir búi þar eða annars staðar. Það má segja að Brynja hússjóður sé að leysa mál sem sveitarfélögunum ber að gera en sinna ekki. Algengt er að vísa því fólki sem verst er sett til Brynju og við það myndast að sjálfsögðu vandamál.

Nefnt var að starfsemi hússjóðs væri það mikilvæg að hún ætti að koma reglulega upp á borð aðalstjórnar og því væri ánægjulegt að svo væri nú. Starfsemi Brynju hússjóðs sé í samræmi við lög, reglur og helstu sáttmála um málefni fatlaðra. Í tillögunni virðist vera gert ráð fyrir að svo sé ekki. Miklar væntingar eru gerðar til sjóðsins og traust um að hann sé í fararbroddi til að skapa öryrkjum búsetu. Á næstu árum verða ríki og sveitarfélög fjárvana og þörf fyrir hússjóðinn mun líklega aukast. Sjóðurinn hefur verið tæki til jafnréttis í búsetu án aðgreiningar. Þetta hefur verið haft að leiðarljósi við kaup á nýjum íbúðum síðustu ár. Mönnum hættir til að setja samasem merki á milli hússjóðs og Hátúns. Í Hátúni eru í dag 299 íbúðir af u.þ.b. 700, sem er tæplega þriðjungur af eign sjóðsins. Íbúðirnar eru dreifðar um landið og húsnæði hefur verið keypt í samvinnu við leigjendur. Væntingar eru til hússjóðs um að veita alls kyns þjónustu en það er á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga að veita þjónustu. Hússjóður á bara að eiga, reka og leigja íbúðir fyrir öryrkja. Í greinargerð Atla Gíslasonar kemur fram að hússjóður eigi að vera alltumlykjandi félagsþjónustu- og velferðarsvið en það er allt annað en hlutverk sjóðsins í dag. Álitsgerðin er gerð í ársbyrjun 2007 og gagnrýnin sem þar kemur fram er aðallega á þá sem eiga að veita þjónustuna. Könnun var gerð meðal íbúa í mars 2006 en var sú könnun ekki nýtt við gerð álitsgerðarinnar. Fannborgin sem er fjölbýlishús með 42 íbúðir var selt og íbúar þar fengu að velja sér stað, svæði og íbúð og voru aðstoðaðir við að flytja. Þetta verkefni hefur tekist mjög vel og er á lokastigi. Íbúðum í Hátúni hefur verið fækkað um 26 með því að sameina íbúðir. Margt liggur fyrir að gera þurfi á Hátúnssvæðinu, fjöldi lögaðila eiga byggingar en ekki lóðir á svæðinu, vinna þarf í þeim málum. Fullt af verkefnum liggur fyrir en ekkert græðist á áfellisdómi eins og fram kemur í tillögunni, verðum að hugsa lausnarmiðað. Vantar rökstuðning fyrir mannréttindabrotum sem nefnd eru. Tími er kominn til að skerpa á stefnu bandalagsins í húsnæðismálum og er hússjóður þar undir.
Fram kom að MND félagið hefur frá byrjun verið á móti því að ÖBÍ eigi og reki fasteignir því ÖBÍ sé hagsmunafélag fyrir öryrkja. Í raun sé ÖBÍ beggja megin við borðið og slíkt er ekki gott.

Spurt var af hverju fundarmenn væru hræddir við að horfa í eigin barm? Ef tillagan verður samþykkt og nefndin sem stofnuð yrði finnur eitthvað athugavert varðandi lögin eða sáttmálann þá er kjörið tækifæri til að laga þau mál. Eigum að vera óhrædd við að skoða okkar starfsemi í stað þess að gagnrýna bara aðra. Ætti að vera hægt að breyta rekstrarfyrirkomulaginu ef þörf er á. Einnig var spurt hvort stjórn hússjóðs þoli ekki að tekið sé á þessu máli?

Garðar Sverrisson formaður stjórnar Brynju hússjóðs svaraði því til að í tillögunni sé talað um að mannréttindi og lög lands okkar séu brotin. Umræða er fín en hún þarf að vera undir öðrum formerkjum en að starfsmenn hússjóðs séu lögbrjótar. Engin rök hafi fylgt þeirri fullyrðingu. Síðustu ár hefur verið teiknuð hryllingsmynd af Hátúni sem særir mjög það fólk sem þar býr. Skyldum hins opinbera og skyldum félagasamtaka er augljóslega ruglað saman í tillögunni. Ræða þarf málið á öðrum nótum. Margt af því sem fram kom í álitsgerðinni sem birt var í fyrra var byggt á misskilningi og fordómum. „Ekkert um okkur án okkar“ á ekki bara við um ÖBÍ heldur einnig um íbúana sem leigja af hússjóðnum. Stjórn hússjóðs hefur lagt sig fram við að spyrja fólkið sjálft um líðan þeirra og annað í tengslum við húsnæði, þá kemur allt önnur mynd fram. Fyrir um tveimur vikum var kynnt fyrir Brynju hússjóði rannsókn sem gerð var á högum geðfatlaðra í Hátúni og þegar bornar voru saman innlagnir á árinu á undan og eftir þá snarlækkuðu tölurnar. Það er lögmætt og eðlilegt sjónarmið að við eigum ekki að reka og eiga íbúðir og þá á að ræða það á þeim forsendum en ekki að við séum að brjóta lög og mannréttindi. Ræða þarf breytt rekstrarform og fleira. Ábyrgð okkar er mikil og við verðum að nálgast þetta á þann hátt. Ef nefndin finnur eitthvað athugavert er kjörið tækifæri til að breyta því. Lausnin felst ekki endilega í því að færa þetta yfir til félagsþjónustu eða brjóta niður blokkirnar.

Nefnt var að tillagan væri einföld um að skipa ætti nefnd til að gera tillögu um breytingar. Nú er kreppa og möguleikar í samfélaginu og því góðir tímar til að skoða stefnu hússjóðs til framtíðar.
Spurt var fyrir hvað orðalagið „og þar til gerðra yfirvalda“ stæði, hvort það væri dómsmálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti eða aðrir?

Umræða var um að ekkert væri í raun að tillögunni en hefði mátt orða hana öðruvísi svo að meiri möguleikar væru á að sátt næðist um málið og að nefnd verði stofnuð. Fólk má ekki vera viðkvæmt að ræða málefni ÖBÍ almennt. Brynja þarf að vera til sem leigusali fyrir öryrkja. Þetta snýst meira um að ÖBÍ sem eigandi Brynju getur lent í því að vera beggja megin við borðið ef leigjandi telur aðbúnað í okkar eign ekki nógu góðan.

Formaður þakkaði fyrir umræðuna og sagði að brýnt væri að fólk færi ekki út af fundi í tveimur fylkingum og lagði því til að fundinum yrði frestað um eina viku og boðaði fund miðvikudaginn 3. júní, kl. 16:30. Nokkrar athugasemdir komu fram við dagsetningu fundarins og stakk formaður upp á miðvikudeginum 10. júní, kl. 16:30. Samþykkt með þrettán atkvæðum gegn einu.

Minnt var á að 27. maí væri alþjóðlegi MS dagurinn og klöppuðu fundarmenn fyrir því.

Fundi frestað kl. 20:00. Framhaldsfundur ákveðinn þann 10. júní.

Fundarritarar: Anna G. Sigurðardóttir og Þórný B. Jakobsdóttir